Úr einkasafni Pálína Axelsdóttir Njarðvík Mynd: Úr einkasafni

„Ég er tilbúin að berjast með öllu sem til þarf“

„Ég er þriðja kynslóðin sem stendur í baráttu gegn virkjunum,“ segir Pálína Axelsdóttir Njarðvík sem varð flökurt, fann kvíða og varð andvaka eftir að fréttist að Landsvirkjun hefði sótt um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. En hún ætlar aldrei að hætta að berjast. Hún segist vita að ekki sé hlustað á tilfinningarök í umræðunni um virkjunarframkvæmdir en það komi ekki að sök. Af nógu öðru sé að taka.

Hún er sveitastelpa. Þó að hún hafi verið með annan fótinn í borginni síðustu árin vegna náms líður henni best í kringum dýrin og við sveitastörfin á bænum Eystra-Geldingaholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar er „heima“ í hennar huga og hefur verið allt frá því hún var barn þótt hún hafi fyrstu árin alist upp á prestsetrinu Tröð í sömu sveit því faðir hennar, Axel Árnason Njarðvík, var sóknarprestur. Tengslin við Geldingaholtið voru alltaf til staðar. Þar ólst móðir hennar, Sigþrúður Jónsdóttir, upp og frændfólk hennar tók við því búi.

Er hún var unglingur byggðu foreldrar hennar hús á jörðinni og búa þar enn. „Þegar ég var sextán ára flutti ég til Reykjavíkur til að fara í skóla og hef síðan þá lifað tvöföldu lífi í borg og sveit,“ segir hún og hlær.

Pálína lærði sálfræði í háskóla og lauk mastersprófi í félagssálfræði vorið 2019. Í lokaverkefninu rannsakaði hún hugsanaskekkjur, ályktanavillur og notkun fortalna í þjóðfélagsumræðu. Viðfangið var fjölmiðlaumfjöllunin um Norðlingaölduveitu sem fyrirhuguð var í Þjórsárverum – skammt frá hennar æskuslóðum.

Auglýsing

Hún hefur aflað sér vinsælda á Instagram þar sem hún heldur úti síðu undir nafninu FarmlifeIceland og segir frá sveitalífinu sem er henni svo kært. Fylgjendurnir nálgast 77 þúsund. Margir þeirra eru útlendingar sem þyrstir í að fræðast um Ísland, menningu þjóðarinnar og náttúru landsins.

„Mér verður flökurt við að lesa þessa frétt, kvíði og áhyggjur hellast yfir mig,“ skrifaði Pálína óvænt á miðilinn sinn í vikunni. Hún er vön að vera jákvæð. Full bjartsýni og birta fallegar myndir af kindunum á bænum sem hún virðist ná einstökum tengslum við. Þær kúra hjá henni – sækja í hana.

Pálína ásamt kindunum Maríu og Cassöndru. Mynd: Úr einkasafni

En nú var tónninn annar. Fréttin sem hún hafði lesið fjallaði um orð Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, sem upplýsti í grein á Vísi að sótt hefði verið um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun sem fyrirtækið áformar að reisa í neðri hluta Þjórsár. Í sveitinni hennar Pálínu. Skammt frá bænum hennar.

Þetta hreyfði verulega við henni. Og fyrir því eru margar ástæður sem tengjast atburðum sem spanna hálfa öld. Atburðarás sem hófst löngu áður en hún kom í heiminn árið 1991.

Mannskemmandi barátta

„Ég er þriðja kynslóðin sem stend í baráttu gegn virkjunum,“ segir Pálína, spurð um viðbrögð sín við grein Harðar. „Og það er bókstaflega mannskemmandi að standa í henni.“

Afi Pálínu, Jón Ólafsson bóndi í Eystra-Geldingaholti, var einn þeirra sem hóf baráttuna gegn Norðingaölduveitu í Þjórsárverum um árið 1970. Þá voru þær virkjanahugmyndir að koma fyrst fram á sjónarsviðið. „Mamma tók svo við af honum og bar lengi og ásamt öðrum kyndilinn í Þjórsárverabaráttunni. Hún fékk náttúruverndarverðlaun Sigríðar í Brattholti fyrir þá ötulu baráttu sína. Og með aldrinum hef ég farið að láta meira að mér kveða í baráttunni og nú gegn Hvammsvirkjun.

Þetta virkjanastapp segir hún er sem sagt eitt af því sem erfist í Skeiða- og Gnúpverjahreppi því þetta tekur aldrei enda.

Ég hef oft sagt að ég voni svo innilega að börnin mín þurfi ekki líka að standa í þessu og þá á þeirri forsendu að það verði ekki lengur þörf á baráttu vegna þess að við verðum búin að vinna hana – ekki tapa henni.“

Við bakka Þjórsár er gott landbúnaðarsvæði. Frá Eystra-Geldingaholti er falleg fjallasýn. Frá bænum sést aðeins til árinnar og „niðurinn frá Þjórsá er partur af þessu umhverfi sem ég er alin upp í,“ segir Pálína. „Við höfum í gegnum kynslóðirnar notað hljóðin frá ánni til að spá fyrir um veður. Það er hluti af okkar menningararfleifð. Hljóðin frá Minna-Núpsflúðum spá fyrir um það sem framundan er í veðri, hvort von sé á þurrki eða vætutíð. Fólk á öðrum bæjum hér í kring gerir það sama. En hljóðin myndu þagna með virkjun.“

Virkjanahugmyndir sem breyta um nafn

Pálína var enn í grunnskóla er hún heyrði fyrst af virkjunaráformunum í neðri hluta Þjórsár. Þá voru þau kölluð Núpsvirkjun og samanstóðu af þremur virkjanahugmyndum, hverri fyrir neðan aðra. „Virkjanakostir eiga það til að skipta um nafn þó að hugmyndin sé nokkurn veginn sú sama,“ segir hún. „Til dæmis hét inntakslónið fyrir Núpsvirkjun Hagalón, rétt eins og það er kallað í Hvammsvirkjunaráformunum. Þetta er sama lónið – og það er þetta lón og rennslisskerðingin í árfarveginum sem er stærsta málið.“

Pálína (t.h.) ásamt unnustu sinni, Maríu Kristínu Árnadóttur, fyrir neðan fyrirhugað stíflusvæði Hvammsvirkjunar.
Úr einkasafni

Það eru margar ástæður fyrir því að Pálína er andvíg virkjuninni.

„Í fyrsta lagi þá vil ég ekki láta sökkva sveitinni minni fyrir framleiðslu á rafmagni sem við í þokkabót þurfum ekki,“ byrjar hún á að útskýra. „Svo einfalt er þetta í mínum huga. En það hlustar enginn á slík rök. Þetta eru kölluð tilfinningarök – að ég vilji ekki eitthvað einfaldlega af því að mér finnist það ekki góð hugmynd. Af því að mér þyki vænt um landið mitt. Að ég vilji geta farið um Þjórsárdalinn án þess að fara fram hjá lóni og sjá þær skemmdir á náttúru og landslagi sem það veldur.

En já, þetta eru kölluð tilfinningarök og á þau er ekki hlustað. Jafnvel þótt að við tökum allar stærstu ákvarðanir lífs okkar út frá tilfinningum. Hverjum við giftumst – það er ákvörðun sem er byggð á tilfinningum – ekki hagkvæmni. En í þessu sambandi, þegar fara á í óafturkræfar framkvæmdir, þá bíta þessi rök ekki.

En það er allt í lagi. Því það er meira en nóg af öðrum rökum gegn Hvammsvirkjun til staðar.“

Auglýsing

Virkjunin myndi hafa í för með sér óafturkræfa eyðileggingu á grónu landi á þeim stað sem lónið kæmi. „Gróið land er auðlind. Jarðvegseyðing er vandamál. Talið er að gróið land hafi minnkað um helming frá landnámi. En svo á að fara að skemma gróið land og dýrmætan gróður, dýralíf og búsvæði, á sama tíma og eitt af okkar helstu verkefnum er að endurheimta skemmd vistkerfi.

Landið í farveginum fyrir neðan stíflu mun stundum vera á kafi í vatni og stundum ekki, allt eftir því hvernig hleypt verður úr lóninu. Því fylgir augljós hætta á foki og frekari eyðingu úr jarðveginum.

Ég fór eitt sinn á fund með Landsvirkjun þar sem kom fram að þessu myndu þeir mæta með uppgræðslu. En það er alveg ljóst að ekki er hægt að græða upp land sem er ýmist á þurru eða á kafi í vatni.“

Pálína ásamt foreldrum sínum, Axel og Sigþrúði, upp á Arnarfelli hinu Mikla. Þjórsárver í baksýn.
Úr einkasafni

Fyrir neðan stíflu, þar sem aðeins brot (um 3 prósent) af meðalrennsli árinnar myndi renna hluta árs, er hin sérstæða og því friðaða Viðey. „Í dag verndar Þjórsá hana fyrir ágangi manna og dýra. Hún myndi standa á þurru og allar leiðir að henni færar. Þá hefur það verið nefnt sem mótvægisaðgerð að girða hana af sem er ekki lausn sem dugar auk þess sem girðing í þurrum farvegi Þjórár lítur ekki vel út.

Svo er Þjórsá í dag varnargirðing vegna sauðfjársjúkdóma. Kindur mega ekki fara á milli Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Ég hef séð girðingar Landsvirkjunar við Sultartangavirkjun. Það er þekkt að kindur fara í gegnum þær. Þannig að ég gef lítið fyrir þessar fyrirhuguðu mótvægisaðgerðir, að ætla að girða Viðey af.

En eftirlætismótvægisaðgerðin mín sem Landsvirkjun hefur nefnt er sú að vegna landsins sem fari undir lónið eigi í staðinn að fara í endurheimt votlendis í Skálholti. Það er eins og að fara í frjósemisátak í Úganda því það vanti börn í Danmörku.

Endurheimt votlendis í Skálholti er ágætis hugmynd en Skálholt getur séð um það verkefni sjálft.“

Í kynningarefni Landsvirkjunar á Hvammsvirkjun er að finna myndir sem sýna eiga breytingar á ásýnd Þjórsá sem myndu verða.
Landsvirkjun

Pálína bendir ennfremur á að umhverfismatið fyrir Hvammsvirkjun sé að mestu leyti frá árinu 2004. „Það er því orðið eldgamalt. Það væri að detta í bílpróf í ár, væri það manneskja. Allar forsendur hafa breyst og sömuleiðis hugsunarháttur fólks.

Þegar ákveðnir þættir í matinu voru metnir árið 2015 var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að Hvammsvirkjun myndi hafa verulega neikvæð áhrif á ásýnd lands og að hún væri líkleg til að hafa neikvæð áhrif á ferðamennsku.

Svo hafa samfélagsleg áhrif virkjana í neðri hluta Þjórsár aldrei verið metin.“

Á þetta leggur Pálína mikla áherslu. „Í stórum ákvörðunum er varða óafturkræfar framkvæmdir verðum við að horfa á heildarmyndina. Það er ekki hægt að sleppa stórum þætti sem skiptir miklu máli. Og á sama tíma státa sig af því að vera að stuðla að sjálfbærri þróun.“

Hin samfélagslega ábyrgð

Hún bendir á að á heimasíðu Landsvirkjunar standi að grundvallarmarkmið samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækisins sé að stuðla að sjálfbærri þróun í íslensku samfélagi. „En ein grunnstoð sjálfbærar þróunar, samkvæmt skilgreiningu á því hugtaki, er samfélagsleg. En samt hafa samfélagsleg áhrif þessarar virkjunar aldrei verið skoðuð!

Fyrirtæki sem státar sig af því að vera samfélagslega ábyrgt og stuðla að sjálfbærri þróun, er búið að splundra litlu samfélagi í næstum því tuttugu ár. Á því tímabili með Hvammsvirkjun en þrjátíu árin þar á undan með Norðlingaölduveitu. Þannig að þetta hefur verið að eiga sér stað í rauninni í fimmtíu ár. Það er ekkert samfélagslega ábyrgt við það.“

Hvernig hefur þessi sundrung í samfélaginu sem þú talar um birst þér?

„Þetta hefur haft alvarleg áhrif á samskipti fólks í sveitinni. Bókstaflega breytt vinskap innan fjölskyldna. Þetta er tabú umræðuefni. Það er tiplað á tánum í kringum þetta. Margir þora ekki að segja sína skoðun upphátt og tala um hana. Eru á móti virkjun en þora ekki að segja neitt – ekki skrifa undir neitt. Það vill ekki að nafnið þeirra sé bendlað við ákveðna afstöðu.

Pálína og afi hennar, Jón Ólafsson. Mynd: Úr einkasafni

Í litlu sveitarfélagi skiptir öllu máli að fólk standi saman. Við eigum að fá að vera eins og önnur sveitarfélög, fá að eyða orkunni okkar í að rífast um hvort að leikskólinn eigi að vera gjaldfrjáls eða hvort byggja eigi íþróttahús. Svona hluti sem flest sveitarfélög eru að glíma við. En í staðinn erum við í allt öðru samtali. Sem er samt ekki raunverulegt samtal því þetta er svo mikið tabú og eldfimt mál.“

Pálína segir að andstæðingar Hvammsvirkjunar neiti því ekki að Búrfellsvirkjun hafi á sínum tíma haft góð áhrif á samfélagið. Henni fylgdi atvinna og þá þurfti sannarlega rafmagn. „Hún var einhvers konar samhjálp. En það er ekki það sama uppi á teningnum í dag.

Ég hef heyrt fólk segja að Landsvirkjun hafi alla tíð verið svo góð við okkur að við þurfum líka að vera góð við hana. En það er ekkert til sem heitir að vera góður við stórfyrirtæki. Landsvirkjun spjarar sig alveg án þess að við hjálpum henni.

Ef einhver heldur að litla sveitarfélagið okkar eigi eftir að græða eitthvað stórkostlega á að fá Hvammsvirkjun til viðbótar við hinar virkjanirnar sem þegar eru í Þjórsá þá þarf viðkomandi að kynna sér málið betur. Með virkjun yrðu ekki til framtíðarstörf í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og stöðvarhúsið yrði handan árinnar svo sveitarfélagið fengi ekki einu sinni fasteignagjöldin. Það er bókstaflega ekkert í þessu fyrir okkur.“

Auglýsing

Myndi það breyta þinni afstöðu ef tekjur af virkjuninni kæmu í þína sveit, orkan yrði notuð þar eða að minnsta kosti ekki í stóriðju?

„Nei, því þessi framkvæmd gengur gegn öllum mínum grunngildum. Og ég er ekki að fara henda þeim þó að mér yrðu boðnir peningar.

Ég var enn í grunnskóla þegar hugmyndir um virkjanirnar í neðri hluta Þjórsá komu fram. En ég hafði strax áhyggjur, þetta skipti mig strax máli sem barn. Og nú mörgum árum seinna skiptir þetta mig enn máli. Hér eru á ferðinni mjög sterk viðhorf og eftir því sem viðhorf eru sterkari, þeim mun meiri áhrif hafa þau á hegðun. Það er aðeins sá sem hefur þessi sterku viðhorf sem eyðir orkunni sinni, í sínum frítíma, í að skrifa endalausar athugasemdir við skipulagstillögur, rammaáætlun og frummatsskýrslur. Setja sig inn í flókin mál sem sett eru fram af stórum fyrirtækjum með tugum starfsmanna.

Ég held að við öll sem höfum verið að berjast gegn þessu eigum það sameiginlegt að hafa upplifað heilsuspillandi einkenni sem fylgja baráttu sem útheimtir gífurlega orku.

Kvíðaviðbragð strax í gang

Þegar maður les fréttir um að Landsvirkjun sé að sækja um leyfi til að virkja eða að eitthvað annað sé í gangi tengt þessum framkvæmdum þá fer kvíðaviðbragð strax í gang. Maður getur ekki sofið. Þetta hefur svo djúp áhrif á okkur. Ég hef heyrt marga tala um nákvæmlega þetta og lýsa þessu. Ég las fréttina um að Landsvirkjun hefði sótt um virkjanaleyfi snemma dags. Um kvöldið var heilinn minn ennþá á fullu og ég gat ekki sofnað.

Þar sem ég lærði sálfræði þætti mér mjög áhugavert að rannsakað yrði hvort að þeir sem eru hlynntir virkjun upplifi svipaða hluti þegar þeir lesa fréttir um að það þurfi ekki að virkja meira fyrir rafbílavæðinguna því að það sé nóg til af orku. Hvort að það fólk myndi missa svefn yfir því að fá ekki Hvammsvirkjun. Hvort að það myndi hringja í vini sína niðurbrotið og segja því að sleppa því að fara á forsíðu Vísis, það myndi eyðileggja fyrir þeim daginn að sjá fréttir um að hætt hefði verið við virkjunina.

Mín tilfinning er sú að þannig sé það ekki. Við sem erum í andstöðunni höfum barist gegn virkjun persónulega. Með öllu sem við eigum til. Við höfum lagt líf og sál í þá baráttu. Þeir sem eru hlynntir hafa ekki þurft að standa í því.“

Viðey er stök eyja í Þjórsá, suðaustan við bæinn Minna-Núp í Gnúpverjahreppi. Vegna þess hve áin er djúp og straumþung á þessum stað hefur hún að mestu fengið að vera í friði fyrir ágangi manna og búfjár.

Þú skrifaðir einmitt í færslu þinni að þetta væri barátta Davíðs við Golíat.

„Já, þannig hefur það verið ofboðslega lengi. Stórfyrirtæki á annarri hliðinni og við á hinni.

En við vitum hvernig sú saga fór. Og við vitum hvernig Þjórsárveradeilan fór. Við gefumst ekki upp. Það hefur oft blásið ansi hressilega á móti, sérstaklega í baráttunni fyrir vernd Þjórsárvera. En hér erum við enn. Að berjast.“

Þú lýsir slæmri líðan, svefnleysi og öðrum áhrifum málsins á heilsu þína. Hefur það hvarflað að þér að hætta að berjast?

„Nei,“ svarar Pálína ákveðið. „Það er eitthvað sem ég gæti ekki lifað með. Ég er tilbúin að berjast með öllu sem til þarf. Og ég veit að það eru margir aðrir á þeim sama stað.

Pálína liggur framan við Gljúfurleitarfoss í Þjórsá inn á Gnúpverjaafrétti. Með Norðlingaölduveitu hefði fossinn orðið mjög vatnslítill. Mynd: Úr einkasafni

Ég fylgdist með Þjórsárverabaráttunni sem barn. Ég sá það sem foreldrar mínir gerðu í þeirri baráttu. Ég sá mömmu mína leggja heilsuna sína að veði og fjárhag fjölskyldunnar. En samt hef ég aldrei nokkurn tímann hugsað: Ó, ég vildi að hún hefði ekki farið í þetta.

Ég hef þvert á móti verið óendanlega stolt af því sem hún gerði. Ég er henni og þeim sem börðust gegn virkjun í Þjórsárverum alltaf innilega þakklát þegar ég geng þar um á hverju ári. Er svo þakklát þessu fólki sem hafði kjark og þor til að standa upp á sínum tíma og segja: Nei.

Það var og verður allt þess virði. Því þegar við öll erum farin verður náttúran hér enn. Næstu kynslóðir fá að taka við henni. Og ég vil að næstu kynslóðir fái líka að taka við náttúrunni í og við Þjórsá óskemmdri.

Lón fyllast á ákveðnum tíma. Þau eru ekki eilíf. Þau er ekki endalaust hægt að nota til að framleiða raforku. Þess vegna er skrítið að tala um þetta sem endurnýjanlegan orkugjafa – bara af því að árnar halda áfram að renna. Stærsta vandamálið við vatnsaflsvirkjanir eru landið sem fer undir lón. Það land eyðileggst. Verður aldrei aftur eins og það var.“

Auglýsing

Forstjóri Landsvirkjunar skrifaði í grein sinni að bráðnun jökla væri fyrirséð og að rennsli í ám á borð við Þjórsá myndi aukast. Því hlytum við að reyna að vinna orku úr þeim mikla flaumi. Hvað finnst þér um þessi orð?

„Hugarheimur fólks er náttúrlega ólíkur. Það er mismunandi hvað við sjáum þegar við horfum á sama hlutinn. Mér dettur alltaf í hug saga sem mamma sagði mér. Hún var að tala við verkfræðing sem sagði að þegar hann horfði á Þjórsá renna óbeislaða til sjávar sæi hann megavött fljóta í burtu. Mamma lærði náttúrufræði. Og hún svaraði honum og sagðist sjá vistkerfi sem fengju að lifa.

Við erum að framleiða nóg rafmagn. Í kerfinu í dag er meira að segja rafmagn sem er ekki verið að nota. Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitunnar hefur undanfarið verið duglegur að benda á að það þurfi ekki að virkja meira til að rafvæða 100 þúsund bíla.

Samkvæmt virkjanakostum sem teknir voru til meðferðar í fjórða áfanga rammaáætlunar kemur fram að hægt yrði að fá 210 MW með því að stækka virkjanir Landsvirkjunar við Vatnsfell, í Hrauneyjum og Sigöldu. Verkefnisstjórn rammaáætlunar setti þessar þrjár stækkanir í orkunýtingarflokk í tillögum sínum. Enn á eftir að afgreiða þær en af hverju ekki að leggja áherslu á þær stækkanir og leyfa Hvammsvirkjun, sem yrði 93 MW, að verða skólabókardæmi um virkjunarhugmynd sem aldrei varð að veruleika?

Þó að jöklarnir haldi áfram að bráðna og það hraðar en áður þá er það ekki náttúrulögmál að við þurfum að beisla hvert megavatt sem kemur úr þeim.“

Á Arnarfelli hinu Mikla. Horft yfir Þjórsárver.
Úr einkasafni

Forstjóri Landsvirkjunar skrifaði líka að ekki væri ljóst hvort og þá hvenær sótt yrði um framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Hver eru viðbrögð þín við því?

„Það er verið að dæma okkur til þess að hafa þessa virkjunarhugmynd hangandi yfir okkur í enn fleiri ár og jafnvel áratugi. Við höfum unnið okkur inn tíma en ekki unnið baráttuna. Auðvitað væri best ef þessi hugmynd myndi ekki hanga lengur yfir okkur og þá vegna þess að ákveðið yrði að gera hana ekki að veruleika.

Að nota það svo sem rök að virkjunin hafi verið í undirbúningi í tuttugu ár er hugsanavilla sem tengist því sem kallast sokkinn kostnaður. Það gerist þegar ákvörðunartaka endurspeglar þá hneigð okkar að láta þann kostnað sem þegar hefur verið útlagður hafa áhrif seinna. En auðvitað eiga ákvarðanir að vera teknar út frá þeim afleiðingum sem þær munu hafa í framtíðinni en ekki vegna þess sem þegar hefur verið tilkostað.“

Pálína nokkurra ára gömul í réttum ásamt móðurafa sínum, Jóni Ólafssyni, og móður sinni, Sigþrúði Jónsdóttur.
Úr einkasafni

Þú endaðir á að skrifa í færslunni þinni: Landsvirkjun látið okkur vera. Hefur þú fengið einhver viðbrögð frá fyrirtækinu?

„Nei, engin. Ég taggaði Landsvirkjun og veit að einhver hjá þeim sá skilaboðin frá mér. Það er fínt, allir mega vita hvaða skoðanir ég hef. Þær eru ekkert leyndarmál. Og þær munu standa óhaggaðar.

Ég efast um að afi minn hefði getað ímyndað sér að barnabarnið hans væri enn að berjast gegn virkjunum fimmtíu árum eftir að hann hóf sína baráttu. Hann lést árið 2001. Rétt áður en mesta og illvígasta baráttan um vernd Þjórsár varð. Fram á síðasta dag ævi sinnar hafði hann áhyggjur af Þjórsárverum. Hann lifði það ekki að upplifa sigurinn og léttinn sem honum fylgdi hjá mörgum.

Þegar maður er í góðum tengslum við landið sitt þá skiptir náttúran öllu máli. Hún er einfaldlega heimilið okkar. Núna get ég gengið um ósnortin Þjórsárver. Og alltaf þegar ég kem þangað þá finn ég töfrana. Það er engin tilviljun. Þeir eru þarna enn út af fólki eins og afa og mömmu sem börðust fyrir svæðinu.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal