Mikið fjaðrafok varð í Bandaríkjunum á dögunum þegar fregnir bárust af því að alríkislögreglan hefði farið inn á eitt heimila Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, til þess að gera þar húsleit. Trump og stuðningsfólk hans fór hörðum orðum um stofnunina, sem það sagði spillta öfgastofnun undir stjórn vinstrimanna, en það virtist alveg gleymast í hamagangnum að það var sjálfur Trump sem tilnefndi forstjóra hennar, Christopher Wray.
Til að byrja með ná lokkur leynd yfir því hvað það var nákvæmlega sem alríkislögreglan var að leita að í Mar-a-Lago, „vetrarheimili forsetans“ í Flórída, en stutt er síðan hluti réttarhaldanna vegna árásarinnar á þinghúsið í Washington DC þar sem tilraun var gerð til að varpa hluta ábyrgðarinnar á forsetann fyrrverandi stóðu yfir.
Í gær gerði alríkislögreglan loks grein fyrir húsleitinni og því sem þar fannst. Um var að ræða aðgerð vegna rannsóknar vegna gruns um brot á njósnalöggjöfinni meðal annars og lagði alríkislögreglan hald á ellefu gagnasöfn, þar af nokkur sem innihéldu háleynileg gögn, og önnur sem innihéldu leynileg og viðkvæm gögn, að því er fram kemur í umfjöllun New York Times. Samkvæmt lögum má aðeins geyma og bera augum háleynileg gögn innan öruggra veggja ríkisstofnana Bandaríkjanna.
Um er að ræða enn eitt skrefið í margþættri rannsókn á tilraunum hans til þess að halda völdum. Ljóst þykir að hann er haldinn alls kyns ranghugmyndum um heimildir forseta, nú eða fyrrverandi forseta, en ekki er um að ræða fyrsta dæmi þess að hann líti svo á að á gögn sem hann hafði yfirsýn með sem forseti tilheyri honum persónulega, þó kannski sé um að ræða alvarlegasta dæmið.
Þá þykir húsleit þessi og það sem þar uppgötvaðist til marks um hversu háalvarlegir glæpirnir sem forsetinn fyrrverandi er grunaður um eru, en Trump þykir líklegur til þess að bjóða sig aftur fram til forseta í næstu forsetakosningum í Bandaríkjunum.