Bára Huld Beck

Fjárlagafrumvarpið á mannamáli

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp vegna ársins 2022 í síðustu viku. Þau segja til um hvernig þjóðarheimilið er rekið. Í hvað erum við að eyða, hverjir borga mest fyrir það og þau nýju verkefni sem verið er að ráðast í. Í þeim að finna rammann utan um samfélagið sem við lifum í.

Hver er stóra mynd­in?

Heild­­ar­­tekjur rík­­is­­sjóðs verða um 955 millj­arðar króna á næsta ári. Það er um 105 millj­­örðum krónum meira en áætl­­aðar tekjur hans eiga að vera á árinu 2021. Tekj­­urnar í ár hafa verið end­­ur­­metnar frá því sem var sett fram í fjár­mála­á­ætlun og hækkað um 66 millj­­arða króna frá því sem reiknað var með þegar hún var lögð fram í vor.

Stærstu ástæður þess að þetta á sér stað er að dregið verður veru­­lega úr stuðn­­ingi vegna efna­hags­­legra áhrifa COVID-19, sem veldur afkomu­bata hjá rík­­is­­sjóði upp á 68 millj­­arða króna, og bættar efna­hags­horfur upp á 52 millj­­arða króna. Það þýðir afkomu­bata um 120 millj­­arða króna milli ára. 

Áætl­­aður halli á árinu 2022 er 169 millj­­arðar króna en í ár er hann  áætl­aður 288 millj­arðar króna. Í fyrra var hann 144 millj­arðar króna. Sam­an­lagður halli á þessum þremur árum er því áætl­aður 601 millj­arður króna. Þótt það sé afar há tala þá er hún samt sem áður lægri en grunn­s­viðs­myndir gerðu ráð fyrir í vor. 

Útgjöld munu aukast nokkuð milli ára og verða 1.124 millj­arðar króna. 

Hvernig verður þetta fjár­magn­að?

Hall­inn verður ekki fjár­­­magn­aður með stór­felldur nið­­ur­­skurði, þótt hóf­leg hag­ræð­ing­ar­krafa sé gerð í fjár­lög­um, eða nýjum skatta­hækk­­un­­um. Þess í stað verður hall­inn fjár­magn­aður með lán­­um.

Nei­­kvæðir raun­vextir og lækk­­andi ávöxt­un­­ar­krafa á rík­­is­skulda­bréf hafa gert lán­­tökur eft­ir­­sókn­­ar­verða fyrir rík­­is­­sjóð, og pen­ingar hafa verið nán­­ast eins ódýrir og þeir verða. Rík­is­sjóður gaf til að mynda út út vaxta­­laus skulda­bréf í evrum að virði 110 millj­­arða króna á núvirði, sem jafn­­­gildir um fjórum pró­­sentum af lands­fram­­leiðslu, i byrjun árs.

Í fjár­laga­frum­varp­inu er heim­ild til að taka lán í erlendri mynt upp á 230 millj­arða króna til að brúa halla­rekst­ur­inn. 

Hverjir fá mest?

Fram­lög til heil­brigð­is­­­mála verða aukin um 16,3 millj­­­arða króna á árinu 2021 og verða um 300 millj­arðar króna á föstu verð­lagi. Af auknu fram­lög­unum fer mest í fram­kvæmdir við nýjan Land­spít­ala, en alls er gert ráð fyrir 14 millj­örðum króna til bygg­ingar hans á næsta ári. 

Það þýðir að rúmur fjórð­ungur af öllum útgjöldum rík­is­sjóðs fari í rekstur heil­brigð­is­mála (27 pró­sent). Svipað fer í félags-, hús­næð­is- og trygg­inga­mál og um 124 millj­arðar króna fara í mennta- og menn­ing­ar­mál.

Staða uppbyggingar á nýjum meðferðarkjarna Landspítalans 17. nóvember síðastliðinn.
Mynd: Hringbrautarverkefnið.

Sam­göngu- og fjar­skipta­mál kosta um 50 millj­arða króna og mála­flokk­ur­inn nýsköp­un, rann­sóknir og þekk­ing um 30 millj­arða króna. 

Úr hvaða kostn­aði verður dreg­ið?

Veru­lega verður dregið úr stuðn­ingi vegna efn­hags­legra áhrifa COVID-19. Umfang stuðn­ings­að­gerð­anna frá byrjun árs 2020 og út næsta ár er metið á 260 millj­arða króna. Á næsta ári er hins vegar ein­ungis reiknað með 50 millj­örðum króna í þau verk­efni, sem er 68 millj­örðum krónum minna en í ár. Bara útgjöld vegna greiðslu atvinnu­leys­is­bóta eiga að drag­ast saman um 13 millj­arða.

Við­spyrnu­styrkir vegna tekju­falls verða nið­ur­felld­ir, leng­ing tíma­bils tekju­tengdra atvinnu­leys­bóta aflögð, hætt verður að greiða við­bót­ar­á­laga á atvinnu­leys­is­bæt­ur, átak í náms- og starfsúr­ræðum rennur sitt skeið, greiðslur til íþróta­fé­laga vegna launa- og verk­taka­kostn­aðar verða ekki end­ur­teknar og hluta­bóta­leiðin svo­kall­aða, þar sem ríkið greiðir hluta launa fólks í starfi, mun heyra sög­unni til.

Hver borgar fyrir tekjur rík­­is­­sjóðs?

Ein­stak­l­ingar og fyr­ir­tæki

Skatt­­tekjur aukast á ný á næsta ári eftir að hafa hríð­­fallið í ár. Ein­stak­l­ingar munu greiða 218 millj­­arða króna í tekju­skatt og skatt­greiðslu sem  er 25 pró­sent meira en í ár. Til við­­bótar borgum við auð­vitað virð­is­auka­skatt af flestu. Á næsta ári er búist við að virð­is­auka­skatts­tekj­urnar verði 289,7 millj­­arðar króna (34 pró­sent aukn­ing)  og að við fáum að greiða 7,1 millj­­arða króna í við­­bót í stimp­il­­gjöld. 

Tekju­skattur sem leggst á lög­­­að­ila, fyr­ir­tæki og félög lands­ins, er nú áætl­­aður 77,9 millj­­arðar króna og eykst umtals­vert milli ára.

Þá munu tekjur rík­­is­­sjóðs vegna trygg­inga­gjalds aukast að nýju, þrátt fyrir að gjaldið hafi verið lækkað enn á ný um 0,25 pró­­sent­u­­stig síð­ustu ára­­mót, og verða 107 millj­­arðar króna á næsta ári.

Sér­­stakt gjald á banka

Bankar lands­ins borga líka sinn skerf til rík­­is­ins til við­­bótar við hefð­bundnar skatt­greiðsl­­ur, þótt það fram­lag fari lækk­­andi. Þar skiptir mestu að á banka­skatt­­ur­inn var lækk­­aður niður í 0,145 pró­­sent skulda í fyrra. Fyrir vikið lækk­­aði álagður banka­skattur sem rík­­is­­sjóður lagði á bank­ana um 6,1 millj­­arð króna vegna árs­ins 2020 og var 4,8 millj­­arðar króna. Það er lækkun upp á 56,2 pró­­sent. Áætlað er að hann verði 4,8 millj­arðar króna í ár og tæp­lega 5,3 millj­arðar króna á næsta ári.

Veið­i­­­gjöld

Svo eru það auð­vitað útgerð­­ar­­fyr­ir­tæk­in. Þau borga rík­­is­­sjóði sér­­­stök veið­i­­­gjöld umfram aðra skatta fyrir afnot af fisk­veið­i­­auð­lind­inni.

Veiðigjöldin dragast saman um 1,4 milljarða króna milli ára.
Mynd: Ríkisendurskoðun

Ný lög um veið­i­­­­gjald tóku gildi í byrjun árs 2019 þar sem meðal ann­­­ars var settur nýr reikni­stofn sem bygg­ist á afkomu við veiðar hvers nytja­­­stofns. Sam­­kvæmt þeim er veið­i­­gjaldið nú ákveðið fyrir alm­an­aksár í stað fisk­veið­i­­ár­s. Útgerð­irnar greiddu 4,8 millj­arða króna í veiði­gjöld í fyrra, 7,7 millj­arða króna í ár og áætlað er að veiði­gjaldið skili 6,3 millj­arða króna í rík­is­sjóð á árinu 2022. Þar af munu um 700 millj­ónir króna falla til vegna gjalds á fisk­eldi sem var inn­leitt 2020. 

Veiði­gjöldin voru 11,3 millj­­arðar króna árið 2018. 

Þeir sem eiga mikið af pen­ingum

Rúm­­lega tvö þús­und fram­telj­endur afla að jafn­­aði tæp­­lega helm­ings allra fjár­­­magnstekna á Íslandi. Um er að ræða, að minnsta kosti að hluta, rík­­asta eitt pró­­sent lands­ins sem á næg­i­­lega mikið af við­­bót­­ar­pen­ingum sem það getur látið vinna fyrir sig til að skapa tekj­­ur.

Rík­­is­­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur hækk­­aði fjár­­­magnstekju­skatt í byrjun árs 2018, úr 20 í 22 pró­­sent. For­­sæt­is­ráð­herra sagði við það til­­efni að þessi hækkun væri liður í því að gera skatt­­kerfið rétt­lát­­ara.

Þessi hækkun skilar þó ekki mik­illi tekju­aukn­ingu fyrir rík­­is­­sjóð. Í upp­haf­legum fjár­­lögum árs­ins 2020 voru tekjur af fjár­­­magnstekju­skatti áætl­­aðar 32,5 millj­­arðar króna. Eftir kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­inn skall á hríð­­lækk­­aði þessi tekju­stofn niður í 25,7 millj­­örðum króna í ár.

Gert er ráð fyrir að hann vaxi aftur upp í 31,5 millj­arða króna á næsta ári.

Dauð­inn

Gert er ráð fyrir að erfða­fjár­skattur skili rík­is­sjóði 7,5 millj­örðum króna í tekjur árið 2022. Það er aðeins minna en greitt var í skatt­inn vegna arfs sem þeir fengu í fyrra, en Morg­un­blaðið greindi frá því í morgun að erf­ingjar hafi þá alls greitt rúm­lega 8,8 millj­arða króna í erfða­fjár­skatt. Það er rúm­lega tvö­falt hærri upp­hæð en greidd var í slíka skatta árið áður­.  

Hækkandi húsnæðisverð hefur stóraukið tekjuöflun ríkisins vegna erfðafjárskatts.
Mynd: Aðsend

Í fjár­laga­frum­varp­inu segir að hækkun hús­næð­is­verðs sé einn orsaka­þáttur í hækk­andi erfða­fjár­skatts.

Bif­­reið­­ar­eig­end­­ur, drykkju­­fólk og þeir sem enn reykja

Alls eru áætl­­aðar tekjur rík­­is­­sjóðs vegna elds­­neyt­is­gjalda 39,8 millj­­arðar króna á næsta ári. 

Þar munar mestu um olíu­­gjaldið sem á að skila 11,8 millj­­örðum króna, og hækkar um 2,5 pró­­sent í byrjun næsta árs.

Reyk­ing­­ar­­fólk og áfeng­is­­neyt­endur fá áfram sem áður að borga sinn skerf til sam­­neysl­unn­­ar. Álögur á það fólk hækka enn og aft­­ur. Bæði áfeng­is- og tóbaks­­­gjöld munu hækka um 2,5 pró­­sent um kom­andi ára­­mót. 

Allir sem flytja inn eða fram­­­leiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu ber að greiða áfeng­is­­­gjald. Einnig þeir sem flytja áfengi með sér eða fá það sent erlendis frá, til eigin nota. Áfeng­is­­­gjald er greitt af neyslu­hæfu áfengi sem í er meira en 2.25 pró­­­sent af vín­­­anda að rúm­­­máli. Þessu gjaldi er velt út í verð­lag og því hækkar það útsölu­verð til neyt­enda. Tekjur rík­­­is­­­sjóðs vegna áfeng­is­gjalds voru 18,6 millj­­­arðar króna árið 2018. Þær juk­ust gríð­ar­lega í fyrra þegar kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á, aðal­lega vegna þess að lands­menn fluttu nán­ast alla áfeng­is­neyslu heim til Íslands, en áður hafði hluti hennar farið fram erlend­is. Tekjur vegna áfeng­is­gjalds­ins á næsta ári eru áætl­aðar um 23,8 millj­arðar króna sem er ögn hærra en áætlað er fyrir 2021. Tekjur rík­is­sjóðs af áfeng­is­gjaldi hafa því hækkað 28 pró­sent frá 2018, eða um 5,2 millj­arða króna. 

Hratt hefur dregið úr reykingum landsmanna. Sömu sögu er að segja um notkun á íslensku neftóbaki í vör. Þess vegna lækka tekjur ríkissjóðs vegna áfengis- og tóbaksgjalda þótt gjöldin hækki.
Mynd: Úr safni

Tóbaks­­gjaldið átti að skila rúm­­lega sex millj­­örðum króna í rík­­is­­kass­ann í ár en skil­aði á end­anum um 200 millj­ónum krónum minna. Þar skiptir hrun í notkun íslensks nef­tó­baks lyk­il­máli. Á næsta ári munu tekj­urnar áfram drag­ast sam­an, nú um 100 millj­ónir króna á milli ára þrátt fyrir 2,5 pró­sent hækkun á gjald­in­u. 

Óreglu­­legu tekj­­urnar

Ríkið hefur alls­­konar aðrar tekjur en skatta. Þar ber auð­vitað hæst arð­greiðslur frá fyr­ir­tækjum sem ríkið á, sér­­stak­­lega bönk­­unum og Lands­­virkj­un. Slíkar arð­greiðslur hríð­­féllu vegna kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­s­ins, og fóru niður í 18,7 millj­arða króna í ár, en taka aftur við sér á næsta ári. Þá eru arð­greiðslur rík­is­ins áætl­aðar 231,8 millj­arðar króna en hafa verður í huga að ríkið seldi 35 pró­sent hlut í Íslands­banka á rúma 55 millj­arða króna í sumar og fær ekki arð af þeim eign­ar­hluta leng­ur.

Ríkið mun líka inn­­heimta 10,5 millj­­arða króna í vaxta­­tekjur og 35,1 millj­­arða króna vegna sölu á vöru og þjón­­ustu. Inni í þeirri sölu eru til að mynda inn­­­rit­un­­ar­­gjöld í háskóla og fram­halds­­­skóla, sala á vega­bréfum og öku­­skír­teinum og greidd gjöld vegna þing­lýs­inga, svo dæmi séu tek­in. Þá fær ríkið um 4,4 millj­­arða króna vegna sekta og skaða­­bóta.

Rík­­is­­stjórnin ætlar að selja eft­ir­stand­andi 65 pró­­sent eign­­ar­hlut sinn í Íslands­­­banka að fullu á næstu tveimur árum. Til stendur að selja um helm­ing útistand­andi hlutar rík­­is­ins sum­­­arið 2022 og ríkið reiknar með að fá um 75 millj­­arða króna fyrir hann.

Hvað er nýtt?

Á meðal þess sem sem má telja til nýj­unga í fjár­­laga­frum­varp­inu er að setja á 540 millj­­ónir króna í að tvö­­falda frí­­tekju­­mark atvinn­u­­tekna hjá elli­líf­eyr­is­þegum úr 100 þús­und í 200 þús­und krón­ur. 

Þá hækka skerð­ing­­ar­­mörk barna­­bóta hækka þótt heild­­ar­fram­lagið til mála­­flokks­ins lækki milli ára. 

Festa á tvö­földum á end­ur­greiðslu vegna rann­­sókn­­ar- og þró­un­­ar­­kostn­aðar í sessi og búist er við að upp­hæðin sem renni úr rík­is­sjóði vegna þessa verði sama og í ár, eða um 10,4 millj­­arðar króna. Það er rúm­­lega tvö­­­föld sú upp­­hæð sem greidd var út árið 2020 vegna þessa. 

Þá má nefna að fram­lög til lofts­lags­­mála verða aukin um einn millj­­arð króna og 800 millj­­óna króna við­­bót­­ar­hækkun á bætur örorku- og end­­ur­hæf­ing­­ar­líf­eyr­is­þega til við­­bótar við almennar pró­­sent­u­hækk­­an­­ir. 

Áframhaldandi vandræði ferðaþjónustunnar vegna kórónuveirufaraldursins leiða til þess að gistináttagjald verður ekki rukkað inn fyrr en á árinu 2024.
Mynd: Bára Huld Beck

Bráða­birgða­á­kvæði um að fella niður gistin­átta­skatt verður fram­lengt út árið 2023 til að mæta áfram­hald­andi sam­drætti í ferða­þjón­ust­u. 

Áætlað er að tekju­skattur lækki um 2,3 millj­arða á næsta ári vegna upp­töku fram­leiðni­við­miðs við upp­færslu skatt­leys­is- og þrepa­marka. Þannig er gert ráð fyrir að skatt­leys­is- og þrepa­mörkin miði við þróun vísi­tölu neyslu­verðs, að við­bættum eitt pró­senta fram­leiðni­vexti á ári. Þetta er síð­asta skrefið í vaxta­lækk­unar­á­formum rík­is­stjórn­ar­innar sem hafa verið inn­leidd í tíð rík­is­stjórna Katrínar Jak­obs­dóttur og munu lækka skatt­greiðslur um alls 23 millj­arða króna árlega. 

Hvernig stendur rekstur rík­­is­­sjóðs?

Hann er betri en á horfð­ist þótt hall­inn sé mik­ill, og verði yfir 600 millj­arðar króna á þriggja ára tíma­bili (2020 til 2022). 

Til sam­an­­burðar má nefna að hall­inn á rekstri rík­­is­­sjóðs árið 2008, þegar banka­hrunið varð, nam 194 millj­­örðum króna. Mesti tekju­af­­gangur sög­unnar varð árið 2016, þegar að tekjur voru 302 millj­­örðum króna meiri en útgjöld í kjöl­far þess að slitabú fall­inna fjár­­­mála­­fyr­ir­tækja greiddu stöð­ug­­leika­fram­lög í rík­­is­­sjóð. 

Sú kreppa sem við erum að takast á við vegna kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­s­ins er því sög­u­­leg og dýpri en nútíma íslenskt sam­­fé­lag hefur tekið á við áður, þrátt fyrir að bjart­ari sviðs­myndir hafi raun­gerst.

Góðu frétt­­irnar eru þær að hröð nið­­ur­greiðsla skulda á síð­­­ustu árum, sér­­stak­­lega vegna greiðslna frá slita­búum föllnu bank­anna vegna stöð­ug­­­leika­­­samn­ing­anna sem und­ir­­­rit­aðir voru árið 2015, gera ríkið vel í stakk búið til takast á við þessa stöðu. Þegar skuld­­­irnar voru sem mest­­­ar, árið 2011, voru þær 86 pró­­­sent af lands­fram­­­leiðslu en voru 28 pró­­sent í lok árs 2019. Til við­­bótar við almenna skulda­n­ið­­ur­greiðslu hefur rík­­is­­sjóður á und­an­­förnum árum greitt háar fjár­­hæðir inn á ófjár­­­magn­aðar líf­eyr­is­skuld­bind­ing­­ar.

Nýjar horfur fjár­­­mála­ráðu­­neyt­is­ins búast við að skulda­­þróun hins opin­bera verði mun hag­­stæð­­ari en gild­andi fjár­­­mála­á­ætl­­unin gerði ráð fyr­ir, til að mynda er nú talið að skuldir muni nema um 34 pró­­sentum af lands­fram­­leiðslu á næsta ári, í stað 42 pró­­senta.

Það þýðir að „af­komu­bæt­andi ráð­staf­an­ir“, sem fela annað hvort í sér skatta­hækkun eða nið­­ur­­skurð í útgjöld­um, muni nema 34 millj­­örðum á ári, en geti numið allt að 50 millj­­örðum króna á ári ef efna­hags­horfur versna. Það er helm­ingi minna en áður var reiknað með.

Ástæðan er þrí­þætt: bætt afkoma rík­­is­­sjóðs, áætl­anir um að selja Íslands­­­banka og minnka nið­­ur­greiðslur til raf­­bíla­eig­end­­ur, leiða til þess að umfang fyr­ir­hug­aðra aðhalds­­að­­gerða verði innan við helm­ingur af því sem fjár­­­mála­á­ætl­­unin gerði ráð fyr­­ir. Nýút­­­gefin fjár­­­mála­­stefna sýni ekki nákvæma sund­­ur­liðun á því hvernig þessum ráð­­stöf­unum yrði hátt­að, en fram­­reikn­ingur ráðu­­neyt­is­ins á afkomu hins opin­bera sýnir að mun minna lifi eftir af þörf­inni fyrir slíkum aðgerð­­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar