Ekkert af fjórum húsnæðisfrumvörpum Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, náði fram að ganga á þingi í vetur, þvert á yfirlýsingar. Þingi var slitið í gær og kemur saman í september. Eygló hafði talað um það í vetur að húsnæðismálin yrði að klára á þessu þingi og að jafnvel ætti að halda sumarþing til þess að klára þau. Jafnvel þótt þingið hafi starfað langt fram á sumar komust málin ekki úr nefnd.
Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar voru boðuð fjögur frumvörp um húsnæðismál á liðnum vetri. Það voru frumvarp til laga um húsnæðisbætur, um húsnæðissamvinnufélög, um breytingu á húsaleigulögum og um húsnæðismál, en hið síðastnefnda fjallar um stofnstyrki til félagslegs leiguhúsnæðis. Breytingar á húsaleigulögum og frumvarp um húsnæðissamvinnufélög komu inn í þingið 1. apríl. Hins tvö frumvörpin létu hins vegar á sér standa, eða þar til frumvarp um húsnæðisbætur kom inn í þingið þann 8. júní. Þá var orðið ljóst að frumvarp um stofnstyrki yrði ekki lagt fram fyrr en í haust. Þrjú frumvarpanna komu sem sagt fram, og þau voru öll til umfjöllunar í velferðarnefnd þegar þingið lauk störfum. Því er ljóst að leggja þarf þau fram aftur á haustþinginu.
Deilur milli ráðuneyta og ráðherra
Frumvarpanna tveggja sem ekki komu fram í vor var beðið lengi. Þau höfðu bæði verið boðuð á haustþingi í fyrra. Þegar ljóst var að svo yrði ekki átti frumvarp um húsnæðisbætur að koma fram í febrúar og frumvarp til laga um stofnframlögin að koma fram í mars.
Fjármálaráðuneytið greindi Kjarnanum frá því þann 15. maí að frumvarp um stofnstyrki hefði verið dregið til baka úr kostnaðarmati í ráðuneytinu og ekki væri von á því að það yrði lagt fram aftur á þessu þingi, verið væri að skoða mjög breytta útgáfu af því frumvarpi. Þegar svarið barst frá ráðuneytinu höfðu frumvörpin tvö verið í kostnaðarmati þar í sjö vikur. Fjármálaráðuneytið sagði að við greiningu á frumvarpinu hafi vaknað mörg álitaefni og í kjölfarið hafi velferðarráðuneytið hætt við að leggja fram frumvarpið.
Fjármálaráðuneytið hafði líka til skoðunar frumvarp húsnæðismálaráðherrans um húsnæðisbætur og í svari fjármálaráðuneytisins var velferðarráðuneytið gagnrýnt, og sagt að vinnsla hafi tekið mikinn tíma þar sem skort hafi mjög á talnalegar greiningar á áhrifum frumvarpsins.
Í kjölfarið á þessum fréttum þvertók Eygló fyrir að hún hefði dregið nokkuð til baka. „Fjármálaráðuneytið hefur óskað eftir því að ég afturkalli frumvörpin, ég hef hafnað því. Sú beiðni var ítrekuð gagnvart stofnframlögunum en ég hef hafnað því að kalla þessi frumvörp til baka og óskað eftir því að fá kostnaðarmat á þau,“ sagði Eygló í samtali við Kjarnann þá.
Hún sagðist þá vera reiðubúin að gera breytingar á frumvörpunum til að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins og sagði frumvörp sína geta verið innlegg stjórnvalda í kjaradeilurnar sem þá ríktu. „Ef hins vegar það næst ekki niðurstaða á vinnumarkaði þannig að þetta verði hluti af okkar framlagi inn í þær deilur, þá mun ég leggja fram mín frumvörp óbreytt.“ Þá var komið að Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, sem sagði eftir ummæli Eyglóar að framganga hennar kæmi honum verulega á óvart. Hennar mál eins og önnur þurfi að vera fullunnin áður en kostnaðarmat á þeim sé framkvæmt og Eygló þyrfti að sætta sig við að hennar mál séu unnin eftir sömu reglum og önnur.
Voru hluti af sátt á vinnumarkaði
Þann 28. maí kynnti ríkisstjórnin svo sínar aðgerðir til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Þar á meðal var yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál. Þar var meðal annars að finna loforð um þessi tvö mál, stofnstyrki til uppbyggingar félagslegs leiguíbúðakerfis og nýtt húsnæðisbótakerfi. Í yfirlýsingunni kemur fram að frumvarpið um húsnæðisbætur ætti að að koma fyrir vorþing í ár og önnur frumvörp á haustþingi, þau ætti að afgreiða fyrir áramót.
Þann 8. júní var svo frumvarpið um húsnæðisbætur lagt fram á þinginu, þrátt fyrir að umsögn fjármálaráðuneytisins um það hefði sýnt að ráðuneytið hefði miklar efasemdir um það. Meðal annars var sagt að samkvæmt greiningum myndi niðurgreiðsla húsaleigu verða hlutfallslega meiri eftir því sem tekjur heimilisins væru hærri. Það er í andstöðu við yfirlýst markmið frumvarpsins, sem er að auka stuðning við efnaminna fólk.
Þá sagði fjármálaráðuneytið að aukinn ríkisstuðningur af þessu tagi muni að öllum líkindum leiða til þess að leiguverð hækki og það muni hagnast leigusölum. Þá munu nýju bæturnar ekki koma öryrkjum og öldruðum eins vel og þeim sem eru í námi eða vinnu.