Fyrsta konan sem ráðin er forstjóri í þegar skráðu félagi frá bankahruni
Konur í forstjórastóli í Kauphöllinni orðnar þrjár, eftir að hafa verið núll árum saman. Sú fyrsta þeirra, Birna Einarsdóttir, kom inn í Kauphöllina við skráningu Íslandsbanka í fyrrasumar, önnur, Margrét Tryggvadóttir, bættist við þegar Nova var skráð í júní. Í gær gerðist það svo að kona, Ásta Sigríður Fjeldsted, var ráðin forstjóri í félagi sem hefur verið skráð á markað árum saman. Það er í fyrsta sinn frá hruni sem það gerist.
Í ágúst 2016 var Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur sagt upp störfum sem forstjóra VÍS. Hún hafði verið eina konan sem stýrði skráðu félagi á Íslandi fram að því, en Sigrún Ragna var ráðin tæpum tveimur árum áður en VÍS var skráð á markað árið 2013, og leiddi því skráningarferlið. Eftir uppsögn hennar var engin kona í forstjórastóli á íslenskum hlutabréfamarkaði.
Þannig hélst staðan í næstum fimm ár, eða þar til að Íslandsbanki var skráður á markað sumarið 2021. Bankastjóri hans er Birna Einarsdóttir og með skráningunni komst kona á ný í forstjóraklúbbinn.
Um ári síðar, seint í júní síðastliðnum, fjölgaði konunum í forstjórastóli skráðs félags um 100 prósent, þegar Nova, sem er stýrt af Margréti Tryggvadóttur, var skráð á markað.
Í gær gerðist það svo að fyrsta konan var ráðin forstjóri í þegar skráðu félagi frá því að íslenskur hlutabréfamarkaður var endurreistur eftir bankahrunið. Þá var greint frá því að Ásta Sigríður Fjeldsted var ráðin forstjóri Festi. Á tveimur og hálfum mánuði hafa konurnar sem gegna forstjórastöðu í Kauphöll Íslands því fjölgað úr einni í þrjár.
Alls eru 29 félög skráð á Aðalmarkað og First North markaðinn, og 26 þeirra er stýrt af körlum. Því eru 89,6 prósent allra forstjóra skráðra félaga enn karlar, en það hlutfall var, líkt og áður sagði, 100 prósent í byrjun sumars í fyrra.
Konur eru 48,6 prósent íbúa landsins.
Karlar stýra peningum á Íslandi
Kjarninn hefur í níu ár framkvæmt úttekt á kynjahlutföllum þeirra sem stýra þúsundum milljarða króna í ýmis fjárfestingaverkefni hérlendis. Í níu ár hefur niðurstaðan verið svipuð, karlar eru allt um lykjandi. Í úttektinni í ár, sem birt var seint í maí, kom fram að karlarnir væru 91 en konurnar 13.
Hlutfall kvenna sem stýra peningum á Íslandi jókst lítillega á milli ára, fór úr ellefu prósentum í 12,5 prósent. Frá því að Kjarninn gerði úttektina fyrst hefur konunum sem hún nær til fjölgað úr sex í 13, á níu árum. Körlunum hefur hins vegar fjölgað um tólf.
Úttektin náði til 104 æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, verðbréfasjóða, sérhæfðra sjóða, orkufyrirtækja, rafeyrisfyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða.
Þessi hópur sem fellur undir úttektarskilyrðin stýrir samtals þúsundum milljarða króna.
Markmið kynjakvótalaga aldrei náðst
Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á Íslandi voru samþykkt árið 2010. Þau tóku að fullu gildi í september 2013. Lögin segja að fyrirtækjum sem eru með 50 eða fleiri starfsmenn þurfi að tryggja að hlutfall hvors kyns sé ekki undir 40 prósentum. Markmiðið með lagasetningunni var að „stuðla að jafnari hlutföllum kvenna og karla í áhrifastöðum í hlutafélögum og einkahlutafélögum með auknu gagnsæi og greiðari aðgangi að upplýsingum.“
Von þeirra sem samþykktu frumvarpið – 32 þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum sem áttu þá sæti á þingi – var að fleiri konur í stjórnum myndi leiða til þess að fleiri konur yrðu ráðnar í stjórnunarstöður og það myndi fjölga tækifærum kvenna.
Hagstofa Íslands tekur árlega saman tölur um hversu margar konur sitji í stjórnum fyrirtækja. Stofnunin birti nýjustu tölur sínar, sem sýna stöðuna í lok 2021, á þriðjudag í síðustu viku. Þar kom fram að rúmlega fjórðungur, 27 prósent, allra stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum væru konur. Það hlutfall var 24 prósent árið 2010.
Í fyrirtækjum með fleiri en 50 launþega var hlutfall kvenna í stjórnum 19,5 prósent árið 2010. Árið sem lögin tóku gildi var hlutfallið orðið 30,2 prósent. Frá þeim tíma hefur lítið gerst. Hlutfallið var 34,7 prósent í fyrra.
Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra hækkaði lítillega á milli ára og var 23,9 prósent en hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 24,7 prósent í lok árs 2021.
Konur fjármálaráðherrar í minna en 17 mánuði frá 1944
Þegar horft er víðar á áhrifastöður í samfélaginu, þar sem peningum er auðvitað stýrt, en þó með öðrum hætti en í viðskiptalífinu, hallar víða enn á konur. Í ríkisstjórn er kynjahlutfallið til að mynda enn körlum í hag.
Þar sitja sex karlar og fimm konur. Forsætisráðherra er hins vegar konan Katrín Jakobsdóttir. Það er í annað sinn í lýðveldissögunni sem kona situr í því embætti. Sú fyrsta var Jóhanna Sigurðardóttir sem var forsætisráðherra 2009-2013.
Fjármála- og efnahagsráðherra er karlinn Bjarni Benediktsson. Alls hafa 26 einstaklingar gegnt þeirri stöðu frá því að lýðveldið Ísland var stofnað. Einungis tveir þeirra hafa verið konur. Oddný Harðardóttir varð fyrsta konan til að gegna embætti fjármálaráðherra þegar hún tók við því á gamlársdag 2011.
Oddný sat í embætti í níu mánuði og þá tók flokkssystir hennar Katrín Júlíusdóttir við. Hún sat í embættinu í tæpa átta mánuði. Því hafa konur verið fjármálaráðherrar á Íslandi í minna en 17 mánuði frá árinu 1944.