Bandaríkjamaðurinn Julien Blanc, sem á ættir sínar að rekja til Sviss, hefur boðað komu sína til landsins á næsta ári til að kenna íslenskum karlmönnum hvernig þeir eiga að ná sér í konur. Blanc kveðst vera stefnumótaþjálfari, og hefur titlað sjálfan sig sem „pickup artist“ og sérfræðing í tælingu. Hann starfar hjá fyrirtækinu Real Social Dynamics í Los Angeles, en í nýlegri grein TIME tímaritsins titlar hann sig sem „alþjóðlegan leiðtoga í stefnumótaráðgjöf.“ Áðurnefnd grein ber fyrirsögnina: „Er þetta hataðasti maður heims?“
Julien Blanc býður upp á námskeið og fyrirlestra á vegum Real Social Dynamics, þar sem karlmönnum er boðin ráðgjöf um hvernig komast eigi í kynni við kvennmenn og tæla þá. Blanc hefur látið hafa eftir sér að tilgangur hans sé að ýta undir sjálfstraust félagsfælinna karlmanna til að hafa samskipti við konur.
Þetta skema birti Julien Blanc á Twitter, sem á að sýna hvernig menn geta tryggt yfirráð sín yfir konum.
Sakaður um að kynda undir ofbeldi gagnvart konum
Framkoma Blanc við konur hefur verið harðlega gagnrýnd og fordæmd, enda hefur hann birt ófáar færslur Twitter færslur þar sem hann fer viðurstyggilegum orðum um konur og hvetur til þess að þær séu beittar ofbeldi. Þá hefur hann birt myndir af sér þar sem hann tekur konur kverkataki, undir hashtagginu #ChokingGirlsAroundtheWorld.
Blanc birti nýverið myndband af sér í Tokyo á Youtube þar sem hann beitir konur ofbeldi, áreitir þær og togar höfuð þeirra niður í klofið á sér. Í myndbandinu sést Blanc sömuleiðis tala af fyrirlitningu um japanskar konur fyrir fullum sal af karlmönnum, sem hlæja dátt að sögum hans. Myndbandið var tilkynnt japönskum yfirvöldum enda þar fullyrt að: „Allar asískar konur séu ókeypis fyrir menn sem hagi sér eins og rándýr,“ sem þótti hvetja menn til að áreita japanskar konur. Myndbandið var fjarlægt af Youtube, og var myndbandasíðu Blanc lokað í kjölfarið. Myndbandið var hins vegar birt á ný inn á Youtube um helgina af óþekktum aðila, þar sem það var fordæmt. Sjón er sögu ríkari.
Einstaklingur, sem kveðst vera stúlka á þrítugsaldri, birti nýverið samskipti sín við Blanc í stefnumótaforritinu Tinder. Eftir ógeðfelld samskipti þeirra á milli tók stúlkan saman ýmsar upplýsingar um Blanc og birti fleiri samskipti hans við konur í gegnum stefnumótaforritið. Þar sést hvernig Blanc meðal annars lýgur til um andlát föður síns og að systur sinni hafi verið nauðgað til að fá konur til að hafa samskipti við sig út á vorkunn. Þá má sömuleiðis sjá þar fjölmargar Twitter-færslur frá Blanc þar sem hann talar viðbjóðslega um konur af mikilli kvennfyrirlitningu. Þá hefur Blanc ekki vílað fyrir sér að hvetja til þess að konum sé nauðgað.
Þúsundir mótmæla komu Blanc til landsins
Fyrirhuguð koma Blanc til landsins hefur vakið hörð viðbrögð hérlendis, og í dag hafa hátt í tíu þúsund manns ritað nafn sitt á sérstakan undirskriftarlista þar sem komu hans til Íslands er harðlega mótmælt. Samkvæmt heimasíðu Real Social Dynamics hyggst Blanc standa fyrir námskeiði á Íslandi dagana 11. til 13. júní næstkomandi.
Boðuð koma Blanc til annarra landa hefur sömuleiðis hrundið af stað mótmælum þar, en á meðal landa þar sem barist hefur verið gegn komu hans má nefna Ástralíu, Bretland, Japan, Singapúr, Kanda og Brasilíu.
Mótmælin hafa orðið til þess að Blanc hefur neyðst til að aflýsa viðburðum meðal annars í Melbourne, Brisbane, Austin og Seattle, auk þess sem miðasölufyrirtæki hafa tekið miða á viðburði hans úr sölu. Í dag greinir dagblaðið The Guardian frá því að honum hafi verið meinað um vegabréfsáritun til Bretlands.
Í nýlegu viðtali á CNN fréttastöðinni, baðst Julien Blanc afsökunar á framferði sínu. Hann hafi gerst sekur um vafasama kímnigáfu.
Hvort Julien Blanc kemur eða kemur ekki til Íslands mun tíminn einn leiða í ljós, en ljóst er að hann mun fá ansi kuldalegar mótttökur á Íslandi ef af heimsókn hans verður.