Herskárri markaðsherðferð framleiðenda þurrmjólkur og annarra vara sem ætlað er að koma í stað brjóstamjólkur er enn beint að nær öllum foreldrum og óléttum konum í Kína, Víetnam og Bretlandi þrátt fyrir að sérstakar reglur hafi verið settar á fyrir fjórum áratugum í kjölfar mikils hneykslismáls. Þetta hefur ný rannsókn leitt í ljós.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin og UNICEF segja að markaðssetningin, sem m.a. felst í ókeypis prufum af „barnamjólk“ og sérstökum „mömmuhópum“ á netinu, geti ýtt konum frá því að gefa börnum sínum brjóst.
Herferðir fyrirtækjanna beinast einnig að heilbrigðisstarfsfólki. Því eru boðnir styrkir til rannsókna og jafnvel prósentur af sölu á þurrmjólkinni. Allt þetta er bannað samkvæmt alþjóðlegum reglum sem settar voru fyrir fjórum áratugum sem áttu að koma böndum á markaðssetningu þurrmjólkur fyrir ungbörn.
WHO mælir með því að mæður gefi börnum sínum fyrst og fremst brjóstamjólk og eingöngu ef þess gerist nokkur kostur fyrstu sex mánuði ævi þeirra. Stofnunin segir að aðeins um 44 prósent ungbarna fái næringu sína eingöngu úr brjóstamjólk eins og staðan er í dag. Í stórri rannsókn sem gerð var árið 2016 var niðurstaðan sú að lífum yfir 800 þúsund ungbarna mætti bjarga árlega ef hægt yrði að hækka hlutfall þeirra sem fengju brjóstamjólk í frumbernsku.
Barnamorðinginn
Alþjóðlegar reglur um markaðssetningu staðgengilsvara brjóstamjólkur fyrir ungbörn voru settar af WHO árið 1981. Þá höfðu komið fram ásakanir á hendur fyrirtækinu Nestlé fyrir að letja mæður til að hafa börn sín á brjósti og kaupa þess í stað þurrmjólk. Þessari herferð Nestlé var sérstaklega beint að konum í fátækari ríkjum.
Upp komst um aðferðir Nestlé á fyrstu árum áttunda áratugarins og breytti skýrsla Mike Muller, verkfræðings og sérfræðings í málefnum þróunarlanda, sem kom út árið 1974, miklu. Skýrslan hét Barnamorðinginn (e. Baby Killer) og byggði á rannsókn á því hvernig stórfyrirtæki beindi spjótum sínum að fátækum konum með þeim afleiðingum að brjóstagjöf dróst saman sem aftur leiddi til þess að ungbörn létust. „Börn í þriðja heiminum eru að deyja vegna þess að mæður þeirra gefa þeim pela með vestrænni þurrmjólk,“ sagði í inngangi skýrslunnar. „Mörg þeirra sem lifa af eru vannærð og berskjölduð fyrir sjúkdómum svo þau þroskast ekki eðlilega.“
Sölustúlkur í hjúkrunarbúningum
Muller skrifaði að trixin við söluna væru margvísleg. Sölustúlkur stæðu á götuhornum í þorpum, klæddar í föt hjúkrunarkvenna, og gæfu sýnishorn til kvenna. Í þessum heimshluta væri hreinlæti oft ábótavant svo þrif á pelum, túttum og öðru sem fylgir pelagjöf væri ekki nægjanlegt. Hann tók hins vegar fram að það væri ekki bundið við fátæk ríki að börn sýktust við pelagjöf. Það var á þeim árum sem skýrslan var skrifuð, t.d. einnig útbreitt vandamál í Bretlandi.
Afhjúpun Mullers og annarra sem til þekktu í Afríku varð hitamál á Vesturlöndum enda dæmi um hvernig stórfyrirtæki nýttu sér neyð fólks á kostnað barnslífa. Samantekt á markaðsherferð Nestlé, sem fyrirtækið kallaði „Babies Mean Business“, var lekið. Í henni mátti sjá svart á hvítu að markmiðið var að koma mæðrum í fátækum ríkjum „á bragðið“ með að nota þurrmjólk. Fyrirtækið bjó til eftirspurn í löndum þar sem hún hafði ekki verið til staðar og sannfærði fólk um að varan væri ómissandi.
Og almenningur víða um heim brást harkalega við með umfangsmikilli sniðgöngu vara frá Nestlé.
En hvað með vatnið?
Nestlé brást í fyrstu við með því að benda á að vandamálið væri skortur á aðgengi að hreinu vatni í Afríku. Gagnrýnendur fyrirtækisins ættu nú að einbeita sér frekar að því að bæta úr því. Fyrirtækið höfðaði mál, ekki beinlínis á hendur War on Wants, samtökunum sem Muller hafði unnið skýrsluna fyrir, heldur var það þýskur þýðandi sem var lögsóttur. Sá hafði þýtt skýrslu Mullers yfir á sænsku undir fyrirsögninni „Nestlé drepur börn“. Nestlé hafði betur í málaferlunum en dómarinn hvatti fyrirtækið til að breyta markaðsherferðum sínum í grundvallaratriðum. Mörgum þótti það „varnarsigur“ gagnrýnenda fyrirtækisins.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin brást við með því að setja hinar alþjóðlegu markaðsreglur á. Þær fela m.a. í sér að ekki má kynna „barnamjólk“ á sjúkrahúsum, í búðum eða gagnvart almenningi. Ekki má heldur gefa sýnishorn og ekki má gefa heilbrigðisstarfsólki eða mæðrum gjafir í tengslum við markaðssetninguna. Þá er einnig bannað að birta misvísandi upplýsingar um vörurnar, m.a. var framleiðendum gert skylt að upplýsa hver kostnaðurinn í heild við að gefa börnum pela væri – ekki aðeins hvað „mjólkin“ þeirra kostaði.
Þörf á endurskoðun
Nú telja margir tíma til kominn að endurbæta reglurnar, sérstaklega í ljósi þess að þær virðast ekki lengur vera að hafa tilætluð áhrif og að markaðssetning „barnamjólkur“ aukist mikið. Nestlé er enn sakað af ýmsum mannúðarsamtökum að „beygja“ og „sveigja“ reglurnar.
Þurrmjólk og tóbak eru einu framleiðsluvörur heims sem um gilda alþjóðlegar reglur þegar kemur að markaðssetningu. Hins vegar hafa aðeins 25 ríki heims tekið reglur WHO um „barnamjólkina“ upp og á þeim fjórum áratugum sem liðnir eru síðan þær voru fyrst settar hefur sala á „barnamjólkurvörum“ meira en tvöfaldast. Á sama tíma hefur brjóstagjöf aðeins aukist lítillega.
Höfundar nýju rannsóknarinnar á markaðssetningu „barnamjólkur“ segjast gera sér grein fyrir mikilvægi slíkra vara fyrir konur sem geta ekki eða vilja ekki gefa börnum sínum brjóst af einhverjum ástæðum. Hins vegar er það þeirra niðurstaða að lágt hlutfall brjóstagjafar almennt í heiminum sé tilkomið vegna hinnar herskáu markaðsherferða framleiðenda barnamjólkur.
„Rangar og misvísandi upplýsngar um þurrmjólk standa í vegi fyrir aukinni brjóstagjöf,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF um rannsóknina sem gerð var að undirlagi þeirra og WHO.
Nú eru auglýsingarnar að mestu birtar á netinu, á samfélagsmiðlum, og erfitt hefur reynst að koma böndum á þær.
Í fréttaskýringu Reuters-fréttastofunnar um málið er vitnað til yfirlýsingar alþjóðasamtaka framleiðenda „sérstaks mataræðis“ (Special Dietary Foods Industries) þar sem þau segjast fara í einu og öllu að lögum og reglugerðum í þeim löndum sem þau starfa.
WHO vill ekki nafngreina sérstök fyrirtæki í þurrmjólkuriðnaðinum og gerir það ekki í skýrslu sinni. Stofnunin segir hins vegar að fyrirtækin beiti öll svipuðum aðferðum.
Reuters leitaði einnig svara hjá Nestlé. Þar á bæ kom fram að fyrirtækið færi eftir lögum og reglum. Fyrirtækið segist ekki kynna þurrmjólkurvörur sem ætlaðar eru börnum 0-12 mánaða í 163 löndum og að til standi að hætta að kynna vörur ætlaðar 0-6 mánaða alls staðar í heiminum fyrir árslok.