Mynd: EPA

Ráðuneytið spurði hagsmunasamtök og komst að þeirri niðurstöðu að brottkast væri „óverulegt“

Kjarninn greindi frá því í morgun að drónaeftirlit Fiskistofu með brottkasti, sem hófst í byrjun árs, skilaði því að brottkastsmálum fjölgaði úr um tíu á ári í 120. Sjávarútvegsráðuneytið hefur ekki talið brottkast vandamál og byggði það mat á lýsingum hagsmunasamtaka útgerðar og sjómanna.

Brott­kast er bannað á Íslandi. Sam­kvæmt lögum um umgengni um nytja­stofna sjávar er skylt að hirða og landa öllum afla sem í veið­ar­færi fiski­skipa kemur í íslenskri lög­sögu, með þeim sér­stak­lega skil­greindum und­an­tekn­ing­um. Þær und­an­tekn­ingar snúa að uppi­stöðu að því að sleppa má fiski sem hefur ekki verð­gildi eða ákveðnum teg­undum sem enn eru taldar líf­væn­legar sé þeim sleppt. 

Óheim­ilt er að henda heilum fiski eða hluta hans aftur í sjó­inn og skal þess gætt að afli skemmist ekki í veið­ar­fær­um. 

Þrátt fyrir þessi skýru lög hafa lengi verið uppi skýrar áhyggjur frá aðilum sem starfa á vett­vangi sjáv­ar­út­vegs um að brott­kast eigi sér stað í tals­verðum mæli og sé raun­veru­legt vanda­mál innan íslenska fisk­veiði­kerf­is­ins.

Eft­ir­lit með brott­kasti á fiski hefur hins vegar verið lítið á Íslandi nán­ast alla tíð, og brott­kastið því ekki virst mik­ið. Ástæða þess hefur oftar en ekki verið sögð mik­ill kostn­aður við það að senda eft­ir­lits­menn á sjó. Fyrir vikið hefur verið erfitt að full­yrða um umfang brott­kasts. 

Ráðu­neytið hélt því fram að brott­kast væri „óveru­legt“

Með bréfi dag­settu 8. mars 2018 fór Alþingi þess á leit við rík­is­end­ur­skoð­anda að hann gerði úttekt á eft­ir­liti Fiski­stofu með ýmsum þátt­um, meðal ann­ars brott­kasti, og því hvort stofn­unin sinnti lög­bundnu hlut­verki sínu. Skýrslu var skilað til Alþingis í des­em­ber 2018 og birt opin­ber­lega í jan­úar 2019.

Nið­ur­staða hennar var meðal ann­ars að eft­ir­lit með brott­kasti væri „afar tak­mark­að, veik­burða og ómark­vis­st“.

Í skýrsl­unni má finna svör sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráðu­neyt­is­ins á þessum tíma við fyr­ir­spurnum Rík­is­end­ur­skoð­unar um brott­kast. Þar kemur meðal ann­ars fram að ráðu­neytið teldi „að brott­kast sé óveru­legt innan íslenska fisk­veiði­flot­ans þrátt fyrir þá sterku hag­rænu hvata sem eru til staðar [...] Á grund­velli fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­inga hafi verið ályktað að í heild­ina sé brott­kast ekki mikið vanda­mál“. 

Þetta mat ráðu­neyt­is­ins var meðal ann­ars byggt á lýs­ingum hags­muna­sam­taka útgerðar og sjó­manna, ekki sjálf­stæðum rann­sóknum á brott­kasti.

Í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar segir að í ljósi þess hversu tak­markað eft­ir­lit stjórn­völd höfðu með brott­kasti sem og tak­mark­aðra rann­sókna á umfangi þess væri vart til­efni til full­yrð­inga um umfang brott­kasts. „Þá er ljóst að sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Haf­rann­sókna­stofnun hafa engar rann­sóknir á teg­unda­háðu brott­kasti farið fram þar í rúman ára­tug auk þess sem gagna­söfnun um lengd­ar­háð brott­kast hefur tals­vert dreg­ist saman und­an­farin ár. Að byggt sé m.a. á lýs­ingum hags­muna­að­ila, við mat ráðu­neyt­is­ins á þessum þætti, eins og kom fram í svari þess til Rík­is­end­ur­skoð­un­ar, er gagn­rýni­vert: Í sam­tölum við hags­muna­sam­tök bæði útgerðar og sjó­manna hefur ekki komið fram að brott­kast á Íslands­miðum sé sér­stakt vanda­mál. Haf­rann­sókna­stofnun áætlar árlega brott­kast á þorski og ýsu og hafa nið­ur­stöð­urnar ekki bent til að brott­kast á und­ir­málsafla sé veru­legt hvað þessa stofna varð­ar. Eftir sem áður munu ætíð koma upp til­vik, en eft­ir­lit á sjó er miklum vand­kvæðum bundið vegna kostn­að­ar.

Dróna­eft­ir­lit sýnir umfangs­mikið brott­kast

Rík­is­end­ur­skoðun lagði til nokkrar úrbætur í skýrslu sinni. Í fyrsta lagi að kanna þyrfti hvernig hægt væri að auka sam­starf Fiski­stofu og Land­helg­is­gæsl­unnar við eft­ir­lit með brott­kasti. Í öðru lagi að auka þyrfti við­veru eft­ir­lits­manna um borð í fiski­skipum og í þriðja lagi þyrfti að horfa til tækninýj­unga við eft­ir­lit sem gætu sparað bæði tíma og fjár­magn.

Síð­asti hluti úrbót­anna fól meðal ann­ars í sér dróna­eft­ir­lit með brott­kasti. Það hófst í byrjun árs 2021. Kjarn­inn greindi frá því í morgun að afleið­ing þess er sú að það sem af er ári hefur Fiski­­stofa tekið til með­­­ferðar að minnsta kosti 120 mál sem varða ætlað brott­kast afla frá fiski­­skip­um, stórum og smá­­um. Frá árinu 2012 hafði mála­­fjöld­inn verið frá tveimur og upp í 26 mál á ári, en oft­­ast hafa málin verið um eða undir tíu tals­ins. Á milli áranna 2020 og 2021 hefur mála­fjöld­inn að minnsta kosti ell­efu­fald­ast.  

Brottkast
Infogram

Dróna­eft­ir­litið fer að mestu leyti fram frá landi, sem leiðir til þess að stærstur hluti brott­kasts­­mál­anna sem Fiski­­stofa skráir er vegna veiða sem fram fara nærri landi. Það þýðir að eft­ir­litið nær ekki nema að tak­mörk­uðu leyti yfir flest stærstu skip flot­ans, sem eru í eigu stærstu útgerða lands­ins, og veiða á miðum fjær landi.

Beiðnin sett fram eftir þátt Kveiks um brott­kast

Beiðni um úttekt rík­is­end­ur­skoð­anda kom frá hópi þing­manna Sam­fylk­ingar og Pírata. Oddný Harð­ar­dótt­ir, þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, var fyrsti flutn­ings­maður henn­ar.

Í grein­ar­gerð með beiðn­inni sagði að að til­efni máls­ins sé umfjöllun frétta­skýr­inga­þátt­ar­ins Kveiks á RÚV 21. nóv­em­ber 2017,  þar sem komu fram ábend­ingar um að Fiski­stofu tæk­ist ekki að upp­fylla skyldur sínar lögum sam­kvæmt.

Í þeim þætti voru meðal ann­ars sýndar upp­tökur af umfangs­miklu brott­kasti um borð í Kleifa­bergi, skipi sem var gert út af Útgerð­ar­fé­lagi Reykja­vík­ur. 

Málið hefur síðan þvælst um kerf­ið. Í byrjun árs 2019 ákvað Fiski­stofa að svipta Kleifa­berg veiði­leyfi í 12 vikur vegna brott­kasts en sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráðu­neytið ákvað fyrst að fresta rétt­ar­á­hrifum ákvörð­un­ar­innar og fella hana síðar end­an­lega úr gildi, meðal ann­ars vegna þess að hluti upp­tak­ana hafi verið frá árunum 2008 til 2010. 

Ráðu­neytið sagði Fiski­stofu að rann­saka upp­tökur af brott­kasti frá árinu 2016 á þeim grund­velli að um mögu­leg eigna­spjöll skip­verja væri að ræða. Það er í sam­ræmi við beiðni sem útgerð skips­ins sendi lög­reglu í nóv­em­ber 2017, um að rann­sókn færi fram á því að spjöll hafi verið unnin á eignum hennar með brott­kast­inu.

Fiski­stofa hefur ekki heim­ildir til að rann­saka eigna­spjöll og því liggur það mál hjá lög­reglu. Í frétt sem birt­ist á RÚV snemma á síð­asta ári kom fram að lög­reglan hafi ítrekað fellt niður rann­sóknir vegna kæra sem borist hafa vegna máls­ins. 

SFS sagði áhyggjur af brott­kasti „að mestu óþarfar“

Dag­inn eftir að Kveiks­þátt­ur­inn var birtur í nóv­em­ber 2007 sendi fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS), Heiðrún Lind Mart­eins­dótt­ir, frá sér yfir­lýs­ingu með yfir­skrift­inni: Umfjöllun um brott­kast – Kveikur án elds“. 

Yfir­lýs­ingin er ekki lengur aðgengi­leg á vef SFS en hægt er að lesa hana í heild sinni í frétt sem Morg­un­blaðið gerði um hana á sínum tíma. Fyr­ir­sögn þeirrar greinar er: „Segir áhyggjur af brott­kasti að mestu óþarfar“.

Í henni sagði meðal ann­ars að upp­taka kvóta­kerf­is­ins hefði dregið veru­lega úr brott­kasti og að Ísland væri leið­andi í heim­inum í bar­átt­unni gegn þeim vágesti. „Við Íslend­ing­ar get­um því, líkt og að svo mörgu öðru leyti þegar kem­ur að sjá­v­­­ar­út­­­vegi, verið stolt af þeim mikla ár­angri sem náðst hef­­ur. Áfram­hald­andi gott sam­­starf allra hags­muna­að­ila mun svo von­andi tak­­marka enn frek­ar jað­ar­­til­vik sem upp geta komið og stríða gegn meg­in­regl­unni um bann við brott­kast­i.“

Í yfir­lýs­ing­unni sagði enn fremur að þær áhyggjur sem settar höfðu verið fram af við­mæl­endum í þætti Kveiks væru að mestu óþarf­ar. 

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar