Ekki er líklegt að stríðsátökin í Úkraínu hafi mikil bein áhrif á utanríkisviðskipti Íslands þótt þau geti orðið nokkru fyrir einstaka fyrirtæki og atvinnugreinar.
Meginuppistaða útflutnings íslenskra fyrirtækja til Rússlands hefur verið notuð skip, ýmsar iðnaðarvörur og tæki til matvælaframleiðslu en sjávarafurðir, einkum uppsjávar- og eldisfiskur, vega þyngst í útflutningi til Úkraínu og Hvíta-Rússlands.
Þá vógu komur rússneskra ferðamanna þyngst í þjónustuútflutningi til þessara þriggja landa en verulega dró úr komum þeirra í kjölfar farsóttarinnar. Annar þjónustuútflutningur jókst hins vegar á móti, einkum tækniþjónusta og önnur viðskiptaþjónusta.
Þetta kemur fram í nýjasta riti Peningamála sem Seðlabanki Íslands birti á miðvikudag.
Þar segir að ef öll viðskipti við löndin þrjú stöðvast gæti beint útflutningstap numið um 15 til 20 milljörðum króna á ári. Tapið gæti mögulega orðið meira þar sem um fimm milljarðar króna af sjávar- og eldisafurðum hafa verið fluttir árlega frá Íslandi til Úkraínu í gegnum Litháen undanfarin ár. „Auk þess höfðu innlendir söluaðilar gert ráð fyrir að hluti af auknum loðnukvóta í ár myndi fara á Úkraínumarkað. Á móti vegur þó að líklega tækist að koma afurðum á aðra markaði þótt það gæti tekið lengri tíma og mögulega fengist lægra verð fyrir þær“.
Hins vegar sé útlit fyrir að aðrar sjávarafurðir, einkum botnfiskafurðir, hækki í verði vegna aukinnar eftirspurnar eftir íslenskum sjávarafurðum í kjölfar fyrirhugaðrar hækkunar innflutningstolla og skerts aðgengis rússneskra sjávarafurða að alþjóðamörkuðum. „Þá hefur Rússum verið vikið tímabundið úr Alþjóðahafrannsóknarstofnuninni (ICES). Rússar gætu brugðist við með því að loka á aðgengi annarra þjóða að rússneskri lögsögu en Ísland hefur verið með tvíhliða samning við Rússa um veiðiheimildir í Barentshafi. Þær vega þó ekki þungt í heildarafla Íslendinga.“
Marel og Eimskip þurfa að svara fyrir viðskipti í Rússlandi
Ekki er útilokað að íslensk fyrirtæki verði fyrir annars konar beinum áhrifum vegna stríðsins en samdrætti í viðskiptum. Á meðal þeirra stóru íslensku fyrirtækja sem eiga hagsmuni undir í Rússlandi eru Marel og Eimskip, sem bæði eru skráð á hlutabréfamarkað og eru að stórum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Kjarninn greindi frá því snemma í mars að Eimskip hefði dregið úr umsvifum sínum í Rússlandi í ljósi stöðunnar en Marel hefur ákveðið að setja öll ný verkefni í Rússlandi á ís. Fyrirtækið heldur áfram að reka sölu- og þjónustuskrifstofu í landinu þar sem starfa um 70 manns. Í uppgjöri Marel fyrir fyrsta ársfjórðung 2022, sem birt var í síðustu viku, segir að fyrirtækið fordæmi harðlega hernaðaraðgerðir rússneskra stjórnvalda í Úkraínu og fyrri afstaða ítrekuð.
Í hlutabréfagreiningu Jakobsson Capital sem send var áskrifendum í síðustu viku var þessi staða til umræðu. Þar sagði að Marel og Eimskip þyrftu að svara fyrir viðskipti sín í Rússlandi jafnvel þótt lítil væru. „Lífeyrissjóðirnir eru meðal stærstu eigenda félaganna og hafa allir stefnu í samfélagslegri ábyrgð líkt og félögin sjálf. Eimskip hefur dregið úr umsvifum í Rússlandi á meðan Marel hefur aðeins frestað frekari fjárfestingu. Málið er augljóslega viðkvæmt og þögnin neyðarleg. Á meðan þessari spurningu er ósvarað er líklegt að gengi Marels verði frekar undir þrýstingi til lækkunar. Í það minnsta myndu margir telja að erfitt væri fyrir lífeyrissjóðina að auka vægi sitt í félagi sem hefur ekki einu sinni dregið úr umsvifum.“
Marel gerir athugasemd við framsetningu Jakobsson Capital og segir að fyrirtækið hafi ekki frestað frekari fjárfestingu. Þar séu engar fjárfestingar fyrirhugaðar. Um sé að ræða söluverkefni.
Áhrifin á framfærslukostnað minni hér á landi
Í Peningamálum er líka fjallað um óbein áhrif stríðsátakanna og sagt að þau séu mikil. Þar skipta mestu miklar verðhækkanir á orkugjöfum og annarri hrávöru. „Kostnaður fyrirtækja eykst, innflutningsverð hækkar og framfærslukostnaður heimila þar með einnig, sem hefur neikvæð áhrif á eftirspurn eftir vöru og þjónustu. Aukin óvissa um efnahagshorfur kann jafnframt að draga enn frekar úr útgjalda- og fjárfestingarvilja inn -lendra heimila og fyrirtækja.“
Á móti vegi hins vegar sterk eignastaða heimila og mikill uppsafnaður sparnaður sem þau geta gengið á til að mæta hækkun verðlags. „Áhrifin á framfærslukostnað heimila verða einnig minni hér á landi en á meginlandi Evrópu þar sem vatnsafl og jarðvarmi eru notuð hér á landi til húshitunar og rafmagnsframleiðslu fremur en olía og jarðgas. Verðhækkun mikilvægra útflutningsafurða eins og áls og sjávarafurða vegur einnig á móti neikvæðum áhrifum mikillar hækkunar olíu- og hrávöruverðs á viðskiptakjör“.
Átökin kunna að draga úr ferðavilja
Þá megi ætla að hægt verði að nálgast aðföng sem keypt hafa verið frá þessum löndum, eins og t.d. steypustyrktarjárn, timbur og krossvið, frá öðrum löndum þótt verðið gæti reynst hærra. „Í einhverjum tilvikum gæti þó reynst erfitt að finna sambærilega vöru annars staðar frá og truflanir því varað lengur og verðhækkanir orðið meiri.“
Seðlabankinn segir að erfitt sé að meta hver áhrif átakanna verði á innlenda ferðaþjónustu. Ólíklegt sé að beinu áhrifin verði mikil á árinu 2022 þar sem langstærstur hluti þeirra ferðamanna sem heimsækja landið komi frá Bandaríkjunum og Vestur Evrópu. Átökin kunni þó að draga úr ferðavilja einhverra þeirra. „Einnig kann aukin verðbólga, minnkandi kaupmáttur og hærra farmiðaverð sakir hækkandi olíuverðs að draga úr komum til landsins þrátt fyrir aukinn ferðavilja í kjölfar afléttingar ferðatakmarkana vegna farsóttarinnar. Ekki er heldur líklegt að truflun á flugumferð vegna lokunar lofthelgi Rússlands í kjölfar stríðsins hafi víðtæk áhrif hér á landi enda er ekki gert ráð fyrir miklum fjölda ferðamanna til landsins frá Asíu í ár.“