Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig þeir 5,8 milljarðar króna sem greiða á út sem sérstakan persónuafslátt vegna leiðréttingarinnar skiptast á milli aldurs- og tekjuhópa eða landssvæða. Það fólk sem sótti um og fékk samþykkta leiðréttingu, en það kallast aðgerð ríkisstjórnarinnar um að greiða niður verðtryggð húsnæðislán þeirra sem voru með slík árin 2008 og 2009, sem er ekki lengur með húsnæðislán til að láta greiða inn á fær greitt í gegnum sérstakan persónuafslátt.
Auk þess liggur ekki fyrir að nákvæmlega 5,8 milljarðar króna verði greiddir út í gegnum sérstakan persónuafslátt, enda dreifist aðgerðin á fjögur ár. Þetta kemur fram í svörum embættis ríkisskattstjóra við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Búið að óska eftir nýrri leiðréttingarskýrslu
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skilaði skýrslu um aðgerðina í upphafi liðinnar viku. Skýrslan átti að vera svar við fyrirspurn sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafði lagt fyrir á Alþingi átta mánuðum áður. Katrín, og fulltrúar annarra flokka í stjórnarandstöðunni, voru ekki sátt með umfang þeirra upplýsinga sem veittar voru í skýrslunni og hafa lagt fram beiðni um nýja skýrslu sem svari fleiri spurningum.
I kjölfarið lagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra um niðurfærslu húsnæðislána samkvæmt 110 prósent leiðinni svokölluðu, sem framkvæmd var í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.
Í skýrslu Bjarna er greint frá því hvernig tæplega 70 milljarðar króna af þeim 80,4 milljörðum króna sem greiddir verða út vegna leiðréttingarinnar skiptast á milli aldurs- og tekjuhópa og landssvæða þeirra sem þiggja greiðsluna. Í skýrslunni er hins vegar ekki greint frá því hvernig þeir 5,8 milljarðar króna sem greiddir eru sem sérstakur persónuafsláttur skiptist á milli aldurs- og tekjuhópa og landssvæða. Kjarninn beindi fyrirspurn til embættis ríkiskattstjóra vegna málsins.
Í svari Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra segir að greiðslur sérstaka persónuafsláttarins skiptist á fjögur ár. „Sérstakur persónuafsláttur sem færður var á móti álagningu opinberra gjalda var kr. 1.304.876.781. Af þeirri fjárhæð var nýttur kr. 1.174.796.054. Mismunurinn færist til næsta árs og síðan koll af kolli þar til fjögur ár eru liðin. Það sem þá er enn ónýtt fellur niður.
Því miður er vöruhús gagna ekki tilbúið vegna álagningar 2015 og ekki unnt að svara spurningunni eftir tekjubilum. Það kallar einnig á sérkeyrslu.“
Hluti fer til fólks sem borgar ekki skatta né skuldar á Íslandi
Í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána, sem birt var á mánudag, voru birtar ýmsar skýringarmyndir sem sýndu skiptingu þess fjár sem ríkissjóður greiðir í aðgerðina milli aldurs- og tekjuhópa og landssvæða.
Kjarninn kallaði eftir frekari upplýsingum um tölurnar að baki skýringarmyndunum og fékk þær afhentar síðdegis á mánudag. Samkvæmt þeim er heildarupphæð þess sem ráðstafað var inn á höfuðstólslækkanir einungis 69,7 milljarðar króna, ekki 80,4 milljarðar króna líkt og sagt var að heildarupphæðin sé í skýrslunni. Því vantaði útskýringar á 10,7 milljarða króna útgjöldum í skýringarmyndunum.
Kjarninn óskaði eftir skýringum á þessu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Samkvæmt þeim skýrist þetta misræmi á því að um 5,8 milljörðum króna á að ráðstafa í sérstakan persónuafslátt í gegnum skattkerfið, líkt og segir hér að ofan.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að það sem út af stendur, um 4,8 milljarðar króna, tengist meðal annars því að aðilar sem hafi ekki fengið birtingu á leiðréttingu sinni og aðilar sem samþykktu ekki ráðstöfun lækkunar innan settra tímamarka, séu ekki teknir með í greiningunni. Það sem út af standi, að teknu tilliti til þess hóps, tengist því að„í greiningarkafla skýrslunnar eru umsækjendur sem ekki voru framtalsskyldir á Íslandi 2013 utan við úrtakið og því stemma ekki ráðstafaðar fjárhæðir við uppreiknaðar heildarfjárhæðir á bakvið greiningarnar.“ Því er hluti þeirra sem fær greitt úr leiðréttingunni, einstaklingar sem borga ekki skatta né skulda nokkuð á Íslandi, og skila því ekki skattframtali hérlendis. Þessi hópur getur hvorki fengið greitt inn á höfuðstól, þar sem hann hvorki á né skuldar af fasteign, né sérstakan persónuafslátt, þar sem hann greiðir ekki skatta á Íslandi.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynna útfærslu og umfang leiðréttingarinnar í nóvember 2014.
Tölurnar ekki brotnar niður
Í svari ráðuneytisins kemur ekki fram hvernig þessir 4,8 milljarðar króna skiptast á milli ofangreindra hópa en í skýrslunni er tilgreint að 91,9 prósent af heildarupphæðinni, 80,4 milljörðum króna, eigi að renna inn á höfuðstól lána, eða alls 73,9 milljarðar króna. Það þýðir að um fjórir milljarðar króna til viðbótar eigi eftir að greiðast inn á lán þeirra sem hafa ekki fengið birtingu á leiðréttingu sinni eða hafa ekki samþykkt hana innan settra tímamarka. Raunar er því fólki í sjálfvald sett hvort það samþykki greiðsluna. Miðað við þessar forsendur, sem tilgreindar eru í skýrslunni, fara um 700 milljónir króna til einstaklinga sem voru ekki framtalsskyldir á Íslandi árið 2013.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um skýrslu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, frá því að hún kom út á mánudag. Hægt er að sjá hvernig þeir 69,7 milljarðar króna sem greiddir voru inn á höfuðstól lána eftir aldurs- og tekjuhópum og landssvæðum hér.