Í annað sinn á kjörtímabilinu er nýafstaðinn blaðamannafundur í Hörpunni, þar sem stjórnvöld, með Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í broddi fylkingar, kynna stór og mikil áform þar spjótunum er beint að kröfuhöfum föllnu bankanna.
Hinn 10. nóvember í fyrra var það leiðréttingin svonefnda á verðtryggðum skuldum heimila, fyrir um 80 milljarða, og nú tæpum sjö mánuðum síðar eru það áform um að losa um fjármagnshöft með því að setja skilyrði fyrir kröfuhafa föllnu bankanna, eða 39 prósent stöðugleikaskatt, og að „bræða“ niður snjónhengju aflandskróna.
Hver verða áhrifin pólitískt?
Óhætt er að segja að Framsóknarflokkurinn þurfi á byr í seglin að halda, enda mælist fylgi við hann í lægstu lægðum í augnablikinu. Frá því leiðréttingin var kynnt hefur fylgið hríðfallið, þvert á það sem margir héldu, og mælir Gallup nú fylgið í 8,9 prósentum. Til samanburðar fékk flokkurinn 24,4 prósent í kosningunum vorið 2013, þegar hann komst til valda.
Ljóst er að margir innan Framsóknarflokksins eru með miklar væntingar um að nýlega kynnt áform um afnám hafta, með mörg hundruð milljarða ávinningi fyrir ríkissjóð og almenning, geti haft mikil áhrif á fylgi flokksins og pólitískt bakland hans.
Sigurður Hannesson og Benedikt Gíslason, varaformenn framkvæmdahóps um losun hafta, hafa verið í lykilhlutverki í undirbúningi fyrir aðgerðirnar sem nú hafa verið kynntar. Mynd: Birgir.
„Það var ekki lítið hlegið að frambjóðendum Framsóknarflokksins þegar þeir minntust á kylfu og gulrót í síðustu kosningabaráttu. Pólitískir andstæðingar höfðu aldrei heyrt aðra eins firru, aldrei heyrt annað eins bull og það að hægt væri að nálgast kröfuhafa á þessum nótum. Annað hefur komið á daginn,“ sagði Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi í dag. Hann fór fram á að andstæðingar flokksins bæðu Framsókn afsökunar á orðum sínum um málflutning flokksins, í ljósi þess hvernig úr málunum væri að spilast.
Viðmælendur Kjarnans innan Framsóknarflokksins, höfðu svipaða sögu að segja. Nú væri komið í ljós að það flokkurinn hefði haft á réttu að standa, hvað varðar möguleika á því að fá mikla peninga frá kröfuhöfum í slitabú bankanna til hagsbóta fyrir almenning, og ætti að uppskera eftir því.
Leiðréttingin ekki vinsæl – En hvað með losun hafta?
Óhætt er að segja að hið pólitíska landslag á Íslandi, eftir hrunið, hafi – eins og nær allur gangurinn í efnahagsmálum – verið fordæmalaus. Í landsmálunum vann VG stórsigur í kosningunum 2009, Framsókn eins og áður segir árið 2013 en spurningin er hvað gerist eftir 23 mánuði, í kosningunum 2017. Þessi tæpu tvö ár eru langur tími í pólitík, en eins og sakir standa mælist fylgið við Pírata langsamlega mest, eða 34,1 prósent.
Leiðréttingin svonefnda var ekki til vinsælda fallin, í það minnsta á þeim tíma sem liðin er frá kynningu á henni, en ljóst má telja að Framsóknarflokkurinn muni vafalítið horfa til þess að áætlunin og skilyrðin fyrir losun hafta, sem hafa nú verið kynnt með svipuðum hætti og sú fyrri, muni auka vinsældir flokksins. Ekki veitir flokknum af því í augnablikinu, enda fylgið í lægstu lægðum.