Sýkingar af apabólu hafa greinst í Kanada og Evrópu síðustu daga og að minnsta kosti eitt tilfelli hefur greinst í Bandaríkjunum, það fyrsta á þessu ári. Apabóla er veirusjúkdómur sem er landlægur í sumum hlutum Afríku en líkt og aðrir smitsjúkdómar stingur hún sér reglulega niður í öðrum heimsálfum. Í þetta sinn er fólk sem ekki hefur dvalið í Afríku að sýkjast sem vísindamönnum þykir nokkuð óvenjulegt og spurningar hafa vaknað um smitleiðirnar.
Í það minnsta níu tilfelli hafa greinst í Bretlandi og aðeins einn smitaðra hafði verið í Afríku nýverið, nánar tiltekið í Nígeríu. Þrír hinna smituðu búa í sama húsnæði. Á Spáni er grunur um að minnsta kosti 23 tilfelli apabólunnar og í Portúgal er grunur um álíka fjölda. Í Kanada hafa fimm tilfelli verið staðfest og grunur er um fimmtán til viðbótar, öll meðal fólks sem býr í Montreal. Þá hafa sýkingar einnig verið greindar í Svíþjóð og á Ítalíu.
Hér að neðan fara fimm staðreyndir um þennan dularfulla sjúkdóm.
Aparnir á rannsóknarstofunni
Apabóluveiran er skyld veirunni sem veldur bólusótt, bráðsmitandi og lífshættulegum sjúkdómi sem talið er að tekist hafi að útrýma á níunda áratug síðustu aldar. Apabóla er hins vegar hættuminni en bólusótt og ekki talin jafn smitandi.
Veiran finnst í villtum dýrum, bæði nagdýrum og prímötum og getur smitast í fólk. Apabóla er útbreiddust í Mið- og Vestur-Afríku og þá helst meðal fólks sem veiðir villt dýr sér til matar eða meðhöndlar kjöt slíkra dýra. Vísindamenn uppgötvuðu sjúkdóminn fyrst árið 1958 er hópsmit kom upp meðal apa á rannsóknarstofu. Og þaðan er auðvitað nafnið komið: Apabóla. Fyrsta tilfellið í manni greindist árið 1970, raunar níu ára gömlu barni, í Austur-Kongó.
Einkennin eru nokkuð dæmigerð
Sjúkdómseinkenni apabólu eru mildari en af bólusótt. Flestir sjúklingar fá flensulík einkenni; hita, beinverki, hroll og verða slappir. Eftir nokkra daga geta sjúklingar fengið útbrot, fyrst í andlit og jafnvel inni í lófana. Þessi útbrot geta breiðst út um allan líkamann, bólgnað og í þau komist sýking. Einkennin eru almennt talin gera vart við sig um fimm dögum eftir smit. Flestir ná sér af veikindunum á 2-4 vikum án þess að þurfa á sjúkrahúsinnlögn að halda. Talið er að einkennin séu almennt verri hjá börnum en fullorðnum.
Apabóla getur verið hættuleg og jafnvel banvæn ef hún er ekki meðhöndluð en erfitt er að segja nákvæmlega til um dánartíðni, hún gæti verið allt frá 1 prósenti upp í 15 prósent.
Bólusetning gegn bólusótt hefur virkað vel gegn apabólu. Smitsjúkdómastofnun Evrópu hvetur heilbrigðisfyrivöld í álfunni til að setja fólk sem greinist með apabóluveiruna í einangrun og bjóða fólki sem það hefur umgengist bólusetningu.
Apabóluveiran hefur hingað til ekki valdið útbreiddum faröldrum líkt og veiran sem veldur COVID-19, svo dæmi sé tekið.
Þúsundir tilfella á ári
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telur að árlega sýkist þúsundir manna af apabólu, fyrst og fremst í um tíu Afríkulöndum. Flestir veikjast í Austur-Kongó en þar greinast um 6.000 tilfelli á ári. Nígería kemur þar á eftir.
Greiningu smitsjúkdóma í flestum Afríkuríkjum er verulega ábótavant enda heilbrigðiskerfi þessara fátækustu landa veraldar mörg hver mjög veikbyggð, fjársvelt og undirmönnuð á mælikvarða sem við Vesturlandabúar getum vart ímyndað okkur. Þess vegna er mjög líklegt, nánast víst, að apabóla sé mun útbreiddari en opinberar tölur segja til um.
Flestir þeir sem greinast utan Afríku hafa dvalið þar og verið í snertingu við dýr á þeim svæðum þar sem sjúkdómurinn er útbreiddur.
Nokkuð stór hópsýking varð í Bandaríkjunum árið 2003. 47 manns greindust með apabólu og talið er að fólkið hafi smitast af veirunni úr sléttuhundum sem haldnir voru sem gæludýr. Hundarnir höfðu verið í húsi í nálægð við innflutt spendýr frá Gana.
Smitleiðirnar ekki að fullu kunnar
Dropasmit í augu, nef og munn hefur hingað til verið talin algengasta smitleiðin en einnig getur veiran komist inn í líkamann t.d. í gegnum sár á húð. En í raun má segja að smitleiðirnar séu ekki kunnar að fullu.
Vísindamenn hafa enn ekki fundið greinileg tengsl við Afríku í öllum þeim tilfellum sem upp hafa komið í Evrópu og Kanada síðustu daga. Heilbrigðisstofnun Bretlands segist svo ekki heldur hafa fundið tengsl milli allra tilfellanna sem þar hafa greinst og leiðir líkur að því að smitleiðirnar séu nokkrar.
Grunur er um að í einhverjum tilvikum hafi veiran smitast með kynmökum en vísindamenn eru ragir við að fullyrða nokkuð um það að svo stöddu. Sú smitleið hefur hingað til ekki verið þekkt þegar kemur að veirunni sem veldur apabólu en hins vegar er talið að hún geti smitast með mikilli nánd við sýkta.
AP-fréttastofan hefur eftir veirufræðingi við Imerpial College í London að kynferðismök kalli vissulega á nánd milli fólks sem auki þar með líkur á smiti og undir þetta taka fleiri veirufræðingar. Því þurfi ekki að vera um einhverja nýja smitleið að ræða, veiran finnist í líkamsvessum hvers konar og geti því, tæknilega séð, smitast með kynmökum, eða með dropasmiti úr öndunarfærum við þær aðstæður.
Útbreiðslan gæti verið miklu meiri
Þar sem tilfelli hafa verið að greinast í nokkrum Evrópulöndum sem og í Kanada og Bandaríkjunum á svipuðum tíma telja vísindamenn að útbreiðsla apabólunnar gæti verið mun víðtækari. „Okkar tilfinning er sú að enginn hafi allar þær staðreyndir sem til þarf svo hægt sé að fullyrða nokkuð um útbreiðsluna núna og hversu mikil hún gæti orðið,“ hefur vísindatímaritið Nature eftir Jennifer McQuiston sem starfar hjá Smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna.