Óhætt er að segja að fiskútflutningsfyrirtækinu Atlantic Seafood hafi vaxið fiskur um hrygg frá stofnun þess árið 2016. Rekstrartekjur fyrirtækisins árið 2020 voru, samkvæmt ársreikningi sem birtist í upphafi þessa mánaðar, 7,3 milljarðar króna, samanborið við 3,7 milljarða árið 2019 og um 2 milljarða árið 2018.
Á öðru starfsári fyrirtækisins árið 2017 voru tekjurnar 860 milljónir króna og síðan þá hefur fyrirtækið um það bil tvöfaldað veltu sína ár frá ári. Hagnaður af rekstri Atlantic Seafood árið 2020, á fimmta starfsári félagsins, nam 212 milljónum króna, en lykiltölur úr rekstri félagsins má sjá hér að neðan.
Félagið var stofnað af Gunnari Vali Sigurðssyni sem er jafnframt framkvæmdastjóri þess. Hann segir í samtali við Kjarnann að á rekstrarárinu 2021 hafi velta fyrirtækisins verið svipuð og árið 2020 og sennilega ögn minni. Hraður vöxtur fyrirtækisins virðist þannig hafa náð jafnvægi á nýliðnu ári.
Gunnar Valur var skráður eigandi alls hlutafjár í félaginu allt fram til ársins 2020 og eini stjórnarmaður þess, samkvæmt ársreikningum. Við árslok 2020 var 35 prósent hlutur í félaginu hins vegar kominn í eigu tveggja aðila, Elvars Þórs Alfreðssonar sem á 20 prósenta hlut og danska félagsins UpNorth Holding, sem hélt á 15 prósent hlut.
Eigandi danska félagsins er Bjarne Benedikt Pedersen, sem er samkvæmt danskri fyrirtækjaskráningu einnig stjórnandi þarlends félags sem ber nafnið Atlantic Seafood A/S. Þar eru þeir Gunnar Valur og Elvar einnig stjórnarmenn.
Árið 2020 hafi verið óvenjulegt í útflutningi
Samhliða örum vexti Atlantic Seafood hefur verið vöxtur í útflutningi á óunnum fiski frá Íslandi. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru tæplega 32 þúsund tonn af fiski flutt út óunnin í gámum árið 2016, en árið 2020 voru tonnin rúmlega 57 þúsund talsins.
Hagstofa Íslands tekur einnig saman tölur yfir heildarútflutning á nýjum, kældum eða ísvörðum heilum fiski og samkvæmt þeim voru flutt út rúmlega 38 þúsund tonn af fiski í þeim flokki árið 2016. Árið árið 2020 nam útflutningurinn svo rúmum 66 þúsund tonnum, ef horft er til þessa flokks.
Verðmæti útflutnings á ferskum heilum fiski hefur samkvæmt tölum Hagstofunnar vaxið um níu milljarða á þessu sama tímabili frá 2016, úr tæpum 10,6 milljörðum upp í tæpa 19,4 milljarða árið 2020.
Atlantic Seafood virðist eiga nokkurn þátt í þessari aukningu, sem hefur verið gagnrýnd nokkuð á síðustu árum af aðilum sem vilja kaupa hráefni á fiskmörkuðum til að verka það hérlendis. „Þessir aðilar hækka bara þegar maður býður í og kaupa megnið af fiskinum sem fer óunninn úr landi og skapar engin störf,“ var til dæmis haft eftir fiskverkanda í frétt Víkurfrétta haustið 2020.
Gunnar Valur vill ekki meina að Atlantic Seafood hafi verið að flækjast mikið fyrir þeim sem vilja vinna fisk hér á landi, þó hann segi að fyrirtækið hafi reyndar keypt og flutt út töluvert mikið magn af þorski árið 2020, en það ár voru alls rúm 16 þúsund tonn af þorski flutt frá Íslandi óunnin, um helmingi meira en árin þar á undan.
„Þessar tegundir sem menn vilja vinna hérna heima, eins og þorskur og ýsa, þetta hefur snarminnkað í útflutning,“ segir Gunnar Valur um þróunina síðan þá. Hann bætir við að árið 2020 hafi verið óvenjulegt hvað þetta varðar og það hafi skýrst af kórónuveirufaraldrinum og skýtur á að árið 2021 hafi útflutningur Atlantic Seafood á þorski og ýsu dregist saman um helming frá fyrra ári. Aðrar tegundir eins og steinbítur og ufsi hafi komið í staðinn.
Fimmtán kílóa ufsi
„Ég veit nú ekki hvort það sé alveg rétt,“ segir Gunnar Valur um það að útflytjendur á borð við Atlantic Seafood séu að gera íslenskum fiskvinnslum erfitt fyrir með því að yfirbjóða á fiskmörkuðum. „Það er ekkert tekið eftir okkur þegar það er nægur fiskur, þá er öllum sama, en auðvitað eru einhverjar vikur þar sem er minna af fiski og þá er það bara svo sem eðlilegt að það sé greitt yfirverð fyrir vöruna, það er bara framboð og eftirspurn,“ segir hann.
Hann segir að fyrirtækið sé að kaupa mikið á fiskmörkuðum á sumrin. Þá sé yfirleitt meira af fiski og framboðið meira en eftirspurnin. „Við höfum oft verið að taka vöru sem er ógeðslega mikið til af og enginn áhugi hérna heima á að kaupa, eins og ufsa, steinbít og skarkola. Þetta er ekkert unnið hérna og við erum ekkert að trufla neinn sem er að vinna þessar tegundir hérna heima. Ég get alveg slegið því fram,“ segir Gunnar Valur.
Hann nefnir að stundum henti vörurnar sem fyrirtækið kaupi og flytji út ekki til vinnslu hér, eins og til dæmis ufsinn á vissum árstíma, þegar hann geti orðið jafnvel 15 kíló. „Þá eru aðilar eins og Brim og fleiri stórir sem bara geta ekkert unnið þetta. Það er of dýrt að vera með handflakaraher fyrir einhverja tvo mánuði á ári,“ segir Gunnar Valur og bætir við að hann telji Atlantic Seafood hafa gripið ýmis tækifæri í skrítnum aðstæðum.
Hvergi eru til opinberar tölur um það hversu mikið magn hver og einn útflytjandi óunnins afla flytur úr landi og Gunnar Valur var ekki með tölurnar um umsvif fyrirtækisins fyrir framan sig þegar Kjarninn náði af honum tali, en hann var staddur í fríi í Portúgal.
Aðspurður hvort það væri rétt að Atlantic Seafood væri orðinn stærsti útflytjandinn á óunnum fiski frá Íslandi segir Gunnar Valur að félagið sé á meðal þeirra stærstu, ásamt reyndar 4-5 aðilum öðrum, en umsvif fyrirtækjanna rokki á milli ára. „Ástæðan fyrir því að við stækkuðum svona ört árið 2020 var bara COVID. Það var fiskur sem var búinn að falla niður í 15-20 prósent af því sem eðlilegt verðgildi var og enginn vissi hvað átti að gera við. Við bara tókum okkur stöðu og keyptum mikið á meðan allt var í lágmarki, það var svona upphafið að þessu,“ segir Gunnar Valur.
Hráefni til dýrafóðurs upphafið
Hann segir að hann og Elvar Þór, sem áður hafði rekið eigið fyrirtæki í Hong Kong, hafi verið saman í viðskiptunum hjá Atlantic Seafood frá upphafi og að hagnaður af sölu ódýrs dýrafóðurs til Nígeríu og til Kína hafi verið fjármagnið sem kom þeim af stað. Síðan hafi þeir fært út kvíarnar í frekari útflutningi. Auk þess að vera með starfsemi í Danmörku hafi þeir svo einnig verið með skrifstofu í Hong Kong, en staðan á kínverska markaðnum hafi hins vegar orðin snúin vegna COVID-19.
Gunnar Valur telur þá hingað til hafa hitt á réttan tíma með ákvarðanir sem snúa að rekstrinum og segir aðspurður að hann haldi að það væri „mjög erfitt“ að koma sér af stað í útflutningi á fiski frá Íslandi í dag.
Spurður um framhaldið segist hann ekki sjá endalaus vaxtartækifæri framundan. „Þetta er bara mjög strembinn markaður þegar allt er eðlilegt. Ég stórefa að það sé hægt að stækka endalaust í svona, allavega á íslenska markaðnum. Sum tækifæri verða bara hreinlega tap,“ segir Gunnar Valur.
Blaðamaður nefnir þá að hagnaður fyrirtækisins hafi ekki aukist alveg í hlutfalli við stóraukna veltu þess á undanförnum árum.
„Nei, alls ekki. Það er það sem er framundan, að reyna frekar að minnka og hafa meira eftir,“ svarar framkvæmdastjórinn.