Viðræður Íslands, Noregs og Liechtenstein, ríkjanna þriggja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), við Evrópusambandið (ESB) vegna greiðslna í Þróunarsjóð EFTA hafa enn ekki skilað neinum árangri.
Greiðslurnar eru oft kallaðar aðgöngumiðinn að innri markaði Evrópu, það gjald sem EES-löndin þrjú greiða fyrir aukaaðild sína að þessum stærsta útflutningsmarkaði sínum án þess að vera fullgildir meðlimir Evrópusambandsins.
Frá árinu 1994, þegar EES-samningurinn gekk í gildi, hefur þurft að endursemja um þennan aðgöngumiða á fimm ára fresti. Síðasta samkomulag rann út 30. apríl 2014 og því má segja að samningar hafi verið lausir í tæpt ár. Ástæðan: Evrópusambandið hefur farið fram á allt að þriðjungshækkun á framlögum í sjóðinn.
Miðað við þær kröfur myndi Ísland þurfa að greiða um 6,5 milljarða króna í sjóðinn næstu fimm árin, en á tímabilinu 2009-2014 greiddum við 4,9 milljarða króna. Ekkert EFTA-ríkjanna þriggja sem greiða í sjóðinn eru tilbúin til að ganga að þessum kröfum og taka á sig hækkanir af þessari stærðargráðu. Og Evrópusambandið, að minnsta kosti enn sem komið er, vill ekki gefa neitt eftir.
Samningurinn runninn út
Samið er til fimm ára í senn um framlögin. Síðast náði samkomulagið yfir tímabilið frá 1. maí 2009 til 30. apríl 2014. Það samkomulag er því á enda runnið fyrir tæpu ári síðan. Viðræðurnar um það samkomulag voru fjarri því að vera dans á rósum. Þær gengi raunar það erfiðlega að ekki samdist fyrr en tæpu ári eftir að fyrra samkomulag var útrunnið, eða á fyrri hluta árs 2010.
Þá var samið um að framlög Íslands, Noregs og Liecthenstein myndu hækka um 33 prósent á milli tímabila en að tvö síðarnefndu ríkin myndu taka meiri hluta hækkunarinnar á sínar herðar vegna þeirrar stöðu sem var uppi í íslensku efnahagslífi eftir bankahrunið haustið 2008. Heimildir Kjarnans herma að kröfur Evrópusambandsins um hækkun séu að sambærilegri stærðargráðu og um samdist síðast.
Utanríkisráðuneytið leiðir viðræðurnar við Evrópusambandið fyrir hönd Íslands. Gunnar Bragi Sveinsson er utanríkisráðherra.
Samkvæmt síðasta samkomulagi greiddu EES-ríkin tæpan milljarð evra, um 150 milljarða króna á verðlagi dagsins í dag, í sjóðinn. Þar af greiða Norðmenn tæplega 95 prósent upphæðarinnar. Til viðbótar felur samkomulagið um greiðslur EES-ríkjanna til Evrópusambandsins í sér að Norðmenn greiða til hliðar í sérstakan Þróunarsjóð Noregs. Alls borguðu Norðmenn tæpa 125 milljarða króna í hann á tímabilinu. Þeir greiddu því um 260 milljarða króna fyrir aðgöngu sína að innri markaðnum. Ljóst er að þorri þeirrar fjárhagslegu byrðar sem greiðslurnar orsaka lenda á Norðmönnum. Ástæður þessa eru einfaldar. Þegar upphaflega var samið um greiðslurnar þá var ákveðið að framlag hverrar þjóðar fyrir sig myndi reiknast út frá landsframleiðslu og höfðatölu. Norðmenn eru langríkasta og langfjölmennasta EFTA-ríkið sem á aðild að EES-samningnum og borgar þar af leiðandi lang mest.
Greiðslur Íslands aukist um 70 prósent
Greiðslur Íslands voru mun lægri, þótt þær hafi farið ört hækkandi. Frá árinu 1994, þegar EES-samningurinn gekk í gildi, og fram til 1. maí 2009 greiddum við samtals 2,9 milljarða króna á verðlagi ársins 2010. Þrátt fyrir að Íslandi hafi verið sýnt skilningur í síðasta samningi þá jukust greiðslur landsins samt sem áður gríðarlega og voru 4,9 milljarðar króna á árunum 2009-2014. Þar af er áætlað að við greiddum um 1,4 milljarða króna í sjóðinn í fyrra, á árinu 2014. Aðgöngumiðinn að innri markaði Evrópusambandsins er því að hækka mjög hratt í verði. Greiðslur Íslands á síðust fimm árum eru 70 prósent hærri en greitt var í sjóðinn fimmtán árin þar áður.
Viðræður hófust í byrjun árs 2014
Viðræður um nýtt samkomulag hófust snemma á síðasta ári. Fyrsti formlegi fundur EFTA-ríkjanna og fulltrúa Evrópusambandsins vegna þess var 22. janúar síðastliðinn. Síðan þá hafa tveir aðrir formlegir fundir verið haldnir, sá síðasti á vormánuðum. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur þokast mjög lítið í átt nýju samkomulagi. Munurinn á þessum viðræðum og þeim sem hafa átt sér stað áður vegna framlaganna eru þær að nú eru Norðmenn jafn harðir í afstöðu sinni gegn því að greiða meira og Íslendingar .
Þriðji fundur í viðræðum um nýjan samning fór fram í Brussel í síðustu viku. Honum lauk án niðurstöðu. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans stendur yfir störukeppni milli samningsaðila.
Þriðji fundur í viðræðum um nýjan samning fór fram í Brussel í síðustu viku. Honum lauk án niðurstöðu. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans stendur yfir störukeppni milli samningsaðila. Það er ekki óalgengt að slík staða komi upp þegar verið er að endursemja um framlög í sjóðinn, en nú hefur hún staðið yfir í mun lengri tíma en áður.
Heimildir Kjarnans herma að það langt sé enn á milli samningsaðila að töluvert sé í land að samningsaðilar nái saman. Kröfur Evrópusambandsins um auknar greiðslur séu einfaldlega enn mun hærri en Ísland, Noregur og Liecthenstein sætti sig við.
Gæti sett tilurð EES-samningsins í uppnám
Vert er að taka fram að minni hópar á vegum viðræðenda hafa fundað í millitíðinni, enda hanga önnur atriði á samningnum en bara framlög í sjóðinn. Þar ber helst að nefna ákveðna innflutningskvóta á fiski inn á markaði í Evrópusambandinu sem eru bæði Íslandi og Noregi mjög fjárhagslega mikilvægir.
Í raun er enginn formlegur lokafrestur sem ljúka þarf viðræðunum fyrir. Flækjustígið mun hins vegar aukast eftir því sem samkomulagið dregst og erfiðara verður að framkvæma úthlutanir úr sjóðnum. Þá er auðvitað sá möguleiki fyrir hendi að ekki takist að semja. Þá er EES-samningurinn í uppnámi.
Mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands
EES-samningurinn er mikilvægasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert. Hann veitir Íslandi nokkurskonar aukaaðild að innir markaði Evrópu án tolla og gjalda á flestar vörur. Um 80 prósent af útflutningi okkar fer til Evrópu, að langmestu leyti til landa sem tilheyra innri markaðinum, og um 60 prósent af því sem við flytjum inn koma þaðan.
Vankostirnir við EES-samninginn eru síðan þeir að Ísland undirgekkst að taka upp stóran hluta af regluverki Evrópusambandsins án þess að geta haft nokkur áhrif á mótun þess. Í Evrópustefnu sitjandi ríkisstjórnar er lögð áhersla á að efla hagsmunagæslu Íslands innan EES og stórefldu samstarfi við Norðmenn á þeim vettvangi. Þessari stefnu eigi að framfylgja meðal annars með því að koma sjónarmiðum Íslands á fram í löggjafarstarfi Evrópusambandsins strax á fyrstu stigum mála. Það er ljóst að slík hagsmunagæsla mun kosta töluvert fé, enda nauðsynlegt að fjölga verulega starfsfólki í Brussel, aðalbækistöð Evrópusambandsins, til að framfylgja henni.
Hvað er Þróunarsjóður EFTA og hverja styrkir hann?
Þróunarsjóður EFTA var settur upp sem hluti af EES-samningnum, sem gekk í gildi 1. janúar 1994. EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liecthenstein greina í hann eftir stærð og landsframleiðslu hvers þeirra. Yfirlýstur tilgangur hans er að vinna gegn efnahagslegri- og félagslegri mismunum í þeim ríkjum Evrópusambandsins sem þiggja aðstoð úr sjóðnum.
Styrkir eru greiddir út á grundvelli áætlanna sem styrktarlöndin gera. Á síðasta samningstímabili runnu greiðslur úr sjóðnum til 15 Evrópusambandslanda sem uppfylltu skilyrði til að þiggja þær. Stærstu heildarstyrkirnir fóru til Póllands (267 milljónir evra) og Rúmeníu (191 milljón evra). Önnur ríki sem fengu greiðslur eru Bulgaría, Kýpur, Tékkland, Eistland, Grikkland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Malta, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía og Spánn.