Reykjanesbær er fimmta stærsta sveitafélag landsins. Þar búa um 14.500 manns. Og Reykjanesbær er það sveitarfélag sem glímir við mestan vanda allra á Íslandi í dag.
Stærsta vandamálið eru skuldir. Reykjanesbær er skuldsettasta sveitarfélag landsins. Skuldir þess, rúmir 40 milljarðar króna, eru um 250 prósent af reglulegum tekjum. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinleiðis í andstöðu við lög.
Atvinnuleysi á svæðinu hefur verið, og er, mun hærra en annars staðar á landinu. Í mars 2011 var það 14,5 prósent á meðan að það var 8,6 prósent á landinu öllu. Í dag er það 5,8 prósent á Suðurnesjum á meðan að það er 3,6 prósent að meðaltali á landinu öllu. Minna atvinnuleysi er ekki að öllu leyti fjölgun starfa að þakka. Í tveimur skrefum hefur atvinnuleysisbótatímabilið verið lækkað úr fjórum árum í tvö og hálft ár frá árslokum 2012.
Fjárhagsaðstoð Reykjanesbæjar við íbúa sína sem þurfa á slíkri að halda fimmfaldaðist frá hruni og fram til loka ársins 2013.
Því hafa margir langtímaatvinnulausir, en þeir eru hlutfallslega flestir í Reykjanesbæ á landinu, farið af atvinnuleysisbótum og njóta nú fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. Fjárhagsaðstoð Reykjanesbæjar við íbúa sína sem þurfa á slíkri að halda fimmfaldaðist frá hruni og fram til loka ársins 2013. Á því ári var hún um 270 milljónir króna. Búist er við því að stytting atvinnuleysisbótatímabilsins um síðustu áramót niður í tvö og hálft ár muni auka kostnað Reykjanesbæjar vegna fjárhagsaðstoðar um 70 milljónir króna á þessu ári, samkvæmt því sem kom fram í máli Oddnýjar Harðadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í gær.
Af þessu ástandi leiðir að fleiri börn búa við fátækt í Reykjanesbæ en annarsstaðar á landinu.
Vítaverð fjármálastjórn
Þeir sem héldu á stjórnartaumunum í Reykjanesbæ á árunum 2002 til 2014, Sjálfstæðisflokkurinn undir stjórn Árna Sigfússonar, þurftu að takast á við stærsta áfall sem bærinn hefur nokkru sinni þurft að takast á við, brotthvarf Bandaríkjahers frá Miðnesheiði. Með hernum hvarf langstærsti vinnustaður svæðisins. Til að bregðast við þessu var ákveðið að ráðast í fjárfestingar í atvinnuuppbyggingu, meðal annars með því að fjármagna iðnaðarhöfn í Helguvík og með því að fjölga íbúum hratt með ódýrum lóðaútdeilingum.
Árni Sigfússon var bæjarstjóri í Reykjanesbæ á árunum 2002 til 2014.
Íbúum í Reykjanesbæ fjölgaði enda um 30 prósent á árunum 2005 til 2009. Það var líka ákveðið að selja allar verðmætustu eignir sveitarfélagsins, þar á meðal eignarhlutinn í HS Orku. Á þessu tímabili, 2003 til 2014, skilaði var A-hluti Reykjanesbæjar rekinn í tapi öll árin utan eins, það var árið 2010.
Fjárfestingarnar skiluðu hins vegar mun minna til baka er vonur stóðu til um. Skuldir vegna hafnaruppbyggingarinnar eru yfir 7,5 milljarðar króna og aukast ár frá ári. Margir þeirra sem fengu lóðir í sveitarfélaginu stóðu ekki undir þeirri skuldbindingu og Íbúðalánasjóður tók yfir húsin þeirra. Alls eru rúmlega 40 prósent allra eigna sem Íbúðalánasjóður heldur á á Suðurnesjum. Samtals eru þetta 780 íbúðir.
Vítahringur skapast
Þá eru 17 prósent íbúa 18 ára og eldri á svæðinu í alvarlegum vanskilum, en það er hæsta hlutfall vanskila á landinu og næst flest hegningarlagabrot miðað við höfðatölu voru tilkynnt til lögreglu á Suðurnesjum á árinu 2013. Einungis höfuðborgarsvæðið var með fleiri brot.
Það er því gríðarlegt framboð af húsnæði á Suðurnesjum, sérstaklega þegar þær þúsundir íbúða sem herinn skildi eftir á Miðnesheiði eru taldar með.
Sökum allra þessarra þátta er leiguverð á Suðurnesjum allt að helmingi ódýrara en í dýrustu hverfum Reykjavíkur. Fyrir þá sem ætla að kaupa er fermetraverðið í Reykjanesbæ (um 165 þúsund krónur) mun lægra en það er í höfuðborginni (315 þúsund krónur) þótt það taki einungis um 40 mínútur að keyra á milli.
Hið lága húsnæðisverð hefur leitt til þess að margt fólk sem þarf að sækja í ódýrt leiguhúsnæði, einfaldlega vegna þess að það hefur ekki efni á öðru, hefur flutt sig til Reykjanesbæjar. Þegar það fólk hefur lokið bótarétti sínum fær það síðan fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ og eykur þar af leiðandi kostnað sveitarfélagsins vegna þessa. Börn þeirra sem eru á fjárhagslegri framfærslu eru líklegri en önnur til að búa við fátækt og þannig ýkist það vandamál. Ákveðin vítahringur hefur skapast.
Þörf á sársaukafullum aðgerðum
Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar tóku ný öfl við stjórnartaumunum í Reykjanesbæ og fengu KPMG til að gera óháða úttekt á fjármálum sveitarfélagsins. Á grunni þeirrar úttektar var ný aðgerðaráætlun til átta ára kynnt til sögunnar. Hún fékk nafnið „Sóknin“ og hafði það að markmiði að ná skuldahlutfallinu niður fyrir 150 prósent fyrir árið 2021. Í grófum dráttum er um fjórþætta áætlun að ræða.
Í fyrsta lagi þarf að auka framlegð að lágmarki um 900 milljónir króna með aðgerðum í rekstri. Það þýðir auknar tekjur, til dæmis í gegnum þjónustugjöld og hækkun á útsvari, og lækkun rekstrarkostnaðar, til dæmis með uppsögnum á starfsfólki.
Skuldir vegna byggingar Helguvíkurhafnar eru yfir 7,5 milljarðar króna. Tekjur standa ekki undir fjármagnskostnaði.
Í öðru lagi á að stöðva fjárflæði frá A-hluta sveitarsjóðs yfir til starfsemi sem tilheyrir B-hluta. Með öðrum orðum á að hætta að nota tekjur sveitafélagsins, lántökur eða eignasölur til að borga fyrir þann hluta sem tilheyrir B-hluta sveitasjóðs. Í þessu felst meðal annars að HS Veitur verði látnar greiða hámarksarð, um 900 milljónir króna á ári.
Í þriðja lagi á að takmarka fjárfestingar A-hluta sveitarfélagsins við 200 milljónir króna á ári þar til fjárhagsmarkmiðum verður náð.
Í fjórða lagi á að mæta aukinni greiðslurbyrði næstu ára með endurfjármögnun skulda og skuldbinda og skoða möguleika á frekari sölu eigna eða sameiningu B-hluta stofnana. Þær B-hluta stofnanir sem eru mest byrði á Reykjanesbæ eru Reykjaneshöfn og Fasteignir Reykjanesbæjar. Hvorug þeirra getur rekið sig án peninga frá A-hluta sveitasjóðsins eins og staðan er í dag.
Íbúarnir þolendur
Síðan var hafist handa við að taka til. Og íbúar Reykjanesbæjar hafa heldur betur fundið fyrir því.
Um síðustu áramót var til að mynda fengin heimild til að leggja aukaála ofan á hámarksútsvar. Á mannamáli þýðir það að íbúar Reykjanesbæjar, með öll sín íþyngjandi vandamál, þurfa líka að greiða hærri skatta til sveitarfélagsins en nokkurt annað sveitarfélag á landinu vegna afleitrar fjárhagsstöðu. Þeir borga 15,05 prósent á meðan að hámarksútsvar samkvæmt lögum er 14,52 prósent.
Til viðbótar hefur fasteignaskattur verið hækkaður, fastri yfirvinnu bæjarstarfsmanna sagt upp, föstum ökutækjastyrkjum þeirra sagt upp, fagsviðum fækkað, öllum framkvæmdastjórum sveitarfélagsins sagt upp. Í hálkunni á milli jóla og nýárs var íbúum boðið að koma og sækja sand til að dreifa á stéttina hjá sér. Það voru ekki til bæjarstarfsmenn til að sinna því viðviki.
Afneitun og fólk á villigötum
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, skrifaði grein á vef Víkurfrétta í fyrradag þar sem hann lýsir þessum veruleika sem við er að etja og hvernig íbúarnir eru hægt og bítandi að átta sig á honum.
Þar segir meðal annars: „Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar er graf alvarleg. Sú staðreynd hefur legið fyrir um nokkurt skeið. Samt eru ótrúlega margir sem halda ennþá að þetta sé bara pólitískur skollaleikur með það að markmiði að láta stöðuna líta verr út en hún raunverulega er. Það er fjarri lagi.[...]Samt hitti ég fólk af og til sem heldur hinu gagnstæða fram og trúir því að þetta sé allt í plati. „Var nú nauðsynlegt að hækka útsvarið? Var nauðsynlegt að hækka fasteignaskattinn?
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Var nauðsynlegt að draga saman og hagræða í rekstri? Var nú nauðsynlegt að segja upp fastri yfirvinnu? Var nú nauðsynlegt að segja upp föstum aksturstyrkjum? Var nauðsynlegt að fækka fagsviðum? Var nú nauðsynlegt að segja upp öllum framkvæmdastjórunum? Var nú nauðsynlegt að gera samning við innanríkisráðuneytið? Var nú nauðsynlegt að …….“ Öllum spurningum í þessum dúr er bara hægt að svara á einn veg; „Já, það var bráðnauðsynlegt að taka þessar ákvarðanir þótt erfiðar væru.“
Kjartan segir ennfremur að komið sé að ögurstundu og það hafi einfaldlega ekki verið hægt að bíða lengur og sjá hvort ástandið myndi lagast. Það þurfi að grípa til aðgerða og það hafi veirð gert. Skuldir Reykjanesbæjar séu allt of háar og að það þurfi að greiða þær niður.„Það gerum við ekki nema með því að eiga rekstrarafgang á hverju ári sem nota má til þess að greiða niður skuldir og því þurfum við að halda gríðarlega vel á spilunum á næstu 8 árum að minnsta kosti. Allir sem halda öðru fram eru í afneitun og á villigötum.“
Þingheimur vaknar
Alvarleg staða Reykjanesbæjar virðist líka vera að ýta við alþingismönnum þjóðarinnar. Í gær fór fram sérstök umræða um stöðuna á Alþingi, að frumkvæði Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Oddný er af Suðurnesjunum.
Oddný fór yfir vægast sagt afleita stöðu Reykjanesbæjar í ítarlegu máli og beindi þeirri fyrirspurn til Ólafar Nordal, ráðherra sveitarstjórnarmála, hver ábyrgð eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, sem heimilaði Reykjanesbæ að ráðast í stórtækar fjárfestingar og hina hamlausu skuldasöfnun, væri. Hefði hún ekki átt að grípa inní og gera skýrar kröfur á rekstri sveitafélags sem var rekið með jafn miklum halla í jafn langan tíma og Reykjanesbær?
Í gær fór fram sérstök umræða um stöðuna á Alþingi, að frumkvæði Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.
Fjölmargir þingmenn, þvert á flokka, tóku þátt í umræðunum og tóku undir með Oddnýju um að íbúar sveitafélagsins væru þolendur í málinu. Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að meirihluti íbúa á svæðinu væri „í sjokki yfir þessu“, og átti þar við fjárhagsstöðu bæjarins.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefði samþykkt „draumkennd fjárfestingaráform“ fyrri stjórnenda sveitarfélagsins og spurði: „Af hverju var ekki gripið í taumanna fyrr, vegna þess að kostnaðurinn fyrir íbúa í Reykjanesbæ er hræðilegur.“
Ólöf Nordal tók undir að vandinn væri meðal annars tilkominn vegna fjárfestinga sem Reykjanesbær hefði ráðist í með þeim væntingum að þær myndu skapa mikil tækifæri. Þau tækifæri hafi hins vegar ekki skilað sér og því hafi fjárfestingarnar orðið þungur baggi á bænum. Hún benti hins vegar réttilega á að sveitafélög beri hins vegar sjálf ábyrgð á sínum fjármálum. Og það þyrfti að vera verkefni mun fleiri ráðuneyta en hennar að grípa til aðgerða vegna stöðunnar á Suðurnesjum.
Lífsmark en margt eftir að gera
Þess ber að geta að það hefur átt sér stað atvinnuuppbygging í Reykjanesbær á allra síðustu misserum. Fjögur gagnaver eru komin í gagnið í Reykjanesbæ, tvö kísilver eru í uppbyggingu í Helguvík, tvö líftæknifyrirtæki eru í pípunum og alþjóðaflugvöllurinn á Miðnesheiði skilar sínu, en fjölmörg flugþjónustufyrirtæki eru starfrækt í sveitarfélaginu.
Stóra lausnin á atvinnumálum Reykjanesbæjar, sem fyrri ríkisstjórnir tóku þátt í að búa til óraunhæfar væntingar um að yrði að veruleika, álver í Helguvík, mun þó líkast til aldrei rísa.
Því er ljóst að þótt byrjað sé að taka á vanda Reykjanesbæjar, er langt í land hjá sveitarfélaginu við að rétta sinn hlut.