Alls sóttu 180.679 ferðamenn Ísland heim í nýliðnum júlí. Það eru 25 prósent fleiri en komu hingað í þessum stærsta ferðamannamánuði ársins árið áður og tæplega helmingi fleiri en heimsóttu Ísland í júlí 2011. Þegar litið er lengra aftur er aukningin enn meiri. Árið 2002 voru erlendir gestir okkar Íslendinga í júlí alls 46.015 talsins. Fjöldi þeirra hefur því fjórfaldast síðan þá. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Ferðamálastofu.
Aukning það sem af er ári 27,7 prósent
Það sem af er ári hafa 697.716 ferðamenn heimsótt landið. Það eru 151.363 fleiri en á sama tíma í fyrra. Á öllu árinu 2014 komu 969 þúsund ferðamenn hingað til lands. Ljóst er að mikil fjölgum verður á milli ára með sama áframhaldi.
Það sem meira er þá hefur fjöldi erlendra ferðamanna aukist mikið í hverjum einasta mánuði. Alls nemur aukningin frá byrjun janúar til loka júlí 27,7 prósentum. Þessi mikla aukning, ásamt sprengingu í framboði á flugum sem eiga viðkomu á Íslandi, gerir það að verkum að við sem samfélag græðum sífellt meira á ferðamennsku.
Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu í maí, júní og júlí hafi numið 104 milljörðum króna. Á sama tímabili í fyrra námu tekjurnar um 80 milljörðum króna og því hafa þær hækkað um 24 milljarða króna á milli ára á þessu þriggja mánaða tímabili. Vert er að taka fram að í tölunum er eru ekki meðtaldar gjaldeyristekjur íselnskra fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu utan Íslands.
Bandaríkjamenn flykkjast til Íslands
Aukning ferðamanna sem koma frá Norður-Ameríku er 44,4 prósent á milli ára og ljóst að mesta spreningin er að eiga sér stað á þeim markaði. Aukning er í fjölda ferðamanna frá flestum öðrum mörkuðum líka. Um 27,5 prósent fleiri koma frá Bretlandi í ár en í fyrra, 21 prósent fleiri frá Mið- og Suður-Evrópu og 40,9 prósent frá öðrum löndum sem eru ekki talin sérstaklega og flokkast undir „annað“. Um sjöundi hver ferðamaður er flokkaður í þennan flokk.
Eina markaðssvæðið sem stendur nokkurn veginn í stað eru Norðurlöndin. Frændur okkar virðast ekki vera að taka þátt í tískubylgjunni sem heimsókn til Íslands er orðin. Raunar fækkaði gestum frá Svíþjóð og Noregi í júlímánuði á milli ára.
Ef horft er einungis á á hvaðan ferðamenn í júlí koma þá sést að langflestir ferðamenn sem heimsækja Ísland eru Bandaríkjamenn. Raunar hefur fjöldi ferðamanna frá Norður-Ameríku meira en sjöfaldast frá árinu 2002 á sama tíma og fjöldi allra ferðamanna hefur fjórfaldast. Það er því ljóst hvaðan mesta aukningin er að koma.
Og það virðist ekki ætla að verða neitt lát á. Í fyrra komu 22.998 ferðamenn frá Bandaríkjunum til Íslands í júlí. Í ár voru þeir 37.235 talsins og fjölgaði því um 62 prósent á milli ára. Bandaríkjamenn voru enda um fimmtungur allra sem heimsóttu Íslands í nýliðnum júlí.