Stjórnendur Eimskipa voru upplýstir um það í sumar að starfsmenn fyrirtækisins hefðu verið kærðir til embættis sérstaks saksóknara. Eimskip, sem er skráð á markað, tilkynnti þær upplýsingar ekki sérstaklega til Kauphallar Íslands.
Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir að félagið hafi tilkynnt um það í september 2013 að það væri til rannsóknar vegna meintra brota á 10. gg 11. grein samkeppnislaga og að það feli „í sér að þáttur einstaklinga hlýtur að koma til skoðunar“. Félagið telur því ekki að það hafi þurft að tilkynna sérstaklega um rannsókn sérstaks saksóknara á málinu.
Gengi bréfa í Eimskipum hefur fallið um 6,5 prósent frá því að Kastljós greindi frá meintum samkeppnisbrotum félagsins og Samskipa. Alls hefur markaðsvirði Eimskipa fallið um þrjá milljarða króna á þremur dögum.
Verðmótandi upplýsingar
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Samkeppniseftirlitið tilkynnti Eimskip og Samskip um það í sumar að að það hefði kært þau til embættis sérstaks saksóknara. Þetta er haft eftir Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitins í blaðinu. Því er ljóst að aðilar innan fyrirtækjanna tveggja hafa búið yfir upplýsingum um að meint samkeppnislagabrot þeirra hafi verið kærð til sérstaks saksóknara um margra mánaða skeið.
Samkeppniseftirlitið tilkynnti Eimskip um kæruna til sérstaks saksóknara í sumar.
Eimskip er skráð á markað og upplýsingar um möguleg brot sem kærð hafi verið til rannsóknarembættis geta verið mjög verðmótandi fyrir gengi bréfa í félaginu. Við lokun markaða á þriðjudag, nokkrum klukkustundum áður en Kastljós sagði frá meintum brotum Eimskipa og Samskipa sem eru til rannsóknar, var gengi bréfa 232 krónur á hlut. Í dag er gengið 217 krónur á hlut.
Gengið hefur því fallið um 6,5 prósent frá því að upplýsingar um rannsóknirnar voru opinberaðar í fjölmiðlum. Markaðsvirði Eimskips hefur lækkað samtals um þrjá milljarða króna á síðustu þremur dögum
Gengið hefur því fallið um 6,5 prósent frá því að upplýsingar um rannsóknirnar voru opinberaðar í fjölmiðlum. Markaðsvirði Eimskips hefur lækkað samtals um þrjá milljarða króna á síðustu þremur dögum, eða um einn milljarð króna á dag. Gengi bréfa í Eimskip hefur einungis einu sinni áður verið jafn lágt og það er nú. Það var 12.desember 2012.
Ber að tilkynna um grun á leka á innherjaupplýsingum
Eimskip tilkynnti samt sem áður ekki um að starfsmenn fyrirtækisins væru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara í sumar þegar forsvarsmenn Samkeppniseftirlitsins sögðu stjórnendum félagsins frá því að svo væri.
Í tilkynningu frá Eimskip, sem félagið sendi frá sér í gær, kemur fram að því beri lagaleg skylda til að tilkynna þar til bærum yfirvöldum ef grunur leiki á að innherjaupplýsingum hafi verið miðlað á ólögmætan hátt. Eimskip hafi því sent Fjármálaeftirlitinu og Kauphöll Íslands ábendingu um möguleg lögbrot nú, í kjölfar umfjöllunar Kastljóss. Engin viðbrögð hafi borist þaðan, að sögn upplýsingafulltrúa Eimskipa.
Lekar rannsakaðir
Kauphöll Íslands hefur sett hlutabréf Eimskips á athugunarlista vegna málsins. Kjarninn beindi fyrirspurn til hennar um hvort Kauphöllin væri að rannsaka hvort þau gögn sem Kastljós greindi frá á þriðjudag væru innherjaupplýsingar og hvort grunur sé um að einhverjir aðilar á markaði, sem taki þátt í hlutabréfaviðskiptum, hafi haft upplýsingarnar undir höndum.
Í svari Baldurs Thorlacius, forstöðumanns eftirlitssviðs Kauphallarinnar, segir að hún geti ekki að jafnaði tjáð sig um einstök eftirlitsmál sem eru í skoðun. Almennt verklag sé þó með þeim hætti að í hvert sinn sem áður óbirtar upplýsingar koma fram um útgefanda í fjölmiðlum er m.a. lagt mat á það hvort þær gætu talist verðmótandi fyrir þá fjármálagerninga útgefanda sem eru í viðskiptum í Kauphöllinni.“
Ef grunur sé um að upplýsingarnar sem um ræðir gætu talist innherjaupplýsingar þá ber Kauphöllinni að vísa slíkum málum til Fjármálaeftirlitsins til frekari skoðunar.
Ef grunur sé um að upplýsingarnar sem um ræðir gætu talist innherjaupplýsingar þá ber Kauphöllinni að vísa slíkum málum til Fjármálaeftirlitsins til frekari skoðunar. Í svari Baldurs segir: „Ef grunur vaknar um að verðmótandi upplýsingum eða innherjaupplýsingum hafi verið lekið áður en þær eru birtar opinberlega er aflað upplýsinga um aðila að viðskiptum á því tímabili sem lekinn gæti náð til og viðskiptin greind með hliðsjón af málsaðstæðum. Fer það eftir aðstæðum og eðli mála hvort sú greining fari fyrst fram innan Kauphallarinnar eða hvort Fjármálaeftirlitið fari með rannsókn málsins frá upphafi.“
FME vill ekkert tjá sig um málið
Kjarninn beindi sömu fyrirspurn og Kauphöllin fékk til Fjármálaeftirlitsins. Í svar Ólafar Aðalsteinsdóttur, aðstoðarmanns forstjóra eftirlitsins, segir að það taki allar ábendingar til skoðunar og auk þess sem eftirlitið taki mál til skoðunar að eigin frumkvæði ef tilefni er til. „Fjármálaeftirlitið getur hins vegar ekki veitt upplýsingar um einstök mál, þar með talið upplýsingar um hvort mál eru til rannsóknar eða ekki.“