Framsóknarflokkurinn hefur ekki mælst með minna fylgi í könnunum MMR frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður flokksins í janúar 2009. Nýjasta könnun fyrirtækisins, sem var birt í dag, sýnir að einungis 8,6 prósent aðspurðra myndu kjósa flokkinn í dag. Það er því ljóst að vera flokksins í ríkisstjórn hefur ekki skilað honum miklum vinsældum.
Sama má raunar segja um Sjálfstæðisflokkinn sem mælist enn töluvert frá kjörfylgi sínu, sem var þó ein slakasta útkoma sem flokkurinn hefur nokkru sinni fengið. Þessar óvinsældir stjórnarflokkanna skila hefðbundnum stjórnmálaflokkum í andstöðu á þinginu hins vegar ekki miklu. Bæði Samfylkingin og Vinstri græn virðast föst í mikilli tilvistarkreppu sem gerir það að verkum að kjósendur þýðast hvorugan flokkinn og Björt framtíð, sem lengi vel mældist næst stærsti flokkur landsins, mælist með minna fylgi en í síðustu könnun í sjöunda skiptið í röð. Flokkurinn mælist nú minnstur allra sem eiga fulltrúa á þingi.
Ástæðan fyrir þessari stöðu blasir við: gríðarleg fylgisaukning Pírata.
Nýr botn Framsóknar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi forsætisráðherra, var kjörinn formaður Framsóknarflokksins 18. janúar 2009. Flokkurinn var í mikilli krísu í kjölfar hrunsins á þeim tíma og könnun sem gerð var í desember 2008 sýndi að einungis 4,9 prósent landsmanna vildi kjósa hann.
Þremur dögum eftir að Sigmundur Davíð tók við formennsku birti MMR könnun sem sýndi að flokkur hans mældist með 17,2 prósent fylgi. Það féll hins vegar skarpt næstu mánuði og náði botni í apríl 2009 þegar fylgi flokksins mældist einungis níu prósent.
Flokkurinn náði síðan flugi fyrir síðustu kosningar og hlaut þá 24,4 prósent atkvæða. Það dugði til að Framsóknarflokkurinn leiddi ríkisstjórn, þar sem Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra. Síðan má segja að flokkurinn hafi verið í frjálsu falli. Sumarið 2014 var fylgið komið niður í um 9,5 prósent og það náði síðan lægsta punkti frá hveitibrauðsdögum Sigmundar Davíðs á formannsstóli í janúar síðastliðnum, þegar fylgið mældist 9,4 prósent. Nú hefur það enn fallið og fylgi Framsóknarflokksins mælist í dag lægra en nokkru sinni fyrr síðan að skipt var um formann í flokknum í janúar 2009, eða 8,6 prósent.
Sjálfstæðisflokkurinn ekki langt undan
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 26,7 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Það var vissulega bæting frá kosningunum 2009, þegar hann fékk 23,7 prósent, en langt frá því sem flokkurinn er vanur að fá þegar litið er á fylgi hans í sögulegu samhengi. Samhliða minnkandi vinsældum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur fylgi hans dalað áfram allt frá síðustu kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína verstu fylgismælingu á kjörtímabilinu í apríl síðastliðnum þegar fylgið mældist einungis 21,9 prósent. Fylgi flokksins hressist aðeins á milli kannana og mælist í dag 23,1 prósent. Það er samt sem áður lægra en Sjálfstæðisflokkurinn fékk í kosningunum 2009, sem eru verstu kosningar flokksins frá upphafi.
Á töluvert í land við að ná síðustu ríkisstjórn í óvinsældum
Stuðningur við ríkisstjórnina eykst lítillega á milli mánaða en er samt einungis 31,4 prósent. Þegar ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við mældist stuðningur við hana 59,9 prósent. Hann hefur því tæplega helmingast frá því sem best lét. Sitjandi ríkisstjórn á þó enn töluvert í land með að ná þeirri sem sat á undan henni í óvinsældum. Þegar stuðningur við hana mældist minnstur, í október 2010, studdu einungis 22,1 prósent aðspurðra ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.
Vert er þó að taka fram að stuðningur við hana jókst aftur þegar leið á kjörtímabilið og þegar hún fór frá studdu 31,5 prósent þá ríkisstjórn, 0,1 prósentustígi fleiri en styðja þá sem nú situr.
Tilvistarkreppa stjórnarandstöðunnar
En það eru ekki bara stjórnarflokkarnir tveir sem eiga í tilvistarkreppu. Samfylkingin mælist nú með 13,1 prósent fylgi. Flokkurinn bætir sannarlega við sig milli kannana, en fylgið var 10,4 prósent í apríl. Sú mæling er hins vegar sú versta sem Samfylkingin hefur fengið frá hruni. Fylgið eins og það stendur í dag er einungis 0,2 prósent yfir kjörfylgi Samfylkingarinnar, en útreiðin sem flokkurinn fékk í síðustu alþingiskosningum er sú versta sem íslenskum stjórnmálaflokkur hefur nokkru sinni fengið milli kosninga. Fylgið fór úr 29,8 prósentum í kosningunum 2009 niður í 12,9 prósent vorið 2013.
Minnkandi fylgi ríkisstjórnarflokkanna skilar sér hvorki til Samfylkingar né Bjartrar framtíðar. Báðir flokkar virðast eiga við tilvistarkreppu að etja.
Vinstri grænir eiga vinsælasta leiðtogann, Katrínu Jakobsdóttur, sem virðist höfða til mjög víðs hóps landsmanna. Það skilar sér þó enn og aftur ekki í neinni fylgisaukningu við flokkinn sem hún er í forystu fyrir. Fylgi Vinstri grænna lækkar lítillega á milli kannana og stendur nú í 10,4 prósent. Það er aðeins minna en flokkurinn fékk í síðustu alþingiskosningum, þegar 10,5 prósent atkvæða féllu honum í skaut.
Fylgið dalar sjöunda mánuðinn í röð
Sá stjórnarandstöðuflokkur sem ætti að hafa mestar áhyggjur yfir því að vera ekki að ná til almennings er Björt framtíð. Flokkurinn hlaut 8,2 prósent í síðustu kosningum, þeim fyrstu sem hann bauð fram í. Fylgið hafði mælst hærra í aðdraganda kosninganna og því er ljóst að niðurstaða þeirra var að minnsta kosti sumum frambjóðendum flokksins, sem vonast höfðu eftir þingsæti, töluverð vonbrigði.
Í kjölfar kosninganna fór fylgið að mælast aftur hærra og í júní 2014 mældist Björt framtíð næst stærsti flokkur landsins á eftir Sjálfstæðisflokknum, með alls 21,8 prósent fylgi. Þetta fylgi hélst vel fram á haust og í október var stuðningur við flokkinn en að mælast yfir 20 prósent. Þá hófst frjálst fall. Frá því í lok janúar hefur fylgi Bjartrar framtíðar í könnunum MMR farið úr því að mælast 16,8 prósent í 8,2 prósent. Fylgið hefur dalaði í alls sjö könnunum í röð.
Píratar halda ekki bara velli, heldur bæta við sig
Stóra fréttin í könnunum MMR og fleiri sem mæla fylgi stjórnmálaflokka í síðasta mánuði var að fylgi Pírata var komið yfir 30 prósent. Það er auðvitað stórfrétt að það haldist ekki einungis í slíkum hæðum heldur bæti flokkurinn við sig. Fylgi hans mælist nú 32,7 prósent sem gerir Pírata að langstærsta flokki landsins ef kosið væri í dag.
Þetta er líka þriðja könnun MMR í röð sem mælir Pírata sem stærsta flokk landsins. Píratar fengu 5,1 prósent fylgi í kosningunum í apríl 2013 og hafa því rúmlega sexfaldað fylgi sitt á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að þær fóru fram.