Um tíma var HBO Max talin heitasta streymisveitan á markaðnum. Allt fyrra efni HBO ásamt nýjum þáttaröðum og kvikmyndum hittu beint í mark hjá neytendum og skutu samkeppninni ref fyrir rass. Nærri því áttatíu milljón manns borga áskrift að veitunni um þessar mundir.
Eftir einungis tvö ár í loftinu og gott gengi verður þó talsverð breyting á umgjörð og efnisframboði HBO Max og í raun öllu sem er undir sama móðurfélagi, hinu nýstofnaða Warner Bros. Discovery.
Í fyrsta lagi á að sameina HBO Max við streymisveitu Discovery einhvern tímann á næsta ári. Þetta mun tefja komu Max til Íslands, en í fyrra var greint frá því að veitan yrði komin hingað fyrir árslok 2022. Það mun ekki gerast fyrr en í fyrsta lagi 2024.
Ekki nóg með það heldur á að taka verulega til í efnisframboði fyrirtækisins til framtíðar. Til að gefa einhverja mynd af aðstæðum innan veggja Warner Bros. Discovery þá var heilli tilbúinni kvikmynd slaufað, vegna þess að hún kom illa út úr prufusýningu.
Starfsmenn HBO hafa lýst óttaástandi á skrifstofunni og líkur eru á að meirihluti muni missa starf sitt.
Framkvæmdastjóri Warner Bros. Discovery virðist ganga hart fram með áætlanir sínar að gera fyrirtækið jafn arðsamt og sjónvarpsmarkaðurinn var í gamla daga. Einnig verður talsverð breyting á kvikmyndaframleiðslu fyrirtækisins. Myndir þeirra hafa hingað til farið á HBO Max eftir 45 daga bíósýningar. Það verður ekki lengur svoleiðis.
Gamalt efni í bland við nýtt
HBO Max hóf starfsemi þann 27. maí árið 2020 og fékk strax góðar móttökur. Allt útgefið efni HBO er á streymisveitunni, nýir þættir voru settir á streymið samhliða því að vera sýndir í línulegri dagskrá. Þar mátti finna flest allt efni í eigu WarnerMedia, kvikmyndir frá Warner Bros og New Line Cinema ásamt efni frá sjónvarpsstöðvunum CW og TNT svo fáein dæmi séu nefnd.
Veitan er einnig með allt efni frá teiknimyndasögurisanum DC, kvikmyndir á borð við Justice League, Wonder Woman og þætti eins og Peacemaker.
Þrátt fyrir samkeppni við tvær aðrar nýjar streymisveitur - Apple TV+ og Disney+ - náði HBO Max góðum áskrifendafjölda. Í apríl voru um 76,8 milljón manns með áskrift.
Ekki lengur sérstaða á íslenskum markaði
Síðustu ár hefur efni frá HBO einungis verið aðgengilegt á Íslandi í gegnum áskrift að Stöð 2. Árið 2014 gerði 365, þáverandi eigandi Stöð 2, fimm ára samning við HBO um birtingarréttindi á efni þeirra á íslenskum markaði. Stöð 2 var þá auglýst sem „Heimili HBO.“
Þá var nýkomin í loftið af stað eins konar streymisveita fyrir áskrifendur Stöðvar 2, sem kallaðist Stöð 2 Maraþon. Ásamt því að nýir þættir, eins og Game of Thrones, voru sýndir í línulegri dagskrá, var eldra efni HBO aðgengilegt í gegnum myndlykla þeirra.
Í fréttatilkynningu um samninginn sagði:
„[...] áskrifendur geta horft á heilar sjónvarpsþáttaseríur eftir hentugleika, sem og réttindi fyrir streymi um snjalltæki og vef. Samningurinn skapar því sérstöðu fyrir Maraþonið þar sem efni HBO er ekki aðgengilegt á Netflix.“
Þessi sérstaða Stöðvar 2 átti þó ekki eftir að endast. Flest öll stóru framleiðslutækin eru annað hvort með streymisveitu í loftinu eða í startholunum. Það er því ekki lengur verið að selja efni til annarra landa, heldur frekar er landið sett á markað streymisveitunnar. HBO hafði einmitt verið með það yfirlýst að þau vildu ekki selja efni til landsins af þessum ástæðum.
Í fyrrahaust var einmitt greint frá því að Ísand væri í hópi landa sem ættu að bætast næst við HBO Max markaðinn. Fyrirhuguð dagsetning á því var sögð vera haustið 2022.
Stöð 2 þurfti því að efla framleiðslu á innlendu efni og sækja erlent efni til fyrirtækja sem væru ekki á leið til landsins með streymisveitu. Það sagði allavega Þóra Björg Clausen, dagskrárstjóri, í samtali við fréttastofu RÚV í október.
„Það er nóg framboð af efni frá öðrum framleiðendum og við sjáum það líka í öllum áhorfsmælingum að íslenskt efni fær mesta áhorfið,“ sagði Þóra. Hún minntist á að af nægu væri að taka af erlendu efni, Universal væri ekki á leið að flytja sína veitu til landsins á næstu misserum og Sony væri ekki með streymisveitu yfir höfuð.
Eins og glöggir taka ef til vill eftir er streymisveitan ekki enn komin til landsins. Í gær greindi Fréttablaðið frá því að komu veitunnar seinkar um meira en tvö ár.
Tekið úr sambandi eftir minna en mánuð
Framkvæmdastjóri Warner Bros. Discovery, David Zaslav, hefur tekið nokkrar stórar ákvarðanir á stuttum ferli sínum hjá fyrirtækinu. Hann leiddi sameiningu WarnerMedia og Discovery í apríl eftir langan feril hjá hinu síðarnefnda, þar var hann einnig framkvæmdastjóri og forseti.
Það leið ekki mánuður frá því að Zaslav settist í stólinn að hann var strax búinn að taka 300 milljóna dollara verkefni úr sambandi; streymisveituna CNN+.
Í lok mars var veitunni slaufað og starfsfólki ýmist sagt upp eða flutt í önnur verkefni sem áttu frekar að þjóna framtíðarsýn samsteypunnar.
Áhorf á CNN+ var langt undir væntingum, um 10.000 manns horfðu daglega á veituna á fyrstu tveim vikunum að sögn CNBC. Það var önnur yfirlýst ástæða fyrir skurðinum. Seinna meir var haft eftir Zaslav að CNN+ þjónaði ekki tilgangi í framtíðarsýn Warner Bros. Discovery, hann vildi frekar reka eina stóra streymisveitu með öllu, eða allavega meirihluta, af efninu sem fyrirtækið hefur undir höndum sér.
Hent undir rútuna
Zaslav leiddi á dögunum tekjufund WMD, fyrir fjárfesta og fjölmiðla, þar sem hann flutti erindi um tekjur fyrirtækisins, framtíðarsýn og áætlanir.
Til að ná téðri framtíðarsýn virðist Zaslav ætla að henda all nokkrum breytum undir rútuna. Ekki nóg með að sameina HBO Max og Discovery+ veiturnar, heldur hafa að minnsta kosti tvær nærri því tilbúnar kvikmyndir verið settar upp í hillu til frambúðar, að öllum líkindum til að fá skattaafslátt. Í stuttu máli er flest að fara að breytast.
Í lok árs 2021 varð breyting á svokölluðu „Project Popcorn,“ þar sem allar myndir Warner Bros var streymt á HBO Max samhliða því að vera sýndar í bíó. Breytingin fól í sér að myndin var sýnd í bíó í allavega 45 daga áður en hún fékk varanlegt stæði á HBO Max.
Ekki lengur.
Kvikmyndin Elvis sló í gegn í sumar, græddi 447 milljónir dollara um heim allan og vakti lukku gagnrýnenda. Hún átti að lenda á HBO Max í byrjun ágúst en er ekki enn komin þangað.
Ástæðan? Warner Bros. Discovery ætlar héðan í frá að velja myndir sérstaklega til að birtast á streymisveitu sinni. Elvis varð ekki fyrir valinu.
„Þessi hugmynd að dýrar kvikmyndir fari beint á streymisveitur, við finnum ekki gróðavænar útskýringar á því,“ sagði Zaslav á tekjufundinum. Elvis er hægt að leigja og kaupa stafrænt á viðeigandi miðlum en vongóðir áhorfendur eru beðnir um að halda ekki niðri andanum eftir að hún kemur á streymisveitur.
Zaslav segir fyrirtækið ætla fjárfesta meiri fjármunum og tíma í bíóupplifunina. Til þess þarf að spara og finna glufur í bókhaldinu. Aðferðir hans til að finna téðar glufur eru í besta falli umdeildar.
Kvikmyndir breytast í skattaafslátt
Framleiðslu á kvikmyndinni Batgirl um samnefnda ofurhetju var nokkuð langt komin í sumar. Kvikmyndatöku var lokið og eftir-framleiðslustigið hafið. Leikstjórarnir, Adil El Arbi og Bilal Fallah, voru valdir eftir að fyrri kvikmynd þeirra, Bad Boys For Life, sló í gegn hjá bæði áhorfendum og gagnrýnendum.
Þeir voru báðir staddir í Marokkó þar sem Adil var í þann mund að fagna brúðkaupi sínu þegar þeim var tjáð að myndin, sem hafði kostað um 80 milljón dollara, væri komin upp í hillu og myndi aldrei birtast augum áhorfenda.
Batgirl átti að fara beint í sýningu á HBO Max.
Framleiðslan hafði þegar vakið athygli innan nördamenningarinnar þar sem Michael Keaton var fenginn til að leika Leðurblökumanninn á ný, í fyrsta sinn síðan árið 1992. Einnig var myndin hluti af upprisu Brendan Fraser, sem var frægastur við upphaf tuttugustu aldarinnar, en hann átti að leika vonda kallinn, Eldfluguna. Sjálf Leðurblökustelpan átti að vera leikin af Leslie Grace, sem sló í gegn í söngleiknum In the Heights.
Ekkert verður af myndinni. Ýmsar ástæður voru gefnar; þá helst að prufusýning á myndinni gekk ekki vel og athugasemdir einhverra áhorfenda voru neikvæðar.
Líklegast er þó skattaafslátturinn sem Warner Bros. Discovery fær af slaufun myndarinnar hafi spilað stærsta rullu í ákvörðun þeirra. Eins og áður kom fram er það yfirlýst stefna David Zaslav að hafa nægt fjármagn til að ná almennilega inn á bíómarkaðinn.
Batgirl er ekki eina myndin sem var fórnað. Teiknimyndinni Scoob! var einnig slaufað þrátt fyrir að vera svo gott sem tilbúin og nokkrar þáttaraðir eru komnar í hættuflokk þrátt fyrir að hafa fyrir nokkru síðan fengið staðfestingu á annarri seríu.
Tíu ára plan eins og Marvel
David Zaslav hefur ekki farið leyndum orðum um áform sín. Hann vill græða að nýju á bíósýningum og ná sömu hæðum og sjónvarpsframleiðsla tuttugustu aldarinnar náði eitt sinn. Eitt af því er að nýta gífurlegt safn DC á ofurhetjum, líkt og Marvel Studios hefur gert feikna vel síðustu tólf ár.
Samkvæmt einhverjum forsvarsmönnum gekk prufusýning á Batgirl illa. Zaslav hefur sagt að hann vill vernda orðspor kvikmynda á vegum WMD, það þýðir að léleg kvikmynd sem kostaði tugmilljónir dollara gæti sett varanlegt sár á orðspor framleiðandans. Það kemur því ef til vill á óvart að til stendur enn að gefa út The Flash, þrátt fyrir að stjarna myndarinnar, Ezra Miller, hafi verið handtekinn fyrir óspektir og líkamsárás, ásamt því að vera sakaður um að leiða einhvers konar sértrúarsöfnuð.
Zaslav vill nefnilega reyna að líkja eftir sameiginlegum kvikmyndaheim líkt og þeim sem Marvel Studios hefur fullkomnað síðustu fjórtán ár. Myndir þeirra hafa náð inn milljörðum dollara ásamt því að skapa um sig stóran og hliðhollan hóp aðdáenda.
Einnig ríkir nokkur óvissa um fyrirhugaðan þríleik Matt Reeves um Leðurblökumanninn.
Fyrsta myndin, The Batman, kom í bíó fyrr á árinu og sló rækilega í gegn, bæði hjá gagnrýnendum og áhorfendum. Myndin er ekkert tengd sameiginlegum kvikmyndaheim DC en tókst þó að græða um 770 milljónir dollara á heimsvísu.
Verður þessum þríleik fórnað í þágu annarra mynda sem David Zaslav hefur meiri hug á að setja í bíó? Hvað með þær myndir sem var eitt sinn lofað að myndu lifa svo að segja að eilífu á streymisveitunni en var svo hent út sökum sparnaðaraðgerða?
Það ekki ljóst hvað gerist næst. HBO Max mun sameinast Discovery, en hvað þýðir það? Verður stærri og þar með dýrari streymisveita í boði með minna efni en það sem áður var?
Það er þó ljóst að streymisveitumarkaðurinn mun taka einhverjum breytingum á næstu árum, ef þetta eru áherslur Warner Bros. Discovery.