Tveir menn, annar pólskur og hinn þýskur, hafa fundið lest sem nasistar földu í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Lestin, sem er full af gulli og öðrum verðmætum, fannst djúpt inn í fjöllum nálægt borginni Walbrzych í Póllandi. Þetta er ekki skáldsaga eftir Alistair MacLean heldur alvöru frétt en enn sem komið er er lítið vitað um þennan fund eða hvort það er einhver fundur yfirhöfuð.
Stálu miklu
Það er vitað að nasistarnir stálu miklu fé til að hjálpa til við að halda stríðsrekstrinum gangandi. Líklega var stærstum hluta þýfisins stolið beint úr ríkiskössum þeirra landa sem þeir hernámu. Hundruðum milljóna dollara var stolið af Frökkum, Hollendingum, Belgum og fleirum. En einnig var töluverðum fjármunum stolið af einstaklingum. Það er vel þekkt hvernig þeir plokkuðu öll verðmæti af fórnarlömbum helfararinnar. Minna hefur verið fjallað um þjófnað þeirra á almennum borgurum á hernumdum svæðum. Þeir stálu ekki bara reiðufé heldur flest öllu sem þeir gátu komið í verð eins og gulli og gimsteinum, málverkum og öðrum listmunum, úrum, skartgripum, hlutabréfum, húsum og jafnvel lóðum. Það verður aldrei vitað nákvæmlega hversu miklu nasistarnir stálu en fjárhæðirnar eru gífurlegar og enn þann dag í dag koma upp mál þar sem deilt er um nasistagull.
Sagan um gulllestina hefur verið vel þekkt í Póllandi frá stríðslokum. Það eru til margar kenningar um uppruna lestarinnar og sú lífsseigasta er sú að þegar Sovétmenn sóttu hratt að Þýskalandi í lok stríðsins hafi borgaryfirvöld í Breslau (nú Wroclaw) stolið öllu steini léttara af íbúum borgarinnar og falið það í lestinni. Lestinni hafi síðan verið ekið út úr borginni og ekki sést meir. Einnig eru til sögur um að fjöllin og hæðirnar í Walbrzych séu full af göngum sem nasistarnir hafi látið grafa meðal annars til þess að fela þýfi. Á þeim tíma var svæðið þýskt og hét Waldenburg en Pólverjar fengu það til eignar eftir stríðið í skaðabætur fyrir svæðið sem þeir misstu til Sovétmanna í austri. Þessar sögur hafa gert það að verkum að margir hafa freistað gæfunnar í leit að lestinni en enginn fundið neitt………fyrr en nú?
Mikil leynd
Tvímenningarnir neita að gefa upp staðsetninguna á lestinni nema það sé tryggt að þeir fái sinn skerf af verðmætunum. Þeir krefjast 10% af verðmætunum en yfirvöld í Póllandi virðast ekki ætla að taka því boði. Opinbera stefnan er sú að allt nasistagull sem kynni að vera falið í landinu sé eign ríkisins. Hafa ber einnig í huga að hellarnir og göngin í Walbrzych eru ákaflega varasöm og gas getur safnast þar fyrir. Ef lestin er til og mennirnir hafi í alvöru fundið hana getur það einnig verið erfitt og hættulegt að ná henni út úr göngunum. Það verk gæti tekið mánuði án þess að hafa neina vissu fyrir því hvað sé í henni. Engu að síður eru borgaryfirvöld í Walbryzch komin í viðbragðsstöðu og gætu hafið eigin leit að lestinni. Opinber starfsmaður tilkynnti að lögfræðingar, herinn, lögreglan og slökkviliðið væru öll komin í málið.
Polish official says ground-penetrating radar has located object believed to be missing Nazi gold train: http://t.co/fh8vGN6rNv
Auglýsing
— The Associated Press (@AP) August 28, 2015
Fróðlegt að sjá hvað í henni er
Ef lestin er til og hún yrði grafin upp á komandi mánuðum verður fróðlegt að sjá hvað í henni er. Sögunum ber nefnilega ekki öllum saman um farminn. Sumir segja að lestin sé full af gulli og gimsteinum en aðrir að hún sé hlaðin vopnum. Mögulega er þessi umrædda lest tóm. Ef verðmæti finnast í henni þá hefjast væntanlega deilur um uppruna þeirra og hver eigi tilkall til þeirra. Pólska ríkið? Walbryzch borg? Wroclaw borg? Samtök Gyðinga? Eða einhverjir aðrir? Hin fræga ungverska gulllest, sem innihélt þýfi sem stolið var af ungverskum gyðingum í stríðinu, olli milliríkjadeilum. Verðmæti þeirrar lestar voru sett á uppboð í New York árið 1948 og fjármagnið notað í uppbyggingu eftirstríðsáranna gegn vilja Ungverja og samtaka Gyðinga. Árið 2005 fóru samtök Gyðinga í mál við bandaríska ríkið og enn í dag er verið að greiða bætur vegna þess. Hvað varðar hina umræddu pólsku lest, þá er nokkuð ljóst að tvímenningarnir munu ekki fá neina prósentu af farminum, hvað þá 10%. Þeir fá ekki einu sinni nöfn sín í blöðin.