Núna í september verða haldnar þingkosningar í Svíþjóð þar sem rúmlega 7,5 milljónir Svía geta nýtt kosningarétt sinn en einnig er kosið í sveitarstjórnir. Helstu átakalínur kosninganna hafa verið að myndast undanfarið og virðast þrenn málefni ætla að verða þau helstu sem tekist verður á um: staða heilbrigðis- og menntakerfis, hækkandi glæpatíðni og síðast en ekki síst þjóðaröryggismál í ljósi hegðunar Rússa í Evrópu.
Í síðustu grein var farið yfir sögu sænskra stjórnmála á seinni hluta síðustu aldar með áherslu á breytingar í rekstri á velferðarkerfinu. Í þessari annari grein verður sjónum beint að pólitísku landslagi síðustu ára og flokkar hins mögulega „blábrúna“ bandalags standa nú rétt fyrir kosningar.
„Blábrúnt“ bandalag til hægri?
„Vem är brun, Per Bolund?“, eða „Hver hér er brúnn, Per Bolund?“ spurði ákafur og hálf taugatrekktur Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata (s. Sverigedemokraterna) ítrekað formann Græningja (s. Miljöpartiet) í sjónvarpskappræðum sænska ríkissjónvarpsins síðasta haust. Per Bolund hafði þá velt fyrir sér mögulegu „blábrúnu“ bandalagi Svíþjóðardemókrata, Hægriflokksins (s. Moderaterna) og Kristinna demókrata (s. Kristdemokraterna). Á síðasta ári fóru þessir þrír flokkar að ræða saman um sameiginlega snertifleti og mögulegt samstarf að loknum kosningum. Þegar talsvert yfirvegaðri Per Bolund gafst tækifæri á að svara spurningu Jimmie Åkesson benti hann óljóst á tengingu ljósbrúna litsins í pólitísku samhengi við einkennisbúninga stormsveita Nasista (þ. Sturmabteilung), og þeirra þátt í að koma Adolf Hitler til valda í Þýskalandi á fjórða áratug síðust aldar.
Svíþjóðardemókratar eiga nefnilega rætur að rekja til nokkurra nýnasistahreyfinga á níunda áratugnum. Skilgreining og gagnrýni Per Bolunds fólst þó ekki bara í að setja út á uppruna flokksins heldur einnig stefnu hans í dag, þótt hún hafi verið sett í töluvert hógværari „búning“ – í fínni jakkaföt ef má að orði komast.
Í Skandinavíu á undanförnum áratugum hafa popúlískar þjóðernishreyfingar sótt í sig veðrið en þær beita sér þá helst fyrir ákveðinni útlendingaandúð sem felst einkum í því að upphefja „skandinavísk gildi“, meðal annars þegar kemur að velferðarkerfinu. Svíþjóðardemókrataflokkurinn var stofnaður árið 1988 út frá nokkrum nýnasískum rótum en hefur síðan þá náð að „hreinsa sig“ töluvert og orðið hóflegri í stefnu sinni og hugmyndafræði. Nýverið var birt hvítbók um sögu flokksins sem hafði lengi verið beðið eftir. Í henni kemur það skýrt fram sem margir meðlimir flokksins og kjósendur hans hafa gert lítið úr: flokkurinn er með augljósa sögulega tengingu við eldri nýnasista- og þjóðernishreyfingar.
Sóleyjarblóm og „krúttlegur rasismi“
Svíþjóðardemókrataflokkurinn hefur hægt og rólega farið í gegnum ímyndarbreytingu sem hefur fyrst og fremst falist í því að gera sig aðgengilegri og á ákveðinn hátt „krúttlegri“. Ímynd flokksins hefur þannig verið einkennd ljósum og fallegum litum (merki flokksins er ljósblátt Sóleyjarblóm) og einkennist nú af ákveðinni barnslegri rómantíseringu á liðinni sænskri tíð. Þá notar flokkurinn mikið myndefni sem sýnir til dæmis mikið eldra fólk og Dalarauð hús böðuð sólskini. Þó myndu einhverjir telja að þessari nýju ímynd takist ekki að fela bæði rasíska fortíð og fordómafulla undirtóna flokksins.
Það sem gerir Svíþjóðardemókrata frábrugðna til dæmis norska Framfaraflokknum (n. Norsk Folkparti), sem er svipaður flokkur að mörgu leyti, er að hann styður velferðarríkið, rétt eins og almenningur virðist gera, og vill endurreisa það – en með lokuðum landamærum. Svíþjóðardemókratar hafa þannig talað um hvernig ríkisstjórnir undanfarna áratugi hafa vanrækt velferðarkerfið, sérstaklega þegar kemur að löngum biðlistum og þjónustu við eldri borgara. Einnig hefur flokkurinn talað um þá vanrækslu sem sé í menntakerfinu og þá „aðskilnaðarstefnu“ sem birtist þar með þeim afleiðingum að enginn agi sé í mörgum skólum þar sem meiri hlutinn er af erlendu bergi brotinn. Þá vilja flokksmeðlimir meina að þessi veruleiki stuðli ásamt öðrum þáttum að því sem flokkurinn kallar ,,parallelsamällen“ eða hliðstæð samfélög, þar sem önnur lög og reglur gildi.
Flokkurinn vill efla velferð en vill fjármagna þá eflingu einna helst með niðurskurði í málefnum er viðkoma alþjóðlegri hjálparaðstoð og innflytjendum. Þar að auki vill flokkurinn draga aðild landsins að Evrópusambandinu (ESB) til baka. Í takt við hófsamari stefnu og alþjóðlega þróun í flóttamannamálum varð flokkurinn vinsælli með tímanum. Hlaut hann 5,7% atkvæða árið 2010, 12,9% árið 2014 og nú síðast árið 2018 hlaut hann 17,5% atkvæða. Flokkurinn hélt þá áfram að stækka og var að mælast með rúmlega 20% fylgi í skoðanakönnunum fyrstu tvö árin eftir kosningar. Í desember 2019 mældist hann til dæmis með 24% fylgi.
En Covid-19 heimsfaraldurinn, innrás Rússlands í Úkraínu og möguleg innganga Svíþjóðar í NATO hefur ekki beint aukið við fylgi Svíþjóðardemókrata. Frá því í byrjun ársins 2020 hefur flokkurinn verið heldur kyrrstæður í könnunum og hefur stundum verið að mælast með rúmlega það sem hann fékk í kosningunum 2018. Í síðustu skoðanakönnun mældist hann með 18,6% fylgi, en það sveiflast þó; í janúar mældist hann til dæmis með 20,1% fylgi en í júní var fylgi hans talið vera 17,4%.
Kyrrstætt fylgi
Jafnframt hefur það gerst síðan kosið var árið 2018 að Hægriflokkurinn og Kristni demókrataflokkurinn hafa að mörgu leyti tekið upp stefnu Svíþjóðardemókrata þegar kemur að innflytjendamálum og refsingum við (ákveðnum) glæpum. Þá hefur stefna Svíþjóðardemókrata verið nánast eins síðan flokkurinn komst fyrst inn á þing 2010. Á meðan hefur Hægriflokkurinn í raun tekið U-beygju þegar kemur að þessum málaflokkum. Hér er flokkurinn þá að reyna að auka fylgi sitt lengra til hægri og í átt að íhaldssamari öflum. Jafnframt sækist hann eftir því að ná aftur völdum eftir að hafa verið átta ár í stjórnarandstöðu.
Blokkir síðustu ára
Fyrir kosningarnar 2010 einkenndust sænsk stjórnmál einna helst af tvennum svokölluðum blokkum. Þetta voru annars vegar Borgaraflokkarnir (frá miðju til hægri) en þar störfuðu saman Hægriflokkurinn, Kristnir demókratar, Frjálslyndi flokkurinn (s. Liberalerna) og Miðflokkurinn (s. Centerpartiet); og hins vegar Vinstriblokkin (stundum kölluð Rauðgræna blokkin), en þar störfuðu saman Sósíaldemókratar (s. Socialdemokraterna), Vinstriflokkurinn (s. Vänsterpartiet) og Græningjar (s. Miljöpartiet).
Fyrrnefnda blokkin er talsvert eldri en sú síðari en hún var mynduð á tíunda áratug síðustu aldar en varð síðan fullmótuð upp úr aldamótum. Sú síðari tók aðeins á sig mynd fyrir kosningarnar 2010 en þá gáfu Sósíaldemókratar það út að þeir myndu í fyrsta skipti í heila öld starfa innan blokkar.
Það sem síðan hefur gerst er að fyrir utan ramma þessara blokka sprettur þá fram þetta nýja pólitíska afl í formi Svíþjóðardemókrata. Síðan þá hafa blokkirnar átt erfiðara með að starfa án þess að leita til hvor annarrar eða jafnvel í fylgið sem færst hafði frá þeim. Ákveðin málefni sem áður þóttu fáránleg að ræða voru allt í einu rædd af þessum nýja flokki sem fannst Svíþjóð „ónýtt“ og vildi finna sökudólga. Þá vilja Svíþjóðardemókratar hverfa aftur til annarrar tíðar, þegar Svíþjóð var „sænskt“. Hvað sem það nú þýðir er erfitt að vita nákvæmlega – en eitt er víst: það er ekki hægt að fara aftur í tímann (eins og er allavega).
Stefnubreyting Hægriflokksins og óhugnanleg skotárásamet
Samstarf Hægriflokksins við Svíþjóðardemókrata er komið til að vera, þó svo að formaður flokksins, Ulf Kristersson, neiti að tjá sig beint um hvað honum finnist um síðarnefndaflokkinn og eðli hans. Talar hann mest um þá „sameiginlegu snertifleti“ sem þeir deila. Fylgi Hægriflokksins hefur verið að mælast í kringum 20% síðustu ár en í kosningunum 2018 fékk hann 19,8% af atkvæðum. Í síðustu skoðanakönnun mældist flokkurinn með 18,6% fylgi, þá jafnstór og flokkur Svíþjóðardemókrata.
En velta má fyrir sér hvernig stendur á því að Hægriflokkurinn, sem eitt sinn stóð fyrst og fremst fyrir frjálsum markaði, opnum landamærum og alþjóðahyggju, hefur ratað hingað í stefnumálum? Svarið við þessu er tvíþætt: annars vegar tap á fylgi helst til Svíþjóðardemókrata og hins vegar mettölur í glæpatíðni í Svíþjóð.
Síðustu ár hefur glæpatíðni í Svíþjóð aukist töluvert og er nú sú næst hæsta innan ESB. Nú á fyrstu þremur mánuðum ársins var tilkynnt um metfjölda banvænna skotárása þar sem 18 manneskjur hafa týnt lífi sínu. Síðustu fimm ár hafa yfir 40 manneskjur árlega verið skotnar til bana. Flestar þessara skotárása eru beintengdar átökum milli glæpagengja sem virðast hafa greiðan aðgang að skotvopnum.
Það sem er enn meira sláandi varðandi starfsemi þessara glæpagengja er að ríflega 15% meðlima þeirra eru undir 18 ára. Þá vilja lögregluyfirvöld meina að sú tala muni aðeins aukast þar sem refsiafslættir fyrir 18–20 ára voru afnumdir í janúar á þessu ári.
Það samfélagsvandamál sem þessar skotárásir eru orðnar hefur tekið stóran sess í allri pólitískri umræðu, sérstaklega núna þegar líður að kosningum. Mikil óánægja hefur verið með það sem virðist vera aðgerðaleysi stjórnvalda að taka á þessu vandamáli og bar þingið til að mynda fram vantrauststillögu á hendur dómstóla- og innanríkisráðherra Morgan Johannsson á þessu ári sem naumlega var felld.
Þá hefur Ulf Kristersson talað um að Hægriflokkurinn vilji koma á þeirri stefnubreytingu að hægt verði að útvísa erlendum ríkisborgurum sem til Svíþjóðar koma áður en þeir brjóti af sér ef þeir hafa einhverja tengingu við glæpagengi. Þá vilja Svíþjóðardemókratar gera þá stefnubreytingu að hægt verði að senda úr landi heilar fjölskyldur ef einn meðlimur þeirra gerist sekur um glæpsamlegt athæfi, þá sérstaklega börn. „Ef börnin fá að vera úti að kasta steinum í lögreglu og kveikja í lögreglubílum verða afleiðingar,“ sagði Jimmie Åkesson í viðtali í vor. Þar vísar hann í Páskaóreiðirnar svokölluðu sem urðu vegna háttsemi hins dansk-sænska og íslamfælna Rasmus Paludans sem þekktur er fyrir að brenna Kóraninn á hinum ýmsu stöðum. Óeirðir urðu víða um Svíþjóð og varð viðbúnaður lögreglu talsverður.
Fulltrúar Svíþjóðardemókrata hafa einnig lýst yfir stuðningi sínum við að lögregla beiti því sem á ensku er kallað „racial profiling“ þar sem notaðir eru rasískir greiningarstaðlar til að taka á glæpsamlegu athæfi, sama hvort einstaklingar séu sekir um slíkt eða ekki.
En í dag er staðan sú að allir sænskir stjórnmálaflokkar fyrir utan einn, Vinstriflokkinn, vilja afnema alla refsiafslætti fyrir 15–17 ára einstaklinga, sem hingað til geta í mesta lagi verið dæmdir til fjögurra ára vistar á sérstökum barna- og ungmennadeildum. Þá hefur Magdalena Andersson, forsætisráðherra og formaður Sósíaldemókrata, nýlega heitið því að frá og með nú verði hægt að vísa fleiri glæpamönnum, sem einnig eru innflytjendur, úr landi.
Samfélagslegur aðskilnaður og „viðkvæm svæði“
Mikael Damberg fjármálaráðherra hefur gefið það út að það sé atriði númer eitt innan raða Sósíaldemókrata að taka á þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem enginn hemill virðist vera á og vilji enn fremur einnig taka á þeim „aðskilnaði“ sem ríki á milli svæða. Þá telur hann að lykillinn í því að forða ungmennum frá glæpagengjum sá að íbúar svokallaðra „viðkvæmra svæða“ (s. utsatta område) finni fyrir nærveru yfirvalda og að þar birtist lög og regla í formi aukins sýnileika lögreglu.
Nú í byrjun ágústs gaf Anders Ygeman, ráðherra fólksflutninga og samþættingar í ríkisstjórn Sósíaldemókrata það út að hann vilji endurskilgreina þessi „viðkvæmu svæði“ og bæta við mælieiningum sem miðast við hversu margir séu ekki með Norðurlandabakgrunn. Honum finnist það jafnframt ekki í lagi að svoleiðis hverfi séu almennt til í Svíþjóð. Ygeman hefur þó undirstrikað að atvinnuleysi og menntun skipti enn mestu máli í þessum skilgreiningum. En að þessi orðræða komi frá ráðherra Sósíaldemókrata sýnir enn og aftur hversu mikið í Svíþjóð hefur breyst en ummælin hafa valdið usla innan bæði Vinstriflokksins og Græningja.
Einnig minnir þessi nýja skilgreining ráðherrans á útlistun danskra yfirvalda á þeim hverfum sem meirihluti fólks er ekki með vestrænan bakgrunn en nú stefna stjórnvöld á það að rífa hreinlega þessi hverfri fyrir árið 2030. Þá hefur Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, rætt um að þessa leið vilji flokkur hans einnig fara í málaflokknum.
Kristnir demókratar bæta við sig
Kristnir demókratar hafa einnig verið að gera sig gildandi í því að gera strangari refsingar að helsta baráttumáli. Formaður Kristinna demókrata Ebba Busch, hefur einnig orðið æ meira áberandi á undanförnum árum. Núna síðast í vor vakti hún umtal eftir ummæli sín eftir Páskaóreiðirnar. Þá velti hún fyrir sér hvers vegna aðeins lögreglumenn hefðu orðið fyrir áverkum en ekki sjálfir óreiðaseggirnir. Af hverju sænska þjóðin fengi ekki fréttir af „hundrað særðum íslamistum, hundrað særðum glæpamönnum og hundrað særðum óreiðaseggjum.“
Ummælin fóru fyrir brjóstið á mörgum en lögregluofbeldi er almennt sjaldséð í Svíþjóð, þó svo að auðvitað sé til eins og annars staðar. En fylgi flokks Ebbu Busch hefur aðeins aukist síðan þá en ummælin höfðu þó annars konar áhrif á frama hennar. Boð hennar á hina vinsælu Elle-tískuhátíð sem haldin er ár hvert var nefnilega dregið til baka og vakti þessi ákvörðun nokkra athygli. Eftir þessa atburðarás hefur hún síðan imprað á því að „...fátækt sé ekki afsökun fyrir því að kasta steinum í lögreglu.“
Ebba Busch og Ulf Kristersson virðast ná vel saman og koma stundum fram saman í kosningabaráttunni. Eins og staðan er núna, ef marka má nýjustu ummæli þeirra beggja, er augljóst að sameiginlegir pólitískir snertifletir þeirra annars vegar og Jimmie Åkesson hins vegar eru að verða fleiri og fleiri. Í síðustu skoðanakönnun mældust Kristnir demókratar með 6,3% fylgi. Einnig virðist Frjálslyndi flokkurinn, sem lengi fylgdi Hægriflokknum innan blokkarpólitíkurinnar, ekki ætla að útiloka ríkísstjórnarsamstarf með Svíþjóðardemókrötum.
Á Frjálslyndi flokkurinn sér viðreisnarvon?
Frjálslyndi flokkurinn hefur undanfarið ár barist í bökkum og átt erfitt með að anda undir þingþröskuldinum en samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar voru núna í vor virtist hann ætla þurrkast út af þingi. Töldu margir að erindi flokksins hefði beðið hnekki, sérstaklega eftir samstarfsvilja hans við Svíþjóðardemókrata – sem margir myndu eflaust halda að liggi nokkuð langt frá þeim þegar kemur að pólitískri hugmyndafræði. Þó hefur flokkurinn undir forystu Nyamko Sabuni síðan þá gefið það út að hann vilji ekki útiloka samræður við Svíþjóðardemókrata og vilji fyrst og fremst ríkisstjórn leidda af Ulf Kristersson. Svo virðist sem fleiri og fleiri flokkar viðurkenni að einhvers konar samstarf með Svíþjóðardemókrötum sé óumflýjanlegt.
Mismunandi lausnir
Hægriflokkurinn, Kristnir demókratar, Frjálslyndi flokkurinn og Svíþjóðardemókratar vilja allir lækka almennar bætur til að samþætta innflytjendur inn í sænskt samfélag og koma í veg fyrir hliðstæð samfélög og aðskilnað.
Þá hafa Svíþjóðardemókratar sérstaklega imprað á því að fólk sem sé nýkomið til Svíþjóðar eigi ekki að geta fengið atvinnuleysisbætur frá degi eitt. Á fyrri áratugum hefur hið sænska velferðarríki einmitt verið sérstaklega gjafmilt og hlýlegt við fólk sem hyggjast setjast þar að, sama úr hvaða aðstæðum það kemur. Þá má segja að Svíþjóð hafi lengi vel verið eins konar „mannúðlegt stórveldi“ en orðræðan á síðustu árum sem og stórir straumar flóttamanna hafa leitt til strangari landamæragæslu og ákveðinnar endurhugsunar á þessari stefnu.
Á hinum enda ássins eru síðan Sósíaldemókratar, Vinstriflokkurinn og Græningjar sem telja að lækkun á bótum geri ástandið aðeins verra og leiði till aukinnar fátæktar meðal viðkvæmustu hópa samfélagsins. Þá virðist Miðflokkurinn, nafninu samkvæmt, vera þarna einhvers staðar á milli.