Enska úrvaldsdeildin hófst í dag. Þetta fyrirbæri á sérstakan stað í hjarta Íslendinga af einhverri ástæðu. Áhorf og fylgni á þessa vinsælustu knattspyrnudeild í heimi hérlendis er ótrúlega mikið og ófáar umræðurnar á kaffistofunum á mánudögum, á barnum á fimmtudögum eða í spjallkerfum samfélagsmiðlanna hvenær sem er sem snúast um hana.
Annar hver fullorðinn maður, og margar konur, virðist vera búinn að setja upp lið í Fantasy-deildinni fyrir komandi tímabil og gíra sig upp í ánægjuna ,eða vonbrigðin, sem rétt úrslit geta skapað. Hvað það er sem fær fólk til að týna sér í þessari afþreyingu með jafn glórulausum hætti og raun ber vitni er erfitt að segja til um. Og kannski hluti af sjarmanum að vera ekki að greina það of mikið.
Það þýðir samt ekki að það megi ekki greina ensku deildina í ræmur, enda hluti af aðdráttaraflinu að búa til röksemdarfærslur fyrir því að þessari og hinni þróun mála innan hennar út frá allskyns tölfræði. Sú tölfræði sem skiptir mestu máli í dag er, því miður, fjármálatölfræðin. Nánar tiltekið er það orðin ófrávíkjanleg breyta í árangursuppskrift að eyða formúu fjár í að kaupa leikmenn og enginn hirðir lengur deildartitil án þess að vera með að meðaltali tvo landsliðsmenn til taks í hverri stöðu.
Það getur hins vegar verið mjög áhugavert að greina fjárútlátin og reyna að setja þau í samhengi við væntan árangur.
Stefnir í enn eitt metárið
Í raun má segja að liðin í ensku deildinni fái þorra peninganna sina með þrennu móti. Í fyrsta lagi úr almennum rekstri. Þar eru lið með fjölda fylgismanna út um allan heim, t.d. Manchester United, Liverpool og Arsenal, með töluvert forskot á aðra enda geta þau selt varning á borð við búninga, sem eru auðvitað endurnýjaðir árlega til að tryggja aukna sölu, til þeirra.
Í öðru lagi eru sum lið með sykurpabba. Þ.e. ofurríka menn sem dæla fé í félögin sem þeir kaupa til að gera þau samkeppnishæf um titla á sem skemmstum tíma. Chelsea og Manchester City eru auðvitað skýrustu dæmin um þetta. Og þessi peningadæling er að virka. Peningaliðin tvö hafa unnið sex af síðustu ellefu deildarmeistaratitlum.
Í þriðja lagi fá liðin fé vegna sjónvarpsréttarsamninga. Umfang þeirra hefur eðlilega aukist gríðarlega samhliða auknum vinsældum ensku úrvalsdeildarinnar og fleiri keppast nú um að komast yfir réttinn en áður. Í byrjun árs var gerður nýr samningur sem er að mörgum talin nærri galin. Þá var rétturinn fyrir árin 2016-2019 seldur fyrir 5,2 milljarða punda. Það þýðir að Sky Sports og BT Sport, sem keyptu réttinn, borga meira en tíu milljón pund fyrir hvern leik sem stöðvarnar sýna. Til samanburðar má nefna að samningurinn sem var í gildi fyrir árin 2013 til 2016 kostaði um þrjá milljarða punda. Og þegar úrvalsdeildin var sett á fót árið 1992 var sjónvarpsrétturinn seldur til sex ára fyrir 191 milljón punda. Til að setja þann vöxt á sölutekjum sjónvarpsréttar í samhengi þá fengu liðin í deildinni samtals 32 milljónir punda á meðaltali á árið á tímabilinu 1992 til 1997. Á árunum 2016 til 2019 fá þau um 1,3 milljarða punda til skiptanna.
Liverpool eyddi rúmlega 32 milljónum punda í Christian Benteke.
Metið verður nær örugglega slegið
Auknar tekjur liðanna vegna sölu sjónvarpsréttar endurspeglast í eyðslu þeirra í leikmenn á liðnu sumri. Í fyrrasumar var sett met í eyðslu þegar liðin 20 sem þá spiluðu í deildinni eyddu 857,7 milljónum punda í leikmenn. Þá eyddu þrettán lið meira en 25 milljónum punda í leikmannakaup.
Í dag, þegar tæpur mánuður er enn eftir þar til leikmannaglugginn lokar, hafa liðin þegar eytt 517 milljónum punda. Búist er við því að sú tala muni hækka hratt á næstu vikum, enda sum liðin enn að leita sér að lykilleikmönnum. Á meðal þeirra kaupa sem hafa verið í umræðunni eru kaup Chelsea á Baba Rahman (17,5 milljónir punda) og hinn lævísa og undirförla tilraun þeirra til að kaupa John Stones (30 milljónir punda). Búist er við því að Manchester City kaupi að minnsta kosti einn mjög dýran leikmann í viðbót og þykir Kevin De Bruyne (45 milljónir punda) talinn líklegastur. Hitt Manchester liðið þarf að kaupa einhver til að fylla skarð hins fokdýra Angel Di Maria, sem hefur verið seldur til Frakklands, og er talið að Pedro (um 20 milljónir punda) sé líklegastur. Þá virðast flestir spekingar sammála um að Arsenal þurfi að kaupa sér framherja til að geta keppt um titilinn og bresku blöðin hafa sagt að mestar likur séu á að Arsene Wenger reyni við Karim Benzema (45-50 milljónir punda).
Ef öll þessi kaup stóru liðanna myndu ganga eftir myndu 162,5 milljónir punda bætast við eyðsluna og ýta henni upp í 679,5 milljónir punda. Og það yrði bara hluti af viðbótareyðslu fjögurra liða. Hin 16 munu ugglaust ná að eyða að minnsta kosti sambærilegri upphæð og þvi virðist blasa við að eyðslumetið fyrir einn glugga verði slegið.
Stóru eyddu mikið í fyrra
Í fyrrasumar voru það stóru liðin sem eyddu mestu. Manchester United fór af hjörunum og keypti leikmenn fyrir 153 milljónir punda. Liverpool voru litlu skárri og eyddu 117 milljónum punda, að mestu í vafasama sóknarmenn og leikmenn frá Southampton sem stóðu síðan alls ekki undir væntingum. Chelsea (88 milljónir punda) Arsenal (78 milljónir punda) og Manchester City (54,5 milljónir punda) komu þar á eftir. Eina liðið sem náði að troða sé á milli þeirra stóru í eyðslu var Southampton (58 milljónir punda), en það þurfti líka nánast að kaupa sér nýtt lið eftir að Liverpool ofborgaði fyrir flesta lykilmenn þess frá árinu áður.
Í ár er staðan aðeins öðruvísi. Liverpool heldur áfram að eyða stjarnfræðilega og hefur þegar keypt leikmenn fyrir 77,6 milljónir punda. Líkt og oft áður þá hefur liðið selt stórstjörnu fyrir morðfé (Fernando Torres, Luis Suarez og nú Raheem Sterling) og keypt kippur af nýjum leikmönnum á stórar fjárhæðir í staðinn. Að frádregnu því sem komið hefur í kassann vegna sölu á leikmönnum þá er eyðsla Liverpool því „aðeins“ 23,5 milljónir punda.
Manchester United heldur áfram að eyða stórum fjárhæðum, þótt að hæðum síðasta árs sé enn ekki náð. Nú þegar hefur félagið eytt 69 milljónum punda í nýja leikmenn og er alls ekki hætt. Salan á Di Maria náði þó stórum hluta þessarrar eyðslu til baka. City er svo auðvitað ekki langt fjarri og hefur þegar eytt 59 milljónum punda, að langmestu í Raheem Sterling.
Þótt Chelsea og Arsenal hafi ekki eytt miklu enn sem komið er í sumar þá gæti það breyst á næstu vikum. Chelsea hefur til að mynda reynt mikið að kaupa John Stones frá Everton. Hann myndi kosta yfir 30 milljónir punda ef Everton myndi selja hann.
"Minni" liðin að eyða stórum fjárhæðum
Það sem vekur hins vegar athygli er hófleg eyðsla Chelsea (17 milljónir punda) og Arsenal (10 milljónir punda), að minnsta kosti enn sem komið er. Og ekki síðri athygli vekur mikil eyðsla „minni“ liða.
Bæði Newcastle (35,9 milljónir punda) og Aston Villa (38,4 milljónir punda) hafa eytt miklum fjárhæðum. Þá hafa Tottenham, Southampton, Crystal Palace, West Ham, Leicester, Sunderland og Watford öll eytt um 20 milljónum punda eða meira í nýja leikmenn. Meira að segja nýliðar Bournemouth hafa eytt 18 milljónum punda og West Bromwich fer með heildareyðslu sína nálægt 30 milljónum punda ef félagið nær að klára kaupin á sóknarmanninum Solomon Rondon, líkt og líklegt þykir.
Hóflegustu lið deildarinnar, og þau einu ásamt Arsenal sem hafa eytt undir tíu milljónum punda í leikmenn í sumar, eru Norwich (8,2 milljónir punda), Swansea (8,9 milljónir punda), Stoke (8,7 milljónir punda) og auðvitað Everton (sem hefur einungis eytt 4,4 milljónum punda).
Líkt og svo oft áður þá skiptir eyðslan samt ekki öllu máli heldur gæði þeirra ellefu leikmanna sem spila hverju sinni. Í fyrra eyddi Hull til að mynda tæpum 40 milljónum punda og QPR um 36,5 milljónum punda í nýja leikmenn. Bæði lið féllu samt.
Það er því ljóst að þótt peningar geti oft keypt árangur handa toppliðunum þá fer því fjarri að þeir geti keypt öryggi og áframhaldandi deildarveru hjá minni liðum deildarinnar. Áhugavert verður að bera eyðslu liðanna í sumar saman við árangur þeirra að loknu því tímabili sem hefst í dag að ári liðnu.