„Eins og að krota inn á málverk eftir Kjarval“
Frá Skorradal til Skjaldbreiðar. Svínadal til Langjökuls. Frá Kjósinni og Akranesi til uppsveita Borgarfjarðar. Ef vindorkuver Zephyr Iceland fær að rísa á Brekkukambi, hæsta fjalli Hvalfjarðarstrandarinnar, mun það blasa við úr öllum áttum – gnæfa yfir sveitir, frístundabyggðir, óbyggðir og útivistarsvæði. „Við viljum þetta ekki,“ segir einn íbúi og hundruð annarra taka undir. Nóg sé komið af „stórkarlalegri starfsemi“ í Hvalfirði.
Þetta má alls ekki gerast.“
Sara Matí Guðmundsdóttir
„Hvernig dettur einhverjum slík della í hug?“
Ólafur Magnússon og Katrín Valentínusdóttir
Fyrirtækið Zephyr Iceland, sem er að stærstum hluta í eigu norska fyrirtækisins Zephyr AS, áformar að reisa 50 MW vindorkuver á Brekkukambi í landi jarðarinnar Brekku í Hvalfjarðarsveit. Þótt orðið „kambur“ láti ekki mikið yfir sér er þetta fjall, 647 metrar yfir sjávarmáli þar sem það er hæst, það hæsta á allri Hvalfjarðarströndinni. Á því vill Zephyr reisa 8-12 vindmyllur sem hver um sig yrði tæplega 250 metra há, sem jafnast á við rúmlega þrefalda hæð Hallgrímskirkjuturns.
„Vindmyllurnar myndu bera við himin í um 900 metra hæð yfir sjávarmáli – ekkert mun skyggja á þær,“ benda eigendur jarðarinnar Kalastaða á. „Þetta mun því valda sjónmengun víða og til allra átta. Hvernig verða lífsgæði allra sem sviptir verða þeim lífsgæðum sem felast í kyrrð og náttúruhljóðum metin?“
Sjónmengunin er stórt atriði í hugum þeirra tuga manna sem ýmist búa á svæðinu eða dvelja þar í sumarhúsum sínum hluta úr ári og gerðu athugasemdir við matsáætlun Zephyr fyrir vindorkuverið. Yfir þúsund manns til viðbótar skrifuðu svo undir mótmæli vegna áformanna.
Ferðaþjónustan er orðin mjög mikilvæg grein í Hvalfjarðarsveit og nábýli við vindorkugarð mun skaða hana, er m.a. ítrekað bent á. Vindmyllurnar munu sjást frá mjög fjölsóttum ferðamannastöðum eins og fossinum Glym, Síldarmanngötum, Leggjabrjóti og Þingvöllum. Þær munu einnig sjást úr Kjós, Skorradal, frá Akranesi og uppsveitum Borgarfjarðar. Frá Langjökli, Þórisjökli og af Skjaldbreið.
„Við þurfum þetta ekki og við viljum þetta ekki,“ segir einn íbúi í sinni umsögn. Þar með kjarnar hann inntak allra athugasemdanna sem sendar voru Skipulagsstofnun vegna matsáætlunarinnar. Í þeim er vakin athygli á þekktum umhverfisáhrifum vindorkuvera, m.a. sjón- og hljóðmengun sem og hættunni sem steðjar að fuglum, en einnig á lítt þekktari áhrifum á borð við örplast sem veðrast í tuga kílóavís af hverri vindmyllu á hverju einasta ári. Bent er á að plastið berist um allt og óttast að það mengi vatnsból og ógni heilsu.
Laumað inn í samfélagið
Fólkið gagnrýnir einnig algjört samráðsleysi fyrirtækisins, hvort sem er við næstu nágranna jarðarinnar Brekku eða við aðra landeigendur, ferðaþjónustufyrirtæki sem eru mörg og fer fjölgandi eða eigendur sumarhúsa. Einnig er bent á að meira að segja sveitarfélögin á svæðinu hafi litlar eða engar upplýsingar fengið um hvað þarna stendur til. „Næstu nágrannar hafa ekkert heyrt um þessar fyrirætlanir fyrr en matsáætlun var auglýst á vef Skipulagsstofnunar,“ segja íbúar á Hrafnabjörgum í Hvalfjarðarsveit. „Þessu er laumað inn í samfélagið og á að nást í gegn með því að vaða yfir íbúa.“
Hulda Guðmundsdóttir, sem býr að Fitjum í Skorradal, segir að því miður hafi fyrirtækið Zephyr, sem segist leggja mikið upp úr farsælum samskiptum við hagsmunaaðila og að samskipti við landeigendur og íbúa séu mikilvægust, ekki haft samband eða verið í nokkru samráði við landeigendur á Fitjum eða sumarhúsaeigendur á svæðinu. Þó sé bein sjónlína frá bænum að Brekkukambi.
Óvönduð vinnubrögð
Bærinn Bjarteyjarsandur er næsti byggði bær við Brekku og segja eigendur hans algjörlega óásættanlegt að fá vindorkuver – iðnað – í sitt næsta nágrenni. „Við matsáætlunina hefur á engum tíma verið leitað eftir samráði við næstu nágranna sem verður að teljast til óvandaðra vinnubragða,“ skrifa Kolbrún Eiríksdóttir og Sigurjón Guðmundsson. „Nei takk. Við skorum á Skipulagsstofnun og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að ýta þessum áformum út af borðinu áður en frekara tjón hlýst af.“
Hvalfjarðarsvæðið er „þvílíkt gersemi“ í næsta nágrenni þéttbýlasta svæðis landsins, skrifar Hilmar Þór Björnsson arkitekt. „Þar fer frístunda- og ferðaþjónusta vaxandi og með vindorkuveri yrði meiri hagsmunum kastað á glæ fyrir minni og gríðarleg tækifæri til langrar framtíðar glatast.“
Hvar sem drepið er niður í áætluninni eru rauð flögg, skrifar Ólafur Helgi Ólafsson, sumarhúsaeigandi í Hvalfjarðarsveit. „Það er í raun furðulegt að einhverjum skuli hafa látið sér detta í hug að setja þarna upp vindorkugarð,“ segir hann og bætir við: „Að halda áfram með þetta verkefni væri eins og að krota inn á málverk eftir Kjarval.“
Mótmælt „af miklum þunga“
Félag sumarbúastaðaeigenda í Fornastekk segir það lítt skiljanlegt að framkvæmdaaðila komi til hugar að ráðgera uppbygginu og starfsemi vindorkuvers á Brekkukambi „þar sem vindmyllur munu gnæfa yfir, í nálægð við mörg svæði sem skipulögð hafa verið sem frístundabyggðir svo ekki sé talað um þá sem hafa fasta búsetu í Hvalfirði og nágrenni“.
Sumarhúsafélagið í landi Kambhóls mótmælir áformunum „af miklum þunga“ og „leggst heilshugar“ gegn þeim.
Bæta þyrfti nýrri raflínu við
Í skýrslunni er dregin upp sú mynd að það sé mikilvægt fyrir staðarvalið að Sultartangalínur 1 og 3 séu við hið fyrirhugaða framkvæmdasvæði. „Þetta er vægast sagt kjánaleg athugasemd þar sem tenging 50 MW afls kæmi aldrei til greina inn á aðra hvora línuna vegna þess kostnaðar sem því yrði samfara,“ skrifar einn sumarhúsaeigandi. Tengingin myndi alltaf felast í loftlínu eða jarðstreng inn að spennistöð í Brennimel. Svæðið beri hins vegar einfaldlega ekki eina háspennulínu til viðbótar.
Eigendur Kalastaða segja að um land þeirra liggi nú þegar þrjár stórar raflínur. „Við munum ekki sætta okkur við eina línuna enn fyrir einkafyrirtæki í meirihlutaeigu Norðmanna og okkur er fullkunnugt um að því er einnig þannig farið með nágranna okkar.“
Slóðar þola ekki þungaflutninga
Annar bendir á að í áætluninni sé gert ráð fyrir að fara eftir gömlum vinnuslóða að framkvæmdasvæðinu og „styrkja hann eftir þörfum“ líkt og það er orðað í skýrslu Zephyr. „Þeir gríðarlegu þungaflutningar sem verkefnið útheimtir þurfa minnst 5-6 metra breiðan veg sem þolir akstursþunga tuga tonna ökutækja,“ skrifar Elísabet Halldórsdóttir. Fyrirhugaður vegur liggi í gegnum jörðina Þórisstaði í Svínadal og þar hafi ekkert verið rætt við landeiganda sem sé alfarið á móti framkvæmdinni. „Sumarhúsaeigendur í landi Brekku telja sig svikna með fyrirhuguðum framkvæmdum þar sem engin slík áform voru uppi þegar þeir keyptu lóðir sínar af sömu aðilum og standa nú fyrir áformum um vindmyllugarð á Brekkukambi.“
Vindorkuverum á ekki að tylla á fjallatoppa
Jörðin Stóri-Botn komst árið 1939 í eigu fjölskyldu sem á hana enn í dag. Innan jarðarinnar er meirihluti Botnsdals og fossinn Glymur. Hefur fjölskyldan æ síðan staðið vörð um framtíð dalsins sem náttúruperlu, segir í umsögn hennar. Hún segir framkvæmdamenn oft hafa litið svæðið hýru auga og gert áætlanir um t.d. virkjun í Botnsá, lagningu háspennulínu um dalinn og veg til Þingvalla. „Þessar framkvæmdir hefðu gjörspillt dalnum sem náttúruperlu og útivistarparadís enda börðust eigendur Stóra-Botns hart gegn þeim,“ skrifar fjölskyldan.
„Iðnaðarsvæðið á Grundartanga er nú þegar ærinn óskapnaður á ásýnd landsins í Hvalfirði og er fráleitt að kóróna þá ásýnd með vindmyllugarði sem bæri við himinn á Brekkukambi og það í grennd við þéttbýlasta hluta landsins. Svona mannvirkjum á ekki að tylla á fjallatoppa. Myndi einhverjum detta í hug að byggja vindorkuver á Úlfarsfelli, Mosfelli, Esjubrún eða Akrafjalli?“
Hvað með að setja verið í 101 Reykjavík?
Því ekki að nýta Kolbeinsey til að reisa vindmyllur, leggur Björn Halldórsson, sumarhúsaeigandi í Skorradal til, „eða finna stað þar sem þær blasa við öllum úr 101 Reykjavík hvar skrifstofa Zephyr Iceland er staðsett. Þeim sem þannig er umhugað um vindmyllur geta þá dáðst að þeim í sínu nærumhverfi“.
Ekki brjóta ísinn
Útsýni er ein af náttúruauðlindum Íslands, skrifar Gunnlaugur A. Júlíusson hagfræðingur. „Mikilvægt er að spilla ekki yfirbragði landsins meira en þegar hefur verið gert með lagningu rafmagnslína. Að byggja risavaxin vindorkuver uppi á hálsum og heiðum sem munu sjást í tuga eða hundruð kílómetra fjarlægð er verulegt inngrip í ásýnd og yfirbragð landsins.“
Með því að hleypa af stað einni framkvæmd af þessari gerð, sem hefur áhrif á ásýnd landsins í tuga kílómetra radíus væri „ísinn brotinn og uppbygging áþekkra mannvirkja væri hafin um allt land,“ skrifar hann.
Elísabet Halldórsdóttir tekur undir þetta og þykir það ekki heillavænleg þróun að fjársterkir, erlendir aðilar geti „ætt af stað og byggt upp vindmyllugarða hvar sem þeir vilja“. Viss líkindi séu með öllum þessum vindorkuáformunum og því þegar norskir aðilar hófu að byggja upp fiskeldi áður en ríkið var búið að setja regluverk um slíka starfsemi við Íslandsstrendur.
Einu hvatarnir að græða
„Það hlýtur að vera eðlileg og sanngjörn krafa að stjórnvöld fari fyrst í að skoða og greina möguleg svæði sem gætu nýst fyrir orkuöflun með vindmyllum í stað þess að taka einstök verkefni einkaaðila fyrir sem hafa enga hvata aðra en að græða á umræddu verkefni með sem minnstum tilkostnaði,“ segja Friðrik Friðriksson og Bryndís María Leifsdóttir, íbúar í Hvalfjarðarsveit, í sinni umsögn.
„Ein megin ástæða þess að við fjárfestum á sínum tíma í sumarhúsi að Vatnsendahlíð var sú að eignin stóð á vatnalóð og bauð upp á einstakt útsýni þar sem Skorradalsvatn og fjöllin í kring mynduðu einstaka og óskerta náttúrusýn,“ skrifar Sjöfn Evertsdóttir. „Ef af fyrirhuguðum framkvæmdum verður er augljóst að sú sýn mun ekki lengur vera til staðar.“
Munu engu skila fyrir nærsamfélagið
Hulda Guðmundsdóttir, Fitjum, hefur staðið fyrir gönguferðum skammt frá Brekkukambi og víðar á svæðinu. Einn aðalsjarmi svæðisins eru hin ósnortnu víðerni. „Engar mótvægisaðgerðir munu nokkru sinni geta breytt þeirri staðreynd að vindmyllur eru framandi og varanlegt lýti á allri ásýnd landslagsins. Þær munu blasa við frá stórum hluta Borgarfjarðar.“
Heiðrún Jónsdóttir, eigandi jarðarinnar Dagverðarness segir framkvæmdina engu skila í samfélagið „nema ömurlegri ásýnd og óafturkræfum skemmdum á umhverfi í Hvalfjarðarsveit, Skorradal og nálægum sveitum“.
Ábúendur og ferðaþjónustubændur á Kalastöðum telja að vandfundinn sé sá staður á landinu þar sem vindmyllur eiga síður heima en einmitt á Brekkukambi. „Fjallasýnin hér er einstök.“ Þeir segja að velta megi fyrir sér hvort Zephyr Iceland sé að setja fram óraunhæfa áætlun vísvitandi til að geta bakkað, ákveðið að setja upp lægri vindmyllur, og haldið því svo fram „að með því hafi verið komið til móts við íbúa og aðra sem andmælt hafa framkvæmdinni“.
Matsáætlun Zephyr fyrir vindorkuver í landi Brekku var auglýst í sumar og skiluðu líkt og að ofan er rakið tugir fólks umsögnum auk þess sem yfir 1.000 einstaklingar skrifuðu nafn sitt á skjal þar sem því er harðlega mótmælt að verið rísi.
Reikna með að umhverfismatið takið 2-3 ár
Matsáætlun er eitt fyrsta skrefið sem framkvæmdaaðilar taka í átt að mati á umhverfisáhrifum. Það næsta felst í því að yfirfara innkomnar athugasemdir, bæði frá einstaklingum og stofnunum og svara þeim og senda Skipulagsstofnun sem mun svo gefa álit sitt á matsáætluninni.
Þá hefst síðasta skrefið, að skila umhverfismatsskýrslu sem allir geta einnig skilað athugasemdum við. Ferlinu lýkur svo með áliti Skipulagsstofnunar.
Í matsáætluninni, sem verkfræðistofan EFLA vann fyrir Zephyr Iceland, segir óvíst hvenær framkvæmdir við uppsetningu vindorkugarðsins gætu hafist. Fram kemur að umhverfismatsferlið geti tekið 2-3 ár.