Á árinu 2013 fengu 218 þingmenn eða varaþingmenn og 49 ráðherrar greitt samkvæmt hinum umdeildu lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, sem samþykkt voru árið 2003 og tryggðu þessum hópi mun betri eftirlaunaréttindi en flestum öðrum í íslensku samfélagi. Samtals námu greiðslur til þessa hóps 479,1 milljón króna í fyrra. Þetta kemur fram í svari Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Fjöldi þeirra fyrrum þingmanna og ráðherra sem þiggja eftirlaun samkvæmt lögunum hefur aukist mjög á síðustu sex árum. Á árinu 2007 voru þeir 164 talsins en í fyrra voru þeir orðnir 267. Þiggjendunum hefur því fjölgað um 103 á tímabilinu.
Hundruð milljóna í eftirlaunagreiðslur
Í svari LSR kemur fram að sjóðurinn greiddi alls 368,7 milljónir króna vegna eftirlauna fyrrum þingmanna og varaþingmanna árið 2013. Meðalgreiðsla til hvers fyrrum þingmanns eða varaþingmanns var tæplega 1,7 milljónir króna. Vert er að taka fram að þiggjendurnir 218 hafa unnið sér inn mismunandi mikil réttindi og því skiptast greiðslurnar mjög mismunandi á milli þeirra.
Greiðslurnar til ráðherranna 49, samtals 110,4 milljónir króna á síðasta ári, voru töluvert hærri að meðaltali, eða tæplega 2,3 milljónir króna á hvern þeirra. Sama gildir um þá og fyrrum þingmennina, greiðslurnar skiptast afar mismunandi eftir því hvað þeir sátu lengi á ráðherrastóli.
„Flutningsmenn frumvarpsins voru upphaflega úr öllum stjórnmálaflokkum sem þá sátu á Alþingi. Eftir að innihald þess komst í umræðuna snérist hluti flutningsmanna gegn því.“
Fjórir fengu greitt frá hinu opinbera samhliða eftirlaunatöku
Kjarninn spurði líka hversu margir fyrrum þingmenn eða fyrrum ráðherrar þiggi eftirlaun samhliða því að greiða iðgjöld í sjóðinn, en geri þeir það þá þiggja þeir enn laun vegna opinbers starfs samhliða eftirlaunatöku. Í svari LSR segir að „Enginn fyrrum þingmaður greiðir iðgjald til sjóðsins af föstu starfi á vegum ríkisins eða stofnana þess. Þrír fyrrum þingmenn hafa á þessu ári greitt iðgjald til sjóðsins af launum fyrir tilfallandi verkefni eða nefndarstörf [...] Enginn fyrrum ráðherra greiðir iðgjald til sjóðsins af föstu starfi á vegum ríkisins eða stofnana þess. Einn fyrrum ráðherra hefur á þessu ári greitt iðgjald til sjóðsins af launum fyrir tilfallandi verkefni eða nefndarstörf.“
Því fengu þrír fyrrum þingmenn og einn fyrrum ráðherra greitt fyrir tilfallandi verkefni eða nefndarstörf á síðasta ári samhliða því að þeir þáðu eftirlaun.
Greiðslur vegna eftirlauna ráðherra tvöfaldast
Fjöldi þeirra fyrrum þingmanna eða varaþingmanna sem þiggja eftirlaun hefur fjölgað töluvert á undanförnum árum. Árið 2007 voru þeir 129 talsins og hefur þeim því fjölgað um 89 á sex árum, eða um tæplega 70 prósent. Það ár var kostnaður vegna greiðslna til fyrrum þingmanna eða varaþingmanna um 200 milljónir króna, eða um 169 milljónum krónum lægri en kostnaðurinn var í fyrra. Það þýðir að kostnaður vegna eftirlaunagreiðslna hópsins hefur aukist um rúmlega 80 prósent á tímabilinu. Meðalkostnaður á hvern þingmann eða varaþingmann hefur líka hækkað, en hann var um rúmlega 1,5 milljónir króna á hvern þeirra á árinu 2007.
Ráðherrum sem fá greidd eftirlaun hefur líka fjölgað. Þeir voru 35 árið 2007 en voru orðnir 49 í fyrra. Það er 40 prósent aukning á sex ára tímabili. Samtals fengu þeir nálægt 50 milljónum króna í eftirlaunagreiðslur þá en 110,4 milljónir króna í fyrra. Greiðslurnar hafa því tvöfaldast á tímabilinu.
Færri fyrrum ráðherrar eru hins vegar í launuðum störfum hjá ríkinu nú en á árinu 2007. Á því ári voru níu þiggjendur eftirlaunagreiðslna einnig í launuðum störfum hjá ríkinu.
Upphaflega flutt af öllum flokkum
Eftirlaunafrumvarpið sem varð að lögum í desember 2003 var gífurlega umdeilt. Það fól í sér mun rýmri eftirlaunaréttindi fyrir forseta Íslands, ráðherra, þingmenn og hæstaréttadómara en tíðkaðist almennt. Auk þess var meðal annars kveðið á um það í lögunum að fyrrverandi ráðherrar gætu farið á eftirlaun við 55 ára aldur.
Flutningsmenn frumvarpsins voru upphaflega úr öllum stjórnmálaflokkum sem þá sátu á Alþingi. Eftir að innihald þess komst í umræðuna snérist hluti flutningsmanna gegn því. Halldór Blöndal mælti fyrir frumvarpinu, en hann hafði lengi verið þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Þegar Halldór gerði það sagði hann það meðal annars vera lýðræðislega nauðsyn að svo væru búið að þeim embættum og störfum sem frumvarpið næði til að „það hvetji til þátttöku í stjórnmálum og að þeir sem verja meginhluta starfsævi sinnar til stjórnmálastarfa á opinberum vettvangi og gegna þar trúnaðar- og forustustörfum geti dregið sig í hlé og vikið fyrir yngra fólki án þess að hætta fjárhagslegri afkomu sinni“.
Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem mynduðu ríkisstjórn þess tíma, greiddu atkvæði með frumvarpinu. Aðrir greiddu ýmist atkvæði á móti eða sátu hjá, nema Guðmundur Árni Stefánsson, þá þingmaður Samfylkingarinnar, en hann var einn flutningsmanna frumvarpsins. Guðmundur Árni greiddi atkvæði með því að frumvarpið yrði að lögum.
Í desember 2008, fimm árum og einum degi eftir að eftirlaunalögin voru samþykkt, breytti Alþingi þeim og hækkaði meðal annars lágmarksaldur við eftirlaunatöku úr 55 árum í 60. Áunnin réttindi stóðu hins vegar eftir óskert og því ljóst að margir fyrrum forvígismenn stjórnmálanna hafi náð að safna töluverðum réttindum á meðan að lögin voru í gildi. Lögin umdeildu voru loks afnumin vorið 2009 hvað varðar þingmenn og ráðherra þó kaflarnir um hæstaréttardómara og forseta hafi verið látnir halda sér.