Sala Landsbankans á hlut sínum í greiðslukortafyrirtækinu Borgun til hóps fjárfesta sem sýndi frumkvæði að því að kaupa hlutinn hefur vakið mikla athygli. Landsbankinn er í eigu íslenska ríkisins og hefur opinberlega gefið það út að hann starfi eftir ákveðnum reglum við sölu fyrirtækja í samkeppnisrekstri. Í fréttatilkynningu frá bankanum frá22. júní 2012 segir að „rekstarfyrirtæki eru auglýst og boðin til sölu á almennum markaði, brjóti það ekki gegn samningum eða lögvörðum hagsmunum viðskiptavina bankans“.
Borgun er rekstrarfyrirtæki. Sala á hlut Landsbankans í fyrirtækinu var hvorki auglýst né boðin til sölu á almennum markaði. Þess í stað var 31,2 prósent hlutur Landsbankans í Borgun seldur til Eignarhaldsfélags Borgunar slf., en tilkynnt var um það 25. nóvember síðastliðinn að Landsbankinn hefði selt umræddan hlut fyrir tæplega 2,2 milljarða króna.
Steinþór Pálsson er bankastjóri Landsbankans.
Vekur upp minningar um Vestia
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sala Landsbankans á eignum hefur valdið ulfúð og vakið upp spurningar um hvort eðlilegum ferlum hafi verið fylgt við framkvæmd sölunnar.
Fyrir nokkrum árum hafði eignarhlutum sem Landsbankinn hafði tekið yfir eftir hrunið verið komið fyrir inni í eignarumsýslufélaginu Vestia, sem bankinn átti að öllu leyti. Stærsti bitinn var Icelandic Group, alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki með alls 30 dótturfélög og starfsemi í 14 löndum. Á meðal annarra fyrirtækja voru Vodafone, fyrirtækin sem síðar runnu saman í Advanía, Húsasmiðjan og Plastprent. Í ljósi þess að sala ríkiseigna á Íslandi á sér ekki mjög fallega sögu, og hafið er yfir allan vafa að fyrirtækjum í eigu ríkisins var oft á tíðum stýrt í „réttar“ hendur á árunum fyrir hrun, var lögð áhersla á að allt ætti að vera uppi á borðunum þegar nýju íslensku bankarnir, reistir á grunni gjaldþrota banka, seldu þær fjölmörgu eignir sem höfðu fallið þeim í skaut vegna efnahagshrunsins. Einn þáverandi ráðherra sagði við greinarhöfund að það mætti ekki verða neinn „monkey business“ í endursölu á þessum eignum. Þeim átti ekki að stýra upp í hendurnar á einhverjum útvöldum.
Steingrímur J. varð brjálaður
Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra, varði viðskiptin opinberlega en bakvið luktar dyr varð hann gjörsamlega brjálaður yfir sameiningunni. Að hans mati fólst í þessari sameiningu klárt brot á reglum sem Landsbankinn hafði sjálfur sett sér um meðferð eigna sem lent höfðu í höndunum á honum eftir bankahrunið.
Í lok ágúst 2010 var skyndilega tilkynnt um að Framtakssjóður Íslands, umbreytingasjóður í eigu íslensku lífeyrissjóðanna, hefði keypt Vestia. Fyrir þennan pakka greiddi Framtakssjóðurinn 19,5 milljarða króna auk þess sem Landsbankinn eignaðist 27,5 prósent hlut í hinum ætlaða umbreytingarsjóði. Með þessum gerningi var íslenska ríkið, sem átti Landsbankann að mestu, orðinn óbeint stærsti einstaki eigandi Framtakssjóðsins. Það var aldrei meiningin að svo yrði.
Ákvörðunin um þennan gerning var líka tekin af þáverandi æðstu stjórnendum Landsbankans og Framtakssjóðsins, þeim Steinþóri Pálssyni og Finnboga Jónssyni. Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra, varði viðskiptin opinberlega en bakvið luktar dyr varð hann gjörsamlega brjálaður yfir sameiningunni. Að hans mati fólst í þessari sameiningu klárt brot á reglum sem Landsbankinn hafði sjálfur sett sér um meðferð eigna sem lent höfðu í höndunum á honum eftir bankahrunið.
Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, varði söluna á Vestia opinberlega. Á bakvið luktar dyr var hann brjálaður yfir henni.
Steingrími fannst þeir Steinþór og Finnbogi heldur ekki hafa vandað almennilega til verka. Í einkasamtölum hundskammaði hann þá báða og sagði þeim mjög skýrt að svona lagað skyldu þeir aldrei gera aftur.
Augljóslega var samruninn við Framtakssjóðinn góð leið fyrir Landsbankann til að koma eignum frá sér og losa þar með um þrýsting á bankann um að losa sig sem fyrst við fyrirtæki sem voru komin í faðm hans. Steingrímur lagði mikla áherslu á að þeir Finnbogi og Steinþór myndu ekki láta taka sig í bólinu þegar kæmi að því að fyrirtækin yrðu endurseld út úr Framtakssjóðnum. Allt yrði að vera opið og gagnsætt í þeim söluferlum.
Einkaviðræður þrátt fyrir aðra áhugasama
Steingrímur varð því ekki ánægður þegar Framtakssjóðurinn tók upp einkaviðræður í upphafi árs 2011 við fjárfestingasjóðinn Triton um kaup á verksmiðjurekstri Icelandic, sem hafði fylgt frá Landsbankanum til sjóðsins þegar Vestia var selt. Á hliðarlínunni í þeim viðskiptum voru aðrir áhugasamir aðilar, meðal annars kanadíska fisksölufyrirtækið High Liner Foods, algjörlega brjálaðir yfir því að fá ekki að gera tilboð í reksturinn. Í umræðunni á þessum tíma var látið líta út fyrir að Finnbogi Baldvinsson, forstjóri Icelandic, hefði haft sérstaka hagsmuni umfram aðra að Triton keypti Icelandic og að viðræður við fjárfestingasjóðinn hefðu verið tilkomnar vegna frændsemi hans við nafna sinn Jónsson, framkvæmdastjóra Framtakssjóðsins.
Samsæriskenningin gekk út á það að bakhjarl Finnboga Baldvinssonar væri bróðir hans, Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og eigandi Samherja. Samningsviðræðurnar áttu þannig að vera eitt stórt ráðabrugg til að gera þeim kleift að komast yfir Icelandic. Á meðal þess sem lagt var til í þessum viðræðum við Triton var að hluti starfsmanna Icelandic myndi fá að eignast í fyrirtækinu ef af sölunni yrði.
Mörgum innan stjórnsýslunnar og viðskiptalífsins fannst óþefur af viðræðunum og töluðu um að gamla Ísland vaknaði alltaf þegar einhver héldi að hann gæti grætt mikið á skömmum tíma.
Mörgum innan stjórnsýslunnar og viðskiptalífsins fannst óþefur af viðræðunum og töluðu um að gamla Ísland vaknaði alltaf þegar einhver héldi að hann gæti grætt mikið á skömmum tíma. Í byrjun febrúar 2011 var tilkynnt um að tilboði Triton hefði verið hafnað og að hluti af starfsemi Icelandic yrði seldur í opnu söluferli. Á bakvið tjöldin hafði gengið mikið á vikurnar á undan. Aftur blandaði Steingrímur J. Sigfússon sér í málið og sagði við Finnboga Jónsson að hann ætti að slíta samningaviðræðunum. Hvort þau skilaboð fjármálaráðherrans hafi ráðið úrslitum í því að hætt var við söluna liggur ekki fyrir. En við hana var að minnsta kosti hætt.
Í nóvember 2011 var starfsemi Icelandic í Bandaríkjunum seld til High Liner Foods. Söluverðið var 26,9 milljarðar króna. Framtakssjóðurinn hélt eftir Icelandic nafninu og á enn starfsemi sjávarútvegsfyrirtækisins á Íslandi, í Evrópu og Asíu.
Fréttaskýringin byggir að hluta á kafla úr bókinni Ísland ehf.- auðmenn og áhrif eftir hrun, eftir greinarhöfund og Magnús Halldórsson sem kom út í águst 2013.