„Það er stórkostleg tilfinning. Falleg, góð og hlý tilfinning,“ segir Hafrún Elísa Sigurðardóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar hjá Rauða krossinum, um örugga neyslurýmið Ylju sem tók til starfa á fimmtudag.
Ylja er fyrsta færanlega neyslurýmið á Íslandi þar sem fólki, 18 ára og eldra, býðst að sprauta sig með vímuefnum í æð í öruggu umhverfi. Úrræðið byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar, rétt eins og Frú Ragnheiður sem sett var á laggirnar árið 2009. Ylja er frábrugðin Frú Ragnheiði að því leyti að um öruggt neyslurými er að ræða á meðan Frú Ragnheiður, sem ekur um á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og á Akureyri, sinnir fyrst og fremst heilbrigðis- og nálaskiptaþjónustu.
„Þetta er búið að taka smá tíma, að koma öllu af stað,“ segir Hafrún. Samningur velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Rauða krossins um rekstur neyslurýmisins var samþykktur í velferðarráði á miðvikudag og hófst starfsemin daginn eftir. Embætti landlæknis gefur út starfsleyfi vegna rekstursins og er það í fyrsta sinn sem slíkt leyfi er veitt. Áætlaður rekstrarkostnaður neyslurýmisins er um 50 milljónir króna á ári en hann greiðist af Sjúkratryggingum Íslands.
Ylja er færanlegt neyslurými á hjólum og hefur aðstöðu í eldri bifreið Frú Ragnheiðar. „Fyrir ári síðan náðum við að safna fyrir nýrri bifreið fyrir Frú Ragnheiði þannig við ákváðum að prófa þetta. Verkefnið er til eins árs og við erum að reyna að kortleggja þörfina fyrir neyslurými. Vonandi seinna meir, ef þörfin verður til staðar, verður neyslurýmið fært í varanlegt húsnæði.“
Opið þegar önnur þjónusta er lokuð
Ylja verður opin á milli klukkan 10 og 16 og geta notendur einnig haft samband símleiðis á dagvinnutíma í síma 774-2957. „Á þessum tíma eru gistiskýlin á Lindargötu og Granda lokuð, sem og Konukot. Þá erum við að reyna að koma í veg fyrir að fólk sé úti að nota vímuefni í æð. Tveir verða á vaktinni hverju sinni og við verðum staðsett miðsvæðis en staðsetningin getur verið breytileg.“ Leyfið vegna rekstursins er gefið úr til eins árs en Hafrún segir að langtímamarkmiðið sé að koma Ylju í varanlegt húsnæði.
Nafnið, Ylja, kemur frá manneskju sem hefur nýtt sér þjónustu Frú Ragnheiðar. „Í Frú Ragnheiði leggjum við mikið upp úr að vera í góðum samskiptum við notendur þjónustunnar og fólki gafst kostur á að skrifa niður hugmyndir á nöfnum fyrir neyslurýmið og þetta var eitt af því sem kom upp þar,“ segir Hafrún.
Að hennar mati er það því mjög viðeigandi að nafnið komi frá notanda. „Við leggjum upp úr því að þjónustan er fyrir þau og þau þurfa að geta sagt okkur frá hvað hentar og hvað hentar ekki og við reynum alltaf reglulega að heyra frá þeim hvað þeim finnst virka og leggjum mikið upp úr því.“
Markmiðið að koma í veg fyrir dauðsföll og óafturkræfðan skaða
Hafrún segir Rauða krossinn og starfsfólk Frú Ragnheiðar lengi hafa talað fyrir mikilvægi neyslurýmis. „Þetta er mjög gott skref sem við erum búin að bíða eftir. Það er munur á verkefnunum að því leyti að frú Ragnheiður heldur áfram í sinni mynd þar sem við komum á staðinn til fólks sem óskar eftir því en Ylja verður staðsett miðsvæðis þar sem fólk getur komið til okkar og notað vímuefni í æð á hlýjum, þurrum og öruggum stað undir leiðsögn starfsmanna. Þar verður alltaf heilbrigðismenntaður starfsmaður á staðnum sem getur gripið inn í ef þörf er á.
Markmið Ylju, ásamt því að kortleggja þörfina fyrir neyslurými, er að tryggja öryggi notenda þess. „Með þessu úrræði erum við að reyna að koma í veg fyrir að einstaklingar séu úti að nota vímuefni í æð í ótryggum aðstæðum og þannig getum við reynt að koma í veg fyrir dauðsföll og óafturkræfan skaða,“ segir Hafrún.
Lyfjatengdum andlátum hefur farið fjölgandi á Íslandi síðastliðin ár. Samkvæmt upplýsingum úr dánarmeinaskrá landlæknis voru þau 24 á fyrri helmingi síðasta árs og hafa aldrei verið fleiri. Lyfjatengd andlát eru einnig hvergi fleiri á Norðurlöndunum en hér á landi. Hafrún segist vona að Ylja komi til með að lækka þessa tölu.
„Fólk ætti að opna hjörtun sín og sína meiri skilning“
Hugmyndafræði byggð á skaðaminnkun miðar að því að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hljótast af notkun vímuefna fremur en að fyrirbyggja notkunina sjálfa. Hafrún segir viðmót gagnvart skaðaminnkandi úrræði hafi breyst mjög frá því það var fyrst innleitt hér á landi fyrir um áratug.
„Viðmótið er heldur betur búið að breytast og mér finnst ég alltaf vera að heyra góða hluti um skaðaminnkun og sjá breytingu í samfélaginu, fólk er tilbúið fyrir skaðaminnkunar hugmyndafræði og tilbúið að viðurkenna að fólk notar vímuefni, hvort sem það vilji það eða geti ekki hætt. Ég sé mjög miklar og góðar breytingar í því,“ segir Hafrún.
Neikvætt umtal um þau úrræði sem Rauði krossinn starfrækir sem byggja á skaðaminnkun byggist fyrst og fremst á fordómum að hennar mati. „Fordómar eru fáfræði og hræðsla, það er eðlilegt að vera hræddur við eitthvað sem maður þekkir ekki. En fólk ætti að opna hjörtun sín og sína meiri skilning.“
Vonar að afglæpavæðing neysluskammta verði að veruleika
Frumvarp um breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni, sem felur í sér afglæpavæðingu neysluskammta, var lagt fram á Alþingi fyrir jól og er þetta í fjórða sinn sem frumvarp af þessu tagi er til meðferðar í þinginu. Hafrún fagnar frumvarpinu en kallar eftir nánari samskiptum við þau sem nota fíkniefni við útfærslu þess.
„Við styðjum afglæpavæðingu neysluskammta og höfum verið að tala mikið fyrir því og vonum innilega að þetta frumvarp fari í gegn. Það sem okkur finnst skorta er að rætt sé við þau sem nota vímuefni og fá þeirra skoðun á því hvernig neysluskammtur eigi að vera, fólk sem notar vímuefni eru mestu sérfræðingarnir og mér finnst vera mikill skortur á því að rætt sé við þau,“ segir Hafrún, sem telur það til hagsbóta að innleiða hugmyndafræði skaðaminnkunar við útfærslu frumvarpsins um afglæpavæðingu neysluskammta. „Ég held að það yrði mjög góður ávinningur af því.“
Á þriðja tug umsagna hafa borist um frumvarpið, meðal annars frá Embætti landlæknis sem styður þá nálgun „að refsa ekki einstaklingum sem glíma við heilbrigðisvanda eins og ávana eða fíkn“. Sérfræðingar á vegum embættisins eru reiðubúnir að vera til ráðgjafar um þau áform sem fram koma í frumvarpinu. Rauði krossinn hefur boðið slíkt hið sama. „Og erum heldur betur til í það, við erum í mjög góðu sambandi við notendur og það er klárlega eitthvað sem hægt væri að gera,“ segir Hafrún.