Í 27 ára sögu Danska þjóðarflokksins, DF, hafa skipst á skin og skúrir. Stofnendurnir voru fjórir þingmenn sem verið höfðu í Framfaraflokki Mogens Glistrup, en þar hafði allt logað í illdeilum. Pia Kjærsgaard var í forystu fyrir hópnum sem klauf sig úr Framfaraflokknum og hún varð fyrsti formaður DF og gegndi því embætti til ársins 2012. Flokkurinn bauð fyrst fram árið 1998 og fékk þá 13 þingmenn. Eftir þingkosningarnar 2001 var DF orðinn þriðji stærsti flokkur landsins með 22 þingmenn. Í kosningunum 2007 jók flokkurinn enn fylgi sitt, fékk þá 25 þingmenn. Tapaði svo 3 árið 2011. Árið 2012 tók Kristian Thulesen Dahl við formennskunni og fylgi flokksins tók kipp. Í kosningunum 2015 fékk DF 37 þingmenn og var þá næst stærsti flokkur landsins. Stjórn undir forystu Helle Thorning- Schmidt leiðtoga jafnaðarmanna féll í kosningunum.
Sögðu flokkinn ekki tilbúinn
Margir bjuggust við að í ljósi þessa góða árangurs myndi DF taka þátt í ríkisstjórn undir forystu Venstre og Lars Løkke Rasmussen. Löng hefð er fyrir minnihlutastjórnum í Danmörku og eftir kosningarnar 2015 höfðu Venstre og yfirlýstir stuðningsflokkar einungis 53 þingsæti. Með þátttöku DF hefði stjórnin og stuðningsflokkar fengið 90 þingsæti, eins sætis meirihluta á þinginu, en þar sitja 179. Forysta DF taldi flokkinn ekki tilbúinn til stjórnarsetu og þar að auki hefði flokkurinn meiri áhrif utan stjórnar en innan, gæti með öðrum orðum ráðið því sem hann vildi „úr aftursætinu“. Stjórnmálaskýrendur töldu þessa afstöðu geta komið flokknum í koll. „Snúa kjósendur ekki á endanum baki við flokki sem skortir metnað, eða vill axla ábyrgð, nema úr áðurnefndu aftursæti“. Sem kom á daginn í kosningunum 2019.
Reiðarslag
Úrslit kosninganna 5. júní 2019 voru sannkallað reiðarslag fyrir DF. Flokkurinn tapaði 21 þingmanni af þeim 37 sem flokkurinn fékk 2015, og hafði nú 16. Stjórnmálaskýrendur töldu áðurnefnda afstöðu til stjórnarsetu og harða stefnu flokksins í málefnum innflytjenda og hælisleitenda skýra fylgistapið. Pia Kjærsgaard, fyrrverandi formaður, hafði sömuleiðis talað í niðrandi tóni um umhverfissinna, kallaði þá loftslagsflón, klimatosser. Farið var að hitna undir formanninum, Kristian Thulesen Dahl og raddir um nauðsyn þess að skipta um leiðtoga urðu háværar. Einkum talað um einn mann, Morten Messerschmidt.
Réttarhöldin 2021
Eins og getið var um í upphafi þessa pistils eru réttarhöldin sem nú standa yfir endurtekning á réttarhöldum sem fram fóru á síðasta ári (2021). Þá var Morten Messerschmidt fundinn sekur um svindl og misnotkun fjár úr sjóðum Evrópusambandsins en hann sat á Evrópuþinginu frá 2009 til 2019. Um það mál var fjallað ítarlega í pistli hér í Kjarnanum í ágúst 2021 og hluti hans nú endurbirtur hér, skáletraður.
Við kosningar til Evrópuþingsins árið 2009 fékk Morten Messerschmidt 284 þúsund atkvæði, aðeins einu sinni hafði frambjóðandi fengið fleiri atkvæði. Í Evrópuþingskosningunum 2014 bætti hann um betur og fékk 466 þúsund atkvæði. Morten Messerschmidt hefur alla tíð verið mjög gagnrýninn á Evrópusambandið og margoft talað fyrir því að það verði leyst upp. Fyrir þingkosningarnar í Danmörku árið 2019 hafði Morten Messerschmidt ákveðið að söðla um, hætta á Evrópuþinginu og bjóða sig fram fyrir DF á Norður Sjálandi. Hann hlaut mjög góða kosningu og varð jafnframt varaformaður DF.
Meld og Feld
Árið 2015 varð Morten Messerschmidt formaður félagsins Meld. Meld (sem ekki starfar lengur) var félag þingmanna flokka sem fulltrúa áttu á Evrópuþinginu, flokka sem voru gagnrýnir á störf og tilveru Evrópusambandsins. Feld var sjóður tengdur Meld og sá um að úthluta styrkjum til verkefna. Meld og Feld nutu styrkja frá Evrópusambandinu en styrkina mátti einungis nota til verkefna sem tengdust ESB, en ekki til verkefna tengdum einstökum flokkum, til dæmis í heimalandi viðkomandi flokks. Ekki til kosningaundirbúnings eða samkoma á vegum einstakra flokka.
Rikke Karlsson og reikningarnir
Í október 2015 sagði Rikke Karlsson þingmaður á Evrópuþinginu sig úr DF. Hún hafði árangurslaust óskað eftir því við Morten Messerschmidt að fá afhent yfirlit reikninga Meld sem hún átti sæti í. Hún sakaði Morten Messerschmidt um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu úr því hann vildi ekki afhenda umrædda reikninga. Morten Messerschmidt gerði lítið úr þessu og hæddist að Rikke Karlsson
Í nóvember 2015 ákvað Evrópusambandið að Meld og Feld skyldu leyst upp og þau skyldu jafnframt endurgreiða peninga sem notaðir hefðu verið til að greiða árlegt sumarferðalag DF um Danmörku.
Í viðtali við danska fjölmiðla í maí 2016 neitaði Morten Messerschmidt að hafa misfarið með fé úr sjóðum ESB og sagðist vera fórnarlamb ofsókna andstæðinga sinna.
Þremur dögum eftir áðurnefnt viðtal ákvað forsætisnefnd Evrópuþingsins að Meld og Feld (sjóðir þeirra höfðu verið frystir) skyldu endurgreiða jafngildi 60 milljóna íslenskra króna sem hefði verið varið til verkefna sem ekki samræmdust reglum, t.d. kosningabaráttu. 1. ágúst 2016 greindi Ekstrabladet frá því að Rikke Karlsson, ásamt Jørn Dohrman hefðu verið kosin í stjórn í Meld og Feld, þótt þau væru ekki á staðnum og undirskriftir þeirra á pappírum frá fundinum væru falsaðar. Sama dag kærði Rikke Karlsson Morten Messerschmidt til lögreglu fyrir skjalafals.
Rannsóknarskýrslan
Í september árið 2019 skilaði eftirlitsstofnunin OLAF (starfar á vegum framkvæmdastjórnar ESB) skýrslu sinni um Meld og Feld. Í skýrslunni kemur fram að fé Meld og Feld hafi verið notað með ólöglegum hætti, upphæðin næmi að minnsta kosti jafngildi 86 milljónum íslenskra króna. Þessi skýrsla leiddi til þess að lögreglu og ákæruvaldi í heimalöndum þeirra félaga sem áttu aðild að Meld og Feld var falin áframhaldandi rannsókn. Í Danmörku leiddi sú rannsókn til ákæru á hendur Morten Messerschmidt. Danska þingið hafði þá samþykkt að svipta hann þinghelgi.
6 mánaða fangelsi
Þann 1. ágúst í fyrra dæmdi bæjarréttur í Lyngby (neðsta dómstig af þremur) Morten Messerschmidt í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Morten Messerschmidt áfrýjaði en krafðist þess jafnframt að dómurinn yrði ógiltur vegna ummæla sem dómarinn í málinu hafði „lækað“ á Facebook og Morten Messerschmidt taldi sýna óvild í sinn garð. Eystri- Landsréttur ógilti fyrri niðurstöðu og málið skyldi endurflutt, fyrir bæjarrétti á Friðriksbergi.
Formaður og algjört fylgishrun
Morten Messerschmidt var kjörinn formaður Danska þjóðarflokksins 23. janúar sl. Mikil óeining hefur ríkt innan flokksins og fjölmargir, þar á meðal fyrrverandi formaður og formaður þingflokksins, hafa sagt skilið við flokkinn. Sumir þeirra gengu til liðs við flokk Inger Støjberg, Danmarksdemokraterne.
Þingkosningar fóru fram í Danmörku 1. nóvember sl. Kannanir höfðu bent til að DF undir forystu Morten Messerschmidt hlyti slæma útreið. Jafnvel talið að svo gæti farið að flokkurinn þurrkaðist út, fengi engan þingmann kjörinn. Samkvæmt dönsku kosningalögunum verða flokkar að fá minnst tvö prósent atkvæða til að ná inn en fyrirkomulagið er þannig að nái flokkur þessum tveimur prósentum fær hann fjóra þingmenn. Í kosningunum 1. nóvember fékk DF fimm þingmenn og er algjörlega áhrifalaus í þinginu. Meðal fimmmenninganna sem náðu kjöri eru formaðurinn Morten Messerschmidt og Pia Kjærsgaard stofnandi flokksins.
Réttarhöldin endurtekin
Þegar ljóst var að Morten Messerschmidt hafði verið kjörinn á þing í nýafstöðnum kosningum þurfti danska þingið að taka afstöðu til spurningarinnar um þinghelgi. Þingið samþykkti að afnema þinghelgina og réttarhöldin hófust sl. fimmtudag, 24. nóvember. Þótt um einskonar endurtekningu á réttarhöldunum á síðasta ári sé að ræða er málið allt flutt frá grunni og Morten Messerschmidt sagði við upphaf réttarhaldanna að nú kæmi ýmislegt nýtt fram sem styddi sinn málstað. Sem sé að peningarnir umdeildu hefðu verið nýttir í ráðstefnu á vegum Evrópuþingsins en ekki til að standa straum af sumarþingi DF. Gert er ráð fyrir að dómur falli fyrir jól.