Gyðingar í Evrópu eru óttaslegnir vegna ódæðanna í París í síðasta mánuði og Kaupmannahöfn um síðustu helgi. Þeir segja andúð á gyðingum í mörgum Evrópulöndum fara vaxandi og óttast hið versta.
Gyðingar í mörgum Evrópulöndum segjast um langt skeið hafa fundið fyrir vaxandi andúð í sinn garð. Þessi andúð birtist með ýmsu móti: veist sé að þeim á götum úti og hróp séu gerð að þeim, hnýtt sé í þá í verslunum, þeir fái í auknum mæli alls kyns hótanir á netinu, harðari tónn en áður sé í greinum sem birtast í fjölmiðlum og í umræðuþáttum í útvarpi og sjónvarpi.
Þegar leitað er skýringa svara margir því til að framkoma Ísraela gagnvart Palestínumönnum sé ein helsta orsökin. Þótt margir gyðingar vilji kannski ekki beinlínis taka undir þessar skýringar segja þeir að hótunum í sinn garð hafi fjölgað mjög eftir átökin á Gasa síðastliðið sumar. Þar gengu Ísraelar mjög hart fram gegn Palestínumönnum og þegar átökunum lauk, eftir 50 daga, lágu rúmlega 2100 Palestínumenn í valnum (72 Ísraelar féllu) og bærinn Beit Hanoun nyrst á Gasa strönd var nánast rústir einar eftir árásir Ísraela.
Þótt gyðingar í Evrópu hafi vitaskuld ekki komið nærri þessum átökum og beri þar enga ábyrgð bitnar reiði fólks í mörgum löndum á þeim. Þessi andúð, eða hatur, hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og kostað mannslíf; í mars 2012 voru þrjú börn og kennari myrt við skóla gyðinga í Toulouse í Frakklandi, í maí í fyrra létust þrír þegar franskur maður hóf skyndilega skothríð á gyðingasafninu í Brussel og einn lést síðar af sárum sínum.
Árásin á matvöruverslunina í París er flestum í fersku minni eins og árásin á bænahús gyðinga hér í Kaupmannahöfn um síðustu helgi. Þótt sami maður og réðst á bænahúsið hafi verið að verki við Krudttønden á Austurbrú, er ekki beint hægt að tengja það tilræði við gyðingahatur, sama gildir um ódæðisverkin á ritstjórnarskrifstofum Charlie Hebdo. Þar var það tjáningarfrelsið sem vegið var að.
Frá samstöðufundi í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París.
Alls staðar sama sagan
Fjölmennustu samtök gyðinga í Evrópu, European Jewish Association, segja sömu söguna blasa við hvert sem landið sé. Gyðingar séu alls staðar skotspónn og þeir óttist um líf sitt. Samtökin hafa lengi barist fyrir því að gyðingar njóti aukinnar verndar og gæslu, til dæmis við samkomu- og bænahús, skóla og aðra staði þar sem gyðingar koma saman.
Talsmenn samtakanna segja yfirvöld í flestum löndum hafi lítið gert með viðvaranir en eftir atburði síðustu vikna muni það vonandi breytast. „Við erum Danir þótt við séum jafnframt gyðingar,“ sagði Dan Rosenberg Asmussen, formaður samtaka gyðinga í Danmörku í viðtali, „við eigum sama rétt og aðrir borgarar á því að öryggis okkar sé gætt.“ Lögreglan segir að öryggisgæsla við samkomustaði og bænahús gyðinga hafi verið aukin eftir hryðjuverkin í París en gyðingar segjast ekki hafa séð þess nein merki.
„Þið eigið að koma heim“
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, lét þessi orð falla eftir atburði síðustu helgar hér í höfuðborg Danmerkur. Danskur gyðingur sagði að ef þessi orð hefðu verið látin falla við aðrar aðstæður hefðu þau „nánast verið eins og misheppnaður brandari.“ „Við erum Danir og eigum heima í Danmörku.“
Orð Netanyahu ber að skoða í ljósi þess að hann stendur í kosningabaráttu og vil styrkja ímynd sína sem hinn ábyrgi landsfaðir. En þetta „heima“ hvað er það og hvernig er það? Svarið við þessari spurningu fer eftir því hver er spurður. Á síðasta ári fluttu til dæmis helmingi fleiri frá Ísrael til Danmerkur en frá Danmörku til Ísraels. Þá vaknar spurningin hvernig standi á því?
Svarið er oftast á þá leið að lífið í Ísrael sé ekki neinn dans á rósum. Lífskjörin allt önnur og lélegri en víðast hvar í Evrópu, ekki síst samanborið við Norðurlöndin. Einn sem við var rætt í dönskum fjölmiðli sagði að hann gæti ekki þolað framkomu Ísraela gagnvart Palestínumönnum á sama tíma og Ísraelar kvörtuðu undan framkomu og viðmóti annarra gagnvart þeim. „Maður veit aldrei hvað mætir manni á næsta götuhorni,“ sagði einn sem flutti frá Ísrael til Danmerkur fyrir skömmu.
Við erum sjálfir mestu rasistarnir
„Ísraelar segja margar þjóðir rasista, sjálfir erum við mestu rasistarnir,“ sagði annar gyðingur í samtali við danskan netmiðil
„Ég þoli ekki þetta tal um að allir séu á móti okkur Ísraelsmönnum,“ sagði annar. „Við erum léleg fyrirmynd, troðum á Palestínumönnum og það veit allur heimurinn. Árlega flytja mun fleiri frá Ísrael til Danmerkur en frá Danmörku til Ísraels og sömu sögu er að segja um mörg önnur lönd.“
Formaður samtaka gyðinga í Danmörku sagði það umhugsunarefni og áhyggjuefni að æ fleiri þjóðir snúist nú gegn Ísrael á alþjóðavettvangi og spurði: „Er það ekki Ísraelum sjálfum að kenna að svo margir hata þá og fyrirlíta, hafa þeir haldið rétt á spilunum?“