Gagnaflutningur Íslendinga í gegnum snjalltæki hefur margfaldast á milli ára. Á fyrri hluta ársins 2012 notuðu Íslendingar samtals 590 milljónir megabæta á farsímakerfinu. Á fyrri hluta ársins 2013 notuðu þeir 898 milljónir megabæta. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2014 var sú notkun hins vegar 2.539 milljónir megabæta. Notkunin hefur því þrefaldast á einu ári. Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunnar um íslenska fjarskiptamarkaðinn sem birt var í lok síðustu viku. Skýrslan sýnir stöðuna á markaðnum um mitt ár 2014.
Í skýrslunni kemur fram að viðskiptavinir Nova nota miklu meira gagnamagn en viðskiptavinir hinna fjarskiptafyrirtækjanna. Alls notuðu viðskiptavinir Nova 1.926 milljónir megabæta á fyrri helmingi þessa árs, sem þýðir að fyrirtækið er með 75 prósent markaðshlutdeild þegar slík er mæld í niður- eða upphlöðnum megabætum. Síminn, sem er næst stærstur á þessum markaði, er með 16,3 prósent markaðshlutdeild.
Farsímatímabilinu lokið, gagnaflutningstímabilið hafið
Ástæðan fyrir þessari miklu breytingu er sú að farsímatímabil fjarskiptageirans er að líða undir lok og gagnaflutningatímabilið að taka við. Tíðniheimildir fyrir 3G, fyrsta háhraðakynslóð farsímanetskerfið, voru boðnar út á Íslandi í lok árs 2006. Kerfið er í raun mun frekar netkerfi en farsímakerfi og gerði gagnaflutning mögulegan. Allt í einu var mögulegt að hlaða niður tónlist, horfa á kvikmyndir eða þætti í símanum sínum.
Snjallsímar á borð við iPhone hafa stökkbreytt farsímanotkun Íslendinga. Í stað þess að nota tækin fyrst og fremst til að hringja þá notum við þau t.d. til að horfa á myndbönd, vafra um netið, hlusta á tónlist og ýmslegt fleira. Allt þetta útheimtir mikla gagnanotkun.
Nú stendur næsti fasi yfir. 4G-væðingin er í fullum gangi. Skrefið sem verður tekið upp á við með henni er stærra en margir átta sig á. Hraðinn á 4G-tengingu er tíu sinnum hraðari en í 3G og um þrisvar sinnum hraðari en hröðustu ADSL-tengingar.
Mun auka notkun á snjalltækjum
Síminn, Nova, Vodafone og 365-miðlar hafa öll fengið úthlutað tíðnum til að byggja upp 4G þjónustu. Innleiðing hennar er þegar hafin og stór svæði á landinu hafa þegar aðgang að 4G-neti fjarskiptafyrirtækjanna.
Innleiðingin hefur aukið til muna notkun á snjalltækjum, endahefur hún þau áhrif að notendur geta sótt miklu meira efni á snjalltækin sín, hvort sem það eru símar, spjaldtölvur, úr eða annarskonar klæðanleg tæknilausn.
Innleiðingin hefur aukið til muna notkun á snjalltækjum, endahefur hún þau áhrif að notendur geta sótt miklu meira efni á snjalltækin sín, hvort sem það eru símar, spjaldtölvur, úr eða annarskonar klæðanleg tæknilausn. Neyslumynstur þjóðarinnar hefur breyst hratt samhliða þessu. Miklu meira af fréttum, afþreyingu eða öðru efni sem mögulegt er að miðla stafrænt mun verða neytt á snjalltækjum. Og grunnurinn er sannarlega til staðar. Í lok árs 2012 átti þriðja hvert heimili á Íslandi spjaldtölvu samkvæmt neyslu- og lífstílskönnun Capacent. Ári síðar átti annað hvert heimili slíka. Spjaldtölvum Íslendinga fjölgaði um 21.500 á einu ári.
Snjallsímaeignin er líka orðin nánast almenn. Í könnun sem MMR gerði í september í fyrra kom fram að tveir af hverjum þremur Íslendingum á snjallsíma. Samkvæmt upplýsingum frá söluaðilum þessarra tækja hefur ekkert dregið úr hinni hröðu aukningu það sem af er þessu ári. Eftir að stóru fjarskiptafyrirtækin þrjú undirrituðu samninga við Apple um að kaupa Iphone snjallsíma milliliðalaust, sem lækkaði verðið á þeim um allt að 50 þúsund krónur, hefur þvert á móti bæst töluvert við. Samingarnir tóku gildi um miðjan desember síðastliðinn og verðið á iPhone tækjunum er eftir það svipað hérlendis og í stærri löndum Evrópu. Salan á iPhone hefur samhliða þessu flust inn fyrir landssteinanna.