Mynd: Samsett forstjórar konur
Mynd: Samsett

Fyrsta konan sem ráðin er forstjóri í þegar skráðu félagi frá bankahruni

Konur í forstjórastóli í Kauphöllinni orðnar þrjár, eftir að hafa verið núll árum saman. Sú fyrsta þeirra, Birna Einarsdóttir, kom inn í Kauphöllina við skráningu Íslandsbanka í fyrrasumar, önnur, Margrét Tryggvadóttir, bættist við þegar Nova var skráð í júní. Í gær gerðist það svo að kona, Ásta Sigríður Fjeldsted, var ráðin forstjóri í félagi sem hefur verið skráð á markað árum saman. Það er í fyrsta sinn frá hruni sem það gerist.

Í ágúst 2016 var Sig­rúnu Rögnu Ólafs­dóttur sagt upp störfum sem for­stjóra VÍS. Hún hafði verið eina konan sem stýrði skráðu félagi á Íslandi fram að því, en Sig­rún Ragna var ráðin tæpum tveimur árum áður en VÍS var skráð á markað árið 2013, og leiddi því skrán­ing­ar­ferl­ið. Eftir upp­sögn hennar var engin kona í for­stjóra­stóli á íslenskum hluta­bréfa­mark­að­i. 

Þannig hélst staðan í næstum fimm ár, eða þar til að Íslands­banki var skráður á markað sum­arið 2021. Banka­stjóri hans er Birna Ein­ars­dóttir og með skrán­ing­unni komst kona á ný í for­stjóra­klúbb­inn. 

Um ári síð­ar, seint í júní síð­ast­liðn­um, fjölg­aði kon­unum í for­stjóra­stóli skráðs félags  um 100 pró­sent, þegar Nova, sem er stýrt af Mar­gréti Tryggva­dótt­ur, var skráð á mark­að. 

Í gær gerð­ist það svo að fyrsta konan var ráðin for­stjóri í þegar skráðu félagi frá því að íslenskur hluta­bréfa­mark­aður var end­ur­reistur eftir banka­hrun­ið. Þá var greint frá því að Ásta Sig­ríður Fjeld­sted var ráðin for­stjóri Festi. Á tveimur og hálfum mán­uði hafa kon­urnar sem gegna for­stjóra­stöðu í Kaup­höll Íslands því fjölgað úr einni í þrjár. 

Alls eru 29 félög skráð á Aðal­markað og First North mark­að­inn, og 26 þeirra er stýrt af körl­um. Því eru 89,6 pró­sent allra for­stjóra skráðra félaga enn karl­ar, en það hlut­fall var, líkt og áður sagði, 100 pró­sent í byrjun sum­ars í fyrra.

Konur eru 48,6 pró­sent íbúa lands­ins.

Karlar stýra pen­ingum á Íslandi

Kjarn­inn hefur í níu ár fram­kvæmt úttekt á kynja­hlut­föllum þeirra sem stýra þús­undum millj­arða króna í ýmis fjár­fest­inga­verk­efni hér­lend­is. Í níu ár hefur nið­ur­staðan verið svip­uð, karlar eru allt um lykj­andi. Í úttekt­inni í ár, sem birt var seint í maí, kom fram að karl­arnir væru 91 en kon­urnar 13. 

Hlut­­­fall kvenna sem stýra pen­ingum á Íslandi jókst lít­il­­lega á milli ára, fór úr ell­efu pró­­­sentum í 12,5 pró­­sent. Frá því að Kjarn­inn gerði úttekt­ina fyrst hefur kon­unum sem hún nær til fjölgað úr sex í 13, á níu árum. Körlunum hefur hins vegar fjölgað um tólf.

Úttektin náði til 104 æðstu stjórn­­­enda við­­­skipta­­­banka, spari­­­­­sjóða, líf­eyr­is­­­sjóða, skráðra félaga, óskráðra trygg­inga­­­fé­laga, lána­­­fyr­ir­tækja, verð­bréfa­­­fyr­ir­tækja og -mið­l­ana, verð­bréfa­­­sjóða,  sér­­­hæfðra sjóða, orku­­­fyr­ir­tækja, raf­­­eyr­is­­­fyr­ir­tækja, greiðslu­­­stofn­ana, Kaup­hallar og lána­­­sjóða. 

Þessi hópur sem fellur undir úttekt­­­ar­skil­yrðin stýrir sam­tals þús­undum millj­­­arða króna.

Mark­mið kynja­kvóta­laga aldrei náðst

Lög um kynja­kvóta í stjórnum fyr­ir­tækja á Íslandi voru sam­­­þykkt árið 2010. Þau tóku að fullu gildi í sept­­­em­ber 2013. Lögin segja að fyr­ir­tækjum sem eru með 50 eða fleiri starfs­­­menn þurfi að tryggja að hlut­­­fall hvors kyns sé ekki undir 40 pró­­­sent­­­um. Mark­miðið með laga­­­setn­ing­unni var að „stuðla að jafn­­­­­ari hlut­­­föllum kvenna og karla í áhrifa­­­stöðum í hluta­­­fé­lögum og einka­hluta­­­fé­lögum með auknu gagn­­­sæi og greið­­­ari aðgangi að upp­­­lýs­ing­­­um.“

Von þeirra sem sam­­­þykktu frum­varpið – 32 þing­­­menn úr öllum flokkum nema Sjálf­­­stæð­is­­­flokknum sem áttu þá sæti á þingi – var að fleiri konur í stjórnum myndi leiða til þess að fleiri konur yrðu ráðnar í stjórn­­­un­­­ar­­­stöður og það myndi fjölga tæki­­­færum kvenna.

Hag­­­stofa Íslands tekur árlega saman tölur um hversu margar konur sitji í stjórnum fyr­ir­tækja. Stofn­unin birti nýj­­ustu tölur sín­­­ar, sem sýna stöð­una í lok 2021, á þriðju­dag í síð­­­ustu viku. Þar kom fram að rúm­­­lega fjórð­ung­­­ur, 27 pró­­­sent, allra stjórn­­­­­ar­­­manna í íslenskum fyr­ir­tækjum væru kon­­­ur. Það hlut­­­fall var 24 pró­­­sent árið 2010. 

Í fyr­ir­tækjum með fleiri en 50 laun­þega var hlut­­­fall kvenna í stjórnum 19,5 pró­­­sent árið 2010. Árið sem lögin tóku gildi var hlut­­­fallið orðið 30,2 pró­­­sent. Frá þeim tíma hefur lítið gerst. Hlut­­­fallið var 34,7 pró­­­sent í fyrra. 

Hlut­­fall kvenna í stöðu fram­­kvæmda­­stjóra hækk­­aði lít­il­­lega á milli ára og var 23,9 pró­­sent en hlut­­fall kvenna í stöðu stjórn­­­ar­­for­­manna var 24,7 pró­­sent í lok árs 2021.

Konur fjár­­­­­mála­ráð­herrar í minna en 17 mán­uði frá 1944

Þegar horft er víðar á áhrifa­­­stöður í sam­­­fé­lag­inu, þar sem pen­ingum er auð­vitað stýrt, en þó með öðrum hætti en í við­­­skipta­líf­inu, hallar víða enn á kon­­­ur. Í rík­­­is­­­stjórn er kynja­hlut­­­fallið til að mynda enn körlum í hag.

Þar sitja sex karlar og fimm kon­­­ur. For­­­sæt­is­ráð­herra er hins vegar konan Katrín Jak­obs­dótt­­­ir. Það er í annað sinn í lýð­veld­is­­­sög­unni sem kona situr í því emb­ætti. Sú fyrsta var Jóhanna Sig­­­urð­­­ar­dóttir sem var for­­­sæt­is­ráð­herra 2009-2013.

Fjár­­­­­mála- og efna­hags­ráð­herra er karl­inn Bjarni Bene­dikts­­­son. Alls hafa 26 ein­stak­l­ingar gegnt þeirri stöðu frá því að lýð­veldið Ísland var stofn­að. Ein­ungis tveir þeirra hafa verið kon­­­ur. Oddný Harð­­­ar­dóttir varð fyrsta konan til að gegna emb­ætti fjár­­­­­mála­ráð­herra þegar hún tók við því á gaml­ár­s­dag 2011.

Oddný sat í emb­ætti í níu mán­uði og þá tók flokks­­­systir hennar Katrín Júl­í­us­dóttir við. Hún sat í emb­ætt­inu í tæpa átta mán­uði. Því hafa konur verið fjár­­­­­mála­ráð­herrar á Íslandi í minna en 17 mán­uði frá árinu 1944.  

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar