Stærsta og mesta þungarokkshátíð Frakklands, Hellfest, fór fram um síðustu helgi. Þetta er í tíunda sinn sem hátíðin er haldin. Hún er haldin árlega um miðjan júní í Clisson, skammt frá Nantes. Miðarnir seldust upp á örfáum klukkutímum, 150.000 manns mættu á svæðið, skemmtu sér samfleytt í þrjá daga og drukku samtals 260.000 lítra af bjór. Samt voru engin slagsmál, ekkert rusl, engar eyðileggingar, engin slys, ekkert vesen. Allt fór vel fram, svæðið var hreinsað upp á örskömmum tíma. Nú spyrja franskir fjölmiðlar: Af hverju eru hinir illvígu þungarokkarar svona prúðir og ljúfmannlegir þegar til kastanna kemur? Og heimspekingar og félagsfræðingar eru kallaðir til að ræða þetta mál.
Þótt hamgangurinn og hávaðinn sé auðvitað gríðarlegur - flösurnar þeytist út um allar áttir þegar menn sveifla höfðinu upp og niður, veifi öllum öngum og öskri sig raddlausa - þá virðist þessi djöfulgangur samt hafa róandi og jákvæð áhrif á líkamann og sálarlífið samkvæmt merkilegum og nýlegum vísindarannsóknum. Það virðist koma betur og betur í ljós að þungarokkarar eru eitthvert prúðasta og heiðarlegasta fólk sem hægt er að finna.
Það er í raun stórmerkilegt hvað Hellfest-hátíðin er laus við öll slys og áföll, miðað við allan þann fjölda sem mætir og allt það áfengi sem er drukkið. Lítið er um fíkniefni miðað við aðrar tónlistarhátíðir. Þetta er raunar samskonar yfirbragð og á öðrum þungarokkshátíðum um allan heim. Þótt sundið sé um stríð og dauða er ekkert ofbeldi – ekkert vesen. Þungarokkarar heims hafa bundist böndum um það að skemmta sér kröftuglega – en skynsamlega.
Stóra sviðið á Hellfest. Flickr: Amaya & Laurent
Fordæmt festival
Samt er Hellfest fordæmt af kaþólsku kirkjunni og öðrum kristnum trúarhópum. Stjórnmálamenn hafa sömuleiðis hneykslast; fyrir fimm árum, sagði Francois Fillon, forsætisráðherra Frakklands, að satanískur boðskapur Hellfest-hátíðarinnar væri alls ekki í samræmi við gildi frönsku þjóðarinnar. Annar franskur ráðherra, Christine Boutin, beitti sér mikið fyrir því að franska bjórfyrirtækið Kronenbourg sliti öllu samstarfi sínu við hátíðina. Coca-Cola og önnur stór vörumerki neita að styrkja og starfa með Hellfest. Ráðherrann Frédéric Mitterand ávarpaði franska þingið sérstaklega til þess að lýsa yfir áhyggjum sínum með þessa djöfullegu hátíð. Árið 2010 fóru frönsku, kaþólsku fjölskyldusamtökin, AFC, í mál við Hellfest og kröfðust þess að engum undir 18 ára aldri væri hleypt inn á svæðið og vildu að fá afhenta lagalista til þess að ritskoða titlana og textana. Þessari beiðni var hafnað og dómstólar létu málið niður falla.
Forsvarsmenn hátíðarinnar hafa margsinnis verið beðnir um að breyta nafni hátíðarinnar og margir trúa því staðfastlega að Hellfest sé ein allsherjar djöflamessa. Þungarokkarar hafa þó margsinnis bent á að þeir séu alls ekki djöfladýrkendur – en hafi gaman að því að ögra og leika sér með ýmiskonar galdratákn og hina myrku veröld hinna illu afla – til þess að ýta undir kyngikraft tónlistarinnar.
Lifandi list
Frakkar eru þekktir fyrir að ræða öll mál í þaula. Þessi umtalaða hátíð hefur því auðvitað ratað inn í umræðuþætti í sjónvarpi og útvarpi þar sem Hellfest er skilgreint og skoðað gaumgæfilega út frá sálfræðilegum, heimspekilegum, pólitískum og ekki síst trúarlegum formerkjum. Flestir eru sammála um að þetta sé skemmtileg og saklaus hátíð. Öll þessi fordæming sé merki um það að þungarokk sé lifandi list sem enn takist að ögra fólki og stöðnuðum hugmyndum. Listamenn eigi að hreyfa við og ögra fólki og þungarokkurum hafi sannarlega tekist það með þessari hátíð. Hin stóra og skemmtilega þversögn hátíðarinnar – allt vandræðaleysið - þaggi svo endanlega niður í hinum forpokuðu trúarhópum sem vilja ritskoða og banna allt það sem þeim mislíkar.
Rokkið ræður ríkjum.
Flickr: Amaya & Laurent
Andóf og pólitík
Hellfest er nú orðin ein stærsta og þekktasta þungarokkshátíð heims. Þeir sem heiðruðu samkomuna í ár með nærveru sinni voru m.a. Alice Cooper, Judas Priest, Motörhead, Slipknot, Anthrax, Meshuggah, Shining, Mastodon, Dead Kennedys, ZZ Top, Marylin Manson, Korn, Killing Joke og fleiri bönd. Gamlir jálkar í bland við ung og spennandi bönd; allt keyrt áfram af miklum krafti og göfuglyndi.
Þar næstu helgi verður þungarokkshátíðin Eistnaflug haldin í Neskaupstað. Hún er þekkt fyrir að vera með öllu afar friðsöm eins og Hellfest. Samt er þungarokk enn litin hornauga um allan heim. Í Marokkó eru þungarokkstónleikar t.d. stórpólitískir viðburðir, uppfullir af andófi og mikilli spennu. Þungarokkshátíðin í bænum Sidi Kacem í norðurhluta Marokkó hefur dregið að fjölda fólks með sítt hár í svörtum fötum, en líka marga lögreglumenn og fyrir nokkrum árum voru nokkrir þungarokkarar handteknir fyrir að tigna djöflatrú og svívirða íslam. Þungarokkarar, ásamt röppurum, hafa verið sakaðir um að draga úr góðum gildum, hvetja til drykkju, eiturlyfjaneyslu og frjálslyndis í kynferðismálum. Einhverjir hafa meira að segja verið dæmdir í fangelsi fyrir þær sakir í þessum heimshluta.
Málmhausarnir hafa reyndar hlegið að þessum ásökunum og segjast hvorki vera eiturlyfjafíklar né djöflatrúar; hins vegar segjast þeir vera að ögra og umbera ekki að yfirvöld og samfélagið skuli segja þeim hvernig þeir eigi að klæða sig, tala og hugsa.
Þungarokk er því lifandi listform, þar heyrist ákall þjóðar, öskur og reiði unga fólksins, en líka húmor og gleði yfir því að vera til. Þungarokkshátíðirnar eru því eitthvað annað og meira en bara einhverjar fyllerís-útihátíðir.