Úr einkasafni Pálína Axelsdóttir Njarðvík Mynd: Úr einkasafni
Úr einkasafni

„Ég er tilbúin að berjast með öllu sem til þarf“

„Ég er þriðja kynslóðin sem stendur í baráttu gegn virkjunum,“ segir Pálína Axelsdóttir Njarðvík sem varð flökurt, fann kvíða og varð andvaka eftir að fréttist að Landsvirkjun hefði sótt um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. En hún ætlar aldrei að hætta að berjast. Hún segist vita að ekki sé hlustað á tilfinningarök í umræðunni um virkjunarframkvæmdir en það komi ekki að sök. Af nógu öðru sé að taka.

Hún er sveita­stelpa. Þó að hún hafi verið með annan fót­inn í borg­inni síð­ustu árin vegna náms líður henni best í kringum dýrin og við sveita­störfin á bænum Eystra-Geld­inga­holti í Skeiða- og Gnúp­verja­hreppi. Þar er „heima“ í hennar huga og hefur verið allt frá því hún var barn þótt hún hafi fyrstu árin alist upp á prest­setr­inu Tröð í sömu sveit því faðir henn­ar, Axel Árna­son Njarð­vík, var sókn­ar­prest­ur. Tengslin við Geld­inga­holtið voru alltaf til stað­ar. Þar ólst móðir henn­ar, Sig­þrúður Jóns­dótt­ir, upp og frænd­fólk hennar tók við því búi.

Er hún var ung­lingur byggðu for­eldrar hennar hús á jörð­inni og búa þar enn. „Þegar ég var sextán ára flutti ég til Reykja­víkur til að fara í skóla og hef síðan þá lifað tvö­földu lífi í borg og sveit,“ segir hún og hlær.

Pálína lærði sál­fræði í háskóla og lauk masters­prófi í félags­sál­fræði vorið 2019. Í loka­verk­efn­inu rann­sak­aði hún hugs­ana­skekkj­ur, álykt­ana­villur og notkun fortalna í þjóð­fé­lags­um­ræðu. Við­fangið var fjöl­miðlaum­fjöll­unin um Norð­linga­öldu­veitu sem fyr­ir­huguð var í Þjórs­ár­verum – skammt frá hennar æsku­slóð­um.

Auglýsing

Hún hefur aflað sér vin­sælda á Instagram þar sem hún heldur úti síðu undir nafn­inu Farm­lifeIceland og segir frá sveita­líf­inu sem er henni svo kært. Fylgj­end­urnir nálg­ast 77 þús­und. Margir þeirra eru útlend­ingar sem þyrstir í að fræð­ast um Ísland, menn­ingu þjóð­ar­innar og nátt­úru lands­ins.

„Mér verður flök­urt við að lesa þessa frétt, kvíði og áhyggjur hell­ast yfir mig,“ skrif­aði Pálína óvænt á mið­il­inn sinn í vik­unni. Hún er vön að vera jákvæð. Full bjart­sýni og birta fal­legar myndir af kind­unum á bænum sem hún virð­ist ná ein­stökum tengslum við. Þær kúra hjá henni – sækja í hana.

Pálína ásamt kindunum Maríu og Cassöndru. Mynd: Úr einkasafni

En nú var tónn­inn ann­ar. Fréttin sem hún hafði lesið fjall­aði um orð Harðar Arn­ar­son­ar, for­stjóra Lands­virkj­un­ar, sem upp­lýsti í grein á Vísi að sótt hefði verið um virkj­ana­leyfi fyrir Hvamms­virkjun sem fyr­ir­tækið áformar að reisa í neðri hluta Þjórs­ár. Í sveit­inni hennar Pálínu. Skammt frá bænum henn­ar.

Þetta hreyfði veru­lega við henni. Og fyrir því eru margar ástæður sem tengj­ast atburðum sem spanna hálfa öld. Atburða­rás sem hófst löngu áður en hún kom í heim­inn árið 1991.

Mann­skemm­andi bar­átta

„Ég er þriðja kyn­slóðin sem stend í bar­áttu gegn virkj­un­um,“ segir Pálína, spurð um við­brögð sín við grein Harð­ar. „Og það er bók­staf­lega mann­skemm­andi að standa í henn­i.“

Afi Pálínu, Jón Ólafs­son bóndi í Eystra-Geld­inga­holti, var einn þeirra sem hóf bar­átt­una gegn Norð­inga­öldu­veitu í Þjórs­ár­verum um árið 1970. Þá voru þær virkj­ana­hug­myndir að koma fyrst fram á sjón­ar­svið­ið. „Mamma tók svo við af honum og bar lengi og ásamt öðrum kyndil­inn í Þjórs­ár­vera­bar­átt­unni. Hún fékk nátt­úru­vernd­ar­verð­laun Sig­ríðar í Bratt­holti fyrir þá ötulu bar­áttu sína. Og með aldr­inum hef ég farið að láta meira að mér kveða í bar­átt­unni og nú gegn Hvamms­virkj­un.

Þetta virkj­ana­stapp segir hún er sem sagt eitt af því sem erf­ist í Skeiða- og Gnúp­verja­hreppi því þetta tekur aldrei enda.

Ég hef oft sagt að ég voni svo inni­lega að börnin mín þurfi ekki líka að standa í þessu og þá á þeirri for­sendu að það verði ekki lengur þörf á bar­áttu vegna þess að við verðum búin að vinna hana – ekki tapa henn­i.“

Við bakka Þjórsár er gott land­bún­að­ar­svæði. Frá Eystra-Geld­inga­holti er fal­leg fjalla­sýn. Frá bænum sést aðeins til árinnar og „nið­ur­inn frá Þjórsá er partur af þessu umhverfi sem ég er alin upp í,“ segir Pálína. „Við höfum í gegnum kyn­slóð­irnar notað hljóðin frá ánni til að spá fyrir um veð­ur. Það er hluti af okkar menn­ing­ar­arf­leifð. Hljóðin frá Minna-Núps­flúðum spá fyrir um það sem framundan er í veðri, hvort von sé á þurrki eða vætu­tíð. Fólk á öðrum bæjum hér í kring gerir það sama. En hljóðin myndu þagna með virkj­un.“

Virkj­ana­hug­myndir sem breyta um nafn

Pálína var enn í grunn­skóla er hún heyrði fyrst af virkj­un­ar­á­formunum í neðri hluta Þjórs­ár. Þá voru þau kölluð Núps­virkjun og sam­an­stóðu af þremur virkj­ana­hug­mynd­um, hverri fyrir neðan aðra. „Virkj­ana­kostir eiga það til að skipta um nafn þó að hug­myndin sé nokkurn veg­inn sú sama,“ segir hún. „Til dæmis hét inn­takslónið fyrir Núps­virkjun Haga­lón, rétt eins og það er kallað í Hvamms­virkj­un­ar­á­formun­um. Þetta er sama lónið – og það er þetta lón og rennsl­is­skerð­ingin í árfar­veg­inum sem er stærsta mál­ið.“

Pálína (t.h.) ásamt unnustu sinni, Maríu Kristínu Árnadóttur, fyrir neðan fyrirhugað stíflusvæði Hvammsvirkjunar.
Úr einkasafni

Það eru margar ástæður fyrir því að Pálína er and­víg virkj­un­inni.

„Í fyrsta lagi þá vil ég ekki láta sökkva sveit­inni minni fyrir fram­leiðslu á raf­magni sem við í þokka­bót þurfum ekki,“ byrjar hún á að útskýra. „Svo ein­falt er þetta í mínum huga. En það hlustar eng­inn á slík rök. Þetta eru kölluð til­finn­ingarök – að ég vilji ekki eitt­hvað ein­fald­lega af því að mér finn­ist það ekki góð hug­mynd. Af því að mér þyki vænt um landið mitt. Að ég vilji geta farið um Þjórs­ár­dal­inn án þess að fara fram hjá lóni og sjá þær skemmdir á nátt­úru og lands­lagi sem það veld­ur.

En já, þetta eru kölluð til­finn­ingarök og á þau er ekki hlust­að. Jafn­vel þótt að við tökum allar stærstu ákvarð­anir lífs okkar út frá til­finn­ing­um. Hverjum við gift­umst – það er ákvörðun sem er byggð á til­finn­ingum – ekki hag­kvæmni. En í þessu sam­bandi, þegar fara á í óaft­ur­kræfar fram­kvæmd­ir, þá bíta þessi rök ekki.

En það er allt í lagi. Því það er meira en nóg af öðrum rökum gegn Hvamms­virkjun til stað­ar.“

Auglýsing

Virkj­unin myndi hafa í för með sér óaft­ur­kræfa eyði­legg­ingu á grónu landi á þeim stað sem lónið kæmi. „Gróið land er auð­lind. Jarð­vegseyð­ing er vanda­mál. Talið er að gróið land hafi minnkað um helm­ing frá land­námi. En svo á að fara að skemma gróið land og dýr­mætan gróð­ur, dýra­líf og búsvæði, á sama tíma og eitt af okkar helstu verk­efnum er að end­ur­heimta skemmd vist­kerfi.

Landið í far­veg­inum fyrir neðan stíflu mun stundum vera á kafi í vatni og stundum ekki, allt eftir því hvernig hleypt verður úr lón­inu. Því fylgir aug­ljós hætta á foki og frek­ari eyð­ingu úr jarð­veg­in­um.

Ég fór eitt sinn á fund með Lands­virkjun þar sem kom fram að þessu myndu þeir mæta með upp­græðslu. En það er alveg ljóst að ekki er hægt að græða upp land sem er ýmist á þurru eða á kafi í vatn­i.“

Pálína ásamt foreldrum sínum, Axel og Sigþrúði, upp á Arnarfelli hinu Mikla. Þjórsárver í baksýn.
Úr einkasafni

Fyrir neðan stíflu, þar sem aðeins brot (um 3 pró­sent) af með­al­rennsli árinnar myndi renna hluta árs, er hin sér­stæða og því frið­aða Við­ey. „Í dag verndar Þjórsá hana fyrir ágangi manna og dýra. Hún myndi standa á þurru og allar leiðir að henni fær­ar. Þá hefur það verið nefnt sem mót­væg­is­að­gerð að girða hana af sem er ekki lausn sem dugar auk þess sem girð­ing í þurrum far­vegi Þjórár lítur ekki vel út.

Svo er Þjórsá í dag varn­ar­girð­ing vegna sauð­fjár­sjúk­dóma. Kindur mega ekki fara á milli Árnes­sýslu og Rang­ár­valla­sýslu. Ég hef séð girð­ingar Lands­virkj­unar við Sult­ar­tanga­virkj­un. Það er þekkt að kindur fara í gegnum þær. Þannig að ég gef lítið fyrir þessar fyr­ir­hug­uðu mót­væg­is­að­gerð­ir, að ætla að girða Viðey af.

En eft­ir­læt­is­mót­væg­is­að­gerðin mín sem Lands­virkjun hefur nefnt er sú að vegna lands­ins sem fari undir lónið eigi í stað­inn að fara í end­ur­heimt vot­lendis í Skál­holti. Það er eins og að fara í frjó­sem­is­á­tak í Úganda því það vanti börn í Dan­mörku.

End­ur­heimt vot­lendis í Skál­holti er ágætis hug­mynd en Skál­holt getur séð um það verk­efni sjálft.“

Í kynningarefni Landsvirkjunar á Hvammsvirkjun er að finna myndir sem sýna eiga breytingar á ásýnd Þjórsá sem myndu verða.
Landsvirkjun

Pálína bendir enn­fremur á að umhverf­is­matið fyrir Hvamms­virkjun sé að mestu leyti frá árinu 2004. „Það er því orðið eld­gam­alt. Það væri að detta í bíl­próf í ár, væri það mann­eskja. Allar for­sendur hafa breyst og sömu­leiðis hugs­un­ar­háttur fólks.

Þegar ákveðnir þættir í mat­inu voru metnir árið 2015 var það nið­ur­staða Skipu­lags­stofn­unar að Hvamms­virkjun myndi hafa veru­lega nei­kvæð áhrif á ásýnd lands og að hún væri lík­leg til að hafa nei­kvæð áhrif á ferða­mennsku.

Svo hafa sam­fé­lags­leg áhrif virkj­ana í neðri hluta Þjórsár aldrei verið met­in.“

Á þetta leggur Pálína mikla áherslu. „Í stórum ákvörð­unum er varða óaft­ur­kræfar fram­kvæmdir verðum við að horfa á heild­ar­mynd­ina. Það er ekki hægt að sleppa stórum þætti sem skiptir miklu máli. Og á sama tíma státa sig af því að vera að stuðla að sjálf­bærri þró­un.“

Hin sam­fé­lags­lega ábyrgð

Hún bendir á að á heima­síðu Lands­virkj­unar standi að grund­vall­ar­mark­mið sam­fé­lags­legrar ábyrgðar fyr­ir­tæk­is­ins sé að stuðla að sjálf­bærri þróun í íslensku sam­fé­lagi. „En ein grunn­stoð sjálf­bærar þró­un­ar, sam­kvæmt skil­grein­ingu á því hug­taki, er sam­fé­lags­leg. En samt hafa sam­fé­lags­leg áhrif þess­arar virkj­unar aldrei verið skoð­uð!

Fyr­ir­tæki sem státar sig af því að vera sam­fé­lags­lega ábyrgt og stuðla að sjálf­bærri þró­un, er búið að splundra litlu sam­fé­lagi í næstum því tutt­ugu ár. Á því tíma­bili með Hvamms­virkjun en þrjá­tíu árin þar á undan með Norð­linga­öldu­veitu. Þannig að þetta hefur verið að eiga sér stað í raun­inni í fimm­tíu ár. Það er ekk­ert sam­fé­lags­lega ábyrgt við það.“

Hvernig hefur þessi sundr­ung í sam­fé­lag­inu sem þú talar um birst þér?

„Þetta hefur haft alvar­leg áhrif á sam­skipti fólks í sveit­inni. Bók­staf­lega breytt vin­skap innan fjöl­skyldna. Þetta er tabú umræðu­efni. Það er tiplað á tánum í kringum þetta. Margir þora ekki að segja sína skoðun upp­hátt og tala um hana. Eru á móti virkjun en þora ekki að segja neitt – ekki skrifa undir neitt. Það vill ekki að nafnið þeirra sé bendlað við ákveðna afstöðu.

Pálína og afi hennar, Jón Ólafsson. Mynd: Úr einkasafni

Í litlu sveit­ar­fé­lagi skiptir öllu máli að fólk standi sam­an. Við eigum að fá að vera eins og önnur sveit­ar­fé­lög, fá að eyða orkunni okkar í að ríf­ast um hvort að leik­skól­inn eigi að vera gjald­frjáls eða hvort byggja eigi íþrótta­hús. Svona hluti sem flest sveit­ar­fé­lög eru að glíma við. En í stað­inn erum við í allt öðru sam­tali. Sem er samt ekki raun­veru­legt sam­tal því þetta er svo mikið tabú og eld­fimt mál.“

Pálína segir að and­stæð­ingar Hvamms­virkj­unar neiti því ekki að Búr­fells­virkjun hafi á sínum tíma haft góð áhrif á sam­fé­lag­ið. Henni fylgdi atvinna og þá þurfti sann­ar­lega raf­magn. „Hún var ein­hvers konar sam­hjálp. En það er ekki það sama uppi á ten­ingnum í dag.

Ég hef heyrt fólk segja að Lands­virkjun hafi alla tíð verið svo góð við okkur að við þurfum líka að vera góð við hana. En það er ekk­ert til sem heitir að vera góður við stór­fyr­ir­tæki. Lands­virkjun spjarar sig alveg án þess að við hjálpum henni.

Ef ein­hver heldur að litla sveit­ar­fé­lagið okkar eigi eftir að græða eitt­hvað stór­kost­lega á að fá Hvamms­virkjun til við­bótar við hinar virkj­an­irnar sem þegar eru í Þjórsá þá þarf við­kom­andi að kynna sér málið bet­ur. Með virkjun yrðu ekki til fram­tíð­ar­störf í Skeiða- og Gnúp­verja­hreppi og stöðv­ar­húsið yrði handan árinnar svo sveit­ar­fé­lagið fengi ekki einu sinni fast­eigna­gjöld­in. Það er bók­staf­lega ekk­ert í þessu fyrir okk­ur.“

Auglýsing

Myndi það breyta þinni afstöðu ef tekjur af virkj­un­inni kæmu í þína sveit, orkan yrði notuð þar eða að minnsta kosti ekki í stór­iðju?

„Nei, því þessi fram­kvæmd gengur gegn öllum mínum grunn­gild­um. Og ég er ekki að fara henda þeim þó að mér yrðu boðnir pen­ing­ar.

Ég var enn í grunn­skóla þegar hug­myndir um virkj­an­irnar í neðri hluta Þjórsá komu fram. En ég hafði strax áhyggj­ur, þetta skipti mig strax máli sem barn. Og nú mörgum árum seinna skiptir þetta mig enn máli. Hér eru á ferð­inni mjög sterk við­horf og eftir því sem við­horf eru sterk­ari, þeim mun meiri áhrif hafa þau á hegð­un. Það er aðeins sá sem hefur þessi sterku við­horf sem eyðir orkunni sinni, í sínum frí­tíma, í að skrifa enda­lausar athuga­semdir við skipu­lags­til­lög­ur, ramma­á­ætlun og frum­mats­skýrsl­ur. Setja sig inn í flókin mál sem sett eru fram af stórum fyr­ir­tækjum með tugum starfs­manna.

Ég held að við öll sem höfum verið að berj­ast gegn þessu eigum það sam­eig­in­legt að hafa upp­lifað heilsu­spill­andi ein­kenni sem fylgja bar­áttu sem útheimtir gíf­ur­lega orku.

Kvíða­við­bragð strax í gang

Þegar maður les fréttir um að Lands­virkjun sé að sækja um leyfi til að virkja eða að eitt­hvað annað sé í gangi tengt þessum fram­kvæmdum þá fer kvíða­við­bragð strax í gang. Maður getur ekki sof­ið. Þetta hefur svo djúp áhrif á okk­ur. Ég hef heyrt marga tala um nákvæm­lega þetta og lýsa þessu. Ég las frétt­ina um að Lands­virkjun hefði sótt um virkj­ana­leyfi snemma dags. Um kvöldið var heil­inn minn ennþá á fullu og ég gat ekki sofn­að.

Þar sem ég lærði sál­fræði þætti mér mjög áhuga­vert að rann­sakað yrði hvort að þeir sem eru hlynntir virkjun upp­lifi svip­aða hluti þegar þeir lesa fréttir um að það þurfi ekki að virkja meira fyrir raf­bíla­væð­ing­una því að það sé nóg til af orku. Hvort að það fólk myndi missa svefn yfir því að fá ekki Hvamms­virkj­un. Hvort að það myndi hringja í vini sína nið­ur­brotið og segja því að sleppa því að fara á for­síðu Vís­is, það myndi eyði­leggja fyrir þeim dag­inn að sjá fréttir um að hætt hefði verið við virkj­un­ina.

Mín til­finn­ing er sú að þannig sé það ekki. Við sem erum í and­stöð­unni höfum barist gegn virkjun per­sónu­lega. Með öllu sem við eigum til. Við höfum lagt líf og sál í þá bar­áttu. Þeir sem eru hlynntir hafa ekki þurft að standa í því.“

Viðey er stök eyja í Þjórsá, suðaustan við bæinn Minna-Núp í Gnúpverjahreppi. Vegna þess hve áin er djúp og straumþung á þessum stað hefur hún að mestu fengið að vera í friði fyrir ágangi manna og búfjár.

Þú skrif­aðir einmitt í færslu þinni að þetta væri bar­átta Dav­íðs við Gol­í­at.

„Já, þannig hefur það verið ofboðs­lega lengi. Stór­fyr­ir­tæki á annarri hlið­inni og við á hinni.

En við vitum hvernig sú saga fór. Og við vitum hvernig Þjórs­ár­vera­deilan fór. Við gef­umst ekki upp. Það hefur oft blásið ansi hressi­lega á móti, sér­stak­lega í bar­átt­unni fyrir vernd Þjórs­ár­vera. En hér erum við enn. Að berj­ast.“

Þú lýsir slæmri líð­an, svefn­leysi og öðrum áhrifum máls­ins á heilsu þína. Hefur það hvarflað að þér að hætta að berjast?

„Nei,“ svarar Pálína ákveð­ið. „Það er eitt­hvað sem ég gæti ekki lifað með. Ég er til­búin að berj­ast með öllu sem til þarf. Og ég veit að það eru margir aðrir á þeim sama stað.

Pálína liggur framan við Gljúfurleitarfoss í Þjórsá inn á Gnúpverjaafrétti. Með Norðlingaölduveitu hefði fossinn orðið mjög vatnslítill. Mynd: Úr einkasafni

Ég fylgd­ist með Þjórs­ár­vera­bar­átt­unni sem barn. Ég sá það sem for­eldrar mínir gerðu í þeirri bar­áttu. Ég sá mömmu mína leggja heils­una sína að veði og fjár­hag fjöl­skyld­unn­ar. En samt hef ég aldrei nokkurn tím­ann hugs­að: Ó, ég vildi að hún hefði ekki farið í þetta.

Ég hef þvert á móti verið óend­an­lega stolt af því sem hún gerði. Ég er henni og þeim sem börð­ust gegn virkjun í Þjórs­ár­verum alltaf inni­lega þakk­lát þegar ég geng þar um á hverju ári. Er svo þakk­lát þessu fólki sem hafði kjark og þor til að standa upp á sínum tíma og segja: Nei.

Það var og verður allt þess virði. Því þegar við öll erum farin verður nátt­úran hér enn. Næstu kyn­slóðir fá að taka við henni. Og ég vil að næstu kyn­slóðir fái líka að taka við nátt­úr­unni í og við Þjórsá óskemmdri.

Lón fyll­ast á ákveðnum tíma. Þau eru ekki eilíf. Þau er ekki enda­laust hægt að nota til að fram­leiða raf­orku. Þess vegna er skrítið að tala um þetta sem end­ur­nýj­an­legan orku­gjafa – bara af því að árnar halda áfram að renna. Stærsta vanda­málið við vatns­afls­virkj­anir eru landið sem fer undir lón. Það land eyði­leggst. Verður aldrei aftur eins og það var.“

Auglýsing

For­stjóri Lands­virkj­unar skrif­aði í grein sinni að bráðnun jökla væri fyr­ir­séð og að rennsli í ám á borð við Þjórsá myndi aukast. Því hlytum við að reyna að vinna orku úr þeim mikla flaumi. Hvað finnst þér um þessi orð?

„Hug­ar­heimur fólks er nátt­úr­lega ólík­ur. Það er mis­mun­andi hvað við sjáum þegar við horfum á sama hlut­inn. Mér dettur alltaf í hug saga sem mamma sagði mér. Hún var að tala við verk­fræð­ing sem sagði að þegar hann horfði á Þjórsá renna óbeisl­aða til sjávar sæi hann mega­vött fljóta í burtu. Mamma lærði nátt­úru­fræði. Og hún svar­aði honum og sagð­ist sjá vist­kerfi sem fengju að lifa.

Við erum að fram­leiða nóg raf­magn. Í kerf­inu í dag er meira að segja raf­magn sem er ekki verið að nota. Bjarni Bjarna­son for­stjóri Orku­veit­unnar hefur und­an­farið verið dug­legur að benda á að það þurfi ekki að virkja meira til að raf­væða 100 þús­und bíla.

Sam­kvæmt virkj­ana­kostum sem teknir voru til með­ferðar í fjórða áfanga ramma­á­ætl­unar kemur fram að hægt yrði að fá 210 MW með því að stækka virkj­anir Lands­virkj­unar við Vatns­fell, í Hraun­eyjum og Sig­öldu. Verk­efn­is­stjórn ramma­á­ætl­unar setti þessar þrjár stækk­anir í orku­nýt­ing­ar­flokk í til­lögum sín­um. Enn á eftir að afgreiða þær en af hverju ekki að leggja áherslu á þær stækk­anir og leyfa Hvamms­virkj­un, sem yrði 93 MW, að verða skóla­bók­ar­dæmi um virkj­un­ar­hug­mynd sem aldrei varð að veru­leika?

Þó að jökl­arnir haldi áfram að bráðna og það hraðar en áður þá er það ekki nátt­úru­lög­mál að við þurfum að beisla hvert mega­vatt sem kemur úr þeim.“

Á Arnarfelli hinu Mikla. Horft yfir Þjórsárver.
Úr einkasafni

For­stjóri Lands­virkj­unar skrif­aði líka að ekki væri ljóst hvort og þá hvenær sótt yrði um fram­kvæmda­leyfi vegna Hvamms­virkj­un­ar. Hver eru við­brögð þín við því?

„Það er verið að dæma okkur til þess að hafa þessa virkj­un­ar­hug­mynd hang­andi yfir okkur í enn fleiri ár og jafn­vel ára­tugi. Við höfum unnið okkur inn tíma en ekki unnið bar­átt­una. Auð­vitað væri best ef þessi hug­mynd myndi ekki hanga lengur yfir okkur og þá vegna þess að ákveðið yrði að gera hana ekki að veru­leika.

Að nota það svo sem rök að virkj­unin hafi verið í und­ir­bún­ingi í tutt­ugu ár er hugs­ana­villa sem teng­ist því sem kall­ast sokk­inn kostn­að­ur. Það ger­ist þegar ákvörð­un­ar­taka end­ur­speglar þá hneigð okkar að láta þann kostnað sem þegar hefur verið útlagður hafa áhrif seinna. En auð­vitað eiga ákvarð­anir að vera teknar út frá þeim afleið­ingum sem þær munu hafa í fram­tíð­inni en ekki vegna þess sem þegar hefur verið til­kost­að.“

Pálína nokkurra ára gömul í réttum ásamt móðurafa sínum, Jóni Ólafssyni, og móður sinni, Sigþrúði Jónsdóttur.
Úr einkasafni

Þú end­aðir á að skrifa í færsl­unni þinni: Lands­virkjun látið okkur vera. Hefur þú fengið ein­hver við­brögð frá fyr­ir­tæk­inu?

„Nei, eng­in. Ég tagg­aði Lands­virkjun og veit að ein­hver hjá þeim sá skila­boðin frá mér. Það er fínt, allir mega vita hvaða skoð­anir ég hef. Þær eru ekk­ert leynd­ar­mál. Og þær munu standa óhagg­að­ar.

Ég efast um að afi minn hefði getað ímyndað sér að barna­barnið hans væri enn að berj­ast gegn virkj­unum fimm­tíu árum eftir að hann hóf sína bar­áttu. Hann lést árið 2001. Rétt áður en mesta og ill­víg­asta bar­áttan um vernd Þjórsár varð. Fram á síð­asta dag ævi sinnar hafði hann áhyggjur af Þjórs­ár­ver­um. Hann lifði það ekki að upp­lifa sig­ur­inn og létt­inn sem honum fylgdi hjá mörg­um.

Þegar maður er í góðum tengslum við landið sitt þá skiptir nátt­úran öllu máli. Hún er ein­fald­lega heim­ilið okk­ar. Núna get ég gengið um ósnortin Þjórs­ár­ver. Og alltaf þegar ég kem þangað þá finn ég töfrana. Það er engin til­vilj­un. Þeir eru þarna enn út af fólki eins og afa og mömmu sem börð­ust fyrir svæð­in­u.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal