Framsóknarflokkurinn kynnti málefnaáherslur sínar fyrir komandi kosningar á fundi á Hótel Nordica í Reykjavík í gærkvöldi, undir slagorðinu Fjárfestum í fólki.
Flokkurinn, sem er fyrstur núverandi stjórnarflokka til þess að kynna kosningaáherslur sínar, segist ekki ætla að leggja fram hugmyndir að „töfra- eða allsherjarlausnum“ fyrir þessar kosningar.
Í málefnaáherslum Framsóknar er víða talað um að fjárfesta í fólki og efla eða jafnvel stórefla ýmis kerfi samfélagsins, en sjaldnar er talað hvernig flokkurinn nákvæmlega vilji gera það.
Kjarninn skoðaði málefnaskrá flokksins fyrir kosningarnar og tók út það helsta.
Stærri fyrirtæki borgi hærri skatta
Í atvinnumálum segist Framsóknarflokkurinn vera málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Flokkurinn vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka tryggingagjald á lítil og meðalstór fyrirtæki. Samhliða segir flokkurinn nauðsynlegt að taka upp fleiri þrep í tekjustatti fyrirtækja.
„Hreinan hagnað fyrirtækja umfram 200 m.kr. á ári þarf að skattleggja hærra til á móti lækkuninni til að hún dragi ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi,“ segir í málefnaskrá flokksins.
Flokkurinn segist einnig leggja áherslu á að tekið verði tillit til stærðar fyrirtækja við álagningu ýmissa opinberra gjaldra, sem í dag eru í formi flatra gjalda eða skatta, eins og gjöld vegna starfsleyfa og úttekta eftirlitsaðila.
Framsókn segist líka vilja nota skattkerfið til að jafna aðstöðumun fólks á landsbyggðinni, en ekki er útskýrt nákvæmlega við hvað er átt í því tilliti.
Þrjú ný ráðuneyti á teikniborði Framsóknarflokksins
Í kosningastefnu Framsóknarflokksins segir að vilji flokksins sé að breyta skipulagi stjórnarráðsins nokkuð og setja á fót heil þrjú ný ráðuneyti.
Þannig vill flokkurinn koma á fót sérstöku loftslagsráðuneyti til þess að halda utan um aðgerðir í þeim efnum og sömuleiðis kljúfa landbúnaðinn frá sjávarútveginum yfir í sérstakt landbúnaðar- og matvælaráðuneyti. Til viðbótar við það segir flokkurinn að það ætti að setja á fót sérstakt ráðuneyti skapandi greina.
Auk þess segir flokkurinn að færa þurfi skipulagsmál og húsnæðismál undir eitt og sama ráðuneytið, en eins og staðan er í dag heyra skipulagsmálin undir samgönguráðuneytið og húsnæðismálin eru í félagsmálaráðuneytinu.
35 prósent endurgreiðslur til kvikmyndagerðar
Auk þess að segja að næsta skref sé „sérstakt ráðuneyti skapandi greina“ segist Framsóknarflokkurinn vilja byggja undir uppbyggingu í skapandi greinum. Í kosningastefnunni segir meðal annars að flokkurinn vilji hækka endurgreiðslur á kostnaði við kvikmyndagerð úr 25 prósentum upp í 35 prósent og byggja upp innviði fyrir kvikmyndagerð.
Flokkurinn segir tækifærin í hugverkaiðnaði nær ótakmörkuð og vill hvetja til frekari fjárfestinga á sviðinu með „fjárfestingastuðningi við stærri verkefni“ sem skapi verðmæti og störf. Framsókn segist einnig vilja styrkja Tækniþróunarsjóð og bæta skattaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja.
Sundabraut í gang 2026 og alltaf ein jarðgöng í byggingu
Framsóknarflokkurinn hefur farið með ráðuneyti samgöngumála undanfarin ár og málefnaskrá flokksins í þeim efnum er að mestu upptalning á þeim verkum sem ákveðið hefur verið að ráðast í á næstu árum og þeim sem Sigurður Ingi Jóhannesson formaður flokksins hefur beitt sér fyrir.
Sérstaklega er minnst á Sundabraut, sem flokkurinn segir að verði stórkostleg samgöngubót sem losi um umferðarhnúta. „Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að undirbúningi svo framkvæmdir geti byrjað eins og áætlanir gera ráð fyrir árið 2026,“ segir um Sundabrautina í plaggi flokksins.
Varðandi uppbyggingu innviða á hálendinu segist Framsókn vilja huga að því til framtíðar að rafmagnsbílar komist þar um. Einnig vill flokkurinn leggja áherslu á vegina um Kjöl og að Fjallabaki, „ekki síst vegna mögulegs öryggishlutverks þeirra ef náttúruvá ber að dyrum.“
Framsókn vill síðan að á hverjum tíma sé alltaf unnið að því að byggja að minnsta kosti ein jarðgöng á landinu. Flokkurinn segist líka vilja efla bæði innanlandsflugvelli og hafnir.
Meira fé til byggðamála
Framsóknarflokkurinn segist vilja setja bæði aukið fé í byggðaáætlun og auka við eigið fé Byggðastofnunar. Þá vill flokkurinn að byggðir verði klasar í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs út um landið til að tryggja betur framgang hugmyndafræðinnar um störf án staðsetningar.
„Sett verði í forgang því tengdu að þróa skattalega hvata til að flýta þeirri uppbyggingu svo klasar eða samvinnuhús rísi sem víðast. Aðstöðuleysi má ekki koma í veg fyrir að störf á vegum hins opinbera og einkaaðila verði til á landsbyggðinni,“ segir í stefnu flokksins.
Flokkurinn segist líka vilja beita „fjárhagslegum hvötum“ að auka aðgengi íbúa á skilgreindum brothættum svæðum að opinberri þjónustu og segir Loftbrúna, niðurgreitt flug fyrir íbúa landsbyggðarinnar, dæmi um vel heppnaða aðgerð af þessu tagi.
Grænn iðnaður
Í málefnaáherslum Framsóknarflokksins er vikið að loftslagsmálum í kaflanum um landbúnað. Þar segir að flokkinn vilji styðja betur við landgræðslu og skógrækt til að mæta skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum og að stuðningur hin opinbera í landbúnaði þurfi í auknum mæli „að beinast að því að efla fjölbreyta ræktun og landnýtingu, þar með talið kolefnisbindingu.“
Einnig er sér kafli um loftslagsmálin, þar sem flokkurinn segist vilja efla grænan iðnað, þar á meðal vetnisframleiðslu og „nýta tækifærin í landinu til nýsköpunar, þróunar og verðmætasköpunar í loftslagsmálum“. Framsókn segist vilja taka „enn stærri skref“ í orkuskiptum á næstu árum.
„Verkefnin þurfa að vera markvissari og skilvirkari og til þess að leiða það telur Framsókn nauðsynlegt að koma á sérstöku loftslagsráðuneyti. Stefnan er kolefnishlutlaust Ísland árið 2040,“ segir í stefnuplaggi flokksins.
Fjárfestingar í fólki sem hefur lent í áföllum
Í heilbrigðismálum segist Framsóknarflokkurinn vilja skoða hvort tilefni sé til aukins einkareksturs innan heilbrigðisgeirans.
Þá vill flokkurinn ráðast í þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum, auk þess sem flokkurinn vill efla geðheilbrigðisþjónustu í forvarnaskyn og segist vilja stórefla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrastofnana, sérstaklega fyrir eldra fólk. Bent er á að Finnar hafi náð eftirtektarverðum árangri varðandi hið síðastnefnda.
Flokkurinn segist líka vilja fjárfesta í fólki sem hefur lent í margvíslegum alvarlegum áföllum á sinni lífsleið og fara í markvissa vinnu við að endurmeta og samþætta þjónustu við þennan hóp fólks.
Styrkir til foreldra sem eru með börn heima
Í málefnum barna segist Framsóknarflokkurinn meðal annars vilja koma á fót styrkjum fyrir foreldra sem þurfa að brúa bil á milli fæðingarorlofs og leikskóla og eru ekki með börnin hjá dagforeldri. Ekki kemur fram hve háa styrki flokkurinn sér fyrir sér.
Einnig vill flokkurinn koma á svokallaðri þjónustutryggingu, „sem þýðir að ef einstaklingur fær ekki heilbrigðis- eða félagsþjónustu hjá hinu opinbera er honum vísað til einkaaðila, samanber danska módelið.“
Í málefnaskrá flokksins segir að eitt flóknasta viðfangsefni íslenskra stjórnmála síðustu áratugi hafi verið sú staðreynd að börn þurfi oft að bíða óhóflega lengi eftir greiningu eða þjónustu vegna mögulegs vanda.
Framsókn segist ætla að stytta biðlista eftir greiningarúrræðum með því að fjölga sérhæfðu starfsfólki og grípa fyrr inn í aðstæður barna.
Sextíu þúsund úr ríkissjóði til allra barna
Framsókn segist vilja koma á ríkisstyrkjum vegna frístunda barna og viðrar hugmynd um 60 þúsund króna greiðslu á ári, til allra barna, en flest sveitarfélög landsins niðurgreiða í dag tómstundir barna að einhverju marki.
Hvað íþróttastarf varðar segist flokkurinn einnig vilja byggja nýja þjóðarleikvanga í samstarfi við íþróttahreyfinguna, styðja betur við afreksíþróttafólk með auknum fjárframlögum til afrekssjóðs sérsambanda, auka framlög í ferðajöfnunarsjóð íþróttafélaga og styðja sérstaklega við íþróttafélög sem starfrækja meistaraflokka kvenna, til að jafna fjárhagslegan mun á milli karla- og kvennadeilda í afreksstarfi í hópíþróttum.
Hlutdeildarlán fyrir eldra fólk
Í málefnum eldra fólks segist Framsókn vilja afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur og gera stórátak í uppbyggingu heimahjúkrunar og dagþjálfunarrýma.
Flokkurinn segist leggja áherslu á að „almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar.“
Þá segist flokkurinn vilja mæta þeim verst stöddu í hópi eldri borgara og horfa sérstaklega til húsnæðismála. Framsókn segir að skoða þurfi möguleikann á hlutdeildarlánum fyrir eldra fólk, en hlutdeildarlánin eru úrræði sem felur í sér að ríkið gerist í raun meðfjárfestir þeirra sem eru að koma inn á eignarmarkað á íbúðamarkaði og hefur hingað til einungis beinst að tekjulágum fyrstu kaupendum.
Í húsnæðismálum segist flokkurinn vilja færa skipulags- og húsnæðismál inn í sama ráðuneyti til að „auka skilvirkni þegar kemur að skipulagsmálum sveitarfélaga“.
Flokkurinn segist einnig vilja auka framboð af almennum íbúðum fyrir öryrkja og fatlaða og sem áður segir, útfæra hlutdeildarlán fyrir fleiri en bara fyrstu kaupendur. „Þá er sérstaklega horft til eldra fólks og félagslega veikra hópa í samfélaginu,“ segir í kosningastefnunni.
Vilja tryggja innflytjendum tækifæri til að læra íslensku
Í menntamálum segist Framsóknarflokkurinn meðal annars vilja auka vægi iðn- og tæknimenntunar og tryggja aukið jafnræði bók- og verknáms. Þá segist flokkurinn, sem hefur farið með mennta- og menningarmálaráðuneytið á kjörtímabilinu, ætla að sýna lestrarvanda drengja sérstaka athygli og „styðja kröftuglega við íslenska tungu í sífellt alþjóðlegri og stafrænni heimi.“
Flokkurinn segist líka vilja tryggja öllum sem eru af „erlendu bergi brotnir“ hér á landi tækifæri til þess að læra íslensku.