Frumvarpsdrög veiti stétt dómara of mikið vald yfir skipan dómara
Nýdoktor í lögfræði gerir athugasemdir við breytingar á lagaákvæðum um skipan dómara sem settar eru fram í frumvarpsdrögum frá dómsmálaráðuneytinu. Drögin voru sett fram á Þorláksmessu og athugasemdafrestur vegna þeirra rann út í gær.
Haukur Logi Karlsson, nýdoktor í lögfræði við Háskóla Íslands, segir að breytingar á lögum um dómstóla sem settar eru fram í drögum að frumvarpi frá dómsmálaráðuneytinu, sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda á Þorláksmessu, séu ekki allar af hinu góða.
Þetta kemur fram í umsögn Hauks Loga um málið. Þar gagnrýnir hann tvær breytingar sem lagt er til að verði gerðar á lögum og segir þær báðar til þess fallnar að auka um of völd dómarastéttarinnar til þess að hafa áhrif á hverjir verði skipaðir í embætti, sem aftur sé líklegt til þess að rýra traust almennings til þess hvernig dómarar eru skipaðir á Íslandi og þar með dómstóla.
Umsagnarfrestur um frumvarpsdrögin rann út í gær.
Dómstólasýslan líkleg til að gæta stéttarhagsmuna innan dómnefndar
Fyrra atriðið sem Haukur Logi gagnrýnir er að til standi að fella út ákvæði sem er þess efnis að sá aðili sem dómstólasýslan tilnefnir í nefnd dómnefnd um hæfi umsækjenda um embætti dómara skuli ekki vera starfandi dómari.
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum frá dómsmálaráðuneytinu segir um þetta atriði að ekki sé tilefni til þess að binda dómstólasýsluna við það að tilnefna ekki starfandi dómara, og vísað er til reynslu fyrri ára um tilnefningar í nefndina, en auk dómstólasýslunnar tilnefna Landsréttur, Hæstiréttur, Alþingi og Lögmannafélagið fulltrúa í nefndina.
Haukur Logi andmælir því að rétt sé að afnema þessar takmarkanir sem á dómstólasýsluna eru lagðar í dag. Hann segir að þvert á móti sé áskilnaður um vissan fjölbreytileika nefndarmanna í dómnefndinni „nauðsynlegur til þess að tryggja þá valddreifingu, sem löggjafinn hafði í huga þegar kemur að samsetningu nefndarinnar.“
Hann segir að nefndin fari með veigamikið vald í stjórnskipuninni, í reynd stóran hluta valds til skipunar á dómurum. „Það er því eðlilegt að löggjafinn hafi komið því þannig fyrir að ein fámenn starfsstétt geti ekki án lýðræðislegs umboðs komið sér í þá stöðu að hafa úrslitavald um hverjir veljist til þess að fara með dómsvald yfir allri þjóðinni,“ segir í umsögn Hauks Loga um frumvarpsdrögin, sem send var inn í samráðsgátt stjórnvalda þann 8. janúar.
Haukur Logi segir að með því að setja dómstólasýslunni mörk um hverja hún mætti tilnefna til setu í dómnefndinni hafi ætlan Alþingis verið að tryggja að sitjandi dómarar hefðu ekki meirihlutavald innan nefndarinnar.
Hann segir að löggjafinn hafi talið að meiri ástæða væri til að ætla að dómstólasýslan, sem stjórnað sé að af sitjandi dómurum, myndi skipa nefndarmann sem „gætti sömu hagsmuna innan nefndarinnar og þeir sem tilnefndir eru af Hæstarétti og Landsrétti, heldur en þeir sem tilnefndir eru af Alþingi og Lögmannafélaginu.“
„Ekki verður séð að þau rök sem voru fyrir þessari skipan í upphafi eigi ekki lengur við, nema síður sé. Jafnvel mætti hugsa sér að ganga lengra í áskilnaði um tilnefningu dómstólasýslunnar, t.d. þannig að hún skuli tilnefna sérfræðing í mannauðsmálum til þess að auka fagmennsku í málsmeðferð nefndarinnar. Það væru enda slíkir hagsmunir sem hægt væri að ætlast til þess að hún ynni að innan hennar, fremur en að stéttarhagsmunum sitjandi dómara, sem þegar er gætt af tveimur af fimm nefndarmönnum,“ segir í umsögn Hauks Loga.
Óheppilegt að endurvekja áru geðþóttavalds
Annað atriðið sem Haukur Logi gerir athugasemdir við eru fyrirhugaðar breytingar á nokkrum lagagreinum sem miða að því að færa fyrirkomulag við skipun varadómara við Hæstarétt og Landsrétt til fyrra horfs, sem myndi þýða að forsetar dómstólanna eða dómnefnd um hæfi umsækjenda um embætti dómara gætu gert tillögu til ráðherra um skipan dómara til skemmri tíma en 6 mánaða.
Í dag eru þessir aðilar bundnir af því að leita fyrst til dómara sem látið hafa af störfum. Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að það hafi reynst örðugt í framkvæmd að setja fyrrverandi dómara til starfans í öllum tilfellum.
„Kemur þar bæði til að fyrrverandi dómarar eru misviljugir til að taka setningu auk þess sem ekki er raunhæft að leita til allra fyrrverandi dómara, eins og ákvæðið gerir í raun ráð fyrir í dag, þegar litið er til aldurs, starfgetu og hversu langt er um liðið síðan viðkomandi sinnti dómstörfum,“ segir í greinargerð með drögunum og tekur Haukur Logi undir og segir að þessi regla virðist ekki hafa verið hugsuð til enda.
Þrátt fyrir að þetta fyrirkomulag hafi ekki gengið upp, segir Haukur Logi þó að rökin að baki því að binda hendur þessara aðila við val á varadómurum séu enn til staðar.
Hann rifjar upp að þau hafi verið að hætta hefði verið talin á að geðþótti réði því hverjir væru settir dómarar til skamms tíma og „að þetta vald væri notað til þess að lyfta þóknanlegum framtíðar umsækjendum um dómaraembætti yfir aðra með því að veita þeim dómarareynslu.“
„Óheppilegt væri að endurvekja þessa áru yfir störfum dómsstólanna með því að færa regluna til fyrra horfs og væri það til þess fallið að draga úr trausti á störfum þeirra,“ segir Haukur Logi og leggur til aðra lausn.
„Til þess að þjóna þörfum dómsstólanna á varadómurum og til þess að tryggja gagnsæi og sanngirni í vali á slíkum dómendum mætti hugsa sér fastan lista af varadómurum. Hægt væri að útbúa listann þannig að þeim umsækjendum um embætti dómara, sem teljast af dómnefnd hæfir til að taka sæti en hljóta ekki embætti, væri boðið að taka sæti á þessum lista. Jafnframt mætti bjóða dómurum sem látið hafa af störfum að vera á listanum og mögulega mætti auglýsa reglulega eftir fólki á listann, sem yrði þá hæfismetið líkt og dómaraefni af dómnefndinni. Listann ætti að birta opinberlega og skrá ætti hagsmunatengsl og lögfræðileg sérsvið þeirra sem á honum eru. Loks ætti að birta tölfræði í ársskýrslu dómstólasýslunnar um hverjir eru kallaðir til að taka sæti á hverju ári. Gagnsæi og formfesta um störf og val varadómara ætti að koma í veg fyrir þá gagnrýni sem varð tilefni þeirrar reglu sem frumvarpsdrögin leggja til að verði breytt til fyrra horfs,“ skrifar Haukur Logi.
Ekki skerpt á ákvæðum um aukastörf
Auk fyrrgreindra athugasemda við breytingar sem lagðar eru til í frumvarpsdrögunum leggur Haukur Logi til að ráðist verði í það að skerpa á ákvæðum laga um aukastörf dómara.
Þau hafa verið nokkuð til umræðu á meðal lögfræðinga og víðar í samfélaginu undanfarin misseri, en eins og Kjarninn fjallaði um í árslok 2020 eru margir dómarar sem sinna aukastörfum, til dæmis setu í stjórnsýslunefndum og háskólakennslu, þrátt fyrir að meginreglan í lögum um dómstóla sé sú að dómarar skuli ekki sinna öðrum störfum.
Þetta hefur verið gagnrýnt, meðal annars af hálfu Lögmannafélags Íslands og segir Haukur Logi í umsögn sinni að nokkur umræða hafi verið um það í samfélagi lögfræðinga hversu óheppilegir hagsmunaárekstrar geti skapast ef dómarar gegni slíkum störfum í miklum mæli eða fyrir aðila sem þeir ættu ekki að tengjast hagsmunaböndum.
„Fram hefur komið í opinberri umræðu að dómarar telji sér engu að síður heimilt að gegna umfangsmiklum aukastörfum, en ýmsum þykir sú túlkun ganga í berhögg við lagabókstafinn. Það er því full ástæða til þess að skerpa á því sem þar stendur í 45. gr. dómstólalaga um aukastörf dómara og tilvalið væri að nýta tækifærið núna þegar verið er að leggja til ýmsar breytingar lögunum,“ segir í umsögn Hauks Loga.
Lestu meira
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
6. janúar 2023Dómsmálaráðuneytið áfrýjar dómi í máli Hussein til Landsréttar
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars
-
22. desember 2022Íslenska ríkið greiðir Erlu Bolladóttur 32 milljóna miskabætur
-
16. desember 2022Einn Héraðsdómur verði með yfirstjórn í Reykjavík en átta starfsstöðvar um landið