Alls eru fjórtán svokölluð hrunmál full rannsökuð hjá embætti sérstaks saksóknara og bíða þess að ákvörðun verði tekin um hvort saksótt verði í þeim eða ekki. Til viðbótar eru 24 slík mál í rannsókn, og mörg þeirra mjög langt komið. Búist er við ákvörðun um hvort ákært verði í flestum málanna á þessu ári.
Þetta kemur fram í svari embættisins við fyrirspurn Kjarnans um stöðu ýmissa mála hjá því.
Enginn sótti upphaflega um
Embætti sérstaks saksóknara var sett á fót eftir bankahrunið. Upphaflega var auglýst eftir sérstökum saksóknara í desember 2008. Enginn sótti um. Ólafur Þór Hauksson, þá sýslumaður á Akranesi, var skipaður í embættið í janúar 2009 eftir að auglýst var aftur.
Embættið átti upphaflega að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og í kjölfar atburða sem leiddu til bankahrunsins. Eftir birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í apríl 2010 var ljóst að af ýmsu yrði að taka hjá embættinu. Árið 2011 var efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra síðan sameinuð embætti sérstaks saksóknara og við það fluttist rannsókn og saksókn allra efnahagsbrotamála, líka þeirra sem höfðu ekkert með hrunið að gera, til þess.
Hrunmálin voru 200
Síðan þá hafa 667 mál komið inn á borð embættisins. Af þeim eru um 200 svokölluð hrunmál. Alls hefur 139 þeirra verið vísað frá, hætt við rannsókn þeirra eða málin sameinuð öðrum málum.
Í dag eru 64 mál í rannsókn hjá sérstökum saksóknara og 50 til viðbótar í því ferli að ákveða hvort saksótt verði í þeim eða ekki. Alls bíða 29 mál sem hafa verið kærð til embættisins úthlutunar í rannsókn og í fjórum málum er verið að greina sakarefnið.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, ásamt Stefáni Eiríkssyni, fyrrum lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.
Af þessum fjölda eru 43 hrunmál. Þrjú þeirra eru skráð í bið, tvö eru í greiningu, 24 í rannsókn ( mörg þeirra langt komin) og fjórtán bíða ákvörðunartöku um saksókn.
Til viðbótar eru nokkur hrunmál þegar fyrir dómstólum. Alls eru sjö mál í dómsmeðferð fyrir héraðsdómi og sjö mál eru í áfrýjun til Hæstaréttar. Í þeim sex hrunmálum sem dæmd hafa verið í í Hæstarétti hefur verið sakfellt í fimm. Eina málið sem var sýknað í fyrir Hæstarétti var Vafningsmálið svokallaða.
Ekki hægt að manna allar rannsóknir
Í lok síðasta árs var tilkynnt að embættið hefði lokið rannsókn á meintum umboðssvikum fyrrum stjórnenda og eigenda tryggingafélagsins Sjóvá. Niðurstaðan er að enginn verður ákærður og málið látið niður falla. Ákvörðun þess efnis var tekin skömmu fyrir jól. Þeir sem voru til rannsóknar í málinu höfðu þá verið með stöðu grunaðs manns í 65 mánuði.
Fjárframlög til embættis sérstaks saksóknara voru skorin umtalsvert niður í fjárlögum ársins 2015. Embættið fær 291,4 milljónir króna á þessu ári en það fékk 561 milljón króna í fyrra. Ólafur Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að skert fjárframlög muni mögulega gera það að verkum að hætt veri við rannsókn mála án þess að þau verði full rannsökuð. Auk þess mun rannsókn mála sem þegar eru í rannsókn mögulega dragast. „Á fjórtán mánaða tímabili hefur fækkað um meira en helming starfsmanna og að sama skapi hefur sérfræðingum sem vinna við embættið í verktöku verið fækkað líka. Þetta mikil skerðing mun hafa áhrif þótt enn sé nokkuð snemmt að segja til hvers hún leiðir á endanum. Ljóst er þó að ekki hefur reynst unnt að manna allar þær rannsóknir sem embættið hefur með höndum eins og sakir standa nú.“