Þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á olíu hafi fallið um 57 prósent á rúmu ári hefur útsöluverð íslensku olíufélaganna einungis lækkað um 12,1 prósent. Að teknu tilliti til veikingar íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal, sem viðskipti á heimsmarkaðsverði á olíu fara fram í, þá hefur heimsmarkaðsverðið samt sem áður lækkað um helming án þess að sú lækkun skili sér að öllu leyti í vasa íslenskra neytenda.
Ástæðan blasir við: íslensku olíufélögin ákváðu að auka álagningu sína í stað þess að lækka verðið og taka þannig til sín það svigrúm sem skapaðist vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði í stað þess að skila því til neytenda. Félag íslenskra bifreiðaeigenda áætlar að hækkun á álagningu hafi aukið útgjöld neytenda um hálfan milljarð króna á einu ári.
Heimsmarkaðsverðið undir 50 dali
Heimsmarkaðsverð á olíu fór niður fyrir 50 dali á hverja tunnu, eða fat, af Brent-olíu í gær. Þegar þetta er skrifað er verðið 50,12 dalir á tunnu. Í júní 2014 kostaði tunna af Brent-olíu 115,9 dali. Hún hefur því lækkað um 57 prósent í verði á rúmu ári. Verðið hefur ekki verið lægra síðan á árinu 2009.Ástæður þessa eru nokkrar. Hægt er að lesa um þær hér í góðri fréttaskýringu á Quartz-vefnum.
Þegar verð á eldsneyti hjá íslensku olíufélögunum er skoðað kemur í ljós að þessi mikla lækkun hefur ekki skilað sér að öllu leyti í vasa íslenskra neytenda. Þvert á móti.
Þann 13. júní 2014 var sjálfsafgreiðsluverð á 95 oktana bensíni á Íslandi að meðaltali 249,9 krónur á lítra. Í dag er lægsta sjálfsafgreiðsluverðið 219,5 krónur á lítra, en mjög litlu munar á verðinu hjá olíufélögunum og algengasta verðið er 219,6 krónur á lítra.
Verð á bensíni hefur því lækkað um 12,1 prósent á sama tíma og heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 57 prósent.
Ríkið tekur um helming til sín
Íslenskir eldsneytissalar bera vanalega fyrir sig þrenns konar skýringar þegar þeir eru gagnrýnir fyrir of hátt útsöluverð á elsdneyti þrátt fyrir að heimsmarkaðsverðið hafi hríðfallið. Í fyrsta lagi benda þeir oft á að gengi íslensku krónunnar hafi lækkað gagnvart Bandaríkjadal, sem viðskiptin með olíu fara fram í. Slík lækkun tefji lækkunarferli á því eldsneyti sem íslenskir neytendur þurfa að kaupa.Og íslenska krónan hefur lækkað töluvert gagnvart Bandaríkjadal frá því í júní á síðasta ári, eða um 15 prósent. Að teknu tilliti til þeirrar veikingar hefur heimsmarkaðsverð á olíu samt sem áður lækkað um 50 prósent umfram lækkun á útsöluverði á eldsneyti hérlendis.
Önnur ástæða sem oft er nefnd er sú að olíufélögin eigi svo miklar uppsafnaðar birgðir af eldsneyti sem keyptar hafi verið á hærra verði. Því taki tíma fyrir lækkanir á heimsmarkaðsverði að skila sér út í verðlagið sem íslenskir neytendur verða að sætta sig við. Þessi rök eiga þó ekki við nú, í ljósi þess að um ár er síðan að verðhrun varð á heimsmarkaði með olíu. Olíufélögin hafa augljóslega keypt nýjar olíubirgðir síðan að það verðhrun átti sér stað, án þess að það hafi skilað sér til neytenda.
Þriðja ástæðan sem oft er nefnd er að ríkið taki til sín stóran hluta eldsneytisverðsins. Og það er rétt að stór ástæða þess að verð á bensín og dísel er jafnt hátt og raun ber vitni hérlendis er sú að ríkið tekur til sín um helming eldsneytisverðis til sín í formi ýmissa gjalda og skatta sem það leggur á. Þar er átt við sérstakt bensíngjald, almennt bensíngjald, kolefnisgjald og auðvitað virðisaukaskatt sem leggst á bensín eins og aðra vöru. Því fara um 110 krónur af hverjum lítra af bensíni sem við kaupum til ríkisins og augljóst að ríkið gæti stuðlað að lægra verði með því að draga úr álögum sínum. Það breytir því hins vegar ekki að svigrúm olíufélaga til að lækka sitt útsöluverð eykst í hvert skipti sem heimsmarkaðsverðið lækkar.
Olíufélögin geta lækkað útsöluverðið, en þau kjósa að gera það ekki. Þvert á móti hafa þau ákveðið að auka álagningu sína.
Hafa viðurkennt aukna álagningu
Í viðtali við Viðskiptablaðið í janúar 2015 viðurkenndi Valgeir Baldursson, forstjóri Skeljungs, að fyrirtækið sem hann stýri hafi aukið álagningu á eldsneyti. Þar var Valgeir spurður hvort álagningin væri meiri en áður og svarið var einfalt: „Já, það er rétt að álagning er hærri“.Í ljósi þess að verð á eldsneyti er nánast allsstaðar það sama þá liggur fyrir að hin olíufélögin hafi gert slíkt hið sama, hækkað álögur sínar.
Í gær var greint frá því í hádegisfréttum RÚV að hækkun á álagningu á smásöluverð eldsneytis hjá íslensku olíufélögunum hafi leitt til þess að útgjöld neytenda vegna eldsneytiskaupa hafi hækkað um 500 milljónir króna á einu ári. Þar var vitnað í útreikninga sem Félags íslenskra bifreiðareigenda (FÍB) hafði gert. Álagning þeirra hefur hækkað úr 39 krónum í 43,5 krónur á einu ári, samkvæmt útreikningunum. Það þýðir að hún hafi aukist um 10,3 prósent.
Í máli Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra FÍB, kom auk þess fram að álagning á íslenska neytendur væri helmingi hærri en sú sem sænskir eða danskir neytendur þurfa að búa við.
Það var því tekin meðvituð ákvörðun um það hjá olíufélögunum að fjölga þeim krónum sem lenda í vasa eigenda þeirra á kostnað þess að bjóða neytendum upp á lægra útsöluverð á eldsneyti.
Þessa aukningu má til dæmis bersýnilega sjá í uppgjöri N1, eina olíufélagsins sem er skráð á markað, vegna fyrsta ársfjórðungs 2015. Þar kemur fram að framlegð af vörusölu hafi aukist um 12,8 prósent og að hagnaður félagsins hafi verið 135 milljónir króna, þrátt fyrir að félagið hafi notað 117 milljónir króna vegna breytinga á framkvæmdastjórn félagsins.
Hluthafar N1 fengu 830 milljónir króna greiddar í arð vegna frammistöðu félagsins á árinu 2014. Skeljungur, Olís og Atlantsolía hafa ekki skilað ársreikningum vegna þess rekstarárs.