Kristjaníubúar fá tilboð

Danska ríkið hefur gert íbúum Kristjaníu tilboð sem felur í sér umtalsverðar breytingar frá núverandi skipulagi. Íbúum „fríríkisins“ myndi fjölga talsvert ef breytingarnar ganga eftir. Samningaviðræður milli íbúanna og ríkisins standa yfir.

Kristjanía er eins konar undraland í miðri Kaupmannahöfn.
Kristjanía er eins konar undraland í miðri Kaupmannahöfn.
Auglýsing

26. sept­em­ber næst­kom­andi verða 51 ár síðan hópur fólks lagði undir sig 34 hekt­ara svæði í Kaup­manna­höfn og gaf því nafnið Krist­jan­ía. Umrætt svæði var á Krist­jáns­höfn og hafði verið umráða­svæði hers­ins sem ekki nýtti það leng­ur. Á svæð­inu, sem var í eigu rík­is­ins, voru fjöl­margar bygg­ingar sem höfðu til­heyrt hern­um. Á þessum tíma var mikil hús­næðisekla í Kaup­manna­höfn og margir sáu sér leik á borði að setj­ast að í „frí­rík­in­u“. Þar var ódýrt hús­næði í boði en jafn­framt mögu­legt að byggja (oft með aðstoð vina og kunn­ingja) íbúð­ar­hús, sem kannski upp­fyllti ekki strangar kröfur bygg­inga­reglu­gerð­ar, en var þó það sem mestu skipti: þak yfir höf­uð­ið. Húsa­gerðin ber þess skýr merki að þar hefur hug­mynda­flug og efna­hagur hús­byggj­enda ráðið ferð­inni en ekki strangar reglur um sam­ræmdar götu­línur og útlit. Útkoman er enda eftir því: sund­ur­gerð­ar­stíll sem er í algjörri mót­sögn við það sem sjá má víð­ast hvar ann­ars stað­ar.

Auglýsing
Auðvelt að ná í „grasið“

„Yf­ir­tak­an“ á Krist­jan­í­u­svæð­inu kom stjórn­völdum í opna skjöldu og þetta nýja ,,frí­ríki“ vakti strax mikla athygli, langt út fyrir danska land­steina. Á árunum kringum 1970 var hassneysla orðin all útbreidd, þótt við­skipti með „grasið“ bryti í bága við lög. Krist­janía varð fljót­lega eins­konar mið­stöð við­skipta með „grasið“ og þangað streymdu við­skipta­vinir víða að. Ferða­manna­straum­ur­inn á átt­unda ára­tug síð­ustu aldar var ekki í lík­ingu við það sem síðar varð en Krist­janía varð fljót­lega, og er enn, meðal vin­sæl­ustu við­komu­staða ferða­manna í Dan­mörku, sem vildu sjá með eigin augum mann­lífið í „frí­rík­in­u“. „Gras­neyt­end­ur“ í Kaup­manna­höfn hafa líka gjarna lagt leið sína í Krist­jan­íu, straum­ur­inn löngum stríð­astur á föstu­dög­um. Við­skiptin hafa frá upp­hafi að mestu verið tak­mörkuð við eina götu „Pus­her Street“.

Húsnæði í Kristjaníu er afar skrautlegt. Ljósmynd: Unsplash/Robert Katzki

Frum­byggjarnir orðnir ,,hálf­gerðir gaml­ingjar“

Upp­haf­lega voru íbúar Krist­janíu í kringum eitt þús­und en hafa lengi verið í kringum átta hund­ruð. Margir þeirra sem sett­ust að í Krist­janíu í upp­hafi búa þar enn, og með­al­aldur íbú­anna hef­ur, öfugt við öll önnur hverfi Kaup­manna­hafn­ar, hækk­að. Skrif­ari þessa pistils ræddi fyrir nokkrum árum við tals­mann íbúa­sam­taka Krist­jan­íu. Sá hafði búið þar frá árinu 1976, var þá lið­lega tví­tugur og sagð­ist vera dæmi­gerður krist­janitti, eins og íbú­arnir kalla sig. Aðspurður um ástæður þess að hann, ásamt kærust­unni, sett­ist þar að sagði mað­ur­inn að þau hefðu verið svo heppin að kom­ast þar yfir lítið hús. Þau eign­uð­ust tvö börn og end­ur­bættu og stækk­uðu húsið þar sem þau bjuggu enn þegar pistil­skrif­ari ræddi við hann, „nú að verða hálf­gerðir gaml­ingjar“ eins og mað­ur­inn orð­aði það. Hann var útlærður raf­virki og hafði alla tíð unnið sem slíkur í Kaup­manna­höfn. Að sögn hafði aldrei komið til tals að flytja úr Krist­janíu og mað­ur­inn bætti því við að hann hefði aldrei reykt neitt sterkara en Prince sígar­ett­ur, en væri fyrir löngu hættur því. Annað barna hans, sonur sem er verk­fræð­ing­ur, býr í Krist­janíu en dóttirin býr skammt frá, á Krist­jáns­höfn. Saga þessa manns er lík­lega dæmi­gerð, flestir sem setj­ast að í Krist­janíu vilja hvergi ann­ars staðar vera.

Alla tíð umdeild

Krist­janía hefur alla tíð verið umdeild. Lög­regla og stjórn­völd iðu­lega gagn­rýnd fyrir lin­kind og umburð­ar­lyndi. Í Krist­janíu lið­ist margt sem ekki væri umborið ann­ars staðar og nauð­syn­legt væri að „hreinsa til og losna við þennan skríl“. Ummæli af þessu tagi mátti iðu­lega sjá og heyra í fjöl­miðlum en mjög hefur dregið úr slíku í seinni tíð. Íbú­arnir bjuggu lengi við mikla óvissu um fram­tíð svæð­is­ins „maður veit aldrei með þessa póli­tíku­sa“ sagði einn krist­janitti í við­tali við danska útvarpið árið 2010, og mælti þar lík­lega fyrir munn margra íbúa. Mál­efni og fram­tíð Krist­janíu hafa margoft komið til umræðu í danska þing­inu, en það hefur litlu breytt.

Íbúar Kristjaníu gefa ekki mikið fyrir lög og reglur. Ljósmynd: Unsplash/Piergiovanni Di Blasi

Fast land undir fótum eftir 41 ár

Árið 2011, réttum 40 árum eftir að „frí­rík­ið“ varð til náð­ist sam­komu­lag um kaup­samn­ing milli rík­is­ins og íbúa Krist­jan­íu. Sam­komu­lagið var form­lega und­ir­ritað og stað­fest í byrjun júlí 2012. Selj­and­inn var danska ríkið og kaup­and­inn Frista­den Christ­i­ania. Kaup­verðið var 76.3 millj­ónir danskra króna (1,4 millj­arðar íslenskir á núvirð­i), sem greiða skyldi á 30 árum. Mikla athygli vakti að í samn­ingnum var ákvæði sem kvað á um rík­is­á­byrgð á lán­inu, sem sé að svæðið skyldi ekki tekið af krist­janitt­unum ef svo færi að þeir gætu ekki staðið í skilum með afborg­an­ir. Fyrir íbúa Krist­janíu var samn­ing­ur­inn mik­il­væg­ur, því með honum var fram­tíð svæð­is­ins tryggð og jafn­framt að yfir­bragð þess yrði með svip­uðum hætti og verið hafði frá upp­hafi. Fyrir ríkið var líka mik­il­vægt að ljúka ára­löngum deil­um. Árið 2017 reyndi á sam­komu­lagið þegar nýr reið­hjóla­stígur var lagður þvert yfir hluta Kristjaní­u­svæð­is­ins, stígur þessi teng­ist hjóla- og göngu­brú frá Nýhöfn­inni og út á Ama­ger. Krist­janitt­arnir voru mót­fallnir lagn­ingu stígs­ins en með samn­ingnum höfðu þeir skuld­bundið sig til að hlíta almennum skipu­lags­reglum og stíg­ur­inn er vin­sæll og mikið not­aður af hjól­reiða­fólki. Rétt er að taka fram að samn­ing­ur­inn náði ein­ungis til hluta svæð­is­ins sem áður til­heyrði hern­um, stór hluti þess var áfram í eigu rík­is­ins.

Tíu ára ákvæðið

Þegar sam­komu­lagið um Krist­janíu var gert árið 2012 var í því ákvæði um að 10 árum síðar skyldi sam­komu­lagið end­ur­skoð­að. Þessa dag­ana eru krist­janitt­arnir að skoða til­boð rík­is­ins. Til­boðið gengur í stuttu máli út á að íbúar Krist­janíu sam­þykki að byggðar verði leigu­í­búð­ir, sam­tals um 15 þús­und fer­metrar á svæð­inu sem nú til­heyrir áður­nefndum Frista­den Christ­i­ania. Þær verði leigðar út sam­kvæmt gild­andi úthlut­un­ar­reglum sveit­ar­fé­lags­ins Kaup­manna­hafn­ar. Í stað­inn býðst Frista­den Christ­i­ania að kaupa aukið land­svæði og bygg­ingar sem þar eru fyrir 67 millj­ónir danskra króna (1,2 millj­arða íslenska) á lang­tíma­láni með rík­is­á­byrgð. Enn­fremur myndi ríkið standa straum af útgjöldum vegna við­gerða og end­ur­bóta á tveimur frið­uðum bygg­ingum á svæð­inu. Enn­fremur eru í til­boði rík­is­ins mögu­leiki á láni, (upp­hæðin ekki til­greind) til end­ur­bóta og nýbygg­inga.

Þegar málið var til með­ferðar í danska þing­inu, Fol­ket­in­get, urðu um það miklar umræður en sam­komu­lags­drögin að lokum sam­þykkt. Fyrir nokkrum dögum greindi dag­blaðið Berl­ingske frá óánægju nokk­urra þing­manna sem töldu þann samn­ing sem lagður hefði verið fram ekki í sam­ræmi við sam­komu­lagið sem gert var í þing­inu. Þegar þessar línur eru settar á blað liggur ekki fyrir hvort krist­janitt­arnir sam­þykkja til­boð rík­is­ins. Því þurfa þeir að svara fyrir 29. ágúst næst­kom­andi. Ef íbúar Krist­janíu sam­þykkja til­boðið kemur það vænt­an­lega aftur til kasta þings­ins.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar