Framlög til RÚV úr ríkissjóði aukast um 290 milljónir króna á næsta ári og verða 5.375 milljónir króna, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var á mánudag. Framlög til RÚV voru hækkuð um 430 milljónir króna milli áranna 2021 og 2022 og því munu framlögin hafa hækkað um 720 milljónir króna á tveimur árum, verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt.
Á sama tíma munu er gert ráð fyrir því að stuðningur við einkarekna fjölmiðla nemi 376,7 milljónum króna á næsta ári, sem er 7,6 milljónum krónum lægri upphæð en var til úthlutunar í ár, þegar alls 25 fjölmiðlafyrirtæki fengu rekstrarstuðning. Það eru fjögur fleiri en fengu stuðning árið 2021, þegar 392 milljónir króna til úthlutunar. Því mun sú upphæð sem ríkissjóður veitir til að styðja við einkarekna fjölmiðla að óbreyttu dragast saman um 15,3 milljónir króna á tveggja ára tímabili, á meðan að framlög til RÚV hafa hækkað um 720 milljónir króna.
Frumvarp um eina leið samþykkt í fyrra
Bág rekstrarstaða fjölmiðla hefur verið til umræðu hérlendis árum saman. Árið 2016 var skipuð nefnd til að fjalla um vandann, svo var rituð skýrsla sem skilað var rúmum tveimur árum síðar með sjö tillögum til úrbóta, þá var unnið úr tillögum hennar og loks smíðuð frumvörp.
Einungis ein þeirra tillagna, styrkjakerfið fyrir einkarekna fjölmiðla, hefur náð í gegn. Frumvarp um var endanum samþykkt á Alþingi í maí í fyrra, eftir nokkrar tilraunir sem stoppaðar voru af þingflokki Sjálfstæðisflokks.
Til viðbótar við ofangreint hefur það haft mikil áhrif á rekstrarumhverfi fjölmiðla að auglýsingatekjur hafa flætt frá hefðbundnum íslenskum miðlum til alþjóðlegra samfélagsmiðla- og netfyrirtækja sem greiða ekki skatta af þeim tekjum hérlendis. Um er að ræða tugi milljarða króna. Íslensk stjórnvöld hafa ekki gert neinar tilraunir til að skattleggja þessar tekjur.
Ráðherra ætlar að leggja fram frumvarp í október
Í frumvarpinu sem samþykkt var í fyrra fólst að 400 milljónum króna yrði skipt á milli þeirra einkareknu fjölmiðla sem uppfylla skilyrði fyrir styrkjagreiðslunni, að frádregnum kostnaði við úthlutunina sem reyndust átta milljónir króna.
Upphaflega stóð til að styrkirnir yrðu að hámarki 50 milljónir króna til hvers fjölmiðils, en frumvarpið átti í erfiðleikum að ná í gengum þingflokk Sjálfstæðisflokks í því formi. Því var þakið hækkað upp í 100 milljónir króna sem þýddi að þrjú stærstu fjölmiðlafyrirtæki landsins: Árvakur, Torg og Sýn, fá mun hærri upphæð en í fyrri útgáfu og minni fjölmiðlar fyrir vikið mun minna.
Styrkjakerfið var með sólarlagsákvæði, sem þýðir að það gildir út árið 2022 en fellur svo úr gildi.
Í fjármálaáætlun er hins vegar gert ráð fyrir stuðningsgreiðslum til fjölmiðla út árið 2025, þótt þær lækki reglulega lítillega og verði 368,8 milljónir króna á því ári. Þótt lögin um styrkjakerfið séu að renna út um komandi áramót er einnig gert ráð fyrir greiðslum á næsta ári í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á mánudag.
Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar má sjá að Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og viðskiptaráðherra, ætlar að leggja fram frumvarp til að framlengja líftíma þess í október næstkomandi. Í frumvarpinu verða einnig lagðar til breytingar á gildandi fyrirkomulagi sem ætlað er að auka fyrirsjáanleika styrkjanna.
Vill fara „dönsku leiðina“ og kynnir áform næsta vor
Á málþingi sem haldið var um opinbera styrki til einkarekinna fjölmiðla í febrúar 2022 lýsti Lilja því yfir að hún ætli að beita sér fyrir því að RÚV fari af auglýsingamarkaði – RÚV var með 2,4 milljarða króna í samkeppnistekjur í fyrra – vildi fara „dönsku leiðina“ í málefnum fjölmiðla hér á landi.
Í Danmörku er DR ekki á auglýsingamarkaði og stutt er við einkarekna fjölmiðla með nokkrum mismunandi leiðum með það að markmiði að tryggja fjölræði á fjölmiðlamarkaði.
Samkvæmt heimildum Kjarnans stendur yfir vinna við mótun þá stefnu yfir í ráðuneyti Lilju og til stendur að leggja hana fram vorið 2023.
Margháttar afleiðingar
Stuðningur við rekstur einkarekinna fjölmiðla er umtalsverður á hinum Norðurlöndunum.
Í vísitölu samtakanna Blaðamanna án landamæra raða þau sér í efstu sætin yfir þau lönd þar sem ríkir mest fjölmiðlafrelsi. Noregur er í fyrsta sæti, Finnland er í öðru sæti, Danmörk í þriðja sæti og Svíþjóð í fjórða sæti.
Ísland situr hins vegar í 16. sæti á lista samtakanna og féll um eitt sæti á milli ára.
Afleiðing þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hefur átt sér ýmsar aðrar birtingarmyndir. Ein slík birtist í Menningarvísum Hagstofunnar sem birtir voru í fyrrasumar. Þar kom fram að árið 2013 hefðu 2.238 manns starfað í fjölmiðlun á Íslandi. Árið 2020 voru þeir orðnir tæplega 876 talsins. Fækkunin hafði ágerst hratt á síðustu árum. Frá árinu 2018 og út árið 2020 fækkaði starfandi fólki í fjölmiðlum 45 prósent, eða 731 manns.
Samhliða fækkun starfsmanna fjölmiðla hefur launasumma, árleg summa staðgreiðsluskyldra launagreiðslna launafólks, einnig dregist saman meðal rekstraraðila í fjölmiðlun. Árið 2018 var launasumman 8,1 milljarður króna. Árið 2020 var hún hins vegar komin niður í 5,3 milljarða króna og hafði því dregist saman um 35 prósent á tveimur árum.