Æsispennandi lokaþáttur Hraunsins fór í loftið á RÚV á sunnudagskvöldið. Sitt sýnist hverjum um ágæti þáttanna, en Friðrik Erlingsson, sem titlaður er sem fyrrverandi handritshöfundur, tekur sjónvarpsþáttaröðina af lífi í pistli sem hann skrifar á vefsíðuna klapptre.is, sem er umræðuvettvangur um íslenska sjónvarpsþátta- og kvikmyndagerð.
Friðrik lætur ekki þar staðar numið, heldur gagnrýnir harðlega nánast allt sem íslenski sjónvarpsþátta- og kvikmyndagerðargeirinn hefur borið á borð fyrir almenning á undanförnum árum.
Margir hafa litið til velgengni Dana í bransanum, og velt fyrir sér af hverju sú velgengni stafi. Fyrrgreindum Friðriki finnst að minnsta kosti Íslendingar standa Dönum ljósárum að baki í faginu.
Borgþór Arngrímsson, fréttaritari Kjarnans í Kaupmannahöfn, velti velgengni Dana í sjónvarpsþáttagerð fyrir sér í ítarlegri fréttaskýringu sem hann skrifaði fyrir 38. útgáfu Kjarnans sem út kom 8. maí síðastliðinn.
Danskir þættir mala gull erlendis
Fyrir tíu til fimmtán árum hefðu fáir trúað því að sá dagur kæmi að danskir sjónvarpsmyndaflokkar yrðu verðmæt útflutningsvara og sjónvarpsstöðvar víða um heim myndu keppast við að tryggja sér sýningaréttinn. En sá dagur er kominn, reyndar fyrir nokkru síðan, og DR er orðið stórt nafn á alþjóðlega sjónvarpsmarkaðnum.
Fyrir rúmum fjörutíu árum sat sá sem hér skrifar fyrirlestra hjá Þorgeiri heitnum Þorgeirsyni í Leiklistarskóla SÁL (eins og hann var kallaður) í kjallaranum á Fríkirkjuvegi 11 í Reykjavík. Einn fyrirlestra Þorgeirs fjallaði um framleiðslu sjónvarpsefnis, þar á meðal hina peningalegu hlið. Það er minnisstætt að Þorgeir talaði sérstaklega um breska ríkisútvarpið, BBC, sem þá framleiddi margs konar gæðaefni, þar á meðal framhaldsþætti. Þar hafði verið tekin sú ákvörðun að setja markið hátt og framleiða gæðaefni, allir vita árangur þeirrar stefnu. Það situr ekki síður í minninu að Þorgeir ræddi um (og nefndi tölur máli sínu til stuðnings) hvaða pól Danir hefðu tekið í þessa hæð. „Þeir eru ekki orðnir mjög góðir enn, sem von er, það tekur tíma,“ sagði Þorgeir og bætti við: „En ef þeir halda þessari stefnu og setja áfram peninga í slíka framleiðslu mun það skila sér á næstu áratugum.“
Góðir hlutir taka tíma
Þegar Þorgeir lét þessi orð falla var danska sjónvarpið, nú ætíð kallað DR, enn að slíta barnsskónum. Svæðisbundnar sjónvarpsútsendingar hófust 1951 en 1960 gátu flestir landsmenn séð sjónvarpið. Þó var sjónvarpsviðtæki aðeins til á fjórum heimilum af hverjum tíu. Á árunum frá 1960–70 var leikið efni sem danska sjónvarpið framleiddi, eða lét framleiða, fyrst og fremst það sem kalla mætti kvikmyndaðar leiksýningar. Á síðari hluta áratugarins fóru þó að sjást merki um breytingar. Árið 1967 sýndi danska sjónvarpið glæpaþáttaröðina Ka’ De li´ østers, sex þátta seríu sem Leif Panduro og Bent Christensen skrifuðu og fyrirtækið ASA film framleiddi.
Skylt að framleiða afþreyingarefni
Árið 1973 tóku gildi ný útvarpslög, þar sem skýrt var kveðið á um þá skyldu Danmarks Radio að framleiða afþreyingarefni. Í lögum þessum var líka settur eins konar fjárhagsrammi sem átti að tryggja framleiðslu skemmtiefnis til jafns við önnur verkefni og skyldur stofnunarinnar. Þremur árum áður en lögin tóku gildi hafði sjónvarpið í samvinnu við hið rótgróna fyrirtæki Nordisk Film gert þáttaröðina Huset på Christianshavn. Þættirnir fjölluðu um íbúana í fjölbýlihúsi á Amagergade 7 á Kristjánshöfn, daglegt strit og gleðistundir í bland, meðal annars á hverfisbarnum sem bar nafnið Rottehullet (skiltið má enn sjá á framhlið hússins!). Þættirnir í fyrstu syrpunni voru 6, margir gagnrýnendur spáðu því að þessir þættir yrðu ekki langlífir en annað kom á daginn. Áður en yfir lauk höfðu verið gerðir 84 þættir, flestir um 30 mínútna langir, sá seinasti var sýndur á gamlárskvöld 1977. Einn úr hópi dagskrárstjóra danska sjónvarpsins sagði síðar að gerð þessara þátta hefði verið samfelld kennslustund, og þótt margt í þáttunum væri barn síns tíma hefði grunnurinn þarna verið lagður að vandaðri þáttagerð. Þess má geta að þættirnir eru enn sýndir síðdegis á K-rás DR.
Matador
Tæpu ári eftir eftir að síðasti þátturinn um fólkið í Amagergade hvarf af skjánum frumsýndi danska sjónvarpið (11. nóvember 1978) fyrsta þáttinn í nýrri sjónvarpsþáttaröð, Matador, sem Nordisk Film framleiddi undir stjórn Eriks Balling. Sagan hefst árið 1929 í smábænum Korsbæk (KorsØr og Holbæk!) og lýkur 1947. Alls urðu þættirnir 24 og voru sýndir á fjögurra ára tímabili, sex á hverju ári. Skemmst er frá því að segja að Matador sló algjörlega í gegn, þættirnir hafa verið endursýndir sex sinnum, seinast í hitteðfyrra. Þá horfði að jafnaði talsvert á aðra milljón Dana á hvern þátt, á besta sýningartíma á laugardagskvöldum.
Pólitíkusum þótti bruðlað með almannafé
Þótt almenningur tæki Matador opnum örmum urðu ýmsir, þar á meðal Radiorådet (útvarpsráð, skipað fulltrúum flokkanna, lagt niður 1987) til að gagnrýna kostnaðinn og töluðu um bruðl. Forsvarsmenn Danmarks Radio svöruðu því til að góðir hlutir kostuðu peninga. Í dag eru flestir sammála um að með þessum tveim þáttaröðum sem hér hafa verið nefndar, Huset på Christianshavn og Matador, einkum þó þeirri síðarnefndu, hafi Danir sýnt og sannað að þeir gætu framleitt sjónvarpsefni sem stæðist samanburð við hvað sem væri.
En eins og Róm var ekki byggð á einum degi var enn langt í að danskir sjónvarpsmyndaflokkar næðu verulegri útbreiðslu. Á níunda og fyrri hluta tíunda áratugarins voru framleiddir fjöldamargir sjónvarpsmyndaflokkar, margir prýðilega gerðir, en fæstir þeirra náðu þó teljandi vinsældum utan danskra landsteina.
En undir aldamótin fóru hjólin að snúast. Árið 1996 birtist myndaflokkurinn Bryggeren (um J.C. Jacobsen, stofnanda Carlsberg) á skjánum, ári síðar kom Taxa, Edderkoppen og Rejseholdet árið 2000. Þessir þættir voru seldir til margra landa og í kjölfarið fylgdu Nikolaj og Julie, Krøniken, Ørnen, Klovn og Anna Pihl. Allt vel gerðir og vandaðir þættir. Rejseholdet, Ørnen og Nikolaj og Julie höfðu þar að auki hreppt hin eftirsóttu Emmy-verðlaun. Danir kunnu orðið vel til verka.
Lögreglukonan á lopapeysunni
Sunnudagskvöldið 7. janúar 2007 birtist í fyrsta sinn á skjánum lögreglukonan Sarah Lund, íklædd lopapeysu sem varð tískuklæðnaður kvenna víða um lönd, munstrið ýmist sagt íslenskt eða færeyskt. Myndaflokkurinn hét Forbrydelsen, eða Glæpurinn. Þættirnir í fyrstu syrpunni voru 20 talsins, hver um sig tæplega klukkutíma langur. Daginn eftir sýningu fyrsta þáttarins sögðu dönsku blöðin í umsögnum sínum að hér hefði nýr tónn verið sleginn. Það reyndust orð að sönnu. Myndaflokkurinn naut geysimikilla vinsælda og sjónvarpssstöðvar víða um lönd kepptust um að kaupa sýningaréttinn. Síðar voru gerðar tvær þáttaraðir til viðbótar þar sem Sarah Lund tókst ásamt félögum sínum á við erfið mál. Alls voru framleiddir 40 þættir og var sá seinasti sýndur í danska sjónvarpinu 25. nóvember 2012. Breska ríkisútvarpið, BBC, sýndi þættina textaða í stað þess að láta enska leikara mæla fyrir munn dönsku leikaranna.
Sofie Gråbøl (fædd 1968), sem leikur aðalhlutverkið
í Forbrydelsen, Glæpnum, hefur enga formlega
leiklistarmenntun.
Nú voru hjólin farin að snúast og Forbrydelsen-þættirnir hafa verið sýndir í að minnsta kosti 130 löndum. Þegar DR tilkynnti snemma árs 2010 að væntanlegir væru á skjáinn þættir um stjórnmálamennina á Kristjánsborg, undir heitinu Borgen (Höllin), stóðu kaupendur í röðum. Alls voru gerðir 30 þættir í þremur syrpum,. Þessir þættir hafa verið sýndir í rúmlega 70 löndum og sífellt bætast nýir kaupendur í hópinn.
Broen, Brúin, hét næsta stórverkefni, sem kom á skjáinn 2011. Þeir þættir voru samvinnuverkefni DR, sænska Sjónvarpsins SVT og þess þýska ZDF. Þættirnir voru 20 í tveimur syrpum og í haust hefjast tökur á þeirri þriðju. Þótt ekki nytu þessir þættir sömu vinsælda á heimavelli og Forbrydelsen og Borgen hafa sjónvarpsstöðvar í 174 löndum keypt sýningaréttinn. Í vetur kom svo á skjáinn fyrsta þáttaröðin undir heitinu Arvingerne (Erfingjarnir), 10 klukkustundarlangir þættir um fjölskyldudeilur. Búið var að selja þennan sjónvarpsmyndaflokk til margra landa áður en sýningar hófust í Danmörku. Önnur syrpa í myndaflokknum um erfingjana kemur á skjáinn í ársbyrjun 2015, og erlendar sjónvarpsstöðvar sem hafa þegar keypt þá þætti skipta tugum.
Fleira mætti nefna af velheppnuðum verkum, til dæmis myndaflokkinn Sommer, um samnefnda fjölskyldu. Áhrifamiklir þættir sem hreyfðu við mörgum.
1864 – stærsta verkefni sem DR hefur ráðist í
Í september hefjast sýningar á þáttaröð sem ber heitið 1864. Þessir þættir byggja á raunverulegum atburðum, Slésvíkurstríðinu árið 1864 þegar Danir lutu í lægra haldi fyrir Prússum og Austurríkismönnum og töpuðu stórum hluta ríkisins. Þessir þættir eru að sögn þeir dýrustu sem DR hefur nokkru sinni ráðist í að gera, en stjórnendur DR eru ekki í vafa um að miklar tekjur komi á móti, því fjölmargar erlendar sjónvarpsstöðvar hafa þegar fest kaup á þáttunum.
Sjónvarpsþáttaröðin 1864 hóf göngu sína á RÚV síðastliðið mánudagskvöld.
Fyrir nokkru kom fram í dönsku dagblaði að á síðustu sex árum hefði DR selt sjónvarpsþættir fyrir upphæð sem jafngildir 6 milljörðum íslenskra króna og sú upphæð fer stöðugt hækkandi.
Hver er galdurinn?
Margir hafa velt fyrir sér ástæðum þess að danskir sjónvarpsþættir njóta slíkra vinsælda víða um heim. Ingolf Gabold, sem var yfirmaður leiklistardeildar DR frá 1999–2012, telur ástæðurnar nokkrar. Í fyrsta lagi þurfi fjármagn og þá dugi ekki að horfa til skamms tíma heldur áratuga. Í öðru lagi þurfi að leggja mikla vinnu í að þjálfa handritshöfunda, ef handritið haldi ekki verði myndaflokkurinn aldrei neitt neitt. Aðalpersónurnar þurfi líka allar að hafa sína sögu, til hliðar við aðalatburðarásina, þetta er mjög mikilvægt segir Ingolf Gabold, því þannig skírskoti þættirnir til mun breiðari hóps. Ekki er síður mikilvægt að vanda leikaravalið, ef hugsað er til dæmis til nýjustu þáttaraðarinnar, Arvingerne, skilst vel hvað við er átt. Þar smellpassa allir leikarar við persónur verksins. Svo er það tæknihliðin, segir Ingolf Gabold, það tekur mörg ár að þjálfa upp þá færni sem til þarf. Í stuttu máli, segir hinn reynslumikli Ingolf Gabold: „Peningar, þolinmæði og markviss stefna. Þetta höfum við Danir getað, og svo má ekki gleyma kynningar- og söluhliðinni. Þar kemur það líka til góða að margar danskar kvikmyndir hafa náð alþjóðlegum vinsældum og það skiptir líka máli.“ Höfundur þessa pistils átti einmitt við hann langt samtal fyrir nokkru um þessi mál.
Þorgeir Þorgeirson gaf sig ekki út fyrir að vera spámaður. Í fyrirlestrinum sem minnst var á í upphafi þessa pistils nefndi hann hvað þyrfti til að komast í fremstu röð við gerð sjónvarpsefnis. Hann vissi greinilega hvað hann söng.