Birgir Þór Harðarson

Frumvarpsdrög veiti stétt dómara of mikið vald yfir skipan dómara

Nýdoktor í lögfræði gerir athugasemdir við breytingar á lagaákvæðum um skipan dómara sem settar eru fram í frumvarpsdrögum frá dómsmálaráðuneytinu. Drögin voru sett fram á Þorláksmessu og athugasemdafrestur vegna þeirra rann út í gær.

Haukur Logi Karls­son, nýdoktor í lög­fræði við Háskóla Íslands, segir að breyt­ingar á lögum um dóm­stóla sem settar eru fram í drögum að frum­varpi frá dóms­mála­ráðu­neyt­inu, sem birt var í sam­ráðs­gátt stjórn­valda á Þor­láks­messu, séu ekki allar af hinu góða.

Þetta kemur fram í umsögn Hauks Loga um mál­ið. Þar gagn­rýnir hann tvær breyt­ingar sem lagt er til að verði gerðar á lögum og segir þær báðar til þess fallnar að auka um of völd dóm­ara­stétt­ar­innar til þess að hafa áhrif á hverjir verði skip­aðir í emb­ætti, sem aftur sé lík­legt til þess að rýra traust almenn­ings til þess hvernig dóm­arar eru skip­aðir á Íslandi og þar með dóm­stóla.

Umsagn­ar­frestur um frum­varps­drögin rann út í gær.

Dóm­stóla­sýslan lík­leg til að gæta stétt­ar­hags­muna innan dóm­nefndar

Fyrra atriðið sem Haukur Logi gagn­rýnir er að til standi að fella út ákvæði sem er þess efnis að sá aðili sem dóm­stóla­sýslan til­nefnir í nefnd dóm­nefnd um hæfi umsækj­enda um emb­ætti dóm­ara skuli ekki vera starf­andi dóm­ari.

Í grein­ar­gerð með frum­varps­drög­unum frá dóms­mála­ráðu­neyt­inu segir um þetta atriði að ekki sé til­efni til þess að binda dóm­stóla­sýsl­una við það að til­nefna ekki starf­andi dóm­ara, og vísað er til reynslu fyrri ára um til­nefn­ingar í nefnd­ina, en auk dóm­stóla­sýsl­unnar til­nefna Lands­rétt­ur, Hæsti­rétt­ur, Alþingi og Lög­manna­fé­lagið full­trúa í nefnd­ina.

Haukur Logi and­mælir því að rétt sé að afnema þessar tak­mark­anir sem á dóm­stóla­sýsl­una eru lagðar í dag. Hann segir að þvert á móti sé áskiln­aður um vissan fjöl­breyti­leika nefnd­ar­manna í dóm­nefnd­inni „nauð­syn­legur til þess að tryggja þá vald­dreif­ingu, sem lög­gjaf­inn hafði í huga þegar kemur að sam­setn­ingu nefnd­ar­inn­ar.“

Hann segir að nefndin fari með veiga­mikið vald í stjórn­skip­un­inni, í reynd stóran hluta valds til skip­unar á dóm­ur­um. „Það er því eðli­legt að lög­gjaf­inn hafi komið því þannig fyrir að ein fámenn starfs­stétt geti ekki án lýð­ræð­is­legs umboðs komið sér í þá stöðu að hafa úrslita­vald um hverjir velj­ist til þess að fara með dóms­vald yfir allri þjóð­inn­i,“ segir í umsögn Hauks Loga um frum­varps­drögin, sem send var inn í sam­ráðs­gátt stjórn­valda þann 8. jan­ú­ar.

Haukur Logi segir að með því að setja dóm­stóla­sýsl­unni mörk um hverja hún mætti til­nefna til setu í dóm­nefnd­inni hafi ætlan Alþingis verið að tryggja að sitj­andi dóm­arar hefðu ekki meiri­hluta­vald innan nefnd­ar­inn­ar.

Haukur Logi Karlsson er nýdoktor við Háskóla Íslands.
Aðsend

Hann segir að lög­gjaf­inn hafi talið að meiri ástæða væri til að ætla að dóm­stóla­sýslan, sem stjórnað sé að af sitj­andi dóm­ur­um, myndi skipa nefnd­ar­mann sem „gætti sömu hags­muna innan nefnd­ar­innar og þeir sem til­nefndir eru af Hæsta­rétti og Lands­rétti, heldur en þeir sem til­nefndir eru af Alþingi og Lög­manna­fé­lag­in­u.“

„Ekki verður séð að þau rök sem voru fyrir þess­ari skipan í upp­hafi eigi ekki lengur við, nema síður sé. Jafn­vel mætti hugsa sér að ganga lengra í áskiln­aði um til­nefn­ingu dóm­stóla­sýsl­unn­ar, t.d. þannig að hún skuli til­nefna sér­fræð­ing í mannauðs­málum til þess að auka fag­mennsku í máls­með­ferð nefnd­ar­inn­ar. Það væru enda slíkir hags­munir sem hægt væri að ætl­ast til þess að hún ynni að innan henn­ar, fremur en að stétt­ar­hags­munum sitj­andi dóm­ara, sem þegar er gætt af tveimur af fimm nefnd­ar­mönn­um,“ segir í umsögn Hauks Loga.

Óheppi­legt að end­ur­vekja áru geð­þótta­valds

Annað atriðið sem Haukur Logi gerir athuga­semdir við eru fyr­ir­hug­aðar breyt­ingar á nokkrum laga­greinum sem miða að því að færa fyr­ir­komu­lag við skipun vara­dóm­ara við Hæsta­rétt og Lands­rétt til fyrra horfs, sem myndi þýða að for­setar dóm­stól­anna eða dóm­nefnd um hæfi umsækj­enda um emb­ætti dóm­ara gætu gert til­lögu til ráð­herra um skipan dóm­ara til skemmri tíma en 6 mán­aða.

Í dag eru þessir aðilar bundnir af því að leita fyrst til dóm­ara sem látið hafa af störf­um. Í grein­ar­gerð með frum­varps­drög­unum segir að það hafi reynst örð­ugt í fram­kvæmd að setja fyrr­ver­andi dóm­ara til starfans í öllum til­fell­um.

„Kemur þar bæði til að fyrr­ver­andi dóm­arar eru mis­vilj­ugir til að taka setn­ingu auk þess sem ekki er raun­hæft að leita til allra fyrr­ver­andi dóm­ara, eins og ákvæðið gerir í raun ráð fyrir í dag, þegar litið er til ald­urs, starf­getu og hversu langt er um liðið síðan við­kom­andi sinnti dóm­störf­um,“ segir í grein­ar­gerð með drög­unum og tekur Haukur Logi undir og segir að þessi regla virð­ist ekki hafa verið hugsuð til enda.

Þrátt fyrir að þetta fyr­ir­komu­lag hafi ekki gengið upp, segir Haukur Logi þó að rökin að baki því að binda hendur þess­ara aðila við val á vara­dóm­urum séu enn til stað­ar.

Hann rifjar upp að þau hafi verið að hætta hefði verið talin á að geð­þótti réði því hverjir væru settir dóm­arar til skamms tíma og „að þetta vald væri notað til þess að lyfta þókn­an­legum fram­tíðar umsækj­endum um dóm­ara­emb­ætti yfir aðra með því að veita þeim dóm­ara­reynslu.“

„Óheppi­legt væri að end­ur­vekja þessa áru yfir störfum dóms­stól­anna með því að færa regl­una til fyrra horfs og væri það til þess fallið að draga úr trausti á störfum þeirra,“ segir Haukur Logi og leggur til aðra lausn.

„Til þess að þjóna þörfum dóms­stól­anna á vara­dóm­urum og til þess að tryggja gagn­sæi og sann­girni í vali á slíkum dóm­endum mætti hugsa sér fastan lista af vara­dóm­ur­um. Hægt væri að útbúa list­ann þannig að þeim umsækj­endum um emb­ætti dóm­ara, sem telj­ast af dóm­nefnd hæfir til að taka sæti en hljóta ekki emb­ætti, væri boðið að taka sæti á þessum lista. Jafn­framt mætti bjóða dóm­urum sem látið hafa af störfum að vera á list­anum og mögu­lega mætti aug­lýsa reglu­lega eftir fólki á list­ann, sem yrði þá hæf­is­metið líkt og dóm­ara­efni af dóm­nefnd­inni. List­ann ætti að birta opin­ber­lega og skrá ætti hags­muna­tengsl og lög­fræði­leg sér­svið þeirra sem á honum eru. Loks ætti að birta töl­fræði í árs­skýrslu dóm­stóla­sýsl­unnar um hverjir eru kall­aðir til að taka sæti á hverju ári. Gagn­sæi og form­festa um störf og val vara­dóm­ara ætti að koma í veg fyrir þá gagn­rýni sem varð til­efni þeirrar reglu sem frum­varpsdrögin leggja til að verði breytt til fyrra horfs,“ skrifar Haukur Logi.

Ekki skerpt á ákvæðum um auka­störf

Auk fyrr­greindra athuga­semda við breyt­ingar sem lagðar eru til í frum­varps­drög­unum leggur Haukur Logi til að ráð­ist verði í það að skerpa á ákvæðum laga um auka­störf dóm­ara.

Þau hafa verið nokkuð til umræðu á meðal lög­fræð­inga og víðar í sam­fé­lag­inu und­an­farin miss­eri, en eins og Kjarn­inn fjall­aði um í árs­lok 2020 eru margir dóm­arar sem sinna auka­störf­um, til dæmis setu í stjórn­sýslu­nefndum og háskóla­kennslu, þrátt fyrir að meg­in­reglan í lögum um dóm­stóla sé sú að dóm­arar skuli ekki sinna öðrum störf­um.

Þetta hefur verið gagn­rýnt, meðal ann­ars af hálfu Lög­manna­fé­lags Íslands og segir Haukur Logi í umsögn sinni að nokkur umræða hafi verið um það í sam­fé­lagi lög­fræð­inga hversu óheppi­legir hags­muna­á­rekstrar geti skap­ast ef dóm­arar gegni slíkum störfum í miklum mæli eða fyrir aðila sem þeir ættu ekki að tengj­ast hags­muna­bönd­um.

„Fram hefur komið í opin­berri umræðu að dóm­arar telji sér engu að síður heim­ilt að gegna umfangs­miklum auka­störf­um, en ýmsum þykir sú túlkun ganga í ber­högg við laga­bók­staf­inn. Það er því full ástæða til þess að skerpa á því sem þar stendur í 45. gr. dóm­stóla­laga um auka­störf dóm­ara og til­valið væri að nýta tæki­færið núna þegar verið er að leggja til ýmsar breyt­ingar lög­un­um,“ segir í umsögn Hauks Loga.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent