Framundan eru átakatímar í dönskum stjórnmálum. Tónninn skerpist eftir því sem nær dregur þingkosningum sem fara fram fyrir miðjan september næstkomandi en kjördagur hefur ekki verið ákveðinn. Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra hefur meðbyr þessa dagana og nýjustu skoðanakannanir sýna lítinn mun á fylgi stjórnarflokkanna og stuðningsflokka þeirra, og stjórnarandstöðunnar.
Í þingkosningunum 15. september 2011 féll stjórn Lars Løkke Rasmussens, mjög naumlega, og þar með lauk tíu ára valdatíma hægri flokkanna (bláu blokkarinnar) undir forystu Venstre flokksins (sem skilgreinir sig sem íhaldssaman miðjuflokk). Lars Løkke tók 5. apríl 2009 við forsætisráðherraembættinu sem Anders Fogh Rasmussen hafði gegnt frá 27. nóvember 2001. Mjög mjótt var á munum í kosningunum 2011 og eins og oft áður í Danmörku var hin nýja stjórn, undir forystu Helle Thorning -Schmidt, minnihlutastjórn sem varð að reiða sig á stuðning flokka utan stjórnarinnar. Stjórnarflokkarnir, Sósíaldemókratar, Sósíalíski þjóðarflokkurinn og Radikale venstre (skilgreina sig sem miðjuflokk) höfðu samtals 76 þingmenn en með stuðningi annarra flokka af vinstri vængnum og miðjunni (rauðu blokkinni) var meirihlutinn á þinginu 5 þingmenn, 92 á móti 87.
Sífelldar breytingar á ríkisstjórninni
Ekki verður með sanni sagt að friður hafi ríkt á stjórnarheimilinu á kjörtímabilinu. Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra hefur sex sinnum frá því að ríkisstjórn hennar tók við völdum staðið framan við inngang Kristjánsborgarhallar (samkvæmt hefð) og kynnt breytingar á stjórninni.
Stærsta breytingin var þegar Sósíalíski þjóðarflokkurinn dró sig út úr stjórninni, eftir miklar innanflokksdeilur, en þingmenn flokksins lýstu yfir að þeir myndu styðja stjórnina "til allra góðra verka" eins og þeir komust að orði. Margrethe Vestager, efnahags- og innanríkisráðherra,leiðtogi Radikale venstre, sagði af sér síðla árs 2014 og tók við framkvæmdastjórastöðu hjá Evrópusambandinu í Brussel. Margir töldu hana valdamesta ráðherrann í ríkisstjórninni, enda staðgengill forsætisráðherra, og brotthvarf hennar kom flestum á óvart.
Stjórnin mjög óvinsæl framan af kjörtímabilinu
Strax frá upphafi naut stjórnin takmarkaðs trausts almennings og í skoðanakönnunum hafa stjórnarandstöðuflokkarnir allar götur frá kosningum haft umtalsvert forskot. Kannanir sýndu líka að almenningur treysti Venstre, stærsta flokknum á þinginu, betur fyrir efnahagsmálunum en Sósíaldemókrötum. Þetta kom mörgum spánskt fyrir sjónir því Venstre flokkurinn, og einkum formaðurinnn, tjáðu sig lítt eða ekki um efnahagsmálin. Lars Løkke Rasmussen tók ekki til máls í þinginu mánuðum saman (692 daga samtals) og það var forsíðufrétt allra helstu fjölmiðla landsins þegar hann rauf loks þögnina.
Klúður á klúður ofan hjá Venstre
Þann 5. október 2013 greindi Ekstra Bladet frá því sem kallað var "farmiðamálið" og snérist um farmiðakaup (á fyrsta farrými o.fl)Lars Løkke vegna ferða á vegum samtakanna Global Green Growth Institute, þar sem hann gegndi formennsku. Sú saga verður ekki rakin hér en til að reyna að hreinsa sig af þeim áburði hélt Lars Løkke lengsta fréttamannafund í sögu Danmerkur, tæplega fjögurra klukkustunda langan.
Lars Løkke Rasmussen hefur ítrekað ratað í vandræði á undanförnum árum.
Skýringar hans þóttu ótrúverðugar og skyndilega varð formaður Venstre óvinsælasti flokksleiðtogi landsins og það hefur ekki breyst síðan. Ekki bætti úr skák þegar upplýst var að flokkurinn hafði pungað út stórfé vegna fatakaupa formannsins. Margir minntust þá þess að í fjármálaráðherratíð Lars Løkke vorið 2008 kom fram að hann hafði látið ríkið borga fyrir sig hótelgistingu, mat og fleira fyrir um 800 þúsund krónur (u.þ.b. 16 milljónir íslenskar). Minnstu munaði að Lars Løkke yrði að segja af sér.
Loks fór eitthvað að gerast
Þrátt fyrir allt þetta breyttist fylgi flokkanna lítið. Sú sérkennilega staða var uppi á fyrstu mánuðum ársins 2014 að Venstre naut langmests fylgis í könnunum þótt formaðurinn væri óvinsæll. Helle Thorning-Schmidt naut hins vegar mikilla vinsælda en flokkur hennar, Sósíaldemókratar, ekki að sama skapi. En nú fór ýmislegt að gerast. Haustið 2012 höfðu orðið formannsskipti hjá Danska þjóðarflokknum.
Pia Kjærsgaard sem verið hafði formaður flokksins frá stofnun 1995 (var áður í Framfaraflokknum, kenndum við Mogens Glistrup) hætti formennsku og við tók Kristian Thulesen Dahl. Þessi breyting varð til þess að fylgi Danska þjóðarflokksins tók kipp, fór úr rúmum 12% í kosningunum 2011 uppundir 20% og reyndar allt upp í 22.6% fyrir skömmu, hefur síðan dalað aðeins. Þessi mikla fylgisaukning, sem talin var tengjast persónulegum sjarma formannsins var á kostnað flestra annarra flokka, fylgi stjórnarflokkanna og stuðningsflokka stjórnarinnar minnkaði og það gerði líka fylgi Venstre.
Eftir að Kristian Thulesen Dahl tók við af Piu Kjærsgaard sem formaður Danska þjóðarflokksins hefur fylgi hans tekið kipp upp á við.
Loðmullutal
Orðatiltækið að tala "med uld i mund" er gamalt í dönsku. Hafði lítið verið notað í áratugi en var endurvakið á stjórnarárum Poul Nyrups Rasmussen og notað um hann sjálfan. Þýðir einfaldlega að tala óskýrt, slá úr og í, þannig að ekki er heiglum hent að skilja hvað sá sem talar eða skrifar á við. Upp á síðkastið hefur þetta "med uld i mund" iðulega verið notað um formenn stærstu stjórnmálaflokkanna sem segjast allt vilja gera, helst fyrir alla, en vefst tunga um tönn þegar nánar er spurt út í málefnin.
Venstre flokkurinn vill lækka atvinnuleysisbætur en neitar að, eða segist ekki geta, nefnt upphæðir í því sambandi fyrr en flokkurinn verði kominn í stjórn. Sósíaldemókratar slá úr og í með fjölmörg mál, breytingar á atvinnuleysisbótakerfinu án þess að segja beinlínis hverjar þær breytingar eiga að vera, skapa fleiri störf án þess að koma með beinar tillögur eða hugmyndir. Danski þjóðarflokkurinn hefur sett fram hugmyndir sem eiga að auka atvinnu, þær kosta peninga sem flokkurinn veit ekki hvaðan eiga að koma o.s.frv. Þetta er það sem hér er nefnt "med uld i mund". Loðmullutal.
Sammála um eitt: aðlögun
Málefni innflytjenda hafa lengi verið umdeild og mikið rædd hér í Danmörku. Kannanir sýna að þau eru landsmönnum ofarlega í huga og augljóslega eitt stærsta kosningamálið. Kannanir sýna líka að stóraukið fylgi Danska þjóðarflokksins má að verulegu leyti rekja til stefnu flokksins í innflytjendamálum. Flokkurinn vill mun strangari kröfur um það hverjir geti flutt til landsins, hægt verði að vísa þeim útlendingum úr landi sem gerast brotlegir við lögin, senda útlendinga sem hljóta dóm, til síns heimalands svo fátt eitt sé nefnt. Innflytjendur verði að aðlagast. Aðlögun er lykilorðið hjá öllum stjórnmálaflokkunum sem eru líka sammála um að atvinnuleysi meðal innflytjenda sé eitt erfiðasta og stærsta viðfangsefnið.
Málefni innflytjenda hafa lengi verið umdeild og mikið rædd hér í Danmörku. Kannanir sýna að þau eru landsmönnum ofarlega í huga og augljóslega eitt stærsta kosningamálið. Kannanir sýna líka að stóraukið fylgi Danska þjóðarflokksins má að verulegu leyti rekja til stefnu flokksins í innflytjendamálum
Venstre flokkurinn kynnti nýlega sínar hugmyndir varðandi innflytjendamálin. Þær ganga í aðalatriðum út á að þau sveitarfélög fái aukið fjármagn sem standa sig vel í að aðlaga innflytjendur, sjá til þess að þeir fái vinnu og ungt fólk stundi nám og fái menntun, verði þannig eðlilegur hluti samfélagsins. Sveitarfélög sem standa sig lakar að þessu leyti fái minna fjármagn og sé þannig óbeinlínis refsað. Sveitastjórnamenn hoppa ekki hæð sína yfir þessum hugmyndum, segja lítinn vanda fyrir þá sem sitja á kontórum á Kristjánsborg að leggja slíkar línur, veruleikinn sé annar og erfiðari. Sósíaldemókratar, flokkur forsætisráðherrans hefur nýlega byrjað mikla áróðursherferð. Þar kveður að nokkru leyti við nýjan tón gagnvart innflytjendum. Þeir eru boðnir velkomnir og sagt að vel verði tekið á móti þeim, en þeir þurfi, og skuli gera ráð fyrir að þurfa að vinna, eins og allir aðrir. Þessi tónn hefur ekki heyrst áður úr þeim herbúðum.
Miklar sveiflur í nýjustu könnunum
Nýjustu kannanir sýna að mjög mjótt er á munum milli fylkinganna tveggja eða rauðu og bláu blokkanna eins og Danir segja. Flokkur forsætisráðherrans hefur að undanförnu fengið aukinn byr í seglin og þær ástæður helst nefndar að hún þótti standa sig mjög vel og koma fram sem ábyrgur þjóðarleiðtogi eftir hryðjuverkin í Kaupmannahöfn í febrúar. Allt bendir til að efnahagslífið sé að rétta úr kútnum eftir djúpa og langa lægð, störfum í landinu hefur fjölgað um nær 40 þúsund á kjörtímabilinu.
Þetta styrkir stöðu Helle Thorning-Schmidt og traust landsmanna á henni hefur vaxið mjög að undanförnu. Ýmsir stjórnmálaskýrendur hafa bent á að nýr flokkur Uffe Elbæks fyrrverandi ráðherra, Alternativet geti tekið fylgi frá núverandi stjórnarflokkum og nái hann ekki lágmarkinu sem þarf til að ná inn á þing geti þau atkvæði sem þá detta dauð riðið baggamuninn.
Hvenær verður kosið ?
Það er spurningin sem enginn getur svarað en allir vilja gjarna vita svarið. Stjórnmálaskýrendur segja að Helle Thorning-Schmidt bíði efir rétta augnablikinu, það sé mjög mikilvægt þar sem svo mjótt er á munum, að hitta á rétta augnablikið. Það geti ráðið úrslitum um það hver verði næsti húsbóndi á Kristjánsborg.