Greint var frá því í gærkvöldi að Gústaf Adolf Níelsson hefði verið skipaður sem varamaður í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar fyrir hönd Framsóknarflokksins og flugvallarvina. Hann er flokksbundinn sjálfstæðismaður og hefur vakið athygli fyrir að tala gegn múslimum og hjónaböndum og ættleiðingum samkynhneigðra. Rétt rúmir tólf tímar liðu þar til búið var að draga skipan hans til baka. Kjarninn fer yfir atburðarásina.
Strax umdeilt og ekki einhugur í borgarstjórn
Gústaf var kjörinn sem varamaður Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknar, í mannréttindaráði borgarinnar á fundi borgarstjórnar í gærkvöldi. Skipan Gústafs var strax umdeild þar sem ekki ríkti einhugur um hann, eins og venja er þegar skipað er í ráð og nefndir borgarinnar. Fimm borgarfulltrúar meirihlutans sátu hjá við afgreiðslu málsins, Sóley Tómasdóttir, Halldór Auðar Svansson, Skúli Helgason, Heiða Björg Hilmisdóttir og borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson. Aðrir borgarfulltrúar samþykktu skipunina, þar með taldir aðrir borgarfulltrúar Samfylkingarinnar.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.
Borgarstjóri sagði í samtali við Kjarnann í dag að hann hafi setið hjá vegna þess að hann þekkti til Gústafs og málflutnings hans. „Tilnefning í þetta varamannssæti var auðvitað einungis á ábyrgð Framsóknarflokksins. Það er nánast óskrifuð regla að virða tilnefningar flokka í kosningum í nefndir og ráð,“ sagði Dagur. Hann kvaðst mjög feginn að niðurstaðan hafi orðið sú að draga skipun Gústafs til baka.
Alls konar raddir ættu að heyrast í mannréttindaráði
Vísir sagði frá málinu í gærkvöldi og ræddi við Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur borgarfulltrúa sem sagði allskonar raddir eiga að hljóma í mannréttindaráði. „Gústaf hefur verið virkur í þjóðfélagsumræðunni síðustu árin. Á grundvelli yfirlýsinga í samstarfssáttmála meirihlutans um að hlustað sé á allskonar raddir og þeim skapaður vettvangur þá er það mat borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina að skipan hans sem varamanns styðji við þau sjónarmið,“ sagði Guðfinna við Vísi. Þá kom fram í viðtölum við Gústaf að Sveinbjörg Birna hafi haft samband við hann í desember vegna málsins.
Strax í morgun höfðu tveir ráðherrar, Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, tjáð sig um málið. Eygló sagði skipunina óásættanlega og ekki í samræmi við gildi flokksins. Gunnar Bragi tók undir og skoraði á Framsókn og flugvallarvini að skipa nýjan varamann. Fleiri þingmenn Framsóknarflokksins, sem og bæjarfulltrúar, tóku í sama streng.
„Mistök“ dregin til baka
Rétt fyrir hádegi kom svo tilkynning frá flokknum þar sem greint var frá því að ákveðið hefði verið að draga til baka skipun Gústafs til baka. „Skipun varamanns í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar í gær er ekki í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins og voru því mistök af okkar hálfu,“ stóð í yfirlýsingu. Enn fremur stóð að flokkurinn hafnaði hvers konar mismunun og berðist fyrir mannréttindum. Greta Björg Egilsdóttir mun taka sæti varamanns í stað Gústafs, en ekki verður hægt að ganga frá skipun hennar fyrr en borgarstjórn kemur saman og kýs um málið næst.
Skömmu eftir að tilkynnt var að Gústaf yrði ekki fulltrúi Framsóknar í borginni sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra frá því að hann hefði fundað með borgarfulltrúum flokksins og rætt þau mistök sem hafi verið gerð við nefndarskipan. Hann hefur ekki tjáð sig frekar um málið.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sagði í viðtali við mbl.is eftir ákvörðunina að ekki hefði orðið vinnufriður um málefnin, „og við vissum ekki af afstöðu til samkynhneigðra. Það er það sem breyttist.“ Hún minntist hins vegar ekki á afstöðu Gústafs til múslima.
Borgarfulltrúar annarra flokka tjáðu sig einnig um þetta atriði.
Gústaf sjálfur hefur komið í fjölmiðla í dag og sagt að tekist hafi að hræða líftóruna úr oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík. „Ég sé það að oddvitinn hefur verið tekinn í hraðnámskeið í pólitískum rétttrúnaði,“ sagði hann einnig.
Undir kvöld kom svo önnur tilkynning frá Framsóknarflokknum í Reykjavík þar sem áréttað var að flokkurinn virði trúfrelsi og sé ekki né hafi verið andstæðingar minnihlutahópa í landinu. „Vinna okkar í borgarstjórn hefur helgast af baráttu fyrir bættum hag borgarbúa, skilvirkari þjónustu og jafnrétti allra hópa. Við munum halda áfram þeirri vinnu.“
Hver er Gústaf?
Gústaf er fæddur árið 1953 og er 61 árs gamall. Hann er sagnfræðingur og hefur meðal annars starfað sem útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, þar sem hann fjallaði bæði um málefni samkynhneigðra og útlendinga. Hann hélt úti bloggi á bloggsvæði Morgunblaðsins þar sem hann skrifaði um sömu mál. Gústaf var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins á tíunda áratug síðustu aldar. Hann starfaði einnig fyrir nektardansstaðinn Bóhem um tíma og skrifaði meðal annars gegn vændisfrumvarpi sem þá hafði verið lagt fram á Alþingi.
Árið 2005 bauð hann sig fram í áttunda sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í borginni. Í viðtali við Fréttablaðið í tilefni af því sagðist hann vera sjálfstæðismaður af klassískum skóla.
Gústaf skrifaði grein um frumvarp um réttarstöðu samkynhneigðra í Morgunblaðið árið 2005, þar sem afstaða hans til málsins er rakin. „Það hefur löngum verið þekkt að sumt fólk leggur ást á sitt eigið kyn, en það er ekki þar með sagt að slík háttsemi sé eðlileg, heldur þvert á móti. En hin kristnu samfélög Vesturlanda eru frjálslynd og umburðarlynd. Þau skilja að sum okkar eru öfugsnúin og afbrigðileg og láta refsilaust í dag, enda kærleiksboðskapurinn grunntónn í trúnni. En fyrr má nú rota en dauðrota, það var aldrei meiningin að leiða hið afbrigðilega og ófrjóa til öndvegis.“
„Er það ekki hámark sjálfselskunnar að leggja ást á sitt eigið kyn, og slík ást getur aldrei borið ávöxt. En úr því að sú nöturlega staðreynd blasir við, er réttast að gera þá kröfu á ríkið að börn séu til útdeilingar handa hommum og lesbíum í hjónabandi – í jafnréttisskyni. Þá er auðvitað enginn að huga að þeim sjálfsögðu mannréttindum barna, að eiga bæði föður og móður, sem öll börn jú eiga, því ekkert barn verður til nema fyrir tilverknað sæðis karls og eggs konu. Ég geri ráð fyrir því að umboðsmaður barna hafi einhverja rökstudda skoðun á þessu, eða eru sjónarmið hans óþörf í mannréttinda- og jafnréttisbaráttu homma og lesbía?“
Hann var í hópi 20 trúfélaga og 20 einstaklinga sem mótmæltu frumvarpinu í ályktun árið 2006. Þar var meðal annars ályktað um að hjónaband væri milli karls og konu, og að standa ætti vörð um hina „upprunalegu fjölskyldumynd og velferð fjölskyldna og barna í íslensku samfélagi.“ Löggjöfin færi þvert gegn kristinni kenningu um hjónabandið og samband foreldra og barns.
Hann hefur lýst yfir ánægju sinni með framgöngu borgarfulltrúa framsóknar undanfarna mánuði, eins og sjá má hér að neðan.