Fjárlagafrumvarpið á mannamáli
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp vegna ársins 2022 í síðustu viku. Þau segja til um hvernig þjóðarheimilið er rekið. Í hvað erum við að eyða, hverjir borga mest fyrir það og þau nýju verkefni sem verið er að ráðast í. Í þeim að finna rammann utan um samfélagið sem við lifum í.
Hver er stóra myndin?
Heildartekjur ríkissjóðs verða um 955 milljarðar króna á næsta ári. Það er um 105 milljörðum krónum meira en áætlaðar tekjur hans eiga að vera á árinu 2021. Tekjurnar í ár hafa verið endurmetnar frá því sem var sett fram í fjármálaáætlun og hækkað um 66 milljarða króna frá því sem reiknað var með þegar hún var lögð fram í vor.
Stærstu ástæður þess að þetta á sér stað er að dregið verður verulega úr stuðningi vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19, sem veldur afkomubata hjá ríkissjóði upp á 68 milljarða króna, og bættar efnahagshorfur upp á 52 milljarða króna. Það þýðir afkomubata um 120 milljarða króna milli ára.
Áætlaður halli á árinu 2022 er 169 milljarðar króna en í ár er hann áætlaður 288 milljarðar króna. Í fyrra var hann 144 milljarðar króna. Samanlagður halli á þessum þremur árum er því áætlaður 601 milljarður króna. Þótt það sé afar há tala þá er hún samt sem áður lægri en grunnsviðsmyndir gerðu ráð fyrir í vor.
Útgjöld munu aukast nokkuð milli ára og verða 1.124 milljarðar króna.
Hvernig verður þetta fjármagnað?
Hallinn verður ekki fjármagnaður með stórfelldur niðurskurði, þótt hófleg hagræðingarkrafa sé gerð í fjárlögum, eða nýjum skattahækkunum. Þess í stað verður hallinn fjármagnaður með lánum.
Neikvæðir raunvextir og lækkandi ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf hafa gert lántökur eftirsóknarverða fyrir ríkissjóð, og peningar hafa verið nánast eins ódýrir og þeir verða. Ríkissjóður gaf til að mynda út út vaxtalaus skuldabréf í evrum að virði 110 milljarða króna á núvirði, sem jafngildir um fjórum prósentum af landsframleiðslu, i byrjun árs.
Í fjárlagafrumvarpinu er heimild til að taka lán í erlendri mynt upp á 230 milljarða króna til að brúa hallareksturinn.
Hverjir fá mest?
Framlög til heilbrigðismála verða aukin um 16,3 milljarða króna á árinu 2021 og verða um 300 milljarðar króna á föstu verðlagi. Af auknu framlögunum fer mest í framkvæmdir við nýjan Landspítala, en alls er gert ráð fyrir 14 milljörðum króna til byggingar hans á næsta ári.
Það þýðir að rúmur fjórðungur af öllum útgjöldum ríkissjóðs fari í rekstur heilbrigðismála (27 prósent). Svipað fer í félags-, húsnæðis- og tryggingamál og um 124 milljarðar króna fara í mennta- og menningarmál.
Samgöngu- og fjarskiptamál kosta um 50 milljarða króna og málaflokkurinn nýsköpun, rannsóknir og þekking um 30 milljarða króna.
Úr hvaða kostnaði verður dregið?
Verulega verður dregið úr stuðningi vegna efnhagslegra áhrifa COVID-19. Umfang stuðningsaðgerðanna frá byrjun árs 2020 og út næsta ár er metið á 260 milljarða króna. Á næsta ári er hins vegar einungis reiknað með 50 milljörðum króna í þau verkefni, sem er 68 milljörðum krónum minna en í ár. Bara útgjöld vegna greiðslu atvinnuleysisbóta eiga að dragast saman um 13 milljarða.
Viðspyrnustyrkir vegna tekjufalls verða niðurfelldir, lenging tímabils tekjutengdra atvinnuleysbóta aflögð, hætt verður að greiða viðbótarálaga á atvinnuleysisbætur, átak í náms- og starfsúrræðum rennur sitt skeið, greiðslur til íþrótafélaga vegna launa- og verktakakostnaðar verða ekki endurteknar og hlutabótaleiðin svokallaða, þar sem ríkið greiðir hluta launa fólks í starfi, mun heyra sögunni til.
Hver borgar fyrir tekjur ríkissjóðs?
Einstaklingar og fyrirtæki
Skatttekjur aukast á ný á næsta ári eftir að hafa hríðfallið í ár. Einstaklingar munu greiða 218 milljarða króna í tekjuskatt og skattgreiðslu sem er 25 prósent meira en í ár. Til viðbótar borgum við auðvitað virðisaukaskatt af flestu. Á næsta ári er búist við að virðisaukaskattstekjurnar verði 289,7 milljarðar króna (34 prósent aukning) og að við fáum að greiða 7,1 milljarða króna í viðbót í stimpilgjöld.
Tekjuskattur sem leggst á lögaðila, fyrirtæki og félög landsins, er nú áætlaður 77,9 milljarðar króna og eykst umtalsvert milli ára.
Þá munu tekjur ríkissjóðs vegna tryggingagjalds aukast að nýju, þrátt fyrir að gjaldið hafi verið lækkað enn á ný um 0,25 prósentustig síðustu áramót, og verða 107 milljarðar króna á næsta ári.
Sérstakt gjald á banka
Bankar landsins borga líka sinn skerf til ríkisins til viðbótar við hefðbundnar skattgreiðslur, þótt það framlag fari lækkandi. Þar skiptir mestu að á bankaskatturinn var lækkaður niður í 0,145 prósent skulda í fyrra. Fyrir vikið lækkaði álagður bankaskattur sem ríkissjóður lagði á bankana um 6,1 milljarð króna vegna ársins 2020 og var 4,8 milljarðar króna. Það er lækkun upp á 56,2 prósent. Áætlað er að hann verði 4,8 milljarðar króna í ár og tæplega 5,3 milljarðar króna á næsta ári.
Veiðigjöld
Svo eru það auðvitað útgerðarfyrirtækin. Þau borga ríkissjóði sérstök veiðigjöld umfram aðra skatta fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.
Ný lög um veiðigjald tóku gildi í byrjun árs 2019 þar sem meðal annars var settur nýr reiknistofn sem byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns. Samkvæmt þeim er veiðigjaldið nú ákveðið fyrir almanaksár í stað fiskveiðiárs. Útgerðirnar greiddu 4,8 milljarða króna í veiðigjöld í fyrra, 7,7 milljarða króna í ár og áætlað er að veiðigjaldið skili 6,3 milljarða króna í ríkissjóð á árinu 2022. Þar af munu um 700 milljónir króna falla til vegna gjalds á fiskeldi sem var innleitt 2020.
Veiðigjöldin voru 11,3 milljarðar króna árið 2018.
Þeir sem eiga mikið af peningum
Rúmlega tvö þúsund framteljendur afla að jafnaði tæplega helmings allra fjármagnstekna á Íslandi. Um er að ræða, að minnsta kosti að hluta, ríkasta eitt prósent landsins sem á nægilega mikið af viðbótarpeningum sem það getur látið vinna fyrir sig til að skapa tekjur.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hækkaði fjármagnstekjuskatt í byrjun árs 2018, úr 20 í 22 prósent. Forsætisráðherra sagði við það tilefni að þessi hækkun væri liður í því að gera skattkerfið réttlátara.
Þessi hækkun skilar þó ekki mikilli tekjuaukningu fyrir ríkissjóð. Í upphaflegum fjárlögum ársins 2020 voru tekjur af fjármagnstekjuskatti áætlaðar 32,5 milljarðar króna. Eftir kórónuveirufaraldurinn skall á hríðlækkaði þessi tekjustofn niður í 25,7 milljörðum króna í ár.
Gert er ráð fyrir að hann vaxi aftur upp í 31,5 milljarða króna á næsta ári.
Dauðinn
Gert er ráð fyrir að erfðafjárskattur skili ríkissjóði 7,5 milljörðum króna í tekjur árið 2022. Það er aðeins minna en greitt var í skattinn vegna arfs sem þeir fengu í fyrra, en Morgunblaðið greindi frá því í morgun að erfingjar hafi þá alls greitt rúmlega 8,8 milljarða króna í erfðafjárskatt. Það er rúmlega tvöfalt hærri upphæð en greidd var í slíka skatta árið áður.
Í fjárlagafrumvarpinu segir að hækkun húsnæðisverðs sé einn orsakaþáttur í hækkandi erfðafjárskatts.
Bifreiðareigendur, drykkjufólk og þeir sem enn reykja
Alls eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna eldsneytisgjalda 39,8 milljarðar króna á næsta ári.
Þar munar mestu um olíugjaldið sem á að skila 11,8 milljörðum króna, og hækkar um 2,5 prósent í byrjun næsta árs.
Reykingarfólk og áfengisneytendur fá áfram sem áður að borga sinn skerf til samneyslunnar. Álögur á það fólk hækka enn og aftur. Bæði áfengis- og tóbaksgjöld munu hækka um 2,5 prósent um komandi áramót.
Allir sem flytja inn eða framleiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu ber að greiða áfengisgjald. Einnig þeir sem flytja áfengi með sér eða fá það sent erlendis frá, til eigin nota. Áfengisgjald er greitt af neysluhæfu áfengi sem í er meira en 2.25 prósent af vínanda að rúmmáli. Þessu gjaldi er velt út í verðlag og því hækkar það útsöluverð til neytenda. Tekjur ríkissjóðs vegna áfengisgjalds voru 18,6 milljarðar króna árið 2018. Þær jukust gríðarlega í fyrra þegar kórónuveirufaraldurinn skall á, aðallega vegna þess að landsmenn fluttu nánast alla áfengisneyslu heim til Íslands, en áður hafði hluti hennar farið fram erlendis. Tekjur vegna áfengisgjaldsins á næsta ári eru áætlaðar um 23,8 milljarðar króna sem er ögn hærra en áætlað er fyrir 2021. Tekjur ríkissjóðs af áfengisgjaldi hafa því hækkað 28 prósent frá 2018, eða um 5,2 milljarða króna.
Tóbaksgjaldið átti að skila rúmlega sex milljörðum króna í ríkiskassann í ár en skilaði á endanum um 200 milljónum krónum minna. Þar skiptir hrun í notkun íslensks neftóbaks lykilmáli. Á næsta ári munu tekjurnar áfram dragast saman, nú um 100 milljónir króna á milli ára þrátt fyrir 2,5 prósent hækkun á gjaldinu.
Óreglulegu tekjurnar
Ríkið hefur allskonar aðrar tekjur en skatta. Þar ber auðvitað hæst arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem ríkið á, sérstaklega bönkunum og Landsvirkjun. Slíkar arðgreiðslur hríðféllu vegna kórónuveirufaraldursins, og fóru niður í 18,7 milljarða króna í ár, en taka aftur við sér á næsta ári. Þá eru arðgreiðslur ríkisins áætlaðar 231,8 milljarðar króna en hafa verður í huga að ríkið seldi 35 prósent hlut í Íslandsbanka á rúma 55 milljarða króna í sumar og fær ekki arð af þeim eignarhluta lengur.
Ríkið mun líka innheimta 10,5 milljarða króna í vaxtatekjur og 35,1 milljarða króna vegna sölu á vöru og þjónustu. Inni í þeirri sölu eru til að mynda innritunargjöld í háskóla og framhaldsskóla, sala á vegabréfum og ökuskírteinum og greidd gjöld vegna þinglýsinga, svo dæmi séu tekin. Þá fær ríkið um 4,4 milljarða króna vegna sekta og skaðabóta.
Ríkisstjórnin ætlar að selja eftirstandandi 65 prósent eignarhlut sinn í Íslandsbanka að fullu á næstu tveimur árum. Til stendur að selja um helming útistandandi hlutar ríkisins sumarið 2022 og ríkið reiknar með að fá um 75 milljarða króna fyrir hann.
Hvað er nýtt?
Á meðal þess sem sem má telja til nýjunga í fjárlagafrumvarpinu er að setja á 540 milljónir króna í að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum úr 100 þúsund í 200 þúsund krónur.
Þá hækka skerðingarmörk barnabóta hækka þótt heildarframlagið til málaflokksins lækki milli ára.
Festa á tvöföldum á endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar í sessi og búist er við að upphæðin sem renni úr ríkissjóði vegna þessa verði sama og í ár, eða um 10,4 milljarðar króna. Það er rúmlega tvöföld sú upphæð sem greidd var út árið 2020 vegna þessa.
Þá má nefna að framlög til loftslagsmála verða aukin um einn milljarð króna og 800 milljóna króna viðbótarhækkun á bætur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega til viðbótar við almennar prósentuhækkanir.
Bráðabirgðaákvæði um að fella niður gistináttaskatt verður framlengt út árið 2023 til að mæta áframhaldandi samdrætti í ferðaþjónustu.
Áætlað er að tekjuskattur lækki um 2,3 milljarða á næsta ári vegna upptöku framleiðniviðmiðs við uppfærslu skattleysis- og þrepamarka. Þannig er gert ráð fyrir að skattleysis- og þrepamörkin miði við þróun vísitölu neysluverðs, að viðbættum eitt prósenta framleiðnivexti á ári. Þetta er síðasta skrefið í vaxtalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar sem hafa verið innleidd í tíð ríkisstjórna Katrínar Jakobsdóttur og munu lækka skattgreiðslur um alls 23 milljarða króna árlega.
Hvernig stendur rekstur ríkissjóðs?
Hann er betri en á horfðist þótt hallinn sé mikill, og verði yfir 600 milljarðar króna á þriggja ára tímabili (2020 til 2022).
Til samanburðar má nefna að hallinn á rekstri ríkissjóðs árið 2008, þegar bankahrunið varð, nam 194 milljörðum króna. Mesti tekjuafgangur sögunnar varð árið 2016, þegar að tekjur voru 302 milljörðum króna meiri en útgjöld í kjölfar þess að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja greiddu stöðugleikaframlög í ríkissjóð.
Sú kreppa sem við erum að takast á við vegna kórónuveirufaraldursins er því söguleg og dýpri en nútíma íslenskt samfélag hefur tekið á við áður, þrátt fyrir að bjartari sviðsmyndir hafi raungerst.
Góðu fréttirnar eru þær að hröð niðurgreiðsla skulda á síðustu árum, sérstaklega vegna greiðslna frá slitabúum föllnu bankanna vegna stöðugleikasamninganna sem undirritaðir voru árið 2015, gera ríkið vel í stakk búið til takast á við þessa stöðu. Þegar skuldirnar voru sem mestar, árið 2011, voru þær 86 prósent af landsframleiðslu en voru 28 prósent í lok árs 2019. Til viðbótar við almenna skuldaniðurgreiðslu hefur ríkissjóður á undanförnum árum greitt háar fjárhæðir inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar.
Nýjar horfur fjármálaráðuneytisins búast við að skuldaþróun hins opinbera verði mun hagstæðari en gildandi fjármálaáætlunin gerði ráð fyrir, til að mynda er nú talið að skuldir muni nema um 34 prósentum af landsframleiðslu á næsta ári, í stað 42 prósenta.
Það þýðir að „afkomubætandi ráðstafanir“, sem fela annað hvort í sér skattahækkun eða niðurskurð í útgjöldum, muni nema 34 milljörðum á ári, en geti numið allt að 50 milljörðum króna á ári ef efnahagshorfur versna. Það er helmingi minna en áður var reiknað með.
Ástæðan er þríþætt: bætt afkoma ríkissjóðs, áætlanir um að selja Íslandsbanka og minnka niðurgreiðslur til rafbílaeigendur, leiða til þess að umfang fyrirhugaðra aðhaldsaðgerða verði innan við helmingur af því sem fjármálaáætlunin gerði ráð fyrir. Nýútgefin fjármálastefna sýni ekki nákvæma sundurliðun á því hvernig þessum ráðstöfunum yrði háttað, en framreikningur ráðuneytisins á afkomu hins opinbera sýnir að mun minna lifi eftir af þörfinni fyrir slíkum aðgerðum.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði