Hagnaður sjávarútvegs jókst um 36 milljarða milli ára en opinber gjöld jukust um 4,9 milljarða
Frá 2009 og út síðasta ár hefur hagnaður sjávarútvegarins fyrir greiðslu opinberra gjalda verið 752 milljarðar króna. Af þessum hagnaði hefur tæplega 71 prósent setið eftir hjá útgerðum landsins en rétt um 29 prósent farið í opinber gjöld. Á sama tíma og hagnaður geierans jókst um 124 prósent milli ára jukust opinberu gjöldin um 28 prósent.
Frá árinu 2009 hefur sjávarútvegsfyrirtæki landsins hagnast um 533 milljarða króna. Mestur var hagnaðurinn í krónum talið á tímabilinu í fyrra, árið 2021, þegar geirinn hagnaðist um 65 milljarða króna. Hann jókst um 124 prósent á milli ára og var 36 milljörðum krónum meiri í fyrra en árið 2020.
Á sama tímabili, frá 2009 og út síðasta ár, hefur sjávarútvegurinn greitt 219,3 milljarða króna í opinber gjöld, þar af 85,9 milljarða króna í veiðigjöld. Auk þess er um að ræða tekjuskatt og tryggingagjald. Sú tala dregst frá áður en hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja er reiknaður auk þess sem búið er að taka tillit til fjárfestingar í geiranum, sem býr til eign.
Opinberu gjöldin voru 22,3 milljarðar króna í fyrra, sem var 28 prósent meira en árið 2020. Á sama tíma og hagnaðurinn sem sat eftir hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum jókst um 36 milljarða króna milli ára jukust opinberu gjöldin um 4,9 milljarða króna.
Hagnaður geirans áður en hann greiddi veiðigjöld, tekjuskatt og tryggingagjald í ríkissjóð var samtals 752,3 milljarðar króna frá 2009 og út síðasta ár. Af þessum hagnaði sat tæplega 71 prósent eftir hjá útgerðum landsins en rétt um 29 prósent fór í opinber gjöld.
Þetta má lesa úr gagnagrunni Deloitte um rekstru sjávarútvegsfyrirtækja sem inniheldur 94 prósent af rekstrarupplýsingum ársins 2021. Fjárhæðirnar í grunninum hafa verið uppreiknaðar til að endurspegla 100 prósent geirans. Í kynningu Jónasar Gests Jónassonar, endurskoðanda hjá Deloitte, á niðurstöðum Sjávarútvegsgagnagrunnsins vegna síðasta árs kom fram að framlegð í sjávarútvegi sé mikil um þessar mundir í sögulegu samhengi, en EBITDA framlegðin (fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og skatta) var 27 prósent á síðasta ári. Til samanburðar var hún 18 prósent árið 2017.
Hlutfall hagnaðar sem greitt var út dróst verulega saman
Líkt og Kjarninn greindi frá í gær voru greiddar 18,5 milljarðar króna í arð út úr sjávarútvegsfyrirtækjum landsins í fyrra. Það var lægri upphæð en árið áður þrátt fyrir að hagnaðurinn hafi verið meiri, en 2020 greiddu sjávarútvegsfyrirtækin sér út arð upp á 21,5 milljarð króna. Það var hæsta arðgreiðsla sem atvinnugreinin hefur nokkru sinni greitt til eigenda sinna á einu ári. Þá vakti það athygli í fyrra að geirinn borgaði eigendum sínum meira í arð en hann greiddi samtals í opinber gjöld. Þannig var málum ekki háttað í fyrra, enda þá greiddur út 74 prósent af hagnaði í arðgreiðslur. Það hlutfall var ekki nema rúmlega 28 prósent í ár.
Bókfært eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja landsins var 353 milljarðar króna í lok síðasta árs og jókst um 28 milljarða króna milli ára. Eigið fé geirans er þó stórlega vanmetið þar sem virði kvóta, sem útgerðir eignfæra, er bókfært á miklu lægra verði en fengist fyrir hann á markaði.
Bókfært fé sjávarútvegsfyrirtækja hefur aukist um alls 132 milljarða króna frá árinu 2014.
Frá hruni og fram að þeim tíma batnaði eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna um 432 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 143,2 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur því vænkast um 575,2 milljarða króna frá hruni.
Samþjöppun aukist hratt
Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á Íslandi á undanförnum áratugum, eftir að framsal kvóta var gefið frjálst og sérstaklega eftir að heimilt var að veðsetja aflaheimildir fyrir bankalánum, þótt útgerðarfyrirtækin eigi þær ekki í raun heldur þjóðin. Slík heimild var veitt árið 1997.
Haustið 2020 héldu tíu stærstu útgerðir landsins með samanlagt á 53 prósent af úthlutuðum kvóta, en Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að það hlutfall væri komið upp í rúmlega 67 prósent. Samþjöppunin jókst svo enn í sumar við kaup Síldarvinnslunnar á Vísi.
Samkeppniseftirlitið hefur lengi haft til skoðunar möguleg raunveruleg yfirráð yfir stærstu blokkinni í íslenskum sjávarútvegi, þeirri sem hverfist utan um Samherja. Eftirlitið birti frummat í febrúar 2021 þar sem niðurstaðan var sú vísbendingar væru um að Samherji og tengd félög væru með raunveruleg yfirráð yfir Síldarvinnslunni og að samstarf væri á milli útgerða í blokkinni.
Kjarninn greindi frá því um miðjan júlí að engin ákvörðun hefði enn verið tekin um hvort ráðist yrði í formlega rannsókn á yfirráðum Samherja og tengdra aðila yfir Síldarvinnslunni og samstarfi þeirra á milli.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji og félagið Kjálkanes, sem er í eigu sömu einstaklinga og eiga útgerðina Gjögur frá Grenivík. Þar er meðal annars um að ræða Björgólf Jóhannsson, sem var um tíma annar forstjóri Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum, meðal annars systkini hans. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, 15 prósent hlut í öðru félagi, Eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem á hlut í Síldarvinnslunni. Á meðal annarra hluthafa í Snæfugli er Björgólfur.
Að mati eftirlitsins voru veruleg tengsl milli stórra hluthafa í Síldarvinnslunni og þrír af fimm stjórnarmönnum í Síldarvinnslunni á þeim tíma voru skipaðir af eða tengdir Samherja og Kjálkanesi. Einn þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sem er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja, var í fyrrahaust með fjórðu mestu aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 8,09 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, hélt svo á 1,1 prósent kvótans.
Gjögur, sem er í eigu sömu aðila og eiga Kjálkanes, hélt á 2,5 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum.
Þessir aðilar: Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, sem Samkeppniseftirlitið telur mögulegt að séu tengdir, héldu því samtals á 22,14 prósent af öllum úthlutuðum kvóta í nóvember í fyrra.Í sumar bættist 2,16 prósent kvóti Vísis við og samanlagður úthlutaður kvóti til Samherja og mögulegra tengdra aðila fór upp í 24,3 prósent, eða næstum fjórðung allra úthlutaðra aflaheimilda á Íslandi.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði