Forsætisráðuneytið metur ekki hvort afhenda eigi gögn um ESÍ og fjárfestingaleiðina
Fjármála- og efnahagsráðherra lagði „sjálfstætt mat“ á almannahagsmuni af birtingu lista yfir þá sem keyptu nýverið í Íslandsbanka. Forsætisráðuneytið telur það ekki hlutverk sitt að leggja sambærilegt mat á birtingu gagna um mörg hundruð milljarða króna ráðstafanir Seðlabanka Íslands, sem heyrir undir ráðuneytið. Það mat þurfi bankinn sjálfur að framkvæma. Í ákvæði sem bætt var í lög árið 2019 fékk bankinn heimild til að víkja frá þagnarskyldu ef hagsmunir almennings vega þyngra en hagsmunir sem mæla með leynd.
Forsætisráðuneytið telur það ekki sitt hlutverk að leggja mat á hvort hagsmunir almennings af birtingu gagna um sölu á mörg hundruð milljarða króna eignum Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) og um hverjir fengu að nýta sér fjárfestingaleið Seðlabankans vegi þyngra en þeir hagsmunir sem mæli með leynd yfir þeim upplýsingum. Sömu sögu sé að segja um opinberum á stöðugleikasamningunum sem stjórnvöld gerðu við kröfuhafa föllnu bankanna árið 2015, sem heimiluðu erlendum kröfuhöfum að fara með miklar eignir gegn því að greiða svokallað stöðugleikaframlag.
Ráðuneytið segir að það sé Seðlabankans að leggja mat á hvort opinbera eigi upplýsingarnar.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans sem send var til þess í síðasta mánuði.
Fordæmi fyrir „sjálfstæðu mati“ á birtingu
Fyrirspurnin var send eftir að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði „sjálfstætt mat“ á að birta ætti lista yfir kaupendur að 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka þrátt fyrir að Bankasýsla ríkisins, sem heyrir undir það ráðuneyti, teldi þá birtingu ekki standast lög. Kjarninn fór fram á að forsætisráðuneytið legði sambærilegt sjálfstætt mat á opinberun gagna sem Seðlabankinn hefur undir höndum og rök væru fyrir að eigi brýnt erindi við almenning.
Þegar listinn yfir þá sem fengu að kaupa í Íslandsbanka var birtur sagði í tilkynningu sem birt var á vef stjórnarráðsins að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði metið málið þannig að upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta falli „ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna hefur ráðherra ákveðið að birta yfirlitið.“
Í tilkynningu formanna sitjandi stjórnarflokka sem birtist á vef stjórnarráðsins 19. apríl síðastliðinn, stóð svo að traust og gagnsæi verði að ríkja um sölu á eignum ríkisins. Í þeirri tilkynningu sagði orðrétt: „Almenningur á skýra og óumdeilda kröfu um að allar upplýsingar séu uppi á borðum um slík áform, markmið þeirra og áhrif.“
Nýafstaðið söluferli þar sem fyllsta gagnsæis var heitið
Í svari forsætisráðuneytisins segir að þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið ákvað að birta lista yfir aðila sem keyptu hlut í öðrum áfanga sölu Íslandsbanka hafi verið um að ræða gögn sem ráðuneytið fékk afhent frá Bankasýslu ríkisins. Ráðuneytið hafi metið sem svo að lög stæðu ekki í vegi fyrir birtingu, þrátt fyrir að þær stofnanir og lögmenn sem Bankasýslan leitaði til vegna málsins hafi verið á öndverðu meiði. Birting gagnanna var rökstudd með því að fjármála- og efnahagsráðherra hefði einfaldlega lagt „sjálfstætt mat“ á þær röksemdir sem fram höfðu verið settar og komist að annarri niðurstöðu.
Forsætisráðuneytið segir í svari sínu að þar hafi verið um að ræða söluferli sem var þá nýafstaðið og þar sem stjórnvöld höfðu fyrirfram heitið fyllsta gagnsæi. „Sala Íslandsbanka var á forræði fjármála- og efnahagsráðherra og kom forsætisráðherra að undirbúningi málsins í gegnum ráðherranefnd um efnahagsmál. Forsætisráðuneytið hafði hins vegar ekki aðkomu að þeim málum sem vísað er til í fyrirspurnum þínum.“
Óskað eftir því að ráðuneytið legði „sjálfstætt mat“ á birtingu
Þau gögn sem Kjarninn kallaði eftir að forsætisráðuneytið beitti sér fyrir að opinbera varða ráðstafanir upp á mörg hundruð milljarða króna.
ESÍ starfaði frá 2009 og út árið 2017. Félagið hafði það hlutverk að koma eignum og kröfur sem Seðlabanki Íslands sat uppi með eftir bankahrunið í verð. Umfang eigna og krafna sem ESÍ hélt á eftir hrunið var 490 milljarðar króna samkvæmt svari þáverandi forsætisráðherra við fyrirspurn á þingi í september 2017. ESÍ naut lengi undanþágu frá upplýsingalögum en sú undanþága rann út í desember 2018. Félaginu var slitið 2019.
Kjarninn óskaði eftir því að forsætisráðuneytið legði sambærilegt sjálfstætt mat á að upplýsingar um ráðstöfun þessara eigna yrðu gerðar opinberar og fjármála- og efnahagsráðherra gerði varðandi listann yfir þá sem keyptu í Íslandsbanka.
Með sömu rökum var þess óskað að forsætisráðuneytið legði sjálfstætt mat á þær röksemdir sem settar hafa verið fram um að þagnarskylduákvæði skuli ríkja yfir nöfnum þeirra sem fengu að nýta sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands á frá febrúar 2012 til febrúar 2015. Allt í allt komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvaraði um 206 milljörðum króna. 794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands á tíma þar sem ströng fjármagnshöft voru við lýði. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði allt að 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Að mati Kjarnans er þar um að ræða hóp sem fékk afhent gæði umfram almenna borgara sem leiddu til tækifæra sem almennir borgarar fengu ekki.
Að lokum var þess óskað að stöðugleikasamningarnir yrðu gerðir opinberir með vísun til almannahagsmuna.
Hefur heimild til að afnema leynd
Forsætisráðuneytið sagðist ekki hafa umrædd gögn undir höndum og gæti því ekki tekið afstöðu til þess hvort þagnarskylduákvæði laga um starfsemi Seðlabankans ætti við. Það væri bankans sjálfs að leggja mat á það hvort hagsmunir almennings af birtingu upplýsinganna vegi þyngra en þeir hagsmunir sem mæla með leynd. Því þyrfti að beina fyrirspurn Kjarnans þangað.
Seðlabankinn hefur hingað til synjað afhendingu á umræddum gögnum á grundvelli þagnarskylduákvæða, hvort sem um beiðnir frá þingmönnum eða fjölmiðlum hafi verið að ræða. Auk þess hafa fallið úrskurðir hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem tekið er undir þá afstöðu.
Í svarið ráðuneytisins er hins vegar bent á að með nýjum lögum um Seðlabanka Íslands, sem sett voru árið 2019, hafi verið bætt við ákvæði þar sem bankanum er veitt heimild til að víkja frá þagnarskylduákvæði, „enda vegi hagsmunir almennings af birtingunni þyngra en hagsmunir sem mæla með leynd.“
Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögunum segir að áður en ákvörðun sé tekin um slíka afhendingu þurfi að liggja fyrir greining á þeim hagsmunum sem vegast á í hverju tilviki fyrir sig. „Þá beri við mat á hagsmunum almennings af birtingu upplýsinga m.a. að líta til þess hvort þær varði ráðstöfun opinberra hagsmuna, sem almenningur eigi almennt ríkan rétt til að kynna sér hvernig staðið er að.“
Kjarninn sendi í gær fyrirspurn til Seðlabankans þar sem hann var beðinn um að leggja mat á hagsmuni almennings af birtingu gagnanna og að rökstyðja það mat.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði