Nú eru tvær vikur liðnar frá hryðjuverkunum í Kaupmannahöfn og tilfinninga-og óttaöldurnar sem þeim fylgdu farnar að lægja. Og eins og alltaf hér í Danmörku þarf að meta alla hluti: stóð lögreglan sig í stykkinu, var öryggisgæslan í lagi, sagði forsætisráðherrann réttu orðin á réttum stað og stundu og hvað með sjálfan þjóðhöfðingjann, Margréti Þórhildi?
Þessum spurningum og ótal öðrum velta Danir fyrir sér þessa dagana og sýnist sitt hverjum. Flestir eru sammála um að lögreglan hafi staðið sig mjög vel, þegar til kastanna kom, það er að segja eftir að tilræðin áttu sér stað, og gert allt rétt.
Hinsvegar hafa vaknað margar spurningar um þátt rannsóknarlögreglunnar. Hvernig gat það gerst að þar á bæ vissu menn um þennan unga ógæfumann, Omar El-Hussein, sem bent hafði verið á að væri eins og tifandi tímasprengja, án þess að hafast að. Sérstök rannsókn, reyndar fleiri en ein, á samstarfi rannsóknarlögreglunnar, fangelsisyfirvalda og dómsmálaráðuneytisins er hafin og Mette Fredriksen dómsmálaráðherra hefur sagt að allt verði gert, sem mögulegt sé, til að bæta úr ágöllum sem rannsóknirnar kunni að leiða í ljós. Hvenær niðurstöður liggja fyrir hefur ekki verið tilkynnt en dómsmálaráðherrann hefur lagt áherslu á að vinnunni verði hraðað svo sem kostur er.
Forsætisráðherrann stóð sig vel
Allir virðast á einu máli um að Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra hafi staðið sig mjög vel í þessu lang erfiðasta máli (að mati hennar sjálfrar) sem til hennar kasta hefur komið síðan hún tók við embættinu eftir kosningarnar í september 2011. Í viðtali við danskt dagblað sagðist hún ekki geta líkt atburðunum á Austurbrú og við bænahús gyðinga við neitt sem hún hefði upplifað. „Þegar slíkir atburðir gerast ber þjóðinni að standa saman og það tókst okkur,” sagði ráðherrann í áðurnefndu viðtali.
En til hvers ætlast þjóðin af forsætisráðherranum á erfiðum tímum ?
Þessa spurningu lögðu tvö dönsk dagblöð fyrir fólk á förnum vegi. Svörin voru öll á þá leið að forsætisráðherra landsins þyrfti að sýna styrk og vera þjóð sinni góð fyrirmynd á erfiðum tímum.
Tókst Helle Thorning þetta? var þá spurt.
Svarið við þessari spurningu var nær einróma: Hún gerði allt rétt. Var mjög fljót að bregðast við, hún hefði komið á staðina þar sem ódæðin voru framin, hitt ættingja hinna látnu, ávarpað þjóðina af miklum myndugleik, rætt við erlenda fréttamenn, tekið þátt í fjölmennri minningarathöfn á Austurbrú og verið viðstödd útför þeirra sem létust í tilræðunum. Allt þetta hefði hún leyst af hendi eins og best varð á kosið, sameinað þjóðina í sorg og trega.
Danir virðast almennt ánægðir með hvernig forsætisráðherra landsins brást við voðaverkunum í Kaupmannahöfn á dögunum.
En hvað með drottninguna?
Meirihluti Dana hefur í áratugi verið stoltur af Margréti Þórhildi sem ríkt hefur í Danaveldi í 43 ár. Af og til hafa heyrst raddir sem segja að það sé úrelt og ólýðræðislegt fyrirkomulag að vera með þetta kóngafólk. Þær raddir hafa þó ætíð verið í miklum minnihluta. Drottningin hefur notið vinsælda meðal þegna sinna og þykir hafa staðið sig vel í sínu starfi. Danir voru hinsvegar lengi að taka bónda hennar, franskmanninn Henrik, í sátt. Fundu honum meðal annars til foráttu að hann talaði ekki almennilega dönsku.
Martröð Margrétar
Þetta var forsíðufyrirsögn á einu dönsku dagblaðanna, rituð stórum stöfum, með heimsstyrjaldarletri, eins og það er stundum kallað.
Blaðið segir að drottningin vilji örugglega gleyma sem fyrst dögunum eftir hryðjuverkin.
Í langri umfjöllun blaðsins um Margréti Þórhildi og hennar fólk er drottningin harðlega gagnrýnd fyrir viðbrögð hennar, eða réttara sagt skort á þeim í kjölfar hryðjuverkanna hér í Kaupmannahöfn. Fram kemur í blaðinu að burtséð frá stuttri tilkynningu frá drottningunni sem hún sendi frá sér seint á sunnudeginum eftir að tilræðin voru framin hafi danska þjóðin hvorki heyrt hósta né stunu frá þjóðhöfðingjanum. Hinsvegar hafi hún og Hinrik tekið á móti hollenskum fréttamönnum á Amalíuborg nokkrum dögum eftir tilræðin.
Talsmaður hirðarinnar sagði að þessi fréttamannafundur hafi löngu verið ákveðinn og tengdist heimsókn hollensku kóngafjölskyldunnar til Danmerkur sem fyrirhuguð er á næstunni. Ekki var þó minnst einu orði á heimsóknina á þessum fundi, eingöngu rætt um tilræðin nokkrum dögum fyrr. Það að þjóðhöfðinginn skyldi ekki ávarpa þjóð sína en þess í stað tala við erlenda fréttamenn fór vægast sagt ekki vel í Dani. Einn fréttaskýrandi sagði að drottningin gæti komist í sjónvarp og útvarp með nánast engum fyrirvara og það væri með öllu óskiljanlegt að hún skyldi ekki hafa talað beint við þjóðina, sjaldan hefði þörfin á því verið brýnni „en þessu klúðraði drottningin,“ sagði fréttaskýrandinn. Enn verra hefði þó verið að hún skyldi ekki vera viðstödd minningarstundina á Austurbrú en senda krónprinsinn í staðinn. „Þarna urðu Margréti á alvarleg mistök,“ sagði áðurnefndur fréttaskýrandi og bætti við að aldrei á valdatíma hennar hefði verið brýnni þörf á að hún gengi í takt við þjóðina.
Hinrik og kóngakomplexinn
Fyrir rúmum áratug lýsti Henrik drottningarmaður margoft, í viðtölum, óánægju sinni með það að hann skyldi ekki bera konungstign. Hann stæði ekki jafnfætis konu sinni, alltaf tveimur skrefum á eftir, eins og hann orðaði það. Margir gerðu grín að þessu tali, fjölmiðlar kölluðu þetta síðbúna miðaldra krísu (Henrik var þá rétt að verða sjötugur) og sögðu að þetta hlyti að ganga yfir. Það reyndist rétt til getið, Henrik steinhætti að tala um konungstignina. Þangað til nú.
Á áðurnefndum fréttamannafundi með hollensku fréttamönnunum fór drottningarmaðurinn allt í einu að tala um þetta: af hverju hann væri ekki kóngur. Þetta fannst Dönum ekki einu sinni fyndið heldur beinlínis hallærislegt og alls óviðeigandi. Ekki síst í ljósi hörmungaratburðanna fáum dögum fyrr. Drottningin sat eins og steingervingur á meðan bóndi hennar talaði. Danskir fjölmiðlamenn töldu sig greina að hún hefði ekki verið sátt við eiginmanninn og líklega látið hann heyra það yfir kvöldskattinum þar sem engir heyrðu til.
Hefur þetta áhrif á vinsældir konungsfjölskyldunnar?
Ekki telja danskir fréttaskýrendur það. Segja sem svo að þótt drottningin hafi ekki gert hlutina rétt að þessu sinni standi hún og fjölskyldan traustum fótum og skipi svo ríkan sess í hugum landsmanna að margt og mikið þurfi til að breyta því. En þessir dagar, sem drottningin og fjölskylda hennar vilja líklega gleyma sem fyrst hafi örugglega orðið íbúum Amalíuborgar lexía sem þeir gleymi ekki á næstunni.