Stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn högnuðust samtals um 26,7 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins í ár. Það er rúmum tíu milljörðum króna meira en á sama tímabili í fyrra. Rúmur helmingur þess hagnaðar varð hjá Arion banka. Þetta kemur fram í uppgjörum bankanna þriggja fyrir fyrsta ársfjórðung sem birt voru í þessari viku.
Alls hafa bankarnir þrír því hagnast um 397,3 milljarða króna frá því að þeir voru búnir til úr innstæðum Íslendinga og eignum föllnu bankanna Kaupþings, Glitnis og Landsbanka Íslands haustið 2008.
Sem fyrr er uppistaðan í hagnaði bankanna tekjur af öðrum rekstri en grunnrekstri. Þar skiptir virðisbreyting á hlutabréfaeign mestu máli.
Mikil hækkun á virði hlutabréfa
Arion banki hagnaðist um 14,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2015, eða um 165 milljónir króna á dag að meðaltali. Hagnaður bankans á sama tíma í fyrra var 2,9 milljarðar króna. Hann fimmfaldaðist því á milli ára.
Hagnaðurinn er að langmestu leyti tilkominn vegna einskiptisatburða á borð við skráningu og sölu bankans á hlutum í fasteignafélaginu Reitum og alþjóðalega drykkjaframleiðandanum Refresco Gerber. Alls nam hagnaður vegna þessa liðs 7,5 milljörðum króna, en hann er ekki sundurliður niður á einstakar eignir. Ljóst má þó vera að skráningu Refresco í Hollandi skiptir þarna mestu máli. Til samanburðar má nefna að sami liður, hagnaður af fjárfestingum, skilaði Arion banka 334 milljónum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2014.
Tekjuliðurinn hefur því meira en tuttugufaldast á milli ára. Hagnaður af reglulegri starfsemi á tímabilinu nam fjórum milljörðum króna samanborið við 1,7 milljarða á sama tímabili 2014 og heildareignir námu 1.004,3 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014. Eiginfjárhlutfall Arion banka í lok mars var 23,9 prósent. Vaxta- og þóknanatekjur Arion banka voru 9,6 milljarða króna á tímabilinu og eiginfjárhlutfall bankans er 23,9 prósent.
Hefur hagnast mest allra frá hruni
Hagnaður Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi 2015 var 6,4 milljarðar króna eftir skatta. Það er 2,1 milljarði krónum meiri hagnaður en á sama tímabili í fyrra. Íslenska ríkið á Landsbankann að mestu, en lítil hlutur er í eigu starfsmanna hans. Aðrar rekstrartekjur bankans en af grunnrekstri á ársfjórðungnum voru um fimm milljarða króna. Þær voru að miklum hluta til komnar vegna aukins hagnaðar af hlutabréfum. Landsbankinn á hlut í nokkuð mörgum skráðum félögum. Þau eru Reginn, Reitir, Marel, N1, Vodafone og Nýherji.
Vaxta- og þjónustutekjur bankans voru um 8,9 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið er 26,7 prósent. Landsbankinn er áfram með mesta markaðshlutdeild í nýjum íbúðalánum. Á fyrsta fjórðungi jukust þau verulega og námu ný lán 12,8 milljörðum króna, en voru 8,5 milljarðar á sama tíma á síðasta ári. Landsbankinn bætti líka langmestu við sig af íbúðalánum allra á síðasta ári. Alls jukust íbúðalán bankans til einstaklinga þá um 39 milljarða króna.
Sá eini sem græddi minna en í fyrra
Íslandsbanki hagnaðist um 5,4 milljarða króna á ársfjórðungnum. Hann er eini bankinn sem skilar minni hagnaði en hann gerði á sama tíma í fyrra, þegar bankinn græddi 8,4 milljarða króna. Ástæðan er einfaldlega sú að tekjur af einskiptisliðum á borð við hagnað af aflagðri starfsemi var mun meiri þá en nú.
Alls námu rekstrartekjur bankans ellefu milljörðum króna og munaði þar mest um vaxta- og þóknanatekjur sem samtals námu um níu milljörðum króna. Það eru um 83 prósent af rekstrartekjum hans. Fjármunatekjur eru þó eftir sem áður stór tekjuliður hjá bankanum, en þær voru 1,7 milljarður króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Eiginfjárhlutfall ‚Islandsbanka er 28,4 prósent.
Í uppgjörstilkynningu bankans kemur fram að mikil aukning hafi orðið í nýjum húsnæðislánum hjá honum. Miðað við sama tímabil í fyrra nemur aukningin tæpum 60 prósentum.