Rekstur gisti- og veitingastaða á Íslandi hefur vænkast mjög á síðustu árum, í takt við ört fjölgandi komu erlendra ferðamanna hingað til lands. Þetta sýna upplýsingar sem Creditinfo hefur tekið saman að beiðni Kjarnans.
Creditinfo tók saman upplýsingar úr ársreikningum félaga sem sinna rekstri á eftirtöldu: Hótel og gistiheimili án veitingaþjónustu, hótel og gistiheimili með veitingaþjónustu, orlofsdvalarstaðir og annars konar gistiaðstaða, önnur gistiaðstaða og veitingastaðir.
Sveifla upp á rúma þrjá milljarða króna á milli ára
Samkvæmt gögnum Creditinfo voru félögin rekin með 1,6 milljarða króna tapi árið 2009. Árið eftir nam hagnaðurinn hins vegar rúmum 1,5 milljörðum króna, en það er sveifla upp á 3,1 milljarð króna á milli ára. Rekstur félaganna vænkaðist svo enn frekar árið eftir, en hagnaður félaga í geiranum árið 2011 nam rétt rúmum fjórum milljörðum ára. Það er besta ársniðurstaða félaganna til þessa, samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum. Líklegasta skýringin á uppsveiflunni það árið, þrátt fyrir ört fjölgandi ferðamenn, er sú að lán félaganna hafi verið færð niður, mögulega vegna ólögmætra gengislána, vegna eftirgjafar skulda eða umbreytingu skulda í hlutafé.
Hagnaður félaganna árið 2012 nam röskum 2,3 milljörðum króna, og hátt í 1,8 milljörðum króna í fyrra. Þess skal getið að tölur fyrir síðasta ár gefa ekki rétta mynd af hagnaði félaganna, eins og fjöldi þeirra í neðangreindri töflu gefur til kynna, því enn á stór hluti þeirra eftir að skila ársreikningi fyrir síðasta ár, en frestur til að skila inn ársreikningum fyrir árið 2013 rann út 31. ágúst síðastliðinn.
[table file="https://docs.google.com/spreadsheets/d/1XdGii7S8FqS0Z2KiMDILiKyfbJmbuGiccc44RaX32Os/export?format=csv"][/table]
*Tölur í þúsundum.
Eiginfjárhlutfallið tekið stórt stökk uppávið á nokkrum árum
Til marks um uppganginn í greininni hafa heildareignir félaganna aukist úr tæplega 38,8 milljörðum króna árið 2009 í tæpa 54 milljarða króna árið 2012. Á sama tíma varð veruleg breyting á eiginfjárstöðu félaganna, það er eignir að frádregnum skuldum, því árið 2009 var eigið fé félaga í geiranum neikvætt um hátt í sextán milljarða króna, eða 40,27 prósent, en árið 2012 var eigið fé þeirra tæpir þrír milljarðar í mínus, eða 5,55 prósent. Í fyrra náði eigin fé félaganna sem um ræðir í fyrsta skipti upp fyrir núllið, en í árslok 2013 nam eigið fé þeirra tæpum 4,4 milljörðum króna, eða 11,25 prósent. Staða í lok árs 2009 gefur til kynna hversu skuldsett félögin voru. Á nokkrum árum hefur því eiginfjárhlutfall félaganna hækkað um 51,52 prósentustig.
Félögunum hefur að sama skapi fjölgað í takt við sívaxandi straum erlendra ferðamanna til landsins. Árið 2009 voru félögin í geiranum 892 talsins, en í lok árs 2012 voru þau orðin 933 að tölu. Sem fyrr liggur ekki fyrir hversu mörg félögin voru í lok síðasta árs vegna seinagangs margra þeirra að skila inn ársreikningum.
Margir vilja meina að nú ríki hálfgert gullgrafaraæði í ferðamannabransanum. Til að mynda spretta hótel upp eins og gorkúlur víða um borgina og á landsbyggðinni. Hvernig þróunin verður í bransanum skal ósagt látið, því þrátt fyrir að spár geri ráð fyrir að erlendum ferðamönnum á Íslandi eigi bara eftir að fjölga, er ekki víst að til staðar sé grundvöllur fyrir hömlulausri uppbyggingu gististaða. Eftir því sem þeim fjölgar, verður minna til skiptanna fyrir þá sem berjast um bitana. Sjálfsagt munu sumir deyja, og aðrir lifa. Hvað framtíðin ber í skauti sér á eftir að koma í ljós.