Nýsköpunarmiðstöð Íslands fékk tæpan fjórðung þeirra styrkja sem Orkusjóður úthlutaði til alls ellefu verkefna fyrr í þessum mánuði. Fjallað var um úthlutunina á forsíðu Fréttablaðsins í dag sökum þess að formaður nefndarinnar sem velur hverjir fá styrki, Árni Sigfússon, er bróðir forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Þorsteins Inga Sigfússonar. Árni vék ekki sæti þegar fjallað var um styrkveitinguna.
Ljóst er að hæfi Árna til að koma að þeirri málsmeðferð gæti mögulega verið í andstöðu við stjórnsýslulög. Í öðrum kafla þeirra segir að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef hann „er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar“ eða ef hann „tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti“. Auk þess teljast nefndarmenn vanhæfir ef „að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu".
En styrkveitingar til Nýsköpunarmiðstöðvar, sem er á fjárlögum, úr samkeppnissjóðum hafa verið gagnrýndar vegna ýmissa annarra ástæðna. Hlutverk hennar samkvæmt lögum er að aðstoða frumkvöðla, ekki keppa við þá um styrki.
Árni formaður nýrrar nefndar
Orkusjóður er í eigu ríkisins og er hlutverk hans að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða sem miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Yfirumsjón og ábyrgð með sjóðnum er hjá iðnaðar- og viðskiptaráðherra.Í desember í fyrra samþykkti Alþingi að gera breytingar á lögum um Orkusjóð. Í þeim breytingum fólst meðal annars að Orkuráð var lagt niður en í stað þess á iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipta þriggja manna ráðgjafanefnd til fjögurra ára sem hefur það hlutverk að gera tillögur til ráðherra um lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði samkvæmt fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.
Lagabreytingin tók gildi 1. janúar 2015 og í byrjun árs skipaði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þrjá einstaklinga í ráðgjafanefndina. Þeir eru Árni Sigfússon, Franz Viðar Árnason og Halla Hrund Logadóttir.
Árni var auk þess skipaður formaður nefndarinnar.
Árni er velþekktur úr íslensku stjórnmálalífi. Hann var borgarfulltrúi í Reykjavík fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þrettán ár á níunda og tíunda áratugnum og var borgastjóri höfuðborgarinnar í nokkra mánuði árið 1994. Árni varð síðar bæjarstjóri í Reykjanesbæ í tólf ár fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, frá árinu 2002 og fram að síðustu kosningum, vorið 2014, þegar flokkur hans tapaði miklu fylgi og missti völdin í sveitafélaginu. Árni situr enn sem óbreyttur aðalfulltrúi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og er oddviti Sjálfstæðisflokksins þar. Starf bæjarfulltrúa er hlutastarf.
Undanfarið ár hefur Árni fengið nokkur verkefni frá ríkinu. Þann 22. október 2014 skipaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, verkefnastjórn sem hefur það hlutverk að fylgja eftir útbreiðslu og notkun rafrænna skilríkja. Sú verkefnastjórn réð síðan Árna sem verkefnastjóra innleiðingar rafrænna skilríkja.
Tæpur fjórðungur til Nýsköpunarmiðstöðvar
Ráðgjafanefnd Orkusjóðs gerir tillögu um úthlutanir og ráðherrann tekur ákvarðanir um þær á grundvelli þeirra tillagna. Umsýsla sjóðsins er hins vegar hjá Orkustofnun.
Tilkynnt var um styrki Orkusjóðs til 11 verkefna á vef Orkustofnunar 18. september síðastliðinn. Eftirfarandi aðilar hlutu styrki:
Íslensk Nýorka | Drægnireiknir fyrir rafbíla | 1.400.000 |
ElCorrect ehf. | Greining á örorkunýtingu til uppfærslu á rafsíu | 2.300.000 |
Ivar G. Ingvarsson | Íslensku jarðvegur – órannsökuð orkuauðlind | 1.700.000 |
Orkey ehf. | Vinnsla á fitu- og úrgangi til lífdísilsframleiðslu | 1.000.000 |
Sigurður Brynjólsson | Brennisteinsvetni frá jarðvarmavirkjunum nýtt til framleiðslu á lífefnum | 750.000 |
ReSource International ehf. | Production of biofuel from fish-oil by-products | 1.500.000 |
Nýsköpunarmiðstöð Íslands | Ljósveiðar - orkusparnaður í togveiðum | 3.600.000 |
Sigfús Björnsson, próf. | Þróun og smíði lífofns til ræktunar tvíhama örþörunga | 1.500.000 |
Sigurður Karl Jónsson | Færanleg tvenndarvél | 2.100.000 |
Unnsteinn Hermannsson | Endurnýjanleg orka í landbúnaði | 2.400.000 |
Nýsköpunarmiðstöð Íslands | Vistvænt eldsneyti úr afgasi jarðhitavirkjana | 1.000.000 |
Samtals kr. | 19.250.000 |
Nýsköpunarmiðstöð Íslands hlaut hæsta einstaka styrkinn, alls 3,6 milljónir króna, vega verkefnis sem kallast Ljósveiðar og snýst um orkusparnað í togveiðum. Nýsköpunarmiðstöðin hlaut einnig annan styrk, upp á eina milljón króna, segna annars verkefnis sem snýst um gerð vistvæns eldsneytis úr afgasi jarðhitavirkjana. Samtals fékk Nýsköðunarmiðstöðin 24 prósent þeirra styrkja sem veittir voru að þessu sinni.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands er stofnun sem heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hlutverk hennar, samkvæmt lögum um hana, er „að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði í landinu“. Á árinu 2015 fær miðstöðin 537 milljónir króna úr ríkissjóði. Á næsta ári, árinu 2016, mun hún fá samtals 569 milljónir króna úr ríkissjóði og mun auk þess afla sértekna upp á 843 milljónir króna, samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.
Samkvæmt lögum um Nýsköpunarmiðstöð fær hún tekjur sínar frá framlögum úr ríkissjóði, þjónustugjöldum, fjármagnstekjum, tekjum vegna hlutdeildar í félögum og „öðrum tekjum“. Aðrar tekjur eru meðal annars styrkir sem miðstöðin sækir í. Til dæmis hjá Orkusjóði.
Segir Ragnheiði Elínu ekki hafa svarað erindi sínu
Daginn áður en að Orkusjóður birti yfirlit yfir úthlutanir í ár birtist grein á vef fyrirtækisnis Valorku, sem vinnur að þróun tækni til nýtingar sjávarfallaorku í annesjaröstum. Greinin er eftir Valdimar Össurarson, framkvæmdstjóra Valorku og formann Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna. Í henni fer hann hörðum orðum um styrkveitingar Orkusjóðs til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Þar rekur Valdimar að Valorka hafi fengið styrkt frá Tækniþróunarsjóði nýverið. „Valorka fagnar að sjálfsögðu þessari líflínu, sem kom á síðustu stundu; verkefnið hefði að öðrum kosti drepist á þessu sumri þrátt fyrir góðan árangur,“ segir Valdimar í greininni.
Tækniþróunarsjóður gerir hins vegar kröfu um 50 prósent mótframlag vegna sinna styrkveitinga. Á undanförnum árum hefur framlag úr Orkusjóði riðið baggamunin hjá Valorku svo að fyrirtækið hafi getað haldið áfram sinni þróun.
Í ár var Valorku hins vegar synjað um styrk úr Orkusjóði og, að sögn Valdimars, stefnir það verkefni Valorku í bráða hætti, enda sé hann eina úrræðið sem Valorka hafi um mótframlag við styrk Tækniþróunarsjóðs. Hann hafi farið fram á að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, beitti heimild sinni til að breyta niðurstöðu ráðgjafanefndar Orkusjóðar. Ráðherrann hafi hins vegar ekki svarað erindinu.
Segir styrkveitinguna ólögmæta
Það sem fer mest fyrir brjóstið á Valdimari eru úthlutanir til Nýsköpunarsjóðs úr Orkusjóði. Valdimar gerir þríþættar athugasemdir við þær.Í fyrsta lagi að Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem er ætlað að vera frumkvöðlum til ráðgjafar og stuðnings, sé að sækja sjálf um styrki í sömu sjóði og þeir sem hún á að vera að aðstoða. Þannig sé miðstöðin í samkeppni við skjólstæðinga sína og samstarfsaðila.
Í öðrum lagi segir hann styrkina til Nýsköpunarmiðstöðvar vera ámælisverða vegna þess að miðstöðin hafi mun fleiri möguleika en sérhæfð þróunarverkefni á borð við það sem Valorka vinnur að til að sækjast eftir stuðningi við sín verkefni. Ljósvörpuverkefnið, sem fékk hæsta styrkin úr Orkusjóði, sé til að mynda styrkhæft úr þróunarsjóði sjávarútvegsins. „Vítavert verður að teljast að hinu nauma styrkfé Orkusjóðs sé ráðstafað til aðila sem hafa slík úrræði og önnur verkefni, sem þó heyra meira til sviðs orkuframleiðslu, eru sett á guð og gaddinn. Hér er um forkastanleg vinnubrögð að ræða,“ segir Valdimar í grein sinni.
Í þriðja lagi segir hann að styrkveitingar Orkusjóðs til Nýsköpunarmiðstöðvar sé ólogmæt, eins og að henni var staðið, þar sem formaður ráðgjafanefndarinnar sem gerði tillögu um styrkveitingarnar, Árni Sigfússon, og Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, séu bræður. Jakob Björnsson, framkvæmdastjóri Orkustofnunar, hefur staðfest að Árni hafi ekki vikið sæti þegar styrkveitingin var samþykkt. Valdimar telur því að styrkveitingin stangist á við 2. kafla stjórnsýslulaga og hljóti að dæmast ómerk.
Þar segir að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef hann „er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar“ eða ef hann „tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti“. Auk þess teljast nefndarmenn vanhæfir ef „að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu“.
Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að Valdimar hafi kært málið til ráðuneytisins og krafist endurupptöku styrkveitingarinnar.