Í júlí var frumsýnd gamanmyndin Pixels, sem kemur úr smiðju framleiðslufyrirtækisins Happy Madison. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, enda gefur fyrirtækið út margar myndir á hverju ári. Þær eiga það flestar sameiginlegt að njóta töluverðra vinsælda á meðal áhorfenda en fá skelfilega dóma hjá gagnrýnendum. Happy Madison er enda kallað drasl-framleiðslufyrirtæki (e. slop-shop) í mörgum bandarískum miðlum.
Í þetta skiptið var hins vegar eins og mörgum hafi hreinlega ofboðið. Umsagnirnar voru nánast allar á einn veg: þessi mynd er hræðileg og eiginlega móðgun við viti borna áhorfendur.
Föstudaginn 11. desember var fyrsta myndin af fjórum sem Sandler og Happy Madison gerðu fyrir Netflix frumsýnd á veitunni. Hún heitir The Ridiculous 6 og hefur ekki síður fengið hræðilega dóma og verið gagnrýnd fyrir að vera rasísk. Í einum dómnum um hana á Rotten Tomatoes-síðunni segir að myndin sé ekkert verri en aðrar Adam Sandler-myndir. Hún væri bara jafnslæm og allar hinar.
En er það eitthvað nýtt? Hefur þetta framleiðslufyrirtæki Adam Sandler og vina hans ekki verið að bjóða upp á slíkar móðganir árum saman?
Ekki kvikmynd heldur vettvangur glæps
Pixels var leikstýrt af Chris Columbus, sem hefur átt nokkuð farsælan feril undanfarin 30 ár. Hann skrifaði handritið af költ-myndunum The Goonies og Gremlins um miðjan níunda áratuginn, leikstýrði síðan Home Alone-myndunum, skelfilegu peningavélinni Mrs. Doubtfire og tveimur af Harry Potter-myndunum. Pixels var fyrsta myndin sem hann vann með Happy Madison-genginu og því áttu sumir von á bætingu frá þeim myndum sem fyrirtækið hafði sent frá sér árin á undan. Þá þótti hugmyndin sem myndin hverfist um, barátta tölvuleikjahetja frá níunda áratugnum við geimverur sem mistúlka myndbandsupptökur úr spilakössum sem stríðsyfirlýsingu, þess eðlis að hún gæti vakið fortíðarþrá hjá þeirri kynslóð sem spilaði Packman og Space Invaders til viðbótar við að höfða til ungmenna nútímans sem sækja í áreynslulausa afþreyingu.Þær vonir hurfu fljótt þegar dómar gagnrýnenda um myndina hófu að birtast eftir að hún var frumsýnd fyrir um viku síðan. Vox-vefurinn segir í fyrirsögn að myndin sé einfaldlega algjört drasl. Dómurinn hefst síðan á eftirfarandi orðum: „Pixels er kvikmynd. Það er það besta sem ég get sagt um hana.“
MovieBob gekk lengra og sagði Pixels vera svo vonda að myndin láti áhorfendur hata hluti sem þeir áður elskuðu. Pixels væri ekki kvikmynd, hún væri vettvangur glæps.
Sýn gagnrýnenda virðist vera að endurspegla skoðun áhorfenda. Á Rotten Tomatoes-vefnum mælist Pixels einungis með 18 prósent í einkunn.
Þrjú orð: Adam F#%&ing Sandler
Það er margt sem truflar gagnrýnendurna. Það truflar þá að Kevin James (sem varð frægur fyrir að leika feita og óþolandi sendilinn sem átti fallegu konuna í upprunalegu útgáfu þeirrar síðan margframleiddu mýtu, þáttunum King of Queens) leiki forseta Bandaríkjanna. Það sé einfaldlega aldrei trúverðugt að nokkur muni nokkru sinni kjósa hann í nokkurt embætti né fela honum ábyrgð. Karllægnin, sem birtist meðal annars í því að allar konurnar sem leika í myndinni hafa aðallega það hlutverk að vera verðlaunagripir sem karlhetjurnar vinna eða sem innihald blautra drauma þeirra, fer líka mjög fyrir brjóstið á mörgum. Svo er handritið náttúrulega algjör þvæla og leikararnir standa sig flestir illa, þótt þeir hafi ekki haft úr miklu að moða.
En flestir eru sammála um hver stærsti vandi myndarinnar er. Gagnrýnandi Marshable-vefsins náði að fanga það vandamál ágætlega með upphafsorðum sinnar rýni. Hún hefst á eftirfarandi orðum: „Pixels er formúla sem á ekki að geta klikkað. Takið grundvallar forsendur Galaxy Quest en skiptið út Star Trek fyrir retro-tölvuleiki, hendið inn nokkrum skemmtilegum tæknibrellum og hvað gæti mögulega klikkað? Þrjú orð: Adam F#%&ing Sandler“.
The Verge gengur skrefinu lengra og segir í fyrirsögn á rýni sinni: „Það þarf að stöðva Adam Sandler“.
En Las Vegas Weekly gengur líklega lengst allra. Í dómi blaðsins segir að það að kalla Pixels eina af verri myndum Adam Sandler sé „eins og að segja einn stofn ebólu minna þjáningarfullan en annan; hvernig sem er þá er upplifunin ekki notarleg“.
Lítilmennið sem stendur uppi sem sigurvegari
Hvað er svona hræðilegt við Adam Sandler? Hann hefur, með örfáum undantekningum, gert fremur einfaldar og heimskulegar myndir alla tíð. Eftir að hafa orðið þekktur í Saturday Night Live-þáttunum snemma á tíunda áratugnum lék hann aðalhlutverk í tveimur költ-myndum, Billy Madison og Happy Gilmore, og þótti leiðandi fyrir ferska tegund gamanleiks sem einkenndist af ofsa og óviðeigandi aðstæðum. Leiðandi þema, sem hefur verið endurtekið ítrekað í síðari myndum, var að lítilmennið geti komist yfir stórkostlegar hindranir og staðið uppi sem ólíklegur sigurvegari. Það lætur áhorfendum líða vel í lok myndar.
Árið 1998 breyttist allt hjá Sandler og félögum hans. Þá leikstýrði Frank Coraci, sem ásamt Dennis Dugan hefur leikstýrt flestum myndum Happy Madison, honum í tveimur myndum sem slógu báðar ævintýralega í gegn.
Önnur hét The Wedding Singer. Þar lék Sandler brúðkaupssöngvara á níunda áratugnum sem þráði að finna ástina. Hún er að mörgum talin á meðal skárstu myndum sem Sandler hefur komið að í gegnum tíðina. Hagnaður myndarinnar reyndist á endanum vera meira en 100 milljónir dala, eða um 13,4 milljarðar króna.
Hin hét The Waterboy og fjallaði um greindarskertan vatnsbera sem gat nýtt ofsareiði sína til að verða yfirburðarleikmaður í amerískum fótbolta.Myndin skilaði framleiðendum hennar alls um 163 milljónum dala, um 22 milljörðum króna, í hagnað.
Það fé sem féll Sandler og félögum hans í skaut var notað til að setja á fót hið nú alræmda framleiðslufyrirtæki Happy Madison, nefnt eftir Billy Madison og Happy Gilmore, sem hefur framleitt allar kvikmyndir sem Sandler hefur leikið í síðan utan tveggja.
Draslframleiðsla á sterum
Frá árinu 1999 hefur Happy Madison framleitt 36 kvikmyndir. Þær fá, nánast án undantekninga, hræðilega dóma. Á meðal mynda fyrirtækisins eru Deuce Bigalow: Male Gigalo, Paul Blart: Mall Cop, Joe Dirt og Bucky Larson: Born to Be a Star.Þá eru auðvitað ótaldar allar þær myndir sem Adam Sandler leikur sjálfur í. Listinn yfir þær er langur. Til að nefna fáeinar er vert að minnast á Little Nicky, Anger Management, The Longest Yard, I Now Pronounce You Chuck and Larry, You Don´t Mess with the Zohan, Funny People og Grown Ups.
Líkast til hefur engin verið tilnefndur jafn oft til Gullna hindbersins, verðlauna sem veitt eru fyrir verstu kvikmynd hvers ár, og aðstandendur Happy Madison. Alls hafa fimm myndir fyrirtækisins (Big Daddy, Little Nicky, Deuce Bigalow: European Gigalo, Bucky Larson: Born to Be a Star og Grown Ups 2) verið tilnefndar sem versta kvikmynd ársins. Enginn þeirra hefur reyndar unnið en stöðugleikinn í tilnefningum er aðdáunarverður.
Þá eru ótaldar þær tvær myndir Sandler sem hafa fengið versta útreið gagnrýnenda: Grown Ups 2 (er með sjö prósent á Rotten Tomatoes) og hin súreallíska Jack and Jill (með þrjú prósent á Rotten Tomatoes) þar sem Sandler leikur tvíbura af sitthvoru kyninu. Í alvöru.
Í þessum tveimur myndum kristallast hins vegar „vandamálið“ við þær myndir sem Happy Madison framleiðir og Adam Sandler leikur í. Sama hversu vonda dóma þær fá þá græða þær peninga. Fullt af peningum.
Adam Sandler hlær að okkur
Þannig skilaði Grown Ups 2 hagnaði upp á 167 milljónir dali, um 22,4 milljarða króna. Jack and Jill, ein versta mynd heimssögunnar að mati áhorfenda og gagnrýnenda, skilaði tæplega helmingi meiru í kassann en framleiðsla hennar kostaði, alls um 71 milljóna dala, eða 9,5 milljörðum króna.Alls hafa þær 35 myndir sem Happy Madison framleiddi áður en kom að Pixels skilað tæplega fjórum milljörðum dala í tekjur, eða um 536 milljarða króna. Það er ekki fjarri öllum útgjöldum íslenska ríkisins á einu ári. Flestar myndirnar eiga það sameiginlegt að vera frekar ódýrar í framleiðslu og heildarframleiðslukostnaður myndanna 35 er áætlaður um 1,7 milljarður dala. Ávöxtun Happy Madison frá árinu 1999 og fram til dagsins í dag er því um 135 prósent. Það sleppur.
Fyrir vikið er Adam Sandler orðinn svínslega ríkur og hefur verið einn hæstlaunaðasti leikari í Hollywood árum saman. Auður hans er metinn á um 350 milljónir dala, um 47 milljarða króna.
Það er því ljóst að þótt gagnrýnendur, og jafnvel grunlausir áhorfendur, séu ekki að hlægja mikið af steypunni sem Sandler og samstarfsmenn hans bera reglulega á borð fyrir þá, og láta metnaðar- og taktleysið sem einkennir myndirnar fara mjög í taugarnar á sér, að Sandler sjálfur getur hlegið alla leiðina í bankann. Fólk flykkist áfram á myndirnar hans. Hann er að mokgræða á þessu öllu saman og er þar með nokkurs konar raunveruleg útgáfa af uppáhaldssöguþræðinum hans, um lítilmennið sem sigrast á hindrununum og stendur uppi sem algjör sigurvegari.