Ekkert rannsóknarembætti hefur rannsakað 500 milljóna evra neyðarlán sem Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi 6. október 2008. Rannsóknarnefnd Alþingis skoðaði lánveitinguna ítarlega en hún var ekki á meðal þeirra mála sem nefndin tilkynnti til ríkissaksóknara þegar hún lauk störfum.
Samkvæmt lögum um starfsemi nefndarinnar átti hún að tilkynna ríkissaksóknara um öll mál „ef grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað og tekur hann ákvörðun um hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála“.
Embætti sérstaks saksóknara hefur ennfremur ekki formlega rannsakað málið, en það getur tekið mál upp að eigin frumkvæði. Fjárlaganefnd Alþingis fjallaði lengi um málið og kallaði eftir ýmsum upplýsingum um það, en á vegum hennar fór ekki fram formleg rannsókn.
Kostaði skattgreiðendur 35 milljarða króna
Kjarninn greindi frá því 2. október síðastliðinn að skattgreiðendur hafi tapað 35 milljörðum króna á lánveitingunni. Ástæðan er sú að veðið sem var sett fyrir henni, danski FIH bankinn, reyndist fjarri því jafn verðmætur og haldið var fram við veitingu lánsins.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, sprengdi málið síðan upp í aðsendri grein í Fréttablaðinu í síðustu viku þar sem hann sagði að Seðlabankinn hefði ekki gengið frá veðsetningu FIH bankans til sín og að engin lánaskjöl hafi verið undirrituð vegna lánsins fyrr en mörgum dögum eftir að lánið var lagt inn á Kaupþing. Fréttablaðið sló greininni upp á forsíðu og hún vakti mikla athygli.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, skrifaði grein í Fréttablaðið í lok síðustu viku sem vakti mikla athygli.
Í kjölfarið var sú hugmynd viðruð víða, meðal annars af hagfræðingnum Ólafi Arnarssyni, að lánveitning Seðlabankans til Kaupþings væru alveg eins umboðssvik eins og þau brot sem stjórnendur viðskiptabankanna hafa verið ákærðir fyrir af embætti sérstaks saksóknara og snúa að óvarlegum lánveitingum þeirra.
Seðlabankinn segir Hreiðar Má vera að ljúga
Seðlabankinn svaraði grein Hreiðars Más samdægurs og sagði að hann væri að ljúga.
Í yfirlýsingu sagði að starfsmenn bankans hefðu strax gengið í „að fullvissa sig um að veðið fyrir láninu til Kaupþings stæði til reiðu og lögmaður Kaupþings gerði hluthafaskrá í Danmörku strax viðvart um að Seðlabnakinn væri að taka veð í öllum hlutum FIH-bankans. Veðgerningurinn var fullkláraður fyrir lok viðskiptadags og réttarvernd veðsins hafði þá verð að fullu tryggð. Stjórnendur Kaupþings undirrituðu gerninginn fyrir lok viðskiptadags 6. október. Þannig að fullyrðingar um að ekki hafi verið gengið frá veðsetningu fyrr en mörgum dögum seinna eru rangar“.
Davíð Oddsson skrifaði harðort Reykjavíkurbréf í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins þar sem hann tætir í sig grein Hreiðars Más.
Davíð Oddsson, fyrrum formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, átti síðan síðasta orðið þegar hann lagði Reykjavíkurbréfið í síðustu sunnudagsútgáfu blaðsins undir það að hafna því sem Hreiðar Már hafði sagt í grein sinni og tæta í sig Fréttablaðið í leiðinni. Þar sagði Davíð: „Í gær var birt yfir þvera forsíðu Fréttablaðsins lygafrétt með viðeigandi myndum um stofnun og raunar einstakling sem öll fjölmiðlasamsteypan hefur haft veiðileyfi á síðan ítök núverandi eigenda hófust þar, þótt um hríð væri logið til um eignarhaldið[...]Eitt símtal við viðkomandi, stofnunina eða einstaklinginn hefði tryggt að blaðið yrði ekki sér til skammar með breiðsíðu sinni“.
Símtalið milli Davíðs og Geirs
Símtal Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddsonar, þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabankans, sem fram fór sama dag og neyðarlánið til Kaupþings var veitt hefur aldrei verið birt opinberlega. Því liggur ekki fyrir hvort það geti varpað einhverju ljósi á atburðarrás sem á endanum kostaði íslenska skattgreiðendur 35 milljarða króna.
Ástæða þess að símtalið hefur ekki verið birt opinberlega er sú að Geir hefur ekki heimilað það með þeim rökum að hann hafi ekki vitað að það hefði verið tekið upp og að samtöl við forsætisráðherra við svona aðstæður ættu aldrei að vera tekin upp.
Ýmsir hafa hins vegar séð útskrift af símtalinu. Þeirra á meðal eru þrír einstaklingar sem sátu í Úrskurðarnefnd um upplýsingamál árið 2012 og einhverjir starfsmenn Umboðsmanns Alþingis.